mánudagur, nóvember 28, 2011

Orðaleikur: Jólakveðja

Í stuttri heimsókn um daginn hjá ömmu Sirry (tengdó) nutum við Hugrún og Signý veitinga, eins og venja er á þeim bæ. Vigdís var á námskeiði á sama tíma og því fjarri góðu gamni. Á leiðinni út ætlaði Sirrý að kveðja stelpurnar og ég lagði áherslu á það við þær að kveðja hana nú almennilega. Stundum nota ég orðalagið að "knúsa í klessu" en ákvað að grípa ekki til þess núna. Í staðinn sagði ég bara: "knúsið hana þangað til hún segir æ-æ og ó-ó!" Það vottaði fyrir stríðni í þessari tillögu. Hugrúnu fannst þetta greinlega skemmtileg hugmynd en misskildi hana eitthvað og hefur eflaust haldið að þetta ætti að vera jólakveðja því hún sagði strax við ömmu sína þegar hún greip utan um hana: "Ég ætla að knúsa þig hæ-hæ og hó-hó!"

Upplifun: Aftur í sjónvarpinu

Nú gerðist það aftur um helgina að fjölskyldan í Granskjóli 11 birtist á skjám landsmanna, í þetta skiptið í boði Stöðvar tvö. Við fórum fjögur í sund á föstudegi, eins og við höfum gert undanfarnar vikur, en í stað þess að fara í Neslaugina (sem oftast hefur orðið fyrir valinu á föstudögum) ákváðum við að fara í Vesturbæjarlaug. Tilefnið var stórafmæli - enda 50 ár frá vígslu laugarinnar. Við sáum í hendi okkar afslappaða laugarferð, mættum snemma, á undan veislunni og ætluðum okkur að koma upp úr lauginni á tilsettum tíma og enda dvölina með kaffi og kökum. Sú varð raunin en í kaupbæti fengum við að auki fréttamenn í heimsókn. Hugrún hét hún, fréttakonan á Stöð tvö, sem súmmaði upp að sællegu fjölskyldunni í barnapottinum eftir að hafa hringsólað kringum laugina drjúga stund og tekið ýmsa tali. Viðtalið var ábyggilega tvær mínútur með Vigdísi og Hugrúnu í aðalhlutverkum. Það sem á endanum rataði í sjónvarpið var hins vegar ekki meira en örfáar sekúndur. Vigdís var fegin að hafa verið klippt út en ég var henni ekki sammála. Viðtalsbúturinn við hana var prýðilegur og hefði vel sómt sér á skjám landsmanna. Hugrún fékk hins vegar athyglina og það jafnaði að einhverju leyti út minninguna um að hafa misst af hárgreiðslunámskeiðinu fyrr í haust þegar Signý varð pínu fræg :-)

mánudagur, nóvember 21, 2011

Fréttnæmt: Jarðarför innan stórfjölskyldunnar

Nú um helgina fórum við i fjölskyldunni í jarðarför. Vigdis var að missa ömmu sína og alnöfnu, Vigdísi Einarsdóttur. Þetta var friðsæl athöfn og virðuleg enda var Vigdís eldri komin á tíræðisaldur og sjálf tilbúin að fara. Athöfnin var henni líka sæmandi að því leyti að hún bar sig ávallt vel og kvartaði aldrei. Hún hafði húmor fyrir sjálfri sér en bar hins vegar mikla virðingu fyrir öllu í kringum sig. Hún lifði með mikilli reisn fram á síðustu stundu.

Signý og Hugrún fóru með okkur Vigdísi í jarðarförina. Venjulega hefði það ekki komið til greina en þar sem um friðsæla kveðjustund var að ræða þótti okkur skynsamlegt að leyfa þeim að upplifa þessa hlið lífsins. Þær þekktu Vigdísi eldri ágætlega, voru reyndar alltaf pínu feimnar við hana af því hún var orðin svo gömul, en eiga samt góðar minningar tengdar henni. Við ræddum við þær kvöldið fyrir og fundum að þær voru tilbúnar. Þær komust ekkert í uppnám en urðu svolítið hugsi. Daginn eftir vöknuðu þær og voru greinilega tilbúnar: "Í dag setjum við langömmu í jörðina" sögðu þær og fóru yfirvegað og rólega á fætur. Þær fengu að vera heima í rólegheitum (í stað skóla og leikskóla) enda var jarðarförin rétt upp úr hádegi.

Stelpurnar tóku hlutverk sitt mjög alvarlega og hvísluðu allan tímann í kirkjunni. Ég var hissa á því hvað þær gátu verið rólegar. Þær þurftu að hreyfa sig öðru hvoru og fóru til skiptis í fangið á mér (Vigdís sat annars staðar af þvi hún var kistuberi). Þær fylgdust náið með söngtextunum þegar ég renndi fingri undir orðin enda eru báðar á fullu að læra að lesa. Þess á milli skimuðu þær um kirkjuna, fengu mig til að lyfta sér aðeins til að sjá betur glitta í kistuna og kíktu svo reglulega upp á söngvara og organistann. Þær eiga eflaust eftir að muna eftir þessu alla sína tíð.

Athöfninni lauk þannig að Ásdís gekk í fylkingarbrjósti á undan kistuberum með blómsveiginn út kirkuna - með Signýju og Hugrúnu sér við hlið. Ásdís er ólétt og kom því ekki til greina sem kistuberi en það var mat manna að þetta hafi komið einstaklega fallega út. Kynslóðir koma og kynslóðir fara.

þriðjudagur, nóvember 15, 2011

Upplifun: Gulrótasöludömur

Veðrið er búið að vera ótrúlegt að undanförnu. Það lýsir sér meðal annars í því að matjurtir úr garðinum eru enn í góðu lagi - að minnsta kosti þær harðgerustu, eins og graslaukurinn og gulræturnar. Fyrir rúmlega viku síðan (um helgina 4.-6. nóv.) nýttum við okkur það að eiga enn ferskar gulrætur í garðinum og fórum með þær á markað á Eiðistorgi. Gulræturnar voru eins ferskar og hugsast getur, tíndar upp milli tólf og eitt og komnar á markaðinn rétt fyrir tvö. Ég batt þær saman á "grasinu" í nett búnt til að leggja áherslu á "lífræna ræktun" og þannig seldum við búntin á hundrað krónur stykkið. Stelpurnar nutu þess að vera grænmetissölukonur í einn dag með uppsett hárið í snúð með hárskraut. Við gengum á milli básanna með söluvarninginn okkar í léttum kassa og vorum eins og nammisöludömur á íþróttakappleik, gengum bara á milli og seldum sölufólkinu næringu. Sölubásar voru bæði uppi og niðri og allt um kring. Gulræturnar seldust upp á skömmum tíma (ábyggilega um fimmtán búnt) og flestir höfðu orð á því hvað gulræturnar voru bragðgóðar og söludömurnar ómótstæðilega krúttlegar :-) Signý og Hugrún eignuðust nokkra hundraðkalla hvor og voru fljótar að eyða helmingnum í ís. Restin hringlaði það sem eftir var dagsins í litlum filmuboxum sem ég fann handa þeim. Þær nutu þess að heyra sönginn í peningunum. Fyrstu launin.