þriðjudagur, mars 29, 2011

Daglegt líf: Burt með hárið

Nú er vorið ábyggilega komið. Ég hélt að minnsta kosti upp á tilfinninguna með því að raka af mér hárið um daginn. Ég skildi eftir snyrtilega kiwi-klippingu, eins og það er kallað, þannig að kollurinn er til þess fallinn að grípa rækilega í húfur þessa dagana, svona eins og franskur rennilás. Þetta er búið að vera tilhlökkunarefni síðustu vikurnar. Ég hef satt að segja verið ægilegur ásýndum, úfnari en Beethoven sjálfur. Vikum saman hef ég verið kominn á fremsta hlunn með að grípa í rakvélina en vetrarkuldinn hefur aftrað þeim áformum að undanförnu.

Það var reyndar ekki bara vortilfinningin sem hvatti mig áfram. Á sunnudaginn var sýnd myndin Taxi Driver. Með rakvélinni fagnaði eiginlega bæði vorinu og sýningu þessarar goðsagnakenndu myndar með gjörningnum. Það er eitthvað ofbeldisfullt við það að taka af sér hárið. Minnir mann á fangabúðir eða geðveiki. Mjög frískandi.

fimmtudagur, mars 17, 2011

Þroskaferli: Sögur og orð

Stelpurnar fóru til Beggu systur um helgina og gistu þar aðfaranótt sunnudags. Áður en ég sótti þær á sunnudeginum fór ég með þau Fannar og Guðnýju í sund og mælti mér mót við þau á Hlemmi, þaðan sem við örkuðum í Sundhöllinna. Þau höfðu aldrei farið í hana áður og fannst gaman að upplifa það sem laugin býður sérsaklega upp á: bæði stökkva og kafa.

Á meðan voru þær Signý og Hugrún í góðu yfirlæti. Signý var á fullu í því að semja sögur, sem Begga skrásetti samviskusamlega. Ein þeirra fjallað um Rósalind prinsessu í Melabúðinni sem fann bangsa úti á götu og seldi hann, en síðan reyndist sölumaðurinn eiga bangsann :-) Önnur sagði söguna af boltanum sem fór út á götu og lenti undir bíl þannig að dekkið sprakk!! Það var gaman að lesa þessar sögur á meðan við mauluðum bakkelsi sem ég tók með mér á leiðinni upp eftir. Síðan röltum við yfir til ömmu þeirra og afa (mömmu og pabba) og fengum okkur þar kvöldmat. Um tíma var svolítill galsi í bæði þeim og frændsystkinum þeirra svo við ákváðum að fara í smá keppni. Signý kallaði hátt og skýrt "þangarbindindi" og svo áttu allir að halda aftur af sér þangað til einhver einn tapaði. Þá var byrjað aftur. Hugrún var jafn spennt fyrir þessum leik og vildi stýra honum með systur sinni og hrópaði með henni: "Hrafnabindindi"!

Systurnar fengu dýrindis handsnyrtingu hjá Beggu með mismunandi naglalakki á hverri nögl. Í leikskólanum hafa þær vera mjög ánægðar með sig það sem af er vikunni. Hugrún var sérsaklega upptekin af nöglunum og var bara með handarbakið á lofti fyrsta daginn og tilkynnt öllum sem hún sá: "Ég me´ naglanakk"!

mánudagur, mars 14, 2011

Fréttnæmt: Síminn yngist upp

Lengi vel hef ég verið ákaflega óáreiðanlegur gemsanotandi. Með semingi eignaðist ég fyrsta gemsann minn fyrir um tíu árum - gefins - og notaði nokkur ár. Hafði stundum kveikt á honum, oft slökkt. Mörgum árum síðar gaf hann sig og ég fékk notaðan síma að láni og var með hann í eitt eða tvö ár þar til síminn hennar Vigdísar þótti nógu úreltur til að hún fengi sér nýjan. Þá fékk ég hann sjálfkrafa. Fínn sími: gamall Nokia. Svo eignaðist Ásdís systir hennar líka nýjan síma. Hún átti fyrir nákvæmlega eins gamlan Nokia og Vigdís og ég naut góðs af því. Þá átti ég allt í einu tvo eins! Þann fyrri notaði ég í mörg ár. Hann var farinn að verða talsvert snjáður og einn takkanna var orðinn óvirkur. Það var leiðinlegt sambandsleysi í hleðslutækinu þar að auki. Þegar rafhleðslan var farin að trufla mig, skjárinn hættur að sýna hleðslutáknið og síminn farinn að slökkva á sér fyrirvaralaust mundi ég loksins eftir hinum símanum sem ég átti einhvers staðar. Hann tók ég loks í notkun fyrir nokkrum mánuðum eftir rúmlega árs vesen með hinn. Hleðslutækið virkar núna eins og herforingi og síminn er glansandi fínn, eins og beint úr búðinni. Núna nenni ég að standa í því að hlaða hann. Hins vegar var rafhleðslan orðin slöpp eftir fyrri notkun. Það var svo sem fyrirsjáanleg þannig að ég sætti mig bara við það þar til ég uppgötvaði að síminn tæmdi sig nánast um leið og hleðslutáknið gaf til kynna að síminn væri ekki lengur fullur. Frekar slæmt. Svo lenti ég í fyndinni uppákomu um daginn sem fékk mig til að kippa þessu í liðinn:

Ég var búinn að mæla mér mót við Jón Má niðri í bæ. Báðir vorum við með gemsa og töluðum okkur ekki nákvæmlega saman til um það hvernig og hvar við skyldum hittast. Ég náði ekki í hann úr heimasímanum á leiðinni út og ákvað að sitja fyrir honum þar sem ég hef oftast hitt hann, í Eymundsson. Þá sá ég að hleðslutáknið í gemsanum var farið að láta á sjá. Ég reyndi að hringja í hann úr búðinni en síminn gaf sig undir eins. Þá kveikti ég aftur því ég vissi að hann réði að minnsta kosti við SMS og náði að senda Jóni skilaboð um að senda mér SMS með upplýsingum um það hvar ég væri staddur. Svo leið og beið og ekki hafði hann samband. Um hálftíma síðar birtist hann á glugga í dimmum vetrarnæðingnum á leiðinni upp Skólavörðustíginn. Hann hafði beðið eftir mér annars staðar og kom arkandi þvert yfir miðbæinn. Skilaboðin höfðu borist honum þar sem hann sat annars staðar og beið eftir símtali frá mér en sjáflur gat hann ekki hringt til baka eða sent mér SMS því hans sími var innistæðulaus! Frekar óvenjulegt og hefði getað verið meira truflandi en það var í raun. En það vakti mig til umhugsunar.

Ég talaði á sínum tíma við starfsmann í Vodafone um nýtt batterí í símann minn. Það leit út fyrir um tíma að ég gæti ekki notað nýja (gamla) símann minn áfram því nýju gemsarnir eru allir með öðru vísi batterí!!! Þeir selja ekki þessi gömlu lengur. Þannig er maður hálfpartinn þvingaður til að kaupa nýja vöru í sífellu. En sem betur fer er til verslun sem heitir Símabær sem sankar að sér varahlutum úr gömlum símum og á þar að auki lager af gömlum gerðum af batteríum sem hinar verslanirnar nenna ekki að sitja uppi með. Starfsmaðurinn í Vodafone benti mér reyndar á þessa verslun en með þeim varnaðarorðum að það borgaði sig líklega ekki að kaupa rafhlöðuna því hún kostaði líklega svipaði og nýr sími. Ég leyfði mér að efast um það vitandi að þetta er enn eitt trixið til að fá mann til að endurnýja það sem maður á fyrir.

Og hvað kostaði rafhlaðan? Um 2500 krónur! Og ódýrasti gemsinn á markaðnum? Um það bil átta þúsund.

Nú hef ég ekki lengur neina afsökun fyrir því að missa af SMS-skilaboðum og hafa lokað fyrir símann dögum saman. Hins vegar þori ég ekki að lofa því að ég hafi hann á mér öllum stundum. Það er allt annað mál :-)

fimmtudagur, mars 10, 2011

Upplifun: Þrír líflegir dagar

Það er alltaf svolítið fyrir þessari þrennu haft: Bolludegi, sprengidegi og öskudegi. Vigdís bjó til dýrindis bollur, vatnsdeigs, og útbjó þetta fína súkkulaðkrem sem átti að lenda ofan á þeim en var bara betra á milli, með "smá" rjóma. Svo kom sprengidagur. Signý var spenntari fyrir honum og talaði í sífellu um "rakettudag". Ég áttaði mig ekki á misskilningnum fyrr en tiltölulega seint og hafði lengi undrast yfir þessum skyndilega rakettuáhuga! Sprengidagurinn, útskýrði ég, er nefnilega dagurinn þegar maður borðar svo mikið að maður næstum því springur. En því miður stóð sú lýsing nokkurn veginn heima. Ég fékk hringingu í vinnuna upp úr hádegi á sprengidag og frétti að Signý væri veik í maganum. Hún hafði kastað upp og var eitthvað slöpp. Hún var ósköp fegin að sjá mig þegar ég kom i hádeginu og naut þess að vera í góðu yfirlæti með mér heima. Sem betur fer var þetta minna en á horfðist og hún braggaðist ótrúlega hratt og var alveg til í að fá sér aftur baunasúpu um kvöldið. Hún vildi fyrir alla muni ekki missa af öskudeginum. Hann var búinn að "malla" í nokkra daga undir niðri. Þá átti hún að vera Rósalind prinsessa (sem er með vængi, töfrasprota, kórónu og klædd myndarlegum kjól) á meðan Hugrún var búin að panta Helló Kittý. Prinsessunni var auðveldlega reddað en kisunni þurfti að klóra sig fram úr (afsakið orðaleikinn). En vinnustaðurinn minn er þess eðlis, blessunarlega, að hægt er að föndra ýmsilegt svo ég kom heim með fallega pappírsgrímu eftir forskrift af netinu. Hún sló aldeilis í gegn og gerði búlduleitar broskinnar Hugrúnar enn sætari, með bleikt trýni mitt á milli. Þannig mættu þær til leiks og skemmtu sér að vonum vel.

sunnudagur, mars 06, 2011

Daglegt líf: Tvær tímabærar heimsóknir

Veturinn heldur áfram með sama hætti, gnauðandi og dimmur. Það er eins gott að maður er ekki haldinn skammdegisþunglyndi í þessu tíðarfari. Við í Granaskjólinu erum búin að hafa það býsna notalegt og afslappað í vetur og að mestu tíðindalaust eftir afmæli pabba (sjá síðustu færslu).

Fyrir um viku síðan tók ég mig til og fór í tímabærar heimsóknir. Til dæmis til Bjarts og Jóhönnu. Fyrir næstum því hálfu ári síðan hjálpaði ég þeim að flytja, án þess að hafa tíma til að fylgja því eftir með heimsókn. Ég náði ekki einu sinni að kíkja á nýju íbúðina í flutningunum og einbeitt mér þess í stað að kveðja gömlu ibúðina. Ég sparaði mér heimsóknina í nýju íbúðina þangað til við öll í fjölskyldunni hefðum tíma saman. Sú hugsun var eins og vandratað einstigi. Mánuðirnir liðu. Það var því við hæfi að heimsóknin hæfist með eftirminnilegum ratleik um Hafnarfjörðinn. Síðan lentum við í notalegu kaffihlaðborði. Börnin voru öll dugleg að leika sér á meðan við hin spjölluðum. Börnin eru nefnilega komin á þægilegan aldur hvað þetta varðar, sem gefur tækifæri til fleiri heimsókna. En það vildi einmitt svo skemmtilega til að daginn eftir var ég staddur í Perlunni (á bókamarkaðnum). Þá hitti ég á Stellu og Kristján. Þau hafði ég, með svipuðum hætti, ekki hitt í háa herrans tíð, eða síðan síðasta vor. Þau voru nánast í bakgarðinum heima hjá sér (eiga heima í hverfinu) og buðu okkur umsvifalaust í heimsókn. Þar gat maður, á ný, setið í makindum og spjallað meðan börnin léku sér fyrirhafnarlaust. Ég meira að segja gat gefið mér tíma til að njóta þess að horfa á myndasýningu úr ferðalagi sem þau voru nýkomin úr til Indlands. Það er nú saga að segja frá því hvernig þau komust þangað (svo ég læt hana ósagða) en það var óneitanlega svolítið frískandi að sjá aftur Indland í öllu sínu veldi og deila með þeim Kristjáni og Stellu sameiginlegri upplifun af þessu ótrúlega landi, enda var ég þar á ferðinni sjálfur fyrir um tveimur árum síðan.





.