fimmtudagur, ágúst 21, 2003

Kominn heim. Einum og hálfum mánuði í Skaftafelli er lokið. Í raun er ég feginn að vera búinn með þennan kafla því maður hvíldist illa í þessari vinnu. Við bjuggum tíu saman í húsnæði sem hentar fjórum. Þar við bættist stöðugt álag í vinnunni, túristaágangur eins og hann gerist verstur, og ekki bætti úr skák að við bjuggum nánast á bílastæðinu við innkomuna á svæðið. Fyrir vikið var stöðugt bankað upp á hjá okkur þegar við vorum í pásu eða að vinnudegi loknum.

Náttúran stóð hins vegar fyrir sínu. Jökullinn, Skaftafellsheiðin, Morsárdalur, plöntur og fuglalíf allt þetta var í miklum blóma enda veðrið í sumar eins og best verður á kosið (þrátt fyrir rigningarlegu byrjunina sem ég skrifaði um í fyrsta Skaftafellspósti).

Persónulega er ég fyrst og fremst hæstánægður með að hafa náð góðum tökum á starfi mínu sem landvörður. Það felur í sér að fara með ferðamenn í skipulagðar göngur og magna upp upplifun þeirra gegnum frásagnir og ýmiss konar fróðleik á meðan gangan stendur yfir. Einum varð svo á orði að gönguferðin upp að Skaftafellsjökli (sem farin var á hverjum morgni) hefði verið mjög "ljóðræn" upplifun. Það eru bestu meðmæli sem ég get beðið um því takmarkið með göngunni er að hjálpa fólki til að upplifa náttúruna án of mikilla útskýringa.

Núna er ég kominn heim í gamla húsnæðið mitt. Þannig var að ég framleigði út vistarverur mínar og þurfti því ekki að borga undir húsnæðið á meðan ég var í burtu. Ég fann hins vegar framleigjanda sem var til í að vera þarna í þennan stutta tíma þannig að ég átti von á að eiga mér samastað þegar ég kæmi til baka. Svo fór reyndar að viðkomandi reyndist leigusala mínum ekki góður leigjandi og var sparkað út eftir um það bil mánuð. Ég tryggði mér hins vegar að ég yrði ekki milligöngumaður milli leigusala og framleigjanda og kem því að auðu borði á ný, sáttur við mitt hlutskipti.

Steini