Önnur mynd var sýnd á hátíðinni sem er ekki síður merkileg; Control. Það er eins konar heimildarmynd (afar nákvæm leikin eftirmynd) um feril hljómsveitarinnar Joy Division (sem áhugamenn um nýbylgjutónlist ættu að þekkja). Þessi mynd er eiginlega "Downfall" tónlistarheimsins því hér er mannlýsingin á aðalpersónunni (sem hnignar jafnt og þétt eins og Hitler í hinni myndinni) algjörlega óaðfinnanleg. Þeir sem til þekkja tala um að líkindin milli leikarans og aðalsöngvara sveitarinnar séu óhugnanleg. Einnig er myndin merkileg "heimild" því nánast ekkert myndefni hefur varðveist með hljómsveitinni. Leikstjórinn var ímyndarsmiður sveitarinnar á sínum tíma - tók frægustu ljósmyndirnar af sveitinni - og nær að fanga andrúmsloftið í svart-hvítu (eins og ljósmyndirnar voru) af einstakri listrænn smekkvísi.
Fjórar plötukápur Danielson
Svo skellti ég mér á eftirminnilega tónleika með hljómsveitinni "Danielson". Henni er best lýst sem Pixies á helíum (svolítið svipað lögum af fyrstu plötunni, eins og "I´ve Been Tired" og "Levitate Me"). Lögin eru hugmyndarík og full af skemmtilegri sérvisku. Ekki skemmdi það fyrir að hljómsveitinn tróð upp í Fríkirkjunni og klæddi sig upp í herklæði Hjálpræðishersins. Í anda biblíuskólanna virkjaði Danielson sjálfur salinn með klappköflum (sem hann kallaði "Clap-a-longs") enda ekki vanþörf í sumum lögum á að láta leiða sig gegnum fjölbreytilegar taktbreytingar. Þetta var mjög sérstakt og skemmtilegt.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli