föstudagur, ágúst 28, 2009

Pæling: Óraunveruleikaþættir

Síðustu tvær vikur hefur verið á dagskrá Sjónvarpsins þáttur um Bresku konungsfjölskylduna. Maður hefur horft á fullt af raunveruleikaþáttum í gegnum tíðina en ég gat ekki varist þeim samanburði að finnast þessir þættir vera andhverfa slíkra þátta: eins konar óraunveruleikaþættir. Þarna er fjölskylda sem hefur ekkert sérstakt sér til dundurs annað en það að skoða hvernig við hin lifum lífinu og sveima yfir okkur með sinni ímynduðu verndarhendi (eða fjárstyrk). Þeirra líf er aðskilið raunveruleikanum. Þau horfa kannski ekki á okkur í sjónvarpinu í þar til gerðum raunveruleikaþáttum (eins og við hin) heldur læðast þau út á "vettvang" og eru þar stödd í eigin skinni og virða fyrir sér framgang lífsins utan kastalans hjá okkur hinum sem raunverulega þurfum að hafa fyrir því að lifa. Þar sem þau mæta í eigin persónu á vettvang, og hafa boðað komu sína með löngum fyrirvara, er ekki hjá því komist að öll upplifun þeirra kemur til með að vera "fölsk". Þau sjá ekki hið daglega amstur heldur uppstillta sparimynd. Það sem var hins vegar óraunverulegast af öllu fyrir mig að horfa upp á, og kannski óhugnanlegast í leiðinni, var sá hluti almúgans sem lifði og hrærðist í því að fylgjast með kóngafólkinu. Það fólk er kannski enn sorglegra því það hefur þó kost á að lifa raunverulegu lífi. Svo spyr maður sjálfan sig hvort áráttukennd hefð konungsfjölskyldunnar að "vernda" og veita blessun sína hinum og þessum góðgerðarsamtökum sé raunverulegur velvilji í okkar garð? Er þetta ekki bara sjálfsbjargarviðleitni í heimi sem efast um réttmæti þess að halda uppi fjölskyldunni? Svo hlýtur þetta að svala þörf þeirra fyrir raunverulegu lífi lítillega, ef þau hafa nagandi samviskubit yfir hlutskipti sínu yfir höfuð, það er að segja.

Þroskaferli: Tímatilfinning

Ég er að skrá hjá mér eftirminnilega málnotkun og framburð hjá Signýju og Hugrúnu. Kannski birti ég hér einhvers konar markvissa umfjöllun um það á næstunni. Þessa dagana tek ég hins vegar eftir því sérstaklega hvernig Signý reynir að sortera atburði í tíma.

Hún notar orðið "áðan" um það sem er liðið, jafnvel þó það sé margra vikna gamall atburður, eða notast við frasann "í gær". Hún notar þetta jöfnum höndum og gildir einu hvort atburðurinn sé síðan áðan, í gær eða fyrir mörgum dögum síðan . Ég er ekkert að leiðrétta hana neitt sérstaklega. Til þess þyrfti ég að stilla upp dagatali með henni, sem kemur til greina að gera á næstunni, en á meðan svara ég henni bara með réttri tímatilvísun. Það er eflaust svolítið ruglandi fyrir hana því það sem hún orðaði "í gær" var kannski bara áðan og það sem hún talaði um sem "áðan" gerðist kannski í gær. Hún er hins vegar að verða svolítið meðvituð um þetta því upp á síðkastið hefur hún beitt fyrir sig orði sem dekkar bæði þessi orð, sem er hið heimatilbúna: Áðanígær (í einu orði). Þetta orð vísar hins vegar bara stutt aftur í tímann. Þegar hún vill hins vegar vísa langt aftur í tímann (marga mánuði, hálft ár eða meira) þá dugar ekki að segja "áðanígær". Þá segir hún einfaldlega: "Þegar ég var lítil".

sunnudagur, ágúst 23, 2009

Daglegt líf: Vetrarstarf framundan

Nú er sumarið formlega á enda í mínum huga. Það er Menningarnótt sem setur punktinn á eftir sumrinu. Vikuna á undan eru skólar að hefja undirbúning og fólk byrjað að huga að vetrinum. Með vikunni sem framundan er hefst hin eiginlega vetrarstarfsemi. Fyrsta kennsluvikan er framundan.

Það er búið að vera notalegt að ganga í góðu veðri, fara í berjamó með börnunum, kíkja í Heiðmörkina, skreppa upp í bústað og svamla í uppblásnu sundlauginni í garðinum. Við erum meira að segja búin að vera dugleg að tékka á mannlífinu í bænum, eins og djasshátíðinni sem stendur yfir þessa dagana. Þar munar aldeilis um pössun sem Begga systir hefur verið örlát að bjóða upp á undanfarið. Nú síðast í gær, en þá fengu Signý og Hugrún að gista yfir nótt (í fyrsta skipti saman) enda nutum við Menningarnæturinnar sérlega vel í ár fyrir vikið. Maður var næstum búinn að gleyma hvað það er að sofa út.

föstudagur, ágúst 14, 2009

Pæling: Stafirnir Þ=F og Æ=Ai

Það var gaman að svæfa Hugrúnu og Signý rétt áðan. Ég las stafabók með þeim þar sem hver blaðsíða er helguð einum staf og einu dýri. Við fórum í gegnum þetta og kringumstæðurnar minntu mig á kennslu. Ég stóð með bókina, eins og ekta kennari (sem maður svo sem er), og hafði hana opna fyrir ofan rúmin tvö, svona tveim metrum frá þeim, og sýndi þeim myndirnar (og kom nær ef þær vildu rýna í þær).

Hvað er hér? Benti á dýrið og spurði svo um stafinn, hvað hann heitir og hvað annað "á" þennan staf.

Það var gaman hvað þær nutu sín við þessar aðstæður (yfirleitt er maður með þær í fanginu en þessi bók leyfði þessa nálgun). Yfirleitt komu þær með hugmyndir að orðum sem pössuðu vel við orðin og voru mjög skapandi og gáfu sér góðan tíma til að hugsa sig um. Báðar tvær. Ég var duglegur að hrósa og hvetja. Þegar kom að síðustu stöfunum komu sérstaklega skemmtileg svör.

Stafurinn Þ og bókin sýndi mynd af Þvottabirni. Þá sagði Signý "þú" (er hún að meina "Þorsteinn" eða fattaði hún orðið "þú"). Ég lagði til Þorskur og þá stakk Signý upp á "Froskur" (sem hljómar mjög líkt, sérstaklega eins og hún ber það fram). Síðan kom að næsta staf. Það var stafurinn Æ, sem bókin studdi með mynd af Æðarfugli. Þá sagði Signý:

"AIDA"

Bein úr Snillingunum, og söng svo laglínuna stolt úr Aida-aríunni. Fínn endir hjá henni.

fimmtudagur, ágúst 13, 2009

Fréttnæmt: Viðgerðarbrölt

Á mánudaginn var byrjaði leikskólinn aftur eftir mánaðarlangt sumarfrí. Í næstu viku byrja ég svo sjálfur aftur að vinna. Þessi vika sem nú er að klárast er því svolítið sérstök og hefur verið tilhlökkunarefni. Það er ekki oft sem maður getur notið þess að slappa af heima yfir daginn, jafnvel sofið út. Við Vigdís (sem er líka í fríi og verður það nokkrar vikur í viðbót) höfum verið býsna dugleg í útivistinni þessa fáu daga. Við fórum tvívegis í langan göngutúr kringum golfvöllinn við Gróttu og skelltum okkur líka í Heiðmörkina. Annað kom ekki tili greina í því blíðviðri sem gerði í byrjun vikunnar. En það er ekki það eina sem hvatti okkur til að flakka um fjarri hemilinu: Eigendur hússins eru eitthvað að bardúsa utandyra, í garðinum. Það er verið að lappa upp á húsið, mála gluggakarma, gera við svalirnar fyrir ofan okkur, sementskústa þrepin allt í kring og endursmíða girðinguna. Okkur grunar að þetta sé forleikurinn að einhvers konar söluferli. Við höfum klárlega gott svigrúm sem leigendur og höfum svo sem ekki stórar áhyggjur. Þetta minnir okkur samt á að við þurfum að fara að hugsa okkar gang. En á meðan þetta gengur yfir er heilmikið brölt í gangi og verst að það skuli þurfa að lenda á þessari viku, einmitt þegar við ætluðum að nýta fríið heima.