föstudagur, ágúst 29, 2008

Þroskaferli: Já eða nei

Um daginn tók ég orðaforða Hugrúnar fyrir en lét hjá líða að greina sérstaklega frá því í hvaða röð orðin komu. Sagan á bak við "já og nei" er nefnilega frekar undarleg. Hugrún lærði fljótt að segja "búið" (eins og ég greindi frá á sínum tíma) og mánuðum saman sagði hún þetta af myndarskap og hristi höfuðið í ofanálag þegar hún vildi ekki borða meira. Þetta virkaði auðvitað vel og fyrir vikið tók ég eiginlega ekki eftir því að hún sagði aldrei "nei". Ekki fyrr en snemma í sumar. Hún var orðin rúmlega ársgömul þegar maður heyrði þetta lykilorð í fyrsta skipti. Þá fattaði ég fyrst að þetta orð var nýtt fyrir henni. Í sumar var "nei" hins vegar notað vítt og breitt sem svar við ýmsu, bæði neikvæðu og jákvæðu (ásamt gamla góða "búið"-orðinu). Okkur fannst sérstaklega sætt að sjá hana svara spurningum okkar (t.d. viltu banana?) með afar einlægu og sérstöku "nei", sem var svo jákvætt að okkur fannst það vera já. Tónfallið var upp á við, en ekki neikvætt og ákveðið. Það var ekki fyrr en í byrjun ágúst sem "já" kom frá henni og nánast samtímis lærði hún að kinka kollinum (að jánka) og gerði það með galopið biðjandi augnaráð sem gjörsamlega bræddi okkur.

Ferlið var því svona:
1) Hristir hausinn
2) "Búið"
3) "Nei"
4) Jákvætt nei
5) "Já"
6) Kinkar kolli

Um líkt leyti fór Signý í leikskólann eftir sumarfrí. Það er gaman að bæta því við í þessu samhengi að eftir fyrstu vikuna breyttust já-in og nei-in hennar í "jabbs" og "neibbs". Líklega hefur einhver í leikskólanum hefur verið með þennan "kæk" á tímabili því þetta varaði ekki nema eina til tvær vikur hjá henni. Kannski fannst henni bara svona gaman að byrja í leikskólanum aftur. Þetta er svolítið glaðlegra en venjulegt "nei" og "já", ekki satt?

fimmtudagur, ágúst 28, 2008

Upplifun: Við uppi á Arnarhóli

Nýi tvöfaldi hjólavagninn kom aldeilis að góðum notum í gær. Þrátt fyrir að Vigdís væri á kvöldvakt gat ég skotist niður í bæ með bæði Hugrúnu og Signýju. Tíminn var knappur og rétt dugði fyrir snöggsoðinn kvöldmat en vegna þess hve þægilegt er að skokka með vagninn fór ég samt létt með að ná athöfninni tímanlega. Við mættum á svæðið þegar handboltaliðið var komið upp á Skólavörðuholt og höfðum því gott ráðrúm til að planta okkur á afviknum en góðum stað uppi á Arnarhól. Staðurinn var heppilegur því við fundum einhvers konar lægð (hálfgerða laut) í hólnum þaðan sem erfitt var að sjá á sviðið. "Heppilegt" segi ég vegna þess að þegar liðið var runnið í hlað, og allur skarinn kominn upp á hól, vildi enginn vera akkúrat á þessum blett. Það var ekkert þrengt að okkur, nánast eins og áhorfendur hefðu slegið skjaldborg umhverfis okkur Hugrúnu og Signýju. Við höfðum gott pláss til að hreyfa okkur í takt við tónlistin, enda full þörf á því: Páll Óskar er í miklu uppáhaldi hjá þeim systrum. Signý sveiflaði höndum og klappaði saman höndum ákaft upp á háhesti á meðan Hugrún stóð vandlega í fæturnar fyrir neðan okkur. Hún dansaði með því að beygja sig mjúklega upp og niður í hnjánum. Fjölmargir áhorfendur gjóuðu augunum til Hugrúnar og Signýjar og kímdu við. Þær voru alveg í essinu. Þegar að því kom reyndist líka býsna erfitt að koma þeim í vagninn aftur, enda ekki á hverjum degi sem þær upplifa svona mannfagnað.

þriðjudagur, ágúst 26, 2008

Þroskaferli: Orðaforði Hugrúnar

Rétt áður en Ólympíuleikarnir stálu senunni (og tímanum) var ég byrjaður að skrá sérstaklega að skrá hjá mér orðaforða Hugrúnar. Ég áttaði mig á því að ég þyrfti að flýta mér, því orðin voru farin að koma á færibandi. Hún var þá nýorðin 15 mánaða (en verður 16 mánaða nú um mánaðamótin). Síðan hef ég ekki mátt vera að því að færa þetta inn (vegna Ólympískra anna, meðal annars). En hér er hann hins vegar kominn listinn sem ég setti á blað. Orðin eru ekki endilega í tímaröð, en ég set samt sum af fyrirsjáanlegustu grunnorðunum fyrst. Þegar ástæða þykir til set ég hins vegar hljóðlíkingu eða útskýringu með innan sviga.

Mamma/Pabbi (skýr munur á P og b)
Já/Nei
Hæ/halló ("la-hó")
Bæ/bless (furðu skýrt "ess")
Datt
Bað (stundum borið fram sem tvö atkvæði "Ba-að" þar sem seinna atkvæðið fellur um heilar tvær áttundir. Þá er hún full tilhlökkunar)
Signý ("diddí")
labbílabb
vá! (ef hún sér eitthvað spennandi eða nýtt)
Sitja ("didda")
Ljós (mjög skýrt, bæði "j" og "s" heyrist)
Kúka (sjáldan notað, en samt markvisst)
Lúlla (mikið notað)
Ba-bú (ef einhver er fyrir)
Frá ("bá" - þetta er önnur útgáfa af "ba-bú")
Dudda (stundum notað út í loftið í geðshræringu - eins og ég skrifaði um á sínum tíma)
Búið (líklega mest notaða orðið)
Banani ("nanana" - stundum segir hún "na-nana-nananana" með mjög líflegu tónfalli, og þá er hún að biðja um eitthvað sem hún nær ekki í sjálf)
Brauð (bau)
Mjá (kisuhljóð - mjög angurvært)
úhú (ugluhljóð - bjart og með skýrum áherslum)
Tá/tær ("dá/dæ")
Eyra ("ija")
Auga ("ua")
Nef ("nebb")
Bleia (bija)

Síðan ég skráði þetta hjá mér hef ég tekið eftir fullt af nýjum orðum læðast fram. Dóra er eitt af þeim, en hún er teiknimyndapersóna sem bæði Signý og Hugrún hafa gaman af. Einnig ber hún Bubbi byggir ótrúlega skýrt fram. Svo er farið að örla á setningaskipan sbr. "Dudda datt". Hugrún er náttúrulega mjög athugul og er farin að taka undir með okkur þegar við syngjum fyrir hana, hvort sem það er í Bíum-Bíum-Bambaló (sérstaklega "dilli-dilli-dó" kaflinn) eða Meistari Jakob (Hún grípur "Jakob" mjög vel). Hún gleypir líka við öllu því sem hún sér á skjánum, eins og vera ber, og veit til dæmis alveg hvað lottó er. Hún tekur hraustlega undir með því. Og svei mér ef ég heyrði hana ekki fylgja mér eftir á stangli þegar ég taldi með Signýju í dag fyrir framan hana (hún sagði ábyggilega "tveir", "fjórir" og "Sex" á hárréttum stöðum).

sunnudagur, ágúst 24, 2008

Þroskaferli: Ólympíueftirherman Signý

Nú þegar Ólympíuleikarnir eru nýafstaðnir er mér ferskast í minni hvað Signý var athugul allan tímann. Maður tók svosem ekkert sérstaklega eftir henni fylgjast með en hún fór að leika ýmislegt eftir hetjunum á skjánum. Í gær sá ég hana renna sér niður í spíkat, hálfa leið að vísu, en svo tæknilega akkúrat að það mætti halda að hún hefði fengið leiðsögn. Stuttu síðar sýndi hún mér takta sem Vigdís hafði tekið eftir hjá henni áður (og benti mér á að fylgjast vel með): Hún stóð fremur gleitt og sneri sér í mjöðmunum hálfhring til vinstri og hægri, fram og til baka, og svo allt í einu "stökk"!.... og lenti með líkamsstöðuna í öfuga átt. Ég veit ekki hvaðan þetta kemur. Kannski kringlukastið?

Pæling: Að Ólympíuleikum loknum

Þannig fór um sjóferð þá. Frakkarnir mættu ótrúlega einbeittir og náðu að draga klærnar úr okkar mönnum snemma í leiknum og náðu frumkvæðinu. Þeir náðu sínum allra allra besta leik. Við áttum ekki séns. Ekki minnsta möguleika. Hvernig stóð á því? Ég las í Fréttablaðinu í morgun að liðið okkar hafi verið meira eða minna andvaka eftir síðasta leik í einni stórri geðshræringu yfir því að vera búnir að tryggja sér medalíu. Þetta er stóra spennufallið sem ekki mátti koma. Þeir voru innst inni orðnir saddir. Þeir voru búnir að ná upprunalega takmarki sínu og eftir það var erfitt að ná brjálæðinu upp á ný. Maður er hálf lamaður eftir þetta. Nú er það bara lokahátíðin og hugsa til þess hvað þetta var nú glæsileg frammistaða strákanna, þegar á heildina er litið. Núna á sér stað lokahátíðin með allri sinni litadýrð. Hvernig ætli þeir hugsi á meðan þeir horfa á glæasilega sýninguna og virði fyrir sér medalíuna sína? Tveir möguleikar: "Ég hefði geta verið með gull" eða "Ég er hér, með medalíu um hálsinn". Ég vona bara að þeir taki seinni afstöðuna því þeir eiga svo sannarlega skilið að njóta augnabliksins.

laugardagur, ágúst 23, 2008

Pæling: Hugarfarið fyrir leik

Ég er bara búinn að vera utan við mig í allan dag eftir sigurinn á Spánverjum í gær. Ég er með enga athygli á hversdagslegum hlutum. Venjuleg búðarferð er nánast vandræðaleg. Ég er með hugann við verkefni stákanna úti og get ekki slitið mig frá því. Þvílíkur heiður fyrir okkur öll að fá að vera með.

Þegar ég var kominn heim rann það upp fyrir mér að landsliðið getur ekki tapað á morgun. Ég var bara að vaska upp og þessar hugsanir læddust að mér . Ég upplifði sjálfan mig sem hluta af þessum hópi, fannst ég beinlínis vera á gólfinu með þeim, í liðinu, og "fann" hvernig mér hlyti að líða. Það er úrslitaleikur á morgun, stærsta stund íslenskrar íþróttasögu. Þetta er draumi líkast og einfaldlega ekki pláss fyrir óttaslegnar hugsanir eða vangaveltur um það hvort Frakkarnir séu betri eða yfir höfuð góðir. Það er þakklætistilfinning sem fylgir hópnum inn á gólfið. Þeir taka í hönd Frakkanna, horfa í augun á þeim, og varðveita þessa stund. Þakklætið beinist ekki síst að Frökkunum sjálfum, þó þeir eigi engan hlut í okkar árangri, því þeir taka þátt í veislu okkar og gera hana að möguleika. Áður en flautað er til leiks eru Frakkarnir eins nálægt því að verða Ólympíumeistarar og þeir nokkurn tímann verða í þessari keppni, - eftir það skilur á milli. Eftir það er "kamikaze".

Ég verð hissa ef Frakkarnir vinna okkur, því þeir eru ekki tilbúnir að fórna sér með sama hætti.

miðvikudagur, ágúst 20, 2008

Þroskaferli: Leikskólaframvinda

Í leikskólanum hennar Signýjar eru þrjár aldurskiptar deildir: Norðurbær, Miðbær og Suðurbær. Signý byrjaði í Norðurbæ (yngstu deildinni) fyrir ári síðan en í þessari viku fór hún fór smám saman yfir í Miðbæ. Í dag sótt ég hana þangað í fyrsta skipti og á morgun skila ég henni af mér þangað í fyrsta skipti. Þetta minnir mann á það hvað hún er að þroskast hratt. Brátt fara börn að innskrifast á Norðurbæinn á aldur við Hugrúnu. Hún fékk einmitt staðfestingu um daginn á leikskólavist, en dagsetningin er enn óljós.

Upplifun: KR-markaðurinn og kvefpest

Um helgina var haldinn skemmtilegur markaður í KR-húsinu. Öllum Vesturbænum (og líklega fleiri hverfum) hafði verið boðið að mæta með dót úr geymslunni eða afurðir úr garðinum. Ekkert vesen, engin básaleiga, bara mæta tímanlega og koma sér fyrir. Þetta var á laugardaginn var. Signý og Hugrún voru eitthvað slappar, með kvef, og voru því heima. Ég leyfði Vigdísi að njóta sín á markaðnum á meðan ég horfði á handboltaleikinn við Dani. Hún var afar kát með afraksturinn þegar hún kom til baka. Keypti meðal annars skemmtilegan sólstól í barnastærð. Þegar Vigdís kom heim skaust ég í hálftíma (þetta er bara of nálægt til að sleppa alveg) og gekk í gegnum fjölskrúðugt mannlífið og nett kaotíska stemmningu. Ég kom hins vegar drulluslappur til baka og lagðist fyrir með hrikalegt kvef og hnerraköst (var slappur fram á mánudag). Þetta kvef sótti að okkur öllum eitt af öðru af krafti en staldraði stutt við í öllum tilvikum. Ég var síðastur til að leggjast, en er nú orðinn hress.

þriðjudagur, ágúst 19, 2008

Þroskaferli: Kemur færandi hendi

Hugrún er svo sannarlega farin að ganga. Þegar við vorum í bústaðnum rétt fyrir Verslunarmannahelgi tók Hugrún sín fyrstu samfelldu tíu skref, eða svo. Síðan gerðist lítið fyrr en viku seinna og þá var ekki aftur snúið. Hún er nú farin að hafa gaman af því að ganga og er farin að notast við það til jafns á við skriðið til að koma sér á milli staða. Hún er mjög snögg að ná tökum á þessu, enda búin að fínpússa tæknina mánuðum saman (með því að standa upp úr setstöðu, ganga með, sleppa sér, beygja sig eftir hlutum og, síðast en ekki síst, með því að klifra upp á alla stóla sem hún finnur). Það er óskaplega gaman að fylgjast með henni á þessu stigi.

Í kvöld átti sér stað einstaklega skemmtilegt atvik þar sem Signý sat inni í stofu á koppinum. Hugrún var um tveimur metrum frá henni að tína hafrakodda upp í sig, sitjandi á bossanum. Allt í einu stóð hún reisulega á fætur, eins og öldungur, og staulaðist í áttina til Signýjar. Ég lét frá mér bókina sem ég var að lesa og ætlaði að stöðva framgang hennar. Ég vildi ekki að hún truflaði Signýju á koppinum. Áður en ég náði að grípa inni í teygði Hugrún aðra höndina fram, bogin í baki og virðuleg, og hélt á einum hafrakodda. "e de naminam" (þetta er namminamm) sagði hún og gaf Signýju að smakka. Svo staulaðist hún eitthvað lengra á meðan Signý maulaði með sjálfri sér.

laugardagur, ágúst 16, 2008

Upplifun: Fyrstu Ólympíuleikarnir

Ólympíuleikarnir fara náttúrulega ekki fram hjá neinum. Við Íslendingar fylgjumst fyrst og fremst með handboltanum á meðan allt hitt fer meira eða minna fyrir ofan garð og neðan. Leikarnir í heild sinni eru hins vegar mjög spennandi í augum þeirra sem upplifa leikana í fyrsta skipti. Hér er ég sérstaklega með Signýju í huga. Hún fylgist með af áhuga í hvert skipti sem sundíþróttir birtast á skjánum og endurtekur "sund" fyrir munni sér í sífellu. Það minnir mann óþyrmilega á hvað það hvað hún fer sjaldan í sund. Hugrún má það ekki næstu mánuðina og ósjálfrátt fer maður sjáldnar fyrir vikið, fyrst við förum ekki öll saman. Maður þyrfti að fylgja áhuga Signýjar betur eftir. Á meðan við förum ekki í laugarnar með hana reynum við að fylgja áhuganum eftir fyrir framan skjáinn og tengjum svolítið við dýraríkið (það þekkir hún betur). Sundfólkið er nefnilega alveg eins og mörgæsir. Fljótlega fór Signý að skoða Ólympíuleikana í þessu ljósi. Á tvíslá sá hún hvernig fimleikagarparnir sveifluðust upp og niður milli slánna. Þá sagði hún: "Hann er alveg eins og api". Ég hló með sjálfum mér og horfði á kappann hanga í slánni og sveifla sér fimlega hring eftir hring, þá bætti hún við: "Hann er að róla, og róla og róla", og var mjög undrandi á atganginum. Hún hefur aldrei áður séð nokkurn "róla" heilan hring. Svo horfðum við á keppnisfólkið stökkva sín heljarstökk af litlu trampólíni og yfir hest. Hún hélt áfram að tengja við hluti sem hún þekkti betur og spurði mig hvers vegna maðurinn stökk upp á "borðið"?

sunnudagur, ágúst 10, 2008

Fréttnæmt: Viðburðir í sumarlokin

Ýmislegt drífur á daga okkar nú síðsumars. Við fórum í eftirminnilegt brúðkaup á föstudaginn var. Vinnufélagi minn af sambýlinu og kórfélagi, Árni Björnsson, og kærasta hans til margra ára, Ásthildur, létu splæsa sig saman. Brúðkaupið var haldið heima hjá foreldrum hans (óvenjulegt). Þetta gerði samkomuna mjög huggulega. Þau voru búin að koma upp samkvæmistjaldi í garðinum þar sem setið var að veitingum við langborð, þar sem menn sungu, skröfuðu og neyttu veitinga af ýmsu tagi. Mjög skemmtilegt kvöld í fallegu veðri.

Annað gerðum við frásagnarvert, nú upp úr verslunarmannahelgi. Við keyptum tvöfaldan hjólavagn á útsölunni í Erninum. Hann er alveg eins og sá sem við áttum fyrir, nema ögn breiðari. Við höfum prufukeyrt hann, bæði á hjólinu og gangandi. Þær Signý og Hugrún kunna vel við sig saman þar inni. Ég átti allt eins von á stríðni eða einhvers konar stympingum þeirra á milli, en það er nú öðru nær: Þær eiga það frekar til að söngla saman einhver orð, frasa eða tóna. Hljómurinn er ákaflega huggulegur, enda eru þær mjög nánar systurnar. Nú getum við farið öll saman í hjólatúr eftir Ægissíðunni. Það gerðum við nú í dag, enda fínt veður. Við keyptum okkur lautarnesti í næsta bakaríi og komum okkur notalega fyrir á fótboltavellinum við Skerjafjörðinn.

Nú eru ekki nema fjórir dagar þar til ég byrja að vinna aftur (á fimmtudaginn). Við Vigdís erum með hugann við að nýta dagana framundan sem best. Signý er byrjuð aftur í leikskólanum (á mánudaginn var) og við ættum að hafa nokkuð gott svigrúm til að hnýta saman lausa enda -og ef til vill njóta sumarsins örlítið lengur.

föstudagur, ágúst 08, 2008

Pæling: Bókasafnsmyndaleiga

Ég mæli með því að menn taki myndir á bókasöfnum frekar en venjulegum vídeóleigum. Sérstaklega fyrir svona fríhelgar eins og verslunarmannahelgina (eða páskana, jólin og svoleiðis) því þá er ekki hægt að skila myndinni dögum saman (án þess að leiguverðið hækki). Á tímum samdráttar í samfélaginu er rétt að benda á að verðsamanburðurinn er söfnunum mjög í hag. Í stað þess að borga 500 kall fyrir leigu á mynd í einn sólarhring (leigurinar eru nánast alltaf opnar þannig að það bætist sjaldan dagur við) þá kosta myndir á bókasöfnum 200-400 krónur og leigjast að lágmarki í tvo daga í senn. Undantekningarlítið er lokað á sunnudögum og á sumrin er einnig lokað á laugardögum víðast hvar (a.m.k. á Seltjarnarnesinu). Þegar við bætist frídagur á mánudegi eins og núna þá erum við að tala um fimm daga leigu (mynd tekin á fimmtudegi þarf ekki að skila fyrr en á laugardegi, sem framlengist yfir á mánudag). Þetta er hörkudíll. Sérstaklega ef maður vill taka því rólega og horfa á myndina í áföngum. Það á sérstaklega við um fræðsluefni eða myndir með haug af aukaefni.

Myndirnar sem ég tók, og komst ekki yfir að sjá, voru annars fínar myndir. Aðra hafði ég séð áður (Munich) og hina náði ég að sjá til hálfs á meðan Vigdís náði að klára hana (Other People´s Lives). Þetta er merkileg mynd. Hún fjallar um Stasi lögregluna og alla þá tortryggni sem var allsráðandi í Austur-Þýskalandi fyrir fall Berlínarmúrsins. Sem heimild er myndin merkileg, en söguþráðurinn er líka athyglisverður og óvenjulegur því einn njósnaranna fer að heillast af lífi þeirra sem eru undir smásjánni og finnur sig knúinn til þess að hafa afskipti af þeim. Þetta er lymskuleg mynd um bældar kenndir í allt öðru samfélagi, um spillingu og gildi þess að búa við frelsi. Ég kláraði ekki myndina og get því ekki greint frá því hvernig þetta allt saman endaði en Vigdís virtist sátt við myndina.

Upplifun: Ferðahelgarvikan

Nú er nokkuð um liðið frá síðasta bloggi. Ýmislegt hefur á daga okkar drifið. Við nutum okkar vel í aðdraganda verslunarmannahelgarinnar og skelltum okkur aftur í bústað. Við vorum sem sagt í Grímsnesinu í hitabylgjunni sem reið yfir. Signý og Hugrún glöddust yfir endurkomunni í "Melkorkuhús", horfðu á gamlar vídeóspólur (gamli góði Mikki) og nutu góðs af því að geta baðað sig utandyra í glimrandi veðri. Við vorum reyndar bara tvær nætur svo það gerðist ekki ýkja margt frásagnarvert annað en það að Jón Már kom í heimsókn og við skröbbluðum fram eftir. Dvölin var öll hin besta og í þetta skiptið vorum við akkúrat rétt undirbúin. Jón er búin að vera duglegur að hvetja okkur til að nýta bústaðinn enn frekar og við erum þakklát fyrir það, enda staðurinn frábær, bæði umhverfið og bústaðurinn sjálfur.

Eftir bústaðadvölin kom að sjálfri ferðahelginni, en þá vorum við heima. Ekki vorum við þó með hendur í skauti. Héldum óundirbúna garðveislu, með frisbí og boltaleikjum, þar sem Signý og Hugrún nutu sín með vinum og vandamönnum. Einnig fórum við í tvö matarboð þannig að það var nóg að gera. Reyndar tókum við tvær bíómyndir á leigu yfir verslunarmannahelgina (gegnum bókasafnið) og það segir sína sögu að við komumst ekki yfir þær. Myndir frá þessari viðburðaríku viku eru að sjálfsögðu komnar á myndasíðuna ásamt nokkrum myndum frá fyrri bústaðaferðinni (það er ekki svo langt síðan).