Það sem meira máli skiptir, hins vegar, er það að borðið sem fluttist inn í stofu bjó yfir þeim eiginleika að það er tiltölulega gott að sitja við það - allan hringinn. Ég var farinn að sjá fjölskylduna fyrir mér í hillingum sitjandi saman öll við sama borðið. Lága stofu-/sjónvarpsborðið er búið að henta Signýju og Hugrún ágætlega hingað til, rétt til að narta við og sitja við fyrir framan sjónvarpið. Hins vegar gramdist mér smám saman sú tilfinning að Signý og Hugrún virtust ætla að fara á mis við það grundvallaratriði í uppeldi sínu (vegna plássleysis í stofunni!!) að fá að sitja við borð með foreldrum sínum. Það er ótrúlega mikið uppeldisatriði. Þar með helgar maður sig frekar að matmálstímanum og skapar virðulegri umgjörð. Það sem kom mér hins vegar á óvart (því þarna borðuðum við strax í gær) að það að sitja í sömu augnhæð, bæði börn og foreldrar, skapar miklu fleiri tækifæri til samskipta. Tengslin eru miklu nánari svona.
Þegar ég var nýbúinn að koma borðinu fyrir á besta stað (sem er garðglugginn - fallegasti rammi stofunnar) var Signý fljót að átta sig á aðstæðum. Ég fór inn í eldhús og tók eitthvað til þar eftir tilfærsluna og kom inn í stofu á ný örfáum mínútum síðar og þá var sú litla sest á koll við borðið og byrjuð að dunda sér við að teikna (sjá hér fyrir ofan). Stuttu síðar dró ég fram Trip-trap barnastólana (sem hafa því miður lítið nýst okkur hingað til) og settist sjálfur á kollinn. Þarna sátum við svo þrjú, eins og í friðastund, og dunduðum okkur saman við að lita og púsla (sjá mynd fyrir neðan). Fjarlægðin frá sjónvarpinu og hæðin yfir gólfinu gerðið það að verkum að þær eirðu miklu lengur en annars og nutu sín einstaklega.
Við þessar tilfærslur bisaði ég frameftir. Fyrst prufukeyrði ég breytinguna á þeim Signýju og Hugrúnu, sem voru mjög sáttar og höfðu gaman af veseninu. Síðan hélt ég áfram að snurfusa hitt og þetta eftir að þær voru sofnaðar. Það var ekki fyrr en klukkan hálf tólf sem ég kveikti á kosningasjónvarpinu til að tékka á stöðu minna manna og leist bara ljómandi vel á stöðuna á þeim vettvangi líka. Ég get því ekki annað sagt en að þessi dagur hafi lofað góðu fyrir framhaldið - bæði hér heima við og úti í þjóðfélaginu.
1 ummæli:
Glæsilegt og stórsniðugt...
Þú mættir hjálpa mer með mitt heimili...má alltaf gera betur...
kv. Begga
Skrifa ummæli