laugardagur, júlí 31, 2004

Tónlist: Coldplay Live 2003. DVD.

Rétt fyrir svefninn drógum við Vigdís fram DVD-disk sem ég hafði nýlega fengið að láni. Tónleikarnir voru flottir, vel spilaðir, myndatakan og hljóð til fyrirmyndar og klippingar vel til þess fallnar að draga mann nær upplifuninni á staðnum. Mæli með diskinum fyrir þá sem yfirleitt hlusta á þessa tónlist. Ágætis heimildarmynd um tónleikaferðalagið sjálft fylgdi með á diskunum. Með henni sá maður tónleikana í stærra samhengi. Annað aukaefni fannst mér hins vegar enn athyglisverðara. Boðið var upp á nokkur sérvalin lög af tónleikunum frá "öðru sjónarhorni". Það fannst mér frábær pæling. Eitt laganna var sýnt aftan frá. Annað var sýnt með fjórum samtímis "close-up" myndum af hljóðfæraleikurunum. Spáið í þetta: Hægt væri með þessari tækni að búa til hreina og klára "endurupplifun" þeirra sem voru á staðnum með því að bjóða þeim upp á að smella á þann stað í salnum þar sem þeir voru staðsettir.

Upplifun: Inversk stemning

Í matarboðinu í gærkvöldi náðist upp austurlensk stemning. Með pakistönsku matarlyktinni hljómaði indversk tónlist úr ýmsum áttum og myndaði seiðandi bakgrunn. Að mat loknum tók ég fram sérstök kóreysk teglös sem ég fékk að gjöf nýverið og voru þau vígð farsællega við þessar aðstæður. Hellt var upp á japanskt "leðurte" eins og ég kalla það (með þéttum og mögnuðum beiskum keim). Bragðið er ekki fyrir hvern sem er en virtist þó falla í ágætan farveg, enda var ekki laust við að það nánast svifi á mann eftir matinn. Eina sem ég hefði viljað bæta við var reykelsi sem oft logar hér í íbúðinni en kannski hefði því verið ofaukið. Jón og Margrét voru að minnsta kosti mjög sátt við matinn og borðuðum við öll af bestu lyst.

Matur: Uppskrift. Pakistanskur grænmetispottréttur

Í gær var mikill uppáhaldsréttur okkar Vigdísar á boðstólum er Jón Már og Margrét kíktu í kvöldmat. Pakistanskur matur er mjög skyldur indverskum mat þannig að matseldin er á kunnuglegum slóðum (indverskt grænmetisfæði fellur líklega undir sérsvið mitt í matargerð). Svona gerum við:

1. Laukur hitaður í olíu (2-3 msk. ólifuolía og 1 stór laukur, smátt skorinn). Laukurinn glæraður í um 1-2 mínútur.

2. Hvítlauk og engifer bætt út í (2 rif af hvítlauk og ein lófastór engiferrót, fersk, fínt söxuð). Mallar í 1-2 mínútur í viðbót.

3. Kryddað (1 msk karrí, 1 tsk. chilipipar, 1 tsk. salt, 1 tsk. cumminduft, 1 tsk. kóríanderduft, 1 tsk kardimommuduft). Mallar áfram í 2 mínútur.

4. Kókosmjólk (3 dl. eða ein dós) bætt úr í. Lok sett á pottinn. Látið malla í um 5 mínútur. Hræra öðru hvoru svo rétturinn brenni ekki við.

5. Grænmetinu bætt úr í (3 stk. gulrætur í þunnum sneiðum, 3 stk. smátt skornar kartöflur, 1/2 blómkálshöfuð í smáum bitum, 250g af "frosnum" (en þiðnuðum) grænum baunum). Hræra vel í um eina mínútu. Loka svo pottinum og sjóða í um 10 mínútur eða þar til grænmetið er orðið meyrt.

6. Lokahönd: Strá ferskum kóríanderlaufum yfir (ca. hálfu búnti).

Borið fram með hrísgrjónum, fersku grænmeti (tómötum, gúrkum), kotasælu ásamt Nan-brauði sem fæst í flestum matvörubúðum. Meðlætið skal óspart nota til að tempra matinn ef hann skyldi vera mjög bragðsterkur. Mælt er með vatni með þessum mat eða svalandi mjólkurdrykk á borð við hinn indverska Lassi.






föstudagur, júlí 30, 2004

Matur: Uppskrift. Fríkkað upp á kalda pastaklessu

Í vinnunni um daginn benti einn íbúanna svangur á kalt samanklesst pasta frá deginum áður. Hveitiklumpurinn var í fljótu bragði óárennilegur en eftir að ég skildi sundur nokkrar einingar af minni klumpum virtist mögulegt að búa til sæmilegt æti úr þessu. Fyrst stráði ég hvítlaukssalti yfir (ekta hvítlaukur hefði líka verið góður) og lét nokkrar skeiðar af rjómaosti yfir. Þetta fór inn i örbylgjuna. Heitt gumsið var því næst hægt að hræra í sundur og gera nokkuð girnilegt. Þá bættist köld kotasæla og smátt skornir bitar af agúrku. Þá vantaði ekkert nema salt og pipar. Ég lét það reyndar eiga sig því í eldhúsinu fundust cashew-hnetur (sem eru nokkuð saltar) og sáldraði yfir. Þar með var verkinu lokið og ég fann mig knúinn til þess að smakka áður enn skálin var étin með bestu lyst.

Fréttnæmt: Verslunarmannahelgin

Aftur kenni ég vinnutörn um nokkurra daga þögn. Nú er ég búinn að vinna samfellt í tæpar tvær vikur og fagna mjög þriggja daga hvíld, frá föstudegi til og með sunnudegi. Hvíld þessa helgina þýðir að ég held mig í Reykjavík og nýt þess að hlusta á regndropana hrökkva af harðgeru húsinu. Tjaldferð höfðar ekki til mín núna og allra síst innan um mannþröngina og lætin úti á landi.

Við Vigdís ætlum að hafa það notalegt, enda bæði í fríi þessa helgina. Bjóðum Jóni Má og Margréti kærustu hans í mat í kvöld. Við ætlum að bjóða upp á einn af uppáhaldsréttum okkar Vigdísar sem er Pakistanskur grænmetispottréttur. Daginn eftir er líklegt að Kristján og Stella (sem eru á leið til Danmerkur í miðjum ágúst) hafi eitthvað á prjónunum ásamt vinafólki okkar Einari og Sólveigu. Ekki er neitt ákveðið enn þá en ýmsar hugmyndir í gangi og fara þær að einhverju leyti eftir veðri.

Annars hef ég ekki verið alveg iðjulaus milli vinnutarna. Meðal annars að umstafla dóti hjá nýfluttri Beggu systur minni. Við ákváðum að allt dótið færi best í gegnsæjum plastkössum sem raðast saman hver ofan á annan með stærðfræðilegri nákvæmni. Mig langaði nánast að ráðast á geymsluna mína í kjölfarið því þetta kemur óhemju snyrtilega út í samanburði við brúnu pappakassana. Ég læt mér hins vegar nægja um sinn að setja upp litla snaga á kommóðuna sem geymir græjurnar mínar. Þeir eru ætlaðir heyrartólum sem ég á nokkur eintök af í ýmsum stærðum. Þetta á eftir að koma vel út.

mánudagur, júlí 26, 2004

Tónlist: Bunkinn. Come, Miles, Codeine, Radiohead...

Heima hjá mér eiga geisladiskarnir það til að safnast í bunka við græjurnar. Þetta á einkum við um þá diska sem kalla á frekari hlustun. Eftir nokkrar vikur sit ég því uppi með frágangsbunka. Þegar ég gaumgæfi hann rifjast tímabilið sem er að baki upp að einhverju leyti. Nú horfi ég á einn slíkan sem bakgrunn síðustu vikna:

Lhasa: The Living Road
Damien Rice: "O"
Come: Eleven: Eleven
Come: Don´t Ask, Don´t Tell
Miles Davis: In a Silent Way
John Coltrane: A Love Supreme
Codeine: Barely Real
Codeine: Frigid Stars
Calexico: The Black Light
Radiohead: Hail to the Thief
Radiohead: Amnesiac
Band of Holy Joy: Positively Spooked

Matur: Uppgötvun. Vanilluís út í jógúrtskálina.

Í morgun langaði mig ógeðslega mikið í vanilluís en þurfti samt helst að fá mér staðgóðan morgunmat. Lausnin var náttúrulega sú að blanda þessu tvennu saman. Með nokkrum skeiðum af vanilluís bragðast jógúrt ótrúlega vel. Þetta er svona svipað og með klaka út í gos. Ísinn kemur í báðum tilvikum með óvæntan ferskleika. Lykillinn er náttúrulega sá í þessu tilviki að vanilluís er hrein mjólkurafurð og mjög skyld jógúrtinu (bara miklu kaldari).

Upplifun: Tónlistarkvöld. Klassískir tenórar.

Á föstudagskvöldið var fór ég á svokallað "tónlistarkvöld" ásamt tveimur vinnufélögum. Þetta hefð sem hefur myndast meðal "strákanna" á vinnustaðnum, hálfgerður "karlaklúbbur" sem gengur út á að húsráðandinn hverju sinni renni tónlistarlegu þema í gegn á meðan við skröfum um eitt og annað í afslöppuðu tómi. Í þetta skiptið var Árni (sem er söngnemi með meiru) og Ásthildur kærastan hans gestgjafarnir. Árni leyfði okkur Halldóri (sem hefur gítarmenntun sem tónlistarlegan bakgrunn) að heyra í hinum og þessum klassísku tenórum. Við gæddum okkur á einkar myndarlegu hlaðborði veitinga ásamt eðal rauðvíni. Ásthildur hafði áður fyrr unnið sem þjónn og kom sú reynsla fagmannlega við sögu þar sem hún birtist öðru hvoru og skenkti í glösin en sinnti öðrum hlutum í næsta herbergi þess á milli. Það var frábært að opna eyrun fyrir frábærum söng Gigli, Pavarotti, Björling, Carreras og fleiri söngvurum, sérstaklega í þessu samhengi. Rauðvínið blandaðist söngnum sérstaklega vel (eins og það væru hreinir skyldleikar á milli) og þar sem íbúðin var staðsett á hjara veraldar (á Álftanesi) myndaðist eftirminnileg stemning.

Fréttnæmt: Annir og mubluskipti

Undanfarna daga hafa fá tækifæri gefist til skrifta. Ég hef verið að vinna mikið í Vættaborgum (sambýlinu) og bókað kvöldin í einhvern selskap þess á milli. Svo hafa ýmsar aðrar reddingar tekið tíma. Til dæmis skiptum við Vigdís út rúminu mínu fyrir rúmið hennnar (ég lánaði rúmið mitt í vinahús, því ég tímdi ekki að farga því, og við innheimtum hennar rúm þaðan sem það var í biðstöðu í móðurhúsi). Í leiðinni náðum við í massíf sólartjöld úr gamla svefnherberginu hennar sem búa til eftirsóknarvert myrkur inni í svefnherbergi. Nætursvefninn hefur dýpkað tilfinnanlega í kjölfarið. Einnig tók ég mig til um daginn og skipti tölvuborðinu mínu út (og lánaði Beggu systur minni) en setti þess í stað saman uppáhaldstölvuborðið mitt sem lengi hefur legið ónotað í geymslu. Það er öllu fyrirferðarmeira en hitt borðið, en kemur betur út en ég þorði að vona. Ég held mikið upp á þetta borð. Reyndar keypti ég það á sínum tíma vegna þess að ég heillaðist af hönnuninni og varð eiginlega að eignast það. En það er önnur saga.

miðvikudagur, júlí 21, 2004

Upplifun: Myrkrið nálgast

Ég var á ferðinni á bílnum seint í gærkvöldi á fyrsta þungbúna kvöldinu í kjölfar sólríkra daga. Ég uppgötvaði skyndilega að allt í kring var þétt og mikið rökkur. Stefnuljósin skinu skært. Þetta var í raun hrífandi á sinn einfalda hátt. Það er ljóst að nú stefnir aftur í skammdegið, með viðkomu í hálfrökkri águstmánaðar. Sá mánuður á alltaf sterk ítök í mér.

Matur: Uppskrift. Túnfiskréttur á pönnu með Cashew-hnetum.

Um daginn bjó ég til geggjaðan rétt á pönnu. Túnfiskur er aðalhráefnið en blandast grjónum, Cashew-hnetum og grænmeti ásamt Soya-sósu. Sósan, hneturnar og túnfiskurinn blandast undravel saman.

1. Grænmeti hreinsað og skorið. 100-200g. strengjabaunir (endarnir skornir af), 2 rauðar paprikur og 4 vorlaukar (eða 1 blaðlaukur).
2. Matarolía (4 msk.) hituð á pönnu og ofangreint grænmeti látið malla (4-5 mín).
3. Túnfiski bætt við (3 dósir eða 400g fisks, án vökva).
4. Kryddað. Soyasósa (4 msk.), salt og pipar.
5. Cashew-hnetum dreft yfir (150-200 g.)

Þetta er borið fram með hrísgrjónum, soya-sósu í stauk og fínt að hafa ferskt grænmeti með (tómata eða kínakál í strimlum).

Uppskriftin segir að túnfiskurinn þurfi að vera í vatni (en ekki olíu) ef það skiptir nokkru máli í raun.

(Upprunalega uppskrift má finna í uppskrifamöppunni frá Vöku-Helgafelli "Nýir eftirlætisréttir" í sjávarréttaflokki)

þriðjudagur, júlí 20, 2004

Upplifun: Fuglaskoðun í Elliðaárdal.

Ég skellti mér í fuglaskoðun eftir kvöldmatinn nokkuð óvænt. Jón Már vinur minn hringdi í mig og tók ég hugmynd hans fagnandi um kvöldrölt innan um trén, plönturnar og þá fáeinu fugla sem kynnu að láta sjá sig. Slíkt uppbrot í borgarlífinu er alltaf kærkomið. Ferðin var reyndar auglýst af Orkuveitunni og komu allmargir á staðinn. Líklega yfir 30 manns. Að einhverju leyti stuðlaði fjöldi skoðara að varfærni fuglanna í skóginum því ekki sáum við allt sem á stefnuskránni var að berja (með augunum). Svartþröstur lét á sér kræla á steini, Auðnutittlingar sveimuðu yfir með bylgjóttu fluglagi og Skúfendur sáust kafa hver í kapp við aðra þaðan sem við enduðum göngu okkar á stiflunni. Á leiðinni til baka reyndum við sérstaklega að koma auga á Glókoll, hinn nýja landnema, en aðeins heyrðist hvellt tístið í fjarska. Stofninn sveiflast víst með Sitka-lúsinni og var hann mjög útbreiddur í fyrrasumar í kjölfar faraldar lúsarinnar veturinn 2002-3. Í ár er víst mun minna af honum. En þarna er fuglinn samt svo ekki er um að villast. Ég mun að líkindum skima um eftir honum á ný í sumar, fetandi þá slóð sem við fórum í dag.

Fréttnæmt: Bíllinn kominn í lag.

Nú er skrjóðurinn farinn að skrölta á ný. Reyndar eru þetta öfugmæli því bíllinn er óhemju hljóðlátur eftir vel heppnaða viðgerð. Það vantaði víst aðeins þéttingu (á einhverjum stað sem ég kann ekki að nefna). Lítilræði miðað við þá ógn að þurfa að skipta um gírkassa. Er ég ók bílnum heim fannst mér undarlegt að heyra ekki skrölta í gírkassanum eða finna nart í stönginni. Hann líður áfram eins og fjöður á lofti. Þetta er frábær endurnýjun lífdaga hjá bíl sem virtist ætla að verða leiðinlegur og í leiðinni talsverður léttir.

mánudagur, júlí 19, 2004

Tónlist: Kaup. Tímamótadjass á tilboði.

Ég ráfaði í Hagkaup um helgina og þefaði uppi sérstakt tilboð á geisladiskum þar. Lengi hafa fínir diskar fengist þar á um þúsundkall en núna hriplak verðið niður í 699, 499 og jafnvel 299. Svo vildi til að þeir diskar sem ég hafði augastað á voru settir á þetta lægsta verð og naut ég góðs af því að hafa smekk á skjön við fjöldann (og var það ekki í fyrsta skipti). Þarna fann ég sem sé algjöra tímamótadiska í djassheiminum, Miles Davis (In a Silent Way) og John Coltrane (A Love Supreme). Ég hef lengi velt því fyrir mér hvernig þessir diskar hljóma enda heyrt mikið talað um þá í gegnum tíðina. Til að útvatna ekki innkaupin ákvað ég að standast aðrar freistingar, á annars góðum markaði.

föstudagur, júlí 16, 2004

Matur: Karrítómatsúpa með ferskjum

Í kvöld lagaði ég áhugaverða súpu, mjög sumarlega súpu. Hún samanstóð af lauk, hvítlauk, tómat (úr dós), ferskjum (úr dós) og rjóma ásamt rækjum, kryddað með karrí og súputeningi. Bragðið var ljómandi gott en þar sem súpan fór eitthvað skringilega í magann læt ég það vera að skrifa uppskriftina að þessu sinni. Ég ætla að hafa það til siðs hér í blogginu að útlista nákvæmlega einungis þær uppskriftir sem mig langar að halda upp á, og þar sem maginn hefur úrskurðarvaldið er ég ekki viss um þessi áhugaverða súpa eigi upp á pallborðið aftur. Flott súpa samt.

Pæling: Hjólandi leiðsögn um bæinn

Nýverið heyrði ég sagt í einum fjölmiðlinum að hann væri í heimsklassa þessi hjólastígur sem liggur frá miðbænum, meðfram Ægissíðu að Ylströndinni, gegnum Fossvogsdalinn og þaðan inn í Elliðaárdalinn. Eftir því sem ég sjálfur hjóla þessa leið oftar sannfærist ég betur um þessa skoðun. Lítið þarf að sækja á brattann alla leiðina auk þess sem friðsæl íbúðarhverfi og náttúran skiptast á um að umlykja mann. Í dag hjólaði ég hins vegar sem leið lá úr vinnunni (sem er í Grafarvoginum) gegnum Bryggjuhverfið og þaðan inn í Laugardalinn, með viðkomu í Geirsnefi, gegnum miðbæinn og heim (í Vesturbæinn). Á þessari heimleið minni áttaði ég mig á því að með þessu lokaði ég "hringnum" sem áður var getið. Þvílíkur hringur! Væri ekki tilvalið að kynna útlendingum þessa leið betur? Til dæmis með því að bjóða upp á leiðsagnartúra á hjóli. Stofnkostnaður yrði lítill sem enginn. Á skiltinu stæði: Steini the cycling guide. Og ef rignir eða blæs of mikið má bjóða upp á gönguferðir um miðbæinn í staðinn, mænandi á sögulegan arkítektúr eða eitthvað praktískara (the walking guide) eða bara strætóferðir með leiðsögn um allan bæinn og úthverfin með. Reyndar myndi vefjast fyrir ferðamönnum ef maður kallaði sig "the bus guide".

þriðjudagur, júlí 13, 2004

Matur: Uppgötvun. Döðlur í grjónagrautinn!

Ég stóð sjálfan mig að því að hita grjónagraut í hádeginu án þess að hafa rúsínur tiltækar. Ég er mikið fyrir sætindi af þessu tagi og prófaði því að skera niður döðlur í svipaða bita, og viti menn, það var bara betra! Það er eins og bera saman hvítan sykur og púðursykur. Döðlurnar bráðna meira í munni og eru ekki eins væmnar og rúsínurnar. Kannski er hér komin lausnin fyrir þá sem ekki vilja rúsínur í grautinn sinn?

Fréttnæmt: Samgöngustíll sumarsins

Um daginn fór bíllinn sem ég hef afnot af að láta illa. Hann ýlfraði í gírkassanum við hverja gírskiptingu. Hann er því í "salti" um stund og bíður yfirhalningar á verkstæði. Að sjálfsögðu er þetta kærkomið tækifæri til að taka fram reiðhjólið mitt góða sem ég hef ferðast mikið á gegnum tíðina. Í leiðinni keypti ég mér rauða kortið. Það er nefnilega frábær ferðamáti að hjóla innanhverfis og vippa sér með hjólið upp í strætisvagn milli hverfa og hjóla svo beina leið á áfangastað innan næsta hverfis (frekar en að hringsóla með vagninum áfram). Í gær lét ég til skarar skríða og hjólaði niður í miðbæ, tók strætó niður í Hafnarfjörð og hjólaði þar innanbæjar. Leið eins og útlendingi, nýlentnum í framandi bæ. Virkilega eins og útlendingi, enda frjáls eins og vindurinn. "Vagn og hjól" hefðu Flugleiðir eflaust kallað það hér um árið. Hjá bíl-leiðum heitir það vagn og hjól. Kjörinn samgöngustíll í borgarlandslaginu.

Tónlist: Uppgötvun. Calexico: The Black Light

Ég tók mig til og hlustaði á disk sem ég hef átt í ein fjögur til fimm ár og aldrei gefið neinn séns hingað til því hann lætur svo lítið yfir sér. Tilefnið var tiltekt í safninum mínu því reglulega grisja ég og losa mig við diska. Ég var sem sé að spá í að losa mig við diskinn með "Alt.country"-sveitinni Calexico: The Black Light. Við nána hlustun heillaði hann mig hins vegar, sérstaklega þessa skýtna samsuða sem minnti mig helst á Morricone (spagettívestrarnir), Ry Cooder (slidegítarleikari sléttunnar) og Tindersticks í sígaunaklæðum. Gengur fullkomlega upp, full af áhugaverðum og lifandi blæbrigðum. Hlakka til að hlusta á hana aftur.

sunnudagur, júlí 11, 2004

Matur: Uppskrift. Rækjuréttur með hrísgrjónum.

Í kvöld löguðum við Vigdís huggulegan mat saman: Kryddrækjur með hrísgrjónum. Þetta er léttur smáréttur eða gott sem forréttur.

1. Laukur (1 stk.) og hvítlaukur (4 rif) saxað og mýkt á pönnu (2msk ólífuolía auk 2msk af smjöri)
2. Rækjum (500g) bætt við og látið malla í um mínútu.
3. Kryddað (1/2 tsk Cayenne, 1/2 tsk svartur pipar, 1/4 tsk salt og nokkrir dropar tabascosósa). Hita áfram í 1-2 mín.

Þetta er borið fram með soðnum hrísgrjónum (ofan á þeim) ásamt ristuðu og vel smurðu brauði ásamt vatni.

Matseldin tók okkur um 15 mínútur eftir að rækjurnar höfðu þiðnað. Reyndar minnkuðum við uppskriftina, keyptum rúm 300g af rækjum og miðuðum við það. Það var passlegt sem þægileg kvöldmáltið fyrir tvo. Ís með heitri súkkulaðibráð og ferskum jarðaberjum fylgdi í eftirrétt. Bætti upp lélega sjónvarpsdagskrá og vel það.

(Upprunalega uppskrift má finna í uppskrifamöppunni frá Vöku-Helgafelli "Nýir eftirlætisréttir" í sjávarréttaflokki)

Upplifun: Uppákoma á Vegamótum

Ég fór í bæinn í gær ásamt Vigdísi að hitta ýmsa gamla kunningja. Er við vorum búin að sitja dágóða stund á Vegamótum kom barþjónninn að okkur og bað um kertið sem stóð á borðinu í myndarlegums stjaka. Í stað þess að endurnýja kertið fjarlægði hann stjakann með öllu. Það var engu líkara en hann treysti ekki galsanum í hópnum kringum logann. Nokkru síðar kom annar þjónn og fjarlægði stóra mynd í ramma af veggnum fyrir ofan okkur. Ég leit á klukkuna (sem var um hálf tólf) og þurfti að fullvissa mig um að það væri ábyggilega laugardagur, að það væri ekki verið að loka. Þá sagði einhver að nú væri verið að breyta kaffihúsinu í skemmtistað! Þetta kannast ég ekki við að hafa upplifað á öðrum stöðum. Ætli fleiri kaffihús/skemmtistaðir gangi í gegnum svona andlitslyftingu á miðnætti?

laugardagur, júlí 10, 2004

Netið: Fréttavefur af bestu gerð

Til að hamra á hugmyndinni um efnisskiptar færslur mun ég færa inn öðru hvoru stuttlega umfjöllun um vefi sem vekja athygli mína og varðveita tenginguna með því móti. Eitt skemmtilegasta fréttablað sem ég fletti er Independent og er vefurinn þeirra mjög vel heppnaður. Efnisflokkarnir eru mjög skýrir og aðgengilegir. Fréttaflutningurinn blessunarlegar lausir við æsifréttamennsku. Þetta verður því fyrsta færslan í netflokknum: http://www.independent.co.uk/

Fréttnæmt: Uppfærsla. Breytingar á blogginu.

Bloggfærslurnar mínar koma til með að breytast á næstunni. Eins og sjá má hef ég ekki verið iðinn við að skrifa og mun það að líkindum breytast á næstunni. Einnig hefur útlitið tekið breytingum. Blátt hefur alltaf verið í uppáhaldi hjá mér. Að lokum vil ég benda á þau nýmæli að í upphafi hverrar færslu tek ég fram þemað sem færslan fellur undir. Þegar fram í sækir ætla ég að flokka þessi þemu en fyrs um sinn mun þetta einungis nýtast sem snöggsoðin lýsing á innihaldi póstsins. Að mestu útskýrir þetta sig sjálft en fljótlega kemur nánari útskýring.

Steini