mánudagur, október 24, 2005

Pæling: Framfarir í samfélaginu

Í vinnunni vorum við eitthvað að rifja upp hvernig samfélagið var fyrir um tuttugu árum. Bjórbannið var náttúrulega eftirminnilegt (fyrir þá sem höfðu aldur til að svekkja sig á því á sínum tíma) og allt laumuspilið í kringum áfengiskaup. Sá var talinn sérvitur sem eyddi tækifærinu í að kaupa sér rauðvín eða hvítvín. Þetta var í rauninni bara hrátt ribbaldasamfélag þar sem allir tróðu sér áfram, bókstaflega. Ég man það sjálfur hvernig það var að fara í bíó. Þá ruddist fólk í gegnum þvögu til að komast sem fyrst inn í kvikmyndasal. Ég hló þegar það rifjaðist upp með mér að maður ruddist meira að segja inn í strætó! Þetta sést hins vegar ekki lengur. Þeir sem höfðu dvalið um stund í Englandi gerðu athugasemd við það að hér væri engin biðraðamenning. Ég man eftir þessum pælingum (þetta höfðu margir á orði) og ég man eftir af hafa tekið undir það á sínum tíma. En horfum í kringum okkur í dag. Þetta atferli er órafjarri hugsun manns, eins og það hefði aldrei tíðkast. Það er reyndar enn í lagi að troðast ef maður er staddur fremstur manna uppi við tónleikasvið. Við stillum okkur hins vegar þolinmóð upp fyrir framan strætóskýlið, eins og við höfum aldrei kunnað neitt annað, og förum kurteislega í röð við allar miðasölur - kunnum meira að segja að drekka léttvín með matnum. Ég held að þetta hafi bara komið á síðustu 10-15 árum og minnir mann, á þessum frídegi kvenna, að síðasta kynslóð hefur náð býsna langt á mörgum sviðum. Við erum reyndar enn þá sömu sveitadurgarnir og áður þegar kemur að þeirri frjálslegu flóru búkhljóða sem við gefum frá okkur. Það þykir enn eðlilegt að ropa, prumpa, sjúga upp í nefið og ræskja upp úr sér innyflunum á almannafæri. Það þekkist ekki meðal siðaðra þjóða. Það er því spennandi að sjá hvort þessir ósiðir verði litnir hornauga af næstu kynslóð.

Engin ummæli: