þriðjudagur, desember 30, 2008

Daglegt líf: Viðgerð að baki og sjónvarpsnautn framundan

Sú gjöf sem kom okkur hvað mest á óvart var dýrindis sjónvarpsflakkari með fullt af sjónvarpsefni, þökk sé rausanrlegri áfyllingarþjónustu Villa bróður. Flakkarinn hafði að geyma barnarefni af ýmsum toga, bíómyndir og alls kyns fræðsluefni - svo að ekki sé minnst á sjónvarpsseríur sem við eigum eftir að horfa á. Sá galli var þó á gjöf Njarðar að flakkarinn lét ekki að stjórn. Diskurinn í honum var greinilega fullur af efni (sem hægt var að skoða með hjálp tölvu) en flakkarinn náði ekki að miðla af því til sjónvarpsins. Ég fékk fullt af fólki til að kíkja á hann en allt kom fyrir ekki. Enginn kannaðist við gallann. Eftir að hafa beðið af okkur jólin í flakkaraleysi fórum við með hann á verkstæði Tölvulistans í gær. Í ljós kom eftir grandskoðun þeirra að flakkarinn væri bilaður. Þeir buðu mér nýjan af sömu gerð en niðurstaðan var sú sama (framleiðslugallinn virtist bundinn við sendinguna). Þá var tekin sú afgerandi ákvörðun á síðustu stundu, rétt fyrir lokun, að uppfæra og kaupa dýrari gerð af flakkara (og þeir niðurgreiddu mismuninn um þriðjung þannig að allir voru sáttir á endanum). Sá flakkari var ýmsum kostum umfram hinn búinn og hafði að geyma bæði betri upplausn, mun betri fjarstýringu, lítinn skjá á hýsingunni sjálfri og takka (sem gerir mann nánast óháðan fjarstýringunni). Það sem meira er, flakkarinn virkar eins og í sögu. Hann er gríðarleg búbót. Nú er bara um að gera að njóta þess á meðan restin af árinu rennur sitt örskamma skeið á enda.

Pæling: Pakkaflóð

Nú eru jólin að baki. Ólíkt jólunum í fyrra þá komumst við alveg klakklaust í gegnum þau. Lífið er búið að vera værðarlegt undanfarna daga og við öll sofið meira eða minna út. Þegar við höfum tekið okkur á þá náum við í besta falli að vakna og ræsa stelpurnar um níuleytið.

Jólen voru mikil gósentíð. Gjafirnar flæddu yfir og undir og allt um kring. Þegar heim var komið vorum við Vigdís svo gáttuð á pakkaflóðinu, sem var óvenju mikið (burtséð frá kreppunni), að við ákváðum að taka mynd af herlegheitunum. Við röðuðum pökkunum öllum í stofusófann, eða öllu heldur gerðum heiðarlega tilraun til þess, því sófinn það reyndist ekki rúma allt góssið. Eftir að hafa stillt upp minni stólum fyrir framan náðum við þó öllu á mynd. Eftir á að hyggja held ég að þetta sé ágætis hefð. Það er ekki nema einu sinni á ári sem allir fá gjafir í þessu magni samtímis og því tilvalið að taka púlsinn á stöðunni með einni ljósmynd. Hún verður merkilegur vitnisburður þegar fram líða stundir.

sunnudagur, desember 21, 2008

Þroskaferli: Leirmótun og piparkökur

Maður skyldi aldrei vanmeta það hvað ung börn skilja og geta. Í gær tók ég mig til og rúllaði út tilbúnu piparkökudeigi og fékk Signýju til að hjálpa mér. Hún hafði nú séð mig gera þetta einu sinni eða tvisvar áður, en var þá aðallega á hliðarlínunni. Núna var hún hins vegar ótrúlega örugg með öll handbrögð og mótaði fyrir fígúrum með skapalónunum án þess að fá neina sérstaka verklýsingu fyrir því. Síðan kom Hugrún (nývöknuð í hádeginu) og tók þátt. Þá var Signý ekki lengi að sýna henni hvernig best væri að bera sig að með kökukeflið og sagðist vera að "leira". Er þetta ekki það sama og þau gera þegar þau leira? Ekki höfum við keypt leir fyrir heimilið svo ég hef ekki spáð í það hingað til. Þarna kemur leikskólinn greinilega sterkur inn í mótunarferli Signýjar. En Hugrún var greinilega með á nótunum líka og emjaði eftir skapalónum með orðunum "ýta, ýta". Þetta orð hafði ég ekki heyrt koma frá henni áður og líklega orð sem tengist þessu tiltekna verklagi, að "ýta" skapalóninu í mjúkan leirinn eða deigið. Það er svo spennandi að fylgjast með þeim og finna hvað þær læra margt um lífið og tilveruna, líka þegar maður er víðs fjarri!

Upplifun: Síðasti vinnudagurinn fyrir jólafrí

Nú er ég kominn í jólafrí sem stendur yfir í rúmar tvær vikur. Fyrsti vinnudagur eftir áramót verður fyrsta mánudaginn - kennsla hefst þó ekki af kappi fyrr en daginn eftir. Svona starfsdagar, eins og mánudagurinn, eru nauðsynlegir stuðpúðar á milli hvíldardaga og sjálfrar hringiðunnar.

Síðasti starfsdagur fyrir jól var um margt eftirminnilegur. Við slúttum alltaf með helgileik á BUGL-inu. Þá koma krakkarnir saman og leika Jósep og Maríu á leið til Betlehem ásamt þrem hirðingjum og vitringum. Við höfum komið okkur upp ágætu safni leikmuna gegnum tíðina svo þetta lítur allt saman ágætlega út. Helgileikurinn er eftirsóknarverð afþreying á BUGL-inu og vekur alltaf lukku, enda nemendur misjafnlega vel með á nótunum - hver með sína sérstöðu.

Í þetta skiptið var helgileikurinn frábrugðinn því sem menn áttu að venjast því sjálfur kennarinn Þorsteinn fann sig knúinn til að taka þátt. Vegna forfalla vantaði í hlutverk engilsins. Það er lítið hlutverk sem felur í sér það eitt að vera uppáklæddur hvítum kufli, með baug á kollinum, og birtast hirðingjunum. Sögumaður fer með allan texta svo ég gat bara "svifið" mjúklega inn á sviðið, staðið teinréttur, hátt yfir litlu nemendum okkar, og opnað faðminn, á meðan sögumaður las:

"Verið óhræddir, því sjá, frelsari er fæddur....."

Þessu höfðu áhorfendur einkar gaman af. Einn þeirra vatt sér að mér og sagði: "Þetta er þinn fyrsti leiksigur". Tvær konur, önnur á mínum aldri og hin eldri, sögðust hafa "vöknað um augun og fengið fyrir hjartað". Auðvitað er þetta allt orðum aukið og sagt í gamni, en engu að síður átta ég mig á því eftir á hvað það er heppilegt að ég skyldi vera í þessu hlutverki. Annars vegar var ég snyrtilega alskeggjaður og virkaði því eins og helg vera í anda frelsarans sjálfs. Svo er ég mun hávaxnari en nemendurnir og virkaði því meiri um mig og áhrifameiri en "hinar dauðlegu verur" sem ég stóð yfir.

Eftir uppfærsluna var loksins haldið nett jólaball með jólasveini. Að auki fengum við kennarar að gjöf fallega ávaxtakörfu frá Brúarskóla í kveðjuskyni (við á Dalbrautinni tilheyrum Brúarskóla). Þar voru vínber, epli, mandarínur og kókoshneta! (sem mér tókst með herkjum - en lagni - að opna í gær eftir að hafa vandlega ráðfært mig við bókina hennar Nönnu Rögnvaldar). Að lokum fórum við kennarar saman á Sólon og borðuðum saman hádegismat og skiptumst á jólakveðjum.

fimmtudagur, desember 18, 2008

Þroskaferli: Tvenn lítil tímamót

Við Hugrún fórum í klippingu í dag á mjög nærtækum stað í jólaerlinum. "Hárskerinn" á Eiðistorgi vann verk sitt fumlaust og afbragðs vel á meðan lúðrasveit hélt jólatónleika á torginu fyrir neðan. Hugrún og Signý voru heillaðar af flutningnum og héldu sig mikið til utandyra á meðan ég var klipptur enda þar yfirsýn yfir áhorfendur og hljómsveit. Þegar kom að Hugrúnu stóð hún sig frábærlega. Hún sat stillt og prúð, vafin svörtum stakki þannig að höfuðið eitt stóð upp úr (eins og að sjá hana stingu höfðinu upp úr olíubaði). Ótrúlega sæt. Eftir dágóða stund af sviplausum dugnaði brast henni hins vegar kjarkur þegar hún sá skærin sveiflast fyrir framan sig og fjarlægja ennistoppinn. Þá grét hún þannig að augun tútnuðu út en sat þó sem fastast. Líklega var hún hrædd allan tímann, bara þorði ekki að hreyfa sig. Upplifunin var þó ekki skelfilegri en svo að hárskerinn fékk myndarlegan fingurkoss að eldrauninni lokinni.

Stuttu seinna röltum við inn á bókasafnið (frábært hvað allt er í þægilegum hnapp á Eiðistorginu, öll grunnþjónusta). Þá kom í ljós að Signý þurfti að pissa. Hún hefur verið bleyjulaus að mestu undanfarnar vikur og mánuði. Yfirleitt höfum við skellt á hana til öryggis við svona aðstæður en vildum láta á þetta reyna núna - enda hefur hún sýnt fram á að geta haldið í sér furðu lengi í einu þegar hún ætlar sér það. Við fórum því saman á snyrtinguna, bleyjulaus og kopplaus. Þar aðstoðaði ég hana við að tylla sér og hún skilaði sínu. Hún er yfirleitt mjög hræðslugjörn og hefur hingað til miklað fyrir sér klósettskálar en í þetta skiptið var þetta ekkert mál og það sem meira er, hún var bara stolt af sjálfri sér. Þetta þýðir það að núna treystir maður sér frekar til að taka af henni bleyjuna þegar maður fer út úr húsi með hana og í heimsóknir og svoleiðis. Það eru út af fyrir sig talsverð tímamót og stuðlar auðvitað að enn betri árangri.

Ég hef nú ekki skrifað neitt um árangur Signýjar á þessu sviði að undanförnu. Þessi tímamót eru í mínum huga viss vendipunktur í ferli sem hófst í sumar. Þá ætluðum við að koppavenja hana - en vorum ekki nógu einbeitt til þess og henni sjálfri virtist standa alveg á sama þó við létum hana bleyta buxurnar ítrekað. Með haustinu læddum við hins vegar inn umbunarkerfi, með límmiðum og límmiðabók, og um tíma leit þetta vel út. Þegar hún byrjaði í leikskólanum kom hins vegar bakslag og hún missti áhugann aftur. Þá hvíldum við okkur og tókum næstu rögg í októberbyrjun og breyttum umbunarkerfinu. Henni fannst meira spennandi að geta tekið límmiðana með sér og handleikið þá þar til þeir urðu útjaskaðir, frekar en að setja þá í bók. Þá fóru hlutirnir að ganga hratt á ný og hún sýndi mikinn metnað. Í nóvember fórum við að vinna þetta með leikskólanum, enda var hún orðin býsna örugg á þeim tíma. Hins vegar höfum við haldið að henni bleyjunni á nóttunni og á flakki utan heimilis og lengi velt því fyrir okkur hvenær við ættum að stíga næsta skref. Árangurinn í dag var því liður í að hrinda hindrunum úr vegi.

sunnudagur, desember 14, 2008

Upplifun: Afmælisveislan

Nú er Signý orðin þriggja ára, síðan í gær. Við héldum upp á afmælið með pompi og prakt og buðum ættingjum heim í kökuveislu. Vinum höfum við oft boðið í kjölfarið, á sunnudegi, en bíðum með það í ár fram yfir áramót vegna anna. Við Vigdís erum búin að standa í ströngu undanfarna daga og þurftum einfaldlega á drjúgum hvíldardegi að halda í dag til að hlaða batteríin. Nýta sunnudaginn sem hvíldardag, aldrei þessu vant. Aðdragandi afmælisins var nefnilega frekar lýjandi. Fyrst ber að nefna veikindin, sem héldu okkur frá bæði afmælis- og jólaundirbúningi (og raskaði vinnu lítillega). Signý og Hugrún náðu reyndar heilsu í vikunni og mættu vel í leikskólann en núna á fimmtudaginn var veiktist Hugrún á ný - eða í það minnsta kastaði upp, án frekari einkenna. Það gerðist aftur á föstudaginn. Við héldum henni því heima til vonar og vara daginn fyrir afmælið (föstudaginn). Einnig ber að nefna það að við Vigdís fórum bæði á jólahlaðborð með vinnunni okkar, í sitt hvoru lagi - Vigdís á fimmtudaginn og ég á föstudaginn. Þeir dagar voru því fullbókaðir í allt annað en undirbúning fyrir afmælið, í vinnu fyrripartinn og selskap um kvöldið (hitt okkar sem var heima var upptekið við að sinna Hugrúnu, sem var frekar óróleg).

Aðdragandi afmælisins var því ekki eins og best verður á kosið, en sem betur fer náðum við að nýta laugardaginn vel til undirbúnings (þá var vaknað snemma) og svo daginn í dag til að hvíla okkur. Við sváfum til skiptis fram til klukkan þrjú og þá fórum viö öll í góðan göngutúr og leyfðum Hugrúnu að renna með á snjósleða. Veðrið var hreint frábært og þær Signý og Hugrún komu rjóðar í kinnum heim, svona eins og klassísku börnin á jólakortunum. Síðan skutumst við í fiskisúpu til "Lóu frænku" og var það frábært til að ramma inn góðan dag. Núna finnst manni jólin komin - loksins. Nú vonar maður bara að þessi jólalegi snjór fljóti ekki út í hafsauga með næstu lægð.

Svo að ég minnist nú á veisluna líka sem slíka, þá heppnaðist hún furðu vel í gær, þrátt fyrir allt. Signý var kampakát og var með það alveg á hreinu hvað hún var gömul og lyfti yfirvegað upp þremur fingrum stolt í hvert skipti sem hún var spurð (fremur en að bera orðið "þriggja" fram - sem kannski vefst fyrir henni). Hugrún naut sína ágætlega þrátt fyrir slappleikann og fékk meira að segja að læða einu kerti með á súkkulaðikökuna, svona bara til að vera með. Stemningin var góð og afslöppuð, enda allir heimavanir hér. Húsið var fullt allan tímann og rúmlega það milli klukkan eitt og sex þrátt fyrir nokkur forföll. Í fyrra mættu ögn fleiri en núna og í staðinn held ég að þá hafi hver og einn hafi staldrað styttra við en í ár vegna plássleysis. Gestirnir voru því með makindalegra móti núna, svo ég felli einhvern dóm um hvernig til tókst. Þeir sem koma til okkar í seinni umganginum eftir áramót munu að sama skapi bara njóta góðs af, því þá gefst enn betri tími til að staldra við í staðinn, enda færri um hituna.

laugardagur, desember 06, 2008

Daglegt líf: Tómstundir og leikföng

Fyrst ég minntist á afmæli Signýjar, þá hefur svolítið verið spurt um það í heimsóknum að undanförnu, hvað þær tvær vilji fá í jóla- og afmælisgjöf. Reyndar er það bara önnur þeirra sem á tvöfalda pakkaveislu framundan, en þær njóta sömu hlutanna og dótsins svo þetta nýtist allt jafnt. Það er svo stutt á milli þeirra að öllu leyti.

Í stað þess að senda tölvupóst á alla sem innt hafa okkur eftir hugmyndum þá finnst mér heppilegra að setja þær fram hér á vefsíðunni og vísa bara á hana - enda getur þetta verið áhugaverð lesning í leiðinni fyrir hvern sem er.

Það sem okkur ber saman um að ekki vanti eru föt. Nema kannski helst sokka. Hins vegar er auðvelt að koma manni á óvart með fötum og ef fólk rekst á eitthvað sérlega skemmtilegt þá nýtast góð föt alltaf vel þó vöntunin sem slík sé ekki til staðar. Gott er að hafa í huga að allt sem er merkt með Dóru eða Mikka mús er líklegt til að slá í gegn (og það á auðvitað við um leikföng líka).

Leikföng mæli ég hins vegar með að séu keypt í Hugföngum á Eiðistorgi. Sú bókabúð hefur nefnilega að geyma mörg áhugaverð þroskaspil sem hæfa bæði Hugrúnu og Signýju, spil sem snúast um talningu og liti og annað í þeim dúr.

Bækur höfum við tekið reglulega í bókasafninu gegnum tíðina. Tilvalið að benda á þær sem við höfum verið hvað duglegust að taka (enda augljóslega heppilegt að eiga þær). Einar Áskell er alltaf vinsæll, sérstaklega fyrsta bókin (Góða nótt). Hinar eru allar skemmtilegar, bara misjafnlega þungar aflestrar fyrir ung börn. Bók sem heitir "Ég vil fisk" og er nýlega útkomin (eftir Áslaugu Jónsdóttur) hefur slegið í gegn hér heima að undanförnu. Nú er nýkomnar út tvær bækur um Snillingana (sem þær horfa svo oft á saman). Þetta eru flipabækur og myndu eflaust hitta báðar beint í hjartastað. Einnig líst mér vel á tvær bækur sem við höfum sjálf gefið börnum vina okkar nýlega: Elmar og illfyglið (bók sem fjallar um gildi þess að standa saman) og nýútkomin bók um barnasáttmála sameinuðu þjóðanna og heitir "Við erum fædd frjáls" (sérlega fallega myndskreytt bók).

Signý og Hugrún hafa unun af að horfa á góðar teiknimyndir. Þær eiga tvær góðar Disney-myndir á DVD (Lísu í Undralandi og Öskubusku 3) en þar má vel bæta við. "Bamba" höfum við oft tekið á bókasafninu (ótrúlega flott mynd) en aðrar myndir eiga eins við (fyrsta Öskubuskumyndin, Mjallhvít og fleiri í þeim dúr). Persónulega er ég hrifnari af gömlu Disney teiknimyndunum en þessum hasarteiknimyndum sem framleiddar eru í dag. Ég hef á tilfinningunni að athygli þeirra Signýjar og Hugrúnar sé eins og mín að þessu leyti. Þær klára frekar gömlu myndirnar, enda hægar og yfirvegaðri. Svo má ekki gleyma því að Mikki og Dóra eru alltaf geysivinsæl. Ég þori hins vegar varla að minnast á Latabæ hér, því mér leiðist sá varningur svolítið, en Hugrún og Signý eru samt líka mjög hrifnar af öllu sem Latabænum tengist. Ah! Ég var næstum búinn að gleyma Múmínálfunum og Skoppu og Skrítlu. Þær sita auðveldlega límdar fyrir framan þetta tvennt. Sjálfur er ég mjög hrifinn af Múmínálfunum, svo það komi hér fram og er eiginlega hissa á sjálfum mér að hafa ekki fyrir löngu verið búinn að kaupa diska með þeim. Svarið er náttúrulega bókasafnið, sem fyrr, en það er gott að eiga einn eða tvo heima þegar þær biðja sérstaklega um "Múmíndal" (eins og Hugrún kallar það núna).

Púsl eru mjög vinsæl samhlíða annarri afþreyingu. Það má segja að 30-50 bita púsl hæfi Signýju en Hugrún er einhvers staðar þar fyrir neðan (10-20). Annars er auðvelt að gleðja þær með nánast hverju sem er. Þær eru hrifnar af dýrum (Hugrún með sérstakt dálæti á mjúkum hundum og kisum en Signý með breiðari dýrasmekk og er komin meira út í dúkkur). Litlu máli skiptir hvort dýrin eða dúkkurnar eru mjúk eða hörð. Legó. Allt sem hægt er að stafla og raða upp eða í lárétta röð höfðar sérstaklega til Signýjar. Skemmtileg barnabingó eru vinsæl. Ekki má gleyma samstæðuspilum (okkur vantar einmitt svoleiðis). Þær eru báðar natnar við að skreyta sig (slaufur í hár eða eitthvað í þeim dúr). Það minnir mig á að stimplar gætu líka verið miklir gleðigjafar. Kannski eitthvað sem tengist myndsköpun. Þær eru báðar mjög natnar við að teikna.

Núna er ég tæmdur í bili. Takið þennan lista bara ekki of alvarlega. Hann er bara hugsaður sem uppspretta hugmynda og til að einfalda leitina fyrir jólin. Allt sem kemur á óvart er líka skemmtilegt út af fyrir sig.

Gleðilega aðventu!

föstudagur, desember 05, 2008

Daglegt líf: Veikindahrina

Nú er veikindahrina búin að halda mér frá blogginu dögum saman. Signý var með eitthvað í hálsinum, einhvern vírus sem dró úr matarlyst hjá henni og gerði hana smá slappa. Ekkert alvarlegt. Umgangstíminn var samkvæmt lækni um tíu dagar. Hún mætti flesta dagana í leikskólann á meðan, en fór einu sinni slöpp heim. Þegar þessu var að ljúka, á fimmtudaginn fyrir viku síðan, hófst orrahríðin hins vegar fyrir alvöru. Seint um kvöld, þegar ég var á leiðinni í sund að slappa af, heyrði ég veinað að innan. Þegar ég kom að Signýju og Vigdísi inni í herbergi, og þar umhorfs eins í dramatískri fréttaljósmynd. Signý sat þar hágrátandi með æluna yfir sig alla og rúmið í kring útatað. Hún var nýsofnuð blessunin og vaknaði með þessum ósköpum. Ég frestaði sem sagt sundferðinni og var til stuðnings heima við í staðinn.

Signý kastaði upp daginn eftir og átti erfitt með að nærast og drekka. Svo virtist hún vera að braggast. Á laugardagsmorguninn byrjaði þetta sama hins vegar hjá Hugrúnu. Hennar ælupest var skammvinn en krafmikil. Eitt eftirmiðdegi fór í þetta þar sem við tvö sátum með dallinn við hendina og horfðum á morgunsjónvarpið (Signý lá slöpp inni þann morguninn). Síðan virtist Hugrún ætla að braggast og hafði öllu meiri matarlyst en Signý þegar Signý fór að kasta upp aftur. Svona hefur þetta verið síðan. Þær frískast aðeins inn á milli en versna jafn harðan aftur. Matarlystin lítil í samræmi við það. Hugrún öllu betri í maganum hins vegar.

Á miðvikudaginn var Signý hins vegar orðin nokkuð góð og fór í leikskólann. Ég fór í jólaföndur í leikskólanum seinni partinn og tók þá Hugrúnu með. Hún var frekar lítil í sér og vildi kúra meira en venjulega í fanginu á manni, en var að öðru leyti í lagi. Daginn eftir fór Signý aftur í leikskólann en við héldum Hugrúnu heima fram undir hádegi og ákváðum þá að láta slag standa. Hún var orðin fín. Sá dagur var viss léttir og okkur fannst sem þessu væri loks lokið. Báðar sprækar. Þá gerðist það um kvöldið, í gærkvöldi, að Signý byrjaði að gubba aftur, af þó nokkrum krafti, og tæmdi magann í þremur gusum. Síðan þá hefur hún verið slöpp og kúrt heima á meðan Hugrún fór í leikskólann í dag.

Við Vigdís höfum blessunarlega sloppið að mestu. Álagið hefur reyndar verið mikið og við orðin dauðþreytt. Ég var til dæmis sérstaklega þreyttur eftir helgina. Þá var ég einn með þær tvær veikar á meðan Vigdís vann tvær helgarvaktir á spítalanum. Í kjölfarið sleppti hún einni vakt, og ég var að sama skapi hundslappur og ósofinn á mánudaginn og sleppti vinnudegi. Þegar líða tók á vikuna fékk ég hins vegar furðulegan vírus, að ég held, sem leitaði út gegnum tunguna. Þar hef ég verið alsettur bólum á tungubroddinum. Ferlega óþægilegt. Öll ánægja af því að tyggja mat hvarf um tíma en matarlystin sem slík var samt í lagi (sérstaklega naut ég þess að bræða rjómaís ofan á tungunni). Í gær lagaðist þetta að mestu en í staðinn varð ég veikur með hefðbundnum hætti (sem styður grun minn um að þarna hafi verið á ferðinni vírus sem fann aðra útgönguleið). Þetta voru bara nokkrar kommur, svimi og beinverkir. Ekkert sem góð hvíld gat ekki lagað, enda mætti ég í vinnuna í dag. Nú er hins vegar að sjá til hvenær þetta klárast. Við þurfum líklega að trappa Signýju enn varlegar upp, enda er maginn hennar orðinn viðkvæmur eftir allt álagið. Eins gott að það gangi vel því það er bara rétt rúm vika í þriggja ára afmælið!