miðvikudagur, júní 29, 2011

Fréttnæmt: Útskrift Signýjar

Nú er stutt í sumarfrí í leikskólanum. Þá tekur við mánaðartími í fríi með þeim Signýju og Hugrúnu. Gaman væri að samræma sig áætlunum annarra og gera eitthvað skemmtilegt í sumar - helst eitthvað einfalt og ódýrt. Óvissuferðir í strætó? Viðeyjardvöl í góðu veðri? Göngutúrar og léttar ferðir upp á Esju eða önnur fjöll og fell? Tjaldferðir í Heiðmörkinni? Nú eða busl i lauginni okkar í gaðrinum þegar vel viðrar?

Eftir um það bil mánuð fer Signý aftur í leikskólann í um það bil tvær vikur og byrjar svo í Grandaskóla. Hún er formlega útskrifuð reyndar. Það var í vikunni áður en ég fór út. Í ljósi ferðalagsins var ég heppin að geta verið viðstaddur. Signý tók á móti rós og viðurkenningarskjali með jafnöldrum sínum í nettri og afslappaðri athöfn. Hún var mjög stolt og bar sig vel. Ég hefði ekki viljað missa af þessu. Fyrsti stóri áfanginn á langri leið.

þriðjudagur, júní 28, 2011

Heimkoma: Ferðaþreyta og svefnraskanir

Komin heim. Ég kom fyrir nokkrum dögum og hef verið merkilega þreyttur síðan, bæði eftir flugið og tímamismuninn. Það er einhvern veginn miklu erfiðara að fara "fram" í tímann en "aftur". Þegar ég var kominn til Boston bættust bara fjórir tímar við sólarhringinn (þeir eru sem sagt fjórum tímum á eftir okkur). Það skapar ekki mikinn vanda að vera orðinn dauðþreyttur fyrir miðnætti. Maður fer þá bara tiltölulega snemma að sofa og vaknar snemma daginn eftir. En á hinn veginn er agalegt að þurfa að fara að sofa löngu áður en maður er orðinn þreyttur, kominn heim og líkamsklukkan segir átta þegar klukkan á veggnum bendir á tólf. Þegar heim er komið er ekki hægt að leyfa sér það svigrúm að vaka og sofa fram eftir marga daga í röð. Morgnarnir hafa því verið níðþungir, líkamlega séð, enda þegar allir fóru í vinnuna/leikskólann á mánudaginn var kveinaði líkaminn og stundi: ÞRJÚ! Enda var ég að vakna klukkan þrjú þegar klukkan vakti okkur um sjöleytið.

Flugferðin var líka strembin. Það á nefnilega við flugið auk aðdragandans. Ég átti kvöldflug heim (21.30) frá Boston en vaknaði þann morguninn í Maine. Dagurinn byrjaði reyndar mjög glæsilega, með klukkutíma kanósiglingu á spegilsléttri Penobscot ánni eldsnemma morguns. Allt hafurtaskið beið mín hins vegar og um ellefu var ég kominn upp á rútustöð. Rútuferðin tók fjóra tíma (11-15). Ég hafði verið svo "sniðugur" þegar ég upphaflega fór til Maine að fá hótelið í Boston til að geyma heila ferðatösku (já, ég var duglegur í innkaupum) og ætlaði mér alltaf að fara beint frá Maine á flugvöllinn, skilja farangurinn minn í hólfi þar og koma svo í bæinn, eiga náðuga klukkutíma þar á kaffihúsum og bæjarrölti (rifja upp kynnin af þessari merkilegu borg) og fara svo léttur í fasi á hótelið, ná í hina töskuna mína þar, snara mér upp á flugvöll, pikka upp restina af farangrinum. Skynsamlegt plan. Svona hefur þetta alltaf gengið hjá mér. En í Maine frétti ég á síðustu stundu að flugvellirnir væru hættir að taka á móti farangri til geymslu (vegna sprengjuhættu, væntanlega). Ég þurfti því að fara með níðþunga ferðatöskuna (23 kíló) auk annars farangurs (samtals yfir tíu kíló þar að auki) alla leið niður í bæ. Þar þurfti ég að eyða drjúgum tíma í að hagræða milli taskanna tveggja. Reglurnar leyfa tvær ferðatöskur á mann, 23 kíló hvor, auk handfarangurs. En það tók mig langan tíma að koma öllu heim og saman því það endaði alltaf með því að ég hélt á tveimur handtöskum auk ferðataskanna. Auk þess var vigtin á hótelinu sem ég stólaði á biluð. Þetta var bara kaós. Á endanum gaf ég starfsmanni eina tösku auk tveggja þungra bóka sem ég hafði keypt, því yfirvigtin var annars yfirvofandi. En ég horfðist samt í augu við stóra fyrirstöðu: óheppilega samsetningu taskanna. Ferðatöskurnar og handfarangurinn voru allt hefðbundnar ferðatöskur. Ég gat ekki skellt neinni þeirra á bakið á mér eins og bakpoka. Það var því útlilokað að fara á eigin vegum upp á flugvöll með töskurnar í eftirdragi. Til þess hefði ég þurft þrjár hendur, í það minnsta. Ég þurfti því að sætta mig við að fara með leigubíl upp á flugvöll (5000 kall) í stað þess að nota neðanjarðarlestina (200 kall). Allt var þetta strembið og stressandi og óneitanlega svekkjandi. Ég komst hins vegar klakklaust upp á flugvöll á góðum tíma en þá tók við nýtt vandamál: Bílstjórinn tók ekki við korti. Ég þurfti að fínkemba flugvöllinn eftir hraðbanka til að geta borgað honum. Fyrsti hraðbankinn hafnaði kortinu (þá varð ég smá stressaður aftur) en á jaðri flugvallarins var mér bent á annan kassa, sem reyndist fær um að afgreiða mig. Að þessu aukastressi loknu komst ég loks í gegn um hliðið, en með naumindum. Ég var með bakpaka auk handtöskunnar og ferðataskanna beggja og það mátti strangt til tekið ekki fara með nema eina tösku inn í vél. En það er sem betur fer veitt smá svigrúm öðru hvoru. Ef maður blikkar afgreiðsludömurnar.

Síðan var það flugferðin. Hún var reyndar bara notaleg en þetta var hins vegar næturflug og mér gengur alltaf mjög illa að sofa í bæði rútum og flugvélum. Ég var því með talsvert mikla uppsafnaða þreytu þegar heim var komið. Eins gott að ég þurfti ekki að redda mér sjálfur heim af Leifsstöð. Mín beið myndarleg móttökunefnd (mamma, pabbi og Vigdís). Og veðrið var eins gott og það verður, bæði milt og stillt. Signý og Hugrún biðu síðan heima - fengu frí úr leiskólanum. Heimkoman var því góð, en mikið var ég syfjaður upp úr hádegi (og rotaðist að sjálfsögðu). Fór svo út að borða með Vigdísi um eftirmiðdaginn. Varð svo aftur syfjaður um níuleytið og sofnaði og hélt að með því myndi ég snúa sólarhringnum mér í hag aftur - en, eins og hendi væri veifað glaðvaknaði ég fyrir miðnætti. Líkamsklukkan var víst eitthvað að efast. Með herkjum sofnaði ég svo aftur nokkrum tímum síðar. Svona jó-jó svefn getur reynt á þolinmæðina. Miðnættin hafa verið merkilega glaðsperrt undanfarið. En núna er þetta að mestu komið, sem betur fer.

miðvikudagur, júní 22, 2011

Ferðalag: Náttúruskoðun í Maine

í dag er síðasti heili dagurinn minn í Maine. Það styttist í leiðinni í heimkomu (eldsnemma á föstudaginn). Ferðin er búin að vera drjúg. Ég hef gert ýmislegt skemmtilegt með Bob. Við fórum á kanó einn daginn, kíktum á Bar Harbour (sem er klettótt og glæsileg strönd og útivistarsvæði), höfum farið í rölt um skóglendið sem er allt í kring og einn daginn skoðuðum við okkur um í Orono Bog Boardwalk. Það er all merkilegur staður sem á sér ekki langar útivistarsögu. Fyrir um það bil tíu árum síðan var smíðuð gönguleið á plönkum um mýrlendi sem staðsett er í miðjum skógi. Gangan segir frá hvernig eitt vistkerfi rennur saman við annað þannig að blandaður skógurinn smám saman þynnist og opnast inn á bersvæði sem minnir furðumikið á túndru og þær heiðar sem við erum von að sjá á Íslandi. Bob er vistfræðingur að mennt og gat sýnt mér ýmsar merkilegar plöntur á svæðinu, meðal annars athyglisverða ránplöntu (Pitcher plant). Ég er búinn að nota myndavélina óspart og hlakka til að sýna afraksturinn heima.

Hér er dýralíf mjög fjölskrúðugt. Ég hef séð alls konar dýrum bregða fyrir en hef verið séstaklega upptekinn af litríkum fuglum allt í kring. Hér er náttúran mjög nátengd hýbýlum manna. Húsin eru einföld, lífsstíllinn rólegur og náttúran nærtæk. Það eru ekki margir staðir í Bandaríkjunum sem státa af þessari blöndu.

mánudagur, júní 20, 2011

Ferðalag: Boston í stuttu máli

Dvölin í Boston var ágætis mótvægi við skólaheimsóknirnar til New Hampshire. Borgin býður upp á svo ótalmargt og er miklu aðgengilegri og þægilegri en flestar aðrar borgir í Bandaríkjunum. Það er auðvelt að komast gangandi á milli staða í miðbænum og almenningssamgöngur er fyrsta flokks. Borgin er mjög græn og húsin flestar rauðleitar múrsteinsbygginar, líka kirkjurnar (ein þeirra mjög fræg: the Trinity Church). Á móti þessu glampa háhýsi hér og þar. Maturinn í Boston er sérlega góður. Sætabrauðið er ómótstæðilegt og ísinn sem þeir bjóða upp á er frábær. Það er mjög öflug jógúrtísmenning hér með dýrindis kurli út á sem freistandi er að éta í hvert mál. Ein verslunargatan er fræg um allan heim fyrir sjarma sinn og gæði verslana (Newbury Street) og allt um kring má finna fræga háskóla með jákvæðum áhrifum sínum á götulífið (Harvard, MIT, Berklee Music College). Svo er allt fullt af afþreyingu fyrir fjölskyldur, bæði söfn og garðar. Frábær borg í einu orði sagt sem ég hlakka til að heimsækja aftur. Reyndar vonast ég til að geta staldrað þar við á leiðinni heim á fimmtudaginn kemur.

Ferðalag: Skólaheimsóknir í New Hampshire

Eins og ég sagði í síðasta innleggi er ég staddur í útlöndum, nánar tiltekiði í Maine í Bandaríkjunum, eftir vel heppnaða viðkomu í Boston. Ég fór til Boston með skólanum til að skoða tvo mjög athyglisverða sérskóla. Annar þeirra var heimavistarskóli uppi í sveit í gríðarlega fallegu umhverfi í New Hampshire (sem er fylkið á milli Maine og Massachussetts þar sem Boston liggur). Þessi sveitaskóli er einkarekinn, einfaldur og hlaðinn bókum. Hann er mjög gamaldags og sjarmerandi. Þarna fá nemendur með tilfinninga- og samskiptavanda (Asperger, Tourette og ofvirkir) að starfa í einfaldara umhverfi en hinum venjulega skóla, með færri nemendur og nær náttúrunni þannig að þeir róast töluvert. Þarna er líka svigrúm til að taka á þeim reiðiköstum sem öðru hvoru gjósa upp án þess að það hafi einhverjar alvarlegar afleiðingar (samanborið við venjulegan skóla, þar sem umtal og viðbrögð umhverfisins magnar upp neikvæð áhrif af óæskilegri hegðun). Hinn skólinn sem við skoðuðum var líka í New Hampshire og var hefðbundnari skóli með sérstöku útibúi fyrir erfiðustu nemendurna. Það sem sá skóli hafði fyrst og fremst fram að færa var mjög skilvirkt skráningarkerfi sem gerði starfsfólkinu kleift að fylgjast mjög náið með líðan og framgangi nemenda, sem gerði þeim kleift að grípa snemma inn í þegar þeir áttu í vanda. Þá hófst viðtalsferli sem var mjög hvetjandi. Ólíkt því sem við erum vön úr okkar skólakerfi byggjast slík viðtöl ekki á skömmum eða refsingum heldur er farið í saumana á því hvaða persónu nemandinnn hefur að geyma og reynt að skoða mjög nákvæmlega hvert hann stefnir og hver áhugamálin eða hæfnissviðin eru. Með þessari umgjörð og viðtölum upplifa nemendur mikið aðhald og virðingu í sinn garð. Eins og einn nemandinn sagði: "I saw that they truly cared for me. I just didn´t know how to care for myself". Kennarar Brúarskóla voru mjög ánægðir með þessar heimsóknir og við eigum ábyggilega eftir að nýta okkar margar hugmyndir þaðan næsta vetur.

föstudagur, júní 17, 2011

Ferðasaga: Kominn til Maine

Þá er ég kominn til Maine í Bandaríkjunum. Vigdís og stelpurnar eru heima en ég í fríi í útlöndum. Hvernig stendur á þessu? Þetta byrjaði sem skólaferð. Brúarskóli (sem ég tilheyri) fór í kynnisferð til Boston til að skoða sérskóla. Þetta var fimm daga ferð. Fyrstu tveir dagarnir voru frjálsir og notaðir til að ná áttum. Næstu tveir voru "vinnudagar" með frítíma um kvöldið. Síðasti dagurinn var svo aftur frjáls. Í gær var svo brottfarardagur. Flestir fóru heim til Íslands, þó ekki alveg allir (eins og gengur). Ég bjó hins vegar svo vel að því að eiga góðan vin í nágrannafylkinu Maine þangað sem ég fór í heimsókn til að dvelja í um vikutíma. Það er ekki nema fjögurra tíma rútuferð á milli Boston og Bangor (í Maine) þar sem ég er núna í góðu yfirlæti. Eins og heima er netsamband búið að vera stopult á ferðalaginu. Tölvutíminn var dýr á hótelinu. Hérna er ég hins vegar kominn í fyrsta flokks aðstöðu og verð vonandi duglegur að skrifa um upplifun mína næstu dagana.