sunnudagur, september 27, 2009

Pæling: Furðumikil menningarskorpa

Nú er kreppa en menningin blómstrar! Alþjóðlega kvikmyndahátíðin er að renna sitt skeið á enda. Við kíktum á barnasýningar með Signýju og Hugrúnu, nokkrar stuttar í einum rykk. Þær myndir voru hver annarri furðulegri, en ein var þó stórskemmtileg og þess virði að sjá aftur einhvern tímann (Björninn kemur/Bear is coming e. Janis Cimermanis). Tilbreytingin var hins vegar af hinu góða í grámyglunni og rigningaréljasuddaslyddunni undanfarið. Ekki fór ég sjálfur á fleiri myndir á hátíðinni en kíkti hins vegar á indverska daga hjá Grand Hótel. Þar var boðið upp á indverskan mat í viku, bæði í hádegi og á kvöldin ásamt indverskum kvikmyndasýningum. Allt beint frá Indlandi. Þetta er auðvitað þemað í ár og ég skellti mér á fimmtudaginn var með vinnufélögunum. Maturinn stóð fyrir sínu (þó helst til mikið kryddaður og full mikið úrval af kjötréttum á kostnað grænmetis) og voru eftirréttirnir auðvitað bestir. Það er sérlega gaman að sitja þarna og borða. Hótelið býr yfir yfirbyggðu torgi á milli stórhýsa. Umhverfið minnti mig helst á New York, svona í fljótu bragði, og náttúruleg birta og opið rými minnti mann á góðviðrisdag í útlöndum. Ég mæli því eindregið með þessu, sem upplifun, ef menn vilja eitthvað nýtt og öðruvísi. Þeir eru víst með hádegishlaðborð dags daglega á 2.400 manninn. Ekki slæmt.

Eins og ég minntist á þá voru kvikmyndasýningar í boði hótelsins á sama tíma. Tímasetningin hlýtur að teljast óheppileg í ljósi alþjóðlegu kvikmyndahátíðarinnar. En er þetta ekki alltaf svona!? Yfirleitt skiptast á offramboð og gúrkutíð þegar menning er annars vegar. Á sama tíma var nefnilega bókmenntahátið, sem hefði verið gaman að kíkja á, og vísindasýning fyrir börn og fullorðna í Listasafni Íslands. Svo var fjölbreytt tónleikahátíð í gangi núna um helgina (Réttir) og önnur kvikmyndahátið (norræn) að renna í hlað. Hvað ef maður er veikur í viku? Verður maður þá að bíða í nokkra mánuði eftir næsta skammti?

Af hverju er þetta svona? Mig grunar að þetta liggi svolítið í eðli landans. Við erum skorpufólk, við skeytum engu um það hvað næsti maður er að gera (og samræmum ekki áætlanir okkar) og sveiflumst öll meira eða minna með sömu öfgafullu tímaklukkunni, ársveiflum ljóss og myrkurs sem trekkja okkur upp að því er virðist jafn hratt. Um leið og verslunarmannahelgin slúttar sumrinu og kvöldmyrkrið fer að læðast inn hefst undirbúningstími okkar allra fyrir veturinn með þeim afleiðingum að uppskeran er öll meira eða minna á sama tíma. Eða hvað? Vonandi hugsa ekki allir eins og stíla inn á sama "dauða tímann" í september. Ætti október að vera eitthvað verri mánuður fyrir menningarveislur?

laugardagur, september 26, 2009

Daglegt líf: Sjokkerandi verðsamanburður

Ég skrapp út í búð seint í gærkvöldi - þurfti að redda mjólk - og fór í 10/11 í nágrenninu. Það hvarflaði að mér að kaupa lítinn brauðpoka í leiðinni en mér brá snarlega þegar ég sá verðið: 278 kr! Mér fannst þetta hátt verð fyrir heilt samsölubrauð, hvað þá hálft! Ég kíkti í budduna til samanburðar og fann strimil úr Bónus. Þar var brauðið með ódýrara móti: 99 kr.!

Í dag fór ég aftur út í búð og hafði þetta brauðsjokk sérstaklega í huga. Fór í gegnum Hagkaup til að tékka á brauðinu þar og fann sama brauð á 198 kr. Eftir það átti ég leið í Krónuna: 147 kr. Sem sagt, nokkurn veginn eftir bókinni: Bónus: 99 kr. - Krónan: 147 kr. - Hagkaup: 198 kr. - 10/11: 278 kr. Það skiptir svo sannarlega máli hvað maður kaupir vöruna, eins og menn vita! Oft er um tvöfalt verð að ræða - jafnvel þrefalt - á milli búða.

Undanfarin ár hefur mér fundist Krónan vera samstíga Bónusi í verði - kannski krónu dýrari. Nýlega komst ég hins vegar að því að það er liðin tíð. Margt er reyndar á svipuðu verði og í Bónus (og fullt af fínum tilboðum) en svo inni á milli eru vörurnar mun dýrari (þannig græða þeir á grunlausum kúnnum). Krónan er að minnsta kosti stórvarasöm ef maður ætlar að sópa úr hillunum. Ég hef minnst á þetta við marga kringum mig undanfarið en læt flakka hér með eina sögu af þistilhjörtum:

Ég fór í Hagkaup fyrir um tveimur vikum síðan í leit að þistilhjörtakrukku (frá Sacla). Ég gerði mér væntingar um að hún myndi kosta um 5-600 kall. Ekki mikið dýrara en það. Hún kostaði hins vegar svimandi 978 krónur! Ég snaraði mér undir eins út í Bónus þar sem ég þóttist viss um að geta fengið krukkuna að minnsta kosti nokkrum hundraðköllum undir því verði. Þar brá mér hins vegar á hinn veginn: 398 kr.!! Hvernig stendur á svona ótrúlegum verðmun? Nokkrum dögum síðar tékkaði ég á nákvæmlega sömu vöru í Krónunni, til að hafa allt á hreinu, og átti von á að verðið myndi liggja þarna mitt á milli, en viti menn, verðið var nákvæmlega það sama og í Hagkaupum: 978 krónur sléttar!!! Eftir það hef ég verið mun varkárari í þeirri búð og haldið mig einungis við nauðsynjar og þær vörur sem Bónus selur alls ekki.

laugardagur, september 19, 2009

Kvikmyndir: District 9

Ég fór í bíó í gær, aldrei þessu vant, og skellti mér á frumsýningu á myndinni "District 9". Þetta er sérlega óvenjuleg mynd. Hún fjallar um samskipti manna og geimvera eftir að geimskip "strandar" fyrir ofan Jóhannesarborg í Suður-Afríku einhvern tímann í framtíðinni. "Fyrir ofan" segi ég, því skipið brotlenti ekki heldur hékk það á himnum, hreyfingarlaust, langtímum saman og varð að endanum sem tröllaukið kennileiti borgarinnar. En ekkert gerðist fyrr en menn ákváðu að kanna skipið að innan. Þar fundu þeir geimverur í tugþúsundatali sem voru við það að veslast upp.

Myndin fjallar um samskipti manna og þessara geimvera eftir að þeim hefur verið komið fyrir á afmörkuðu svæði. Myndin er hreint ótrúlega vegna þess að hún er svo margt í senn: Hún er félagsleg ádeila á samskipti drottnara og hins kúgaða og þá spillingu sem þrífst kringum völd. Hún er vísindaskáldssaga, sem gerist í framtíðinni með mjög ferskum og spennandi pælingum sem virka mjög trúverðugar. Hún er líka spennutryllir því við lifum okkur inn í hlutskipti aðalsögupersónu sem er hundelt af yfirvöldum. Myndin er líka stríðsmynd í anda "Saving Private Ryan" með mjög nærgöngulum og blóðugum senum á köflum. Svo er hún líka sæt geimverumynd í anda E.T. (við kynnumst geimverunum svolítið persónulega og fáum samúð með þeim). Að endingu er þetta mögnuð sýndar-heimildarmynd (pseudo-documentary) því myndin er öll sett fram sem fræðileg umfjöllun á atburðum sem eiga að vera liðnir, með fréttaskotum og viðtölum. Á tímabili er myndavélin á hreyfingu og það magnar upp raunveruleikatilfinninguna. Fyrir vikið er þessi fjarstæða mynd ótrúlega trúverðug og kemur gjörsamlega aftan að manni.

Mér fannst beinlínis undarlegt að stíga út úr salnum og horfa á alla bílana á bílastæðinu fyrir utan. Ég hafði sogast svo rækilega inn í þessa skálduðu framtíð að mér fannst eins og ég væri að ganga um safn, með snyrtilega röðuðum fornbílum. Allt virkaði svo furðu friðsamt, snyrtilegt og haganlega skipulagt.

miðvikudagur, september 16, 2009

Upplifun: Jethro Tull tónleikarnir

Eins og venjulega gefst svigrúm til að blogga ekki fyrr en löngu eftir á. Núna er ég með hugann við frábæra tónleika sem ég fór á um helgina, með Jóni Má, Villa bróður og Guðmari vini hans. Jethro Tull var það í þetta skiptið. Þeir eru orðnir sannkallaðir Íslandsvinir (þetta er fjórða tónleikaheimsókn Ian Andersons, í eigin persónu eða með hljómsveitinni). Anderson er frábærlega öruggur sviðsmaður. Hann fór á köflum hamförum á sviðinu með látbragði og geiflum. Svo kann hann svo sannarlega að hafa ofan af fyrir áhorfendum milli laga með líflegu spjalli og húmor. Oft er það gálgahúmor í garð meðspilara sinna eða kaldhæðni gagnvart sjálfum sér og eigin lagasmíðum. Það er ekki síður gaman að horfa á svona jaxla taka eldgömul lög og umbreyta þeim í lifandi flutningi. Fyrir það fær hljómsveitin full af plúsum frá mér. Þetta voru flottir tónleikar sem uxu þegar á leið og urðu hreint magnaðir undir lokin.

Á meðan ég naut mín í Háskólabíói voru Signý og Hugrún hins vegar í góðu yfirlæti hjá Beggu systur sem af sínu örlæti bauðst til að passa einu sinni enn. Yfirleitt nýtum við svona tækifæri í sameiningu, við Vigdís, en engu að síður nýttist þetta henni mjög vel. Hún bauð til sín tveim systrum sínum í DVD-kvöld. Þegar ég kom heim, upphafinn af mögnuðum tónleikunum, tók við ekki síðri tónaveisla: "Heima" með Sigurrós. Ekki ónýt heimkoma það!

fimmtudagur, september 10, 2009

Þroskaferli: Tónlistarnæmni systranna

Í kvöld hlustuðum við Signý og Hugrún á Karnival dýranna eftir Camille Saint-Saens. Þar er líkt eftir ýmsum dýrum með stuttum en hugmyndaríkum tónsmíðum. Þær hafa svo sem heyrt þetta áður en mér fannst þær hlusta betur núna. Þegar kom að kafla um steingervinga (Tóndæmi: Carnival of the Animals - Fossils) kviknaði einhver tenging hjá þeim báðum og þær ústkýrðu fyrir mér að þarna væri Mikki og Mína að fara til nornarinnar. Ég fattaði strax að þær voru að vísa í myndband sem var í uppáhaldi hjá þeim á netinu þar sem Mikki og Mína lenda í hrakningum hjá norn (með vísun í Hans og Grétu). Þetta var allt sett fram við undirspil klassískrar tónlistar. Það var hins vegar ekki rétt hjá þeim að þetta væri sama lagið en samt voru lögin að mörgu leyti mjög svipuð. Þegar ég fór að hugsa málið frekar áttaði ég mig á því að viss fimm nótna lykilfrasi var nánast sá sami. Það sem meira er að lögin voru bæði frönsk (hljómaheimurinn mjög áþekkur). Síðan áttaði ég mig á því að hitt lagið var Danse Macabre, einnig eftir Saint-Saens!

Sjá hitt myndbandið hér: Mikki og Mína (Hans og Gréta)

Mér var nokkuð brugðið þegar ég komst að þessum tengslum. Lögin tvö hef ég þekkt lengi en aldrei áttað mig á því hvað þau eru lík. Í leiðinni er ég eiginlega gáttaður á næmninni í Signýju og Hugrúnu því þær tengdu þetta báðar saman hikstalaust.

sunnudagur, september 06, 2009

Netið: Tónlistargrúsk á Pitchforkmedia

Um daginn datt ég inn í grúsk á vefsetrinu sem kennir sig við tónkvísl (Pitchforkmedia). Þetta er sá vefmiðill sem nýtur hvað mestrar virðingar hjá tónlistarmönnum enda er þar tekinn púlsinn á því framsæknasta í tónlistinni hverju sinni. Þegar nýútkomin plata fær afbragðsdóma hjá þessum vefmiðli er umsvifalaust tekið mark á því og keppast aðrir netmiðlar og bloggarar heimsins um að kynna sér gripinn í kjölfarið. Ég hef reyndar ekki verið duglegur að eltast þetta og fletti tiltölulega sjaldan upp á Pitchforkmedia (mér nægir að skoða uppgjör bloggara og annarra netmiðla um áramót og tékka þá á helstu plötunum - þannig að ég fylgist með í annarri eða þriðju bylgju, má segja). Þarna skýli ég mér á bak við tímaskort (áhuginn er alveg fyrir hendi). Einnig hefur mér fundist umfjöllun þeirra í fyrstu sýn frekar óaðlaðandi, satt að segja. Þeir fjalla um tónlist á frekar háfleygan hátt með vísun í tónlist sem ekki allir þekkja. Þar að auki meta þeir plöturnar með einkunnagjöf sem hleypur á hundraðshlutum, sem virkar vægast sagt undarlega. Hvernig er hægt að gera greinarmun á plötu sem fær 9.2 og 9.3 í einkunn? Fyrir vikið hef ég fengið á tilfinninguna að þeir taki sig full hátíðlega með sinni læknisfræðilegu nákvæmni.

Núna er ég hins vegar tilbúinn til að meðtaka það sem þeir hafa að segja. Ástæðan er einfaldlega sú að ég komst yfir umfjöllun þeirra um tónlistarsöguna og fann undir eins að þeir virtust hafa svipað verðmætamat og fagurfræðilega nálgun og ég, þegar tónlist er annars vegar. Um er að ræða kaflaskipta umfjöllun um tónlist síðustu fjögurra áratuga þar sem hver áratugur er tekinn fyrir með lista yfir hundrað merkustu plötur hvers um sig. Yfirleitt er ég ekkert sérstaklega sammála svona listum og finnst hljómsveitum eins og Oasis og Sex Pistols gert full hátt undir höfði á kostnað hljómsveita sem voru raunverulega skapandi, framsæknar og spennandi. Hér gladdist ég hins vegar óskaplega. Látum okkur sjá:

Bestu plötur áttunda áratugarins (1970-1979)

1. Low - David Bowie
2. London Calling - the Clash
3. Marquee Moon - Television
4. There´s a Riot Going On - Sly and the Family Stone
..... Dylan, Brian Eno, Gang of Four, Joy Division, Led Zeppelin og Kraftwerk inni á topp tíu (ekki í þessari röð þó).

Hvernig er hægt annað en að taka mark á vefmiðli sem lýsir Low sem merkustu plötu þessa áratugar? Flestar sambærilegar umfjallanir hafa gert Ziggy Stardust mun hærra undir höfði en mín skoðun er sú að þessi plata sé margfalt merkilegri. Eins finnst mér stórkostlegt að sjá Marquee Moon og "Riot" svona ofarlega.

Kíkjum á næsta áratug (1980-1989):

1. Sonic Youth - Daydream Nation
2. Remain in Lights - Talking Heads
3. Paul´s Boutique - Beastie Boys
4. Doolittle - the Pixies

Næstu plötur geyma aðra Pixies plötu (Surfer Rosa) , Joy Division, Tom Waits, the Smiths (Queen is Dead), R.E.M. (Murmur) og Public Enemy. Í fyrsta lagi er unaðslegt að sjá topp tíu lista frá þessum tíma sem ekki geymir Joshua Tree. Í öðru lagi tvær Pixies plötur! Þetta er svo sannarlega tónlistarsagan eins og ég sé hana fyrir mér. Ég þekki ekki rappplöturnar tvær en efast ekki um að þær séu snilld... á bara eftir að gefa mig að þeim. Og Daydream Nation á toppnum! Svona á sko að slá um sig með tónlist!

Næsti áratugur (1990-1999)

1. Ok Computer - Radiohead
2. Loveless - My Bloody Valentine
3. The Soft Bulletin - the Flaming Lips
4. Neutral Milk Hotel - In the Aeroplane Over the Sea

Þarna var ég svo gjörsamlega sammála að ég nánast missti mig. Það hefði verið freistandi fyrir framsækinn lista eins og Pitchforkmedia að líta fram hjá Radiohead-plötunni, af því hún hefur verið mikið í útvarpinu, en þeir gera það ekki. Þeir eru einfaldlega ekki of uppteknir af sjálfum sér til að segja sannleikann: Ok Computer er einhver ótrúlegasta plata sem nokkurn tímann hefur komið út. Svo kemur Loveless strax í kjölfarið - önnur fullkomnun, en á mikið afmarkaðri hátt. Soft Bulletin er líka óaðfinnanleg plata. Ég einfaldlega varð að kynna mér plötuna í fjórða sætinu undir eins og var ekki lengi að falla fyrir henni. Þar er um að ræða mjög ólíklega samsuðu af tónlist sem gengur ótrúlega vel upp. Næstu plötur voru svo sem ekkert slor heldur: Tvær með Pavement, ein með DJ Shadow, Bonnie Prince Billie, Guided By Voices og svo auðvitað risaplatan með Nirvana (sem ég hreifst reyndar aldrei almennilega af).

Þegar þetta er allt tekið saman, eftir að hafa skimað yfir heildarlistana, sér maður að Pitchforkmedia leitar markvisst að skapandi og frumlegri tónlist en er ekki of uppskrúfuð til að líta fram hjá augljósri snilld sem nær til fjöldans heldur. Listamannasamfélagið sem hringaði sig um New York og Berlín á sínum tíma (Lou Reed, Brian Eno, David Bowie og David Byrne úr Talking Heads) fá veglegan sess í þessari umfjöllun. Það er mér mjög að skapi. Líka er gaman að benda á það að hún Björk fær þrjár plötur inn á þessa lista og Sigur Rós eina. Getum við annað en tekið mark á því?

Nú vantar enn þá yfirlit yfir síðustu tíu ár sem og sjötta áratuginn (1960-1969). Þetta er hins vegar hreint út sagt magnaður gagnabanki til að grúska í á næstunni. Þrjú hundruðu plötur frá 1970-1999 auk styttri lista yfir fyrri hluta þessa áratugar (2000-2004) og lista yfir bestu lög sjötta áratugarins og þess sjöunda (með tóndæmum). Ekki má heldur gleyma árslistum síðustu ára, eitt ár í einu. Þar sem ég þekki allra nýjustu tónlistina tiltölulega lítið (samanborið við eldri tímabil) get ég ekki annað en tekið áskoruninni fegins hendi á meðan ég hneigi mig fyrir Pitchforkmeida.

Daglegt líf: Breytingar haustsins

Vetrarstarfið er gengið í garð. Vigdís byrjaði að vinna í vikunni eftir drjúgt sumarfrí. Sú aðkoma var kannski ekki þægileg í ljósi niðurskurðar í heilbrigðiskerfinu og þess uppnáms sem því fylgir. Hún skynjaði vanlíðan margra á sínum fyrsta vinnudegi. Það má segja að ég sigli lygnan sjó í samanburði. Vinnan mín er í sömu skorðum og í fyrra. Reyndar finnur maður hvernig þrengir að með óbeinum hætti. Buglið er undir þeirri pressu frá yfirvöldum að koma fleiri börnum í gegnum greiningu á skemmri tíma. Það þýðir fyrir okkur í skólanum að við höfum ívið styttri tíma til að vinna með hvern nemanda (4-6 vikur nú í stað 6-8 áður). Þetta finnst okkur miður og bitnar að einhverju leyti á faglegri vinnu okkar, en það má líka líta á þetta sem jákvæða pressu. Sjálfur finn ég fyrir því hvernig frítími minn í vinnunni (sem nýtist til undirbúnings fyrir næsta kennsludag) er minni ár frá ári.

Sú breyting á högum fjölskyldumeðlima sem er jákvæðust hlýtur að vera Hugrúnar og Signýjar. Þær eru báðar að færast upp um deild í leikskólanum. Hugrún er nú komin á Miðbæ (úr Norðurbæ) og Signý er komin í Suðurbæ. Þetta gekk áreynslulaust fyrir sig hjá þeim báðum. Hugrún tók þessu með stóískri ró, enda vön Miðbænum frá Signýju, en Signý var hins vegar mjög spennt og full tilhlökkunar eftir því að byrja á Suðurbæ. Þessi breyting hjá systrunum gekk í garð samtímis þannig að Hugrún fékk bara snagann hennar Signýjar (voða þægilegt fyrir okkur foreldrana). Þegar við vorum búin að skila Hugrúnu af okkur á Miðbæ gat Signý ekki beðið eftir að byrja á Suðurbæ og hljóp á undan mér á sína deild. Þar hefur hún unað sér vel alla vikuna. Þetta er gaman að sjá og vonandi til vitnis um metnað hennar, enda hefur hún oft útskýrt það fyrir okkur að undanförnu að hún ætli í Melaskóla þegar hún er búin með leikskólann.