laugardagur, október 29, 2005

Netið: Neanderdalsmaðurinn

Vísindavefurinn hefur nú birt svar mitt við spurningunni "Gátu Neanderdalsmenn talað?" í mannfræðiflokknum. Það vill svo til að textinn sem var birtur í Fréttablaðinu á dögunum, um uppruna fingurtáknsins "svívirðilega", er einmitt næsta svar í sama flokki.

mánudagur, október 24, 2005

Pæling: Framfarir í samfélaginu

Í vinnunni vorum við eitthvað að rifja upp hvernig samfélagið var fyrir um tuttugu árum. Bjórbannið var náttúrulega eftirminnilegt (fyrir þá sem höfðu aldur til að svekkja sig á því á sínum tíma) og allt laumuspilið í kringum áfengiskaup. Sá var talinn sérvitur sem eyddi tækifærinu í að kaupa sér rauðvín eða hvítvín. Þetta var í rauninni bara hrátt ribbaldasamfélag þar sem allir tróðu sér áfram, bókstaflega. Ég man það sjálfur hvernig það var að fara í bíó. Þá ruddist fólk í gegnum þvögu til að komast sem fyrst inn í kvikmyndasal. Ég hló þegar það rifjaðist upp með mér að maður ruddist meira að segja inn í strætó! Þetta sést hins vegar ekki lengur. Þeir sem höfðu dvalið um stund í Englandi gerðu athugasemd við það að hér væri engin biðraðamenning. Ég man eftir þessum pælingum (þetta höfðu margir á orði) og ég man eftir af hafa tekið undir það á sínum tíma. En horfum í kringum okkur í dag. Þetta atferli er órafjarri hugsun manns, eins og það hefði aldrei tíðkast. Það er reyndar enn í lagi að troðast ef maður er staddur fremstur manna uppi við tónleikasvið. Við stillum okkur hins vegar þolinmóð upp fyrir framan strætóskýlið, eins og við höfum aldrei kunnað neitt annað, og förum kurteislega í röð við allar miðasölur - kunnum meira að segja að drekka léttvín með matnum. Ég held að þetta hafi bara komið á síðustu 10-15 árum og minnir mann, á þessum frídegi kvenna, að síðasta kynslóð hefur náð býsna langt á mörgum sviðum. Við erum reyndar enn þá sömu sveitadurgarnir og áður þegar kemur að þeirri frjálslegu flóru búkhljóða sem við gefum frá okkur. Það þykir enn eðlilegt að ropa, prumpa, sjúga upp í nefið og ræskja upp úr sér innyflunum á almannafæri. Það þekkist ekki meðal siðaðra þjóða. Það er því spennandi að sjá hvort þessir ósiðir verði litnir hornauga af næstu kynslóð.

föstudagur, október 21, 2005

Tónlist: Snilldar spilagleði

Við Vigdís gerðum okkur dagamun og skelltum okkur í gærkvöldi á tónleika á Rússnesku hátíðinni í Kópavogi. Terem-kvartettinn umtalaði spilaði í Salnum og bauð upp á alls kyns tónlistarkokteila af þjóðlegum og klassískum uppruna, í bland við leiftrandi húmor. Ég hafði heyrt talað um þá árum saman en spunagleðin, hugmyndaflugið og útgeislunin var mun meiri en ég þorði að vona. Þetta er sko sönn tónlist, spiluð af lífi og sál. Þeir eru tilfinningalega mjög djarfir, þora að leika sér með tónlistina og teygja hana á alla kanta - jafnvel taka ráðsett tónverk (eins og frægu fúguna hans Bach) og setja í tuttugu mínútna þjóðlagaútgáfu sem gefur upprunalegu útgáfunni ekkert eftir. Stórkostlegt. Ég set þessa sveit hiklaust á sama stall og Kronos-kvartettinn og the Kings Singers eftir þessa upplifun. Ég klappaði svo duglega að tónleikum loknum að lófarnir þrútnuðu.

fimmtudagur, október 20, 2005

Pæling: Fimm bakhliðar

Krisján tók sig til og "klukkaði mig" um daginn. Þetta er víst eins konar netleikur í keðjubréfaformi þar sem bloggarar skora á nokkra aðila í vinahópnum til að afhjúpa fimm leyndarmál um sjálfa sig. Leyndarmálin þurfa í sjálfu sér ekki að vera feimnismál, bara eitthvað forvitnilegt sem tiltölulega fáir vita. Og nú er komið að mér. Látum okkur sjá:

1. Menn þekkja líklega flestir föðurnafn mitt, sem er afar sjaldgæft (Berghreinsson) en færri vita að ég ber millinafn. Guðni.
2. Mér tókst einu sinni að sigra í skemmtiskokki á Reykjavíkurmaraþoninu. Þetta var bara sjö kílómetra skokk og náungarnir tveir sem voru á undan mér hlupu vitlausa leið. Ég var hálf svekktur yfir því að fá engin verðlaun.
3. Ég er mjög eldhræddur. Kveiki helst ekki á kerti nema ég geti fylgst með því gaumgæfilega. Á sama frumstæða hátt er ég haldinn sprengjufælni. Ég hrekk mjög auðveldlega við hvelli, jafnvel flass úr myndavél, og þoli alls ekki flugelda. Fer helst ekki út úr húsi á gamlárskvöld því mér finnst allar raketturnar stefna beint á mig.
4. Innhverf íhugun veitir mér dýpstsu hvíld sem ég þekki. Hana lærði ég fyrir tæpum fimmtán árum. Hún er stunduð tvisvar á dag, tuttugu mínútur í senn. Ég á það til hins vegar til að gleyma henni vikum, jafnvel mánuðum, saman.
5. Mér finnst best að nota sundgleraugu við að skera lauk.

Ég klukka hér með Bjart Loga og Jóhönnu Ósk. Klukk!

laugardagur, október 15, 2005

Fréttnæmt: Umslagið var opnað í dag

Undanfarnar vikur höfum við haldið aðstandendum okkar í eins konar andlegri gíslingu. Þau hafa iðað í skinninu eftir að fá að vita hvors kyns barnið okkar er. Við ákváðum á sínum tíma að svarið skyldi sett í umslag. Umslagið er nú búið að liggja í skúffu rúma tvo mánuði. Í dag rann hins vegar stóri dagurinn upp.

Við buðum foreldrum mínum og mömmu Vigdísar í heimsókn. Það vildi svo til að þau höfðu aldrei hist. Það hefur auðvitað lengi staðið til að breyta því en röð tilviljana hefur haft sínu fram. Þar með sáum við Vigdís í hendi okkar að þetta einstaka tilefni, opnun umslagsins, væri kannski tilvalið fyrir þau til að hittast í fyrsta skipti. Þau komu því öll mjög spennt, þáðu veitingar og skiptust á sögum og ljósmyndum.

Eftir dágóða dvöl í góðu yfirlæti kom að því að við gátum ekki beðið lengur. Lágvær stemningstónlist í bakgrunni var skrúfuð niður. Við Vigdís settumst hlið við hlið og gægðumst varlega ofan í umslagið og þar stóð: Með kveðju, stúlka (og svo kom svona fallegt stúlkutákn með hring og krossi). Við litum hálf feimnislega á hvort annað og réttum svo umslagið hringinn. Þau reyndu að ráða fram úr svipnum, kímin og spennt, en kíktu að lokum ofan í sjálf.

Með þessu hefst lokaspretturinn hjá okkur Vigdísi. Framhaldið er orðið áþreifanlegra og, umfram allt, persónulegra. Við hlökkum til að taka á móti litlu dóttur okkar eftir tæpa þrjá mánuði.

Vídeó: Hotel Rwanda

Við létum fara vel um okkur heima í gærkvöldi með vídeóspólu og eitthvað til að narta í. Ég fékk að velja spóluna og í ljósi þess að ég er nýbúinn að kynna mér afrísk þjóðarmorð ákvað ég að taka Hotel Rwanda. Sagan minnir óneitanlega á sögu Schindlers í seinni heimsstyrjöldinni, svona í grunninn. Aðalsöguhetjan er með tengsl við ýmsa háttsetta menn beggja megin víglínunnar, telst formlega til þeirra sem að þjóðarmorðinu standa en er hliðhollur fórnarlömbunum og reynir að koma þeim undan. Myndin er góð en er þó langt því frá að vera hnökralaust meistaraverk. Handritið, ýmsar samræður, persónusköpun og tilfinningaleg viðbrögð fólks við hryllingnum í kring virka stundum svolítið ósannfærandi. Myndin er samt geysilega áhrifamikil og segir frá atburðum sem enginn ætti að leiða hjá sér. Ég er ekki frá því að það mætti gera hana að skylduáhorfi í framhaldsskólum landsins. Það er pæling út af fyrir sig: Hvaða myndir kvikmyndasögunnar eru best til þess fallnar að vekja fólk til vitundar um eðli átaka, kúgunar og misréttis í gegnum tíðina? Ég man í fljótu bragði eftir Mississippi Burning þar sem hliðstæð kúgun átti sér stað í suðurríkjum Bandaríkjanna. Ég man hvað ég varð reiður fyrir hönd svartra þegar ég sá hana fyrst.

mánudagur, október 10, 2005

Pæling: Afrísk þjóðarmorð

Í tilefni af óhuggulegri heimildarmynd í sjónvarpinu í kvöld um þjóðarmorðið í Darfur héraði í Súdan tók ég mig til og kynnti mér sögu annars þjóðarmorðs sem átti sér stað nokkrum árum fyrr: slátrunina í Rwanda. Ég fann nokkuð ítarlega grein um sögu Rwanda á hinum frábæra Wikipedia-alfræðibanka. Þar kom fram tölfræðileg staðreynd sem ein og sér náði að stugga verulega við mér. Hún er sú að á þremur mánuðum náðu Hutu-menn að slátra rúmlega níu hundruð þúsund manns (aðallega Tutsi-mönnum en einnig frjálslyndum Hutu-mönnum). Til að skilja þetta almennilega þarf maður að einfalda tölurnar og gera þær áþreifanlegri.

Ef þeir myrtu um það bil 300.000 manns á mánuði þá gerir það tíu þúsund manns á dag! Þetta er eitt skilvirkasta þjóðarmorð sem alþjóðasamfélagið þekkir. Hvað eru margar sekúndur í sólahringnum eiginlega? 3600 sekúndur á klukkutíma sinnum 24 tímar gerir 86.400 sekúndur í sólarhringnum. Morð á átta sekúndna fresti, miðað við að haldið sé áfram sleitulaust dag og nótt. Taki menn sér tíu mínútna hlé jafngildir það "uppsöfnuðum morðkvóta" upp á 75 manns. Tölfræðin segir síðan aðeins hluta sögunnar. Hún lýsir náttúrulega ekki hryllingnum sjálfum og hversu fjölbreytilega fólki hlaut af hafa verið slátrað af mönnum sem voru orðnir tilfinningalega dauðir og þurftu að gera sér eitthvað til skemmtunar inn á milli.

Tónlist: Stafrænn iPod og gamaldags Doors

Undanfarna mánuði hef ég komist upp á lagið með að hlusta á stafræna tónlist í bílnum með hjálp iPodsins sem við Vigdís keyptum á Kanarí í mars. Ég á svona "snúruspólu" sem tengir stafrænar græjur (hvort sem það er geislaspilari eða nútíma iPod), við kassettutækið í bílnum. Vigdís situr venjulega með litlu græjuna í lófanum og stýrir tónlistinni á meðan ég passa mig á umferðinni. Frábær græja. Hljómsveitin Air hefur verið í miklu uppáhaldi hjá okkur enda lifandi og geysilega skapandi stemningstónlist þar á ferð. Allt safnið passar í lófann og meira til. Nýlega hefur þó dregið til tíðinda. Ég skellti venjulegri spólu í tækið með gamalli vínylupptöku tveggja Doors platna (Waiting for the Sun og Morrison Hotel). Eins og iPodinn er nú fínn þá á stafrænn hljómurinn ekki roð í snarkandi, mjúkan hljóminn af vínylnum. Ég á reyndar Doors á geisladiski, allt safnið, en hef aldrei haft gaman af að hlusta á það. Nú veit ég af hverju. Hljómurinn er eitthvað svo hrikalega "dauður" á geisladiskinum. Hljómsveitin samdi vissulega frábær lög en það er ekki síður geggjað að heyra öll blæbrigðin í flutningnum, surgið í röddinni þegar Morrison hvæsir, blautan hljóminn þegar hann slakar á og ólgandi spennuna á milli hljóðfæra. Þetta heyrist ekki á geisladiski. Ég tékkaði sérstaklega á þessu eftir að hafa vart haldið vatni yfir "blautum" hljómnum í bílnum. Steindautt. Lög eins og "The Unknown Soldier", "Spanish Caravan", "Waiting for the Sun" og "Queen of the Highway" hljóma hins vegar eins og magnaður galdraseiður í "analog" (hliðrænum) hljómburði. Munurinn er lygilegur. Ég er að minnsta kosti forfallinn Doors-unnandi þessa dagana, - svona á meðan ég skýst á milli húsa.

fimmtudagur, október 06, 2005

Pæling: Púkadagur framundan

Vigdís er talnaglögg og skoðar gjarnan áhugaverð mynstur í talnaröðum, eins og dagsetningum og símanúmerum. Um daginn vakti hún athygli mína á því að á miðju næsta ári kemur upp dagsetningin 06.06.06. Þrísexan hefur oft verið notuð sem tákn djöfulsins, eins og kunnugt er, svo maður veltir því fyrir sér hvort einhverjir djöfladýrkendur úti í heimi kunni að stefna að fæðingu á þessum ískyggilega degi. Þeir ættu að vera býsna iðnir við kolann þessa dagana því nú eru nákvæmlega níu mánuðir til stefnu. Það fer hver að verða síðastur að leggja inn fyrir einum litlum púka.

laugardagur, október 01, 2005

Lestur: Líffræði. The Evolution of Fatherhood

Eins og lesa má í síðustu færslu er maður búinn að klæða sig upp fyrir næstu mánuði. Þegar barnið stekkur inn í heiminn verður pabbinn mættur í flauelsbuxum til að taka á móti. Eða þannig. En ég keypti líka þennan sama dag litla bók helgaða sama tilgangi. Hún heitir "The Evolution of Fatherhood" og fjallar um það hvernig hinar og þessar dýrategundir sinna feðrahlutverki sínu. Sumar dýrategundir eru svokallaðir "fjarverandi feður" en aðrir sinna afkvæmum sínum stöðugt út alla ævina. Þetta hefur líka breyst svolítið í mannlegu samfélagi gegnum tíðina. Ég vænti þess að "þróunarsaga föðuhlutverksins" komi til með að varpa áhugaverðu ljósi á þetta allt saman. Hún hefur að minnsta kosti fengið frábæra dóma og umsagnir, meðal annars frá Jane Goodall og Elizabeth Marshall Thomas (sem skrifaði eina af mínum uppáhaldsbókum "The Tribe of Tiger"). Spennandi lesning og vonandi uppbyggileg.