Jæja, tíminn líður og núna er liðinn nákvæmlega mánuður frá því ég lagði af stað til Indlands. Kominn tími til að rifja upp.
Ég byrja á heildarmyndinni. Tilefnið var brúðkaup. Leonie, þýsk vinkona mín frá því fyrir um tíu árum síðan (sem bjó hér í eitt ár sem Au Pair) var að gifta sig indverskum manni. Þau eru bæði mjög víðförul og búa nú saman í Singapoor. Þau ákváðu sem sagt að gifta sig í fæðingarborg hans, en hann heitir Jayanth (svo að það komi fram). Nöfnin klingja nú ágætlega saman, þegar þau hafa verið stytt. Leo giftist Jay.
Ferðalag til Indlands er heilmikið mál og ekki sjálfgefið að komast þangað yfir langa helgi (ef maður hefur í huga að eyða hluta af páskafríinu heima). Samt tókst það, einhvern veginn. Ég var heima fram á skírdag. Fór þá út til London um kvöldið, var þar yfir nótt og flaug allan næsta dag til Indlands. Eftir millilendingu í Bombay lenti ég um nóttina í Chennai (sem var áfangastaðurinn). Eftir svefnlitla nótt (eins og ég hef áður fjallað um) var farið í verslunarleiðangur (meðal annars keypt indversk hátíðarklæði og svo prinsessuföt til að taka með heim). Um kvöldið var fyrsti áfangi brúðkaupsins: garðveisla með rausnarlegum mat og drykk. Það fól í sér ræðuhöld og aðra skemmtan, langt fram eftir hjá flestum, jafnvel þeim þreyttustu.
Þá um nóttina náði ég að sofa vel og var sérlega vel endurnærður fyrir kvöldið annars dags, enda var sá dagur frídagur framan af. Þá fólst annar liður brúðkaupsferlisins í sér að við komum okkur öll saman (eftir rútuferð) í einhvers konar samkomusal (líklega kirkju, en mér fannst staðurinn ekkert líkjast kirkju sérstaklega). Fyrst var komið saman í matsal þar sem fram var reiddur matur (á bananalaufblöðum - en ég fjalla um matinn sérstaklega síðar). Svo var farið aftur inn í sal. Þar var setið (eins og í kirkju) og fylgst með ýmsum sýningaratriðum (indverskum söng og dansi) í um tvo tíma og boðið upp á drykki á meðan og bara spjallað, gengið um. Frekar frjálslegt. Loks kom að þeim lið sem flestir biðu eftir. Þá birtust tilvonandi brúðhjón uppi á sviðinu, afar glæsilega skreytt, og settust eins og konungborið par með foreldrana sér á sitt hvora hönd. Við hin röðuðum okkur upp, handahófskennt, og biðum þess að geta gengið upp á svið til að afhenda brúðhjónum gjöf og óska þeim alls hins besta. Þetta minnti mig svolítið á altarisgöngu, svo maður vísi í eigin menningarheim. Þetta tók geysilega langan tíma því tekin var mynd reglulega. Að endingu var aftur safnast saman, nokkuð handahófskennt og frjálslega eins og áður, í matsalnum þar sem aftur var boðið upp á veislumáltíð á bananalaufblöðum.
Á þriðja degi var sjálf vígslan. Einhver spámaður hafði reiknað út að vænlegast yrði fyrir brúðhjónin að láta pússa sig saman um sjöleytið, árdegis. Það þýddi að þennan daginn var maður (aftur) svolítið syfjaður. Aftur fórum við í rútu á áfangaastað, sem reyndist vera sama samkomuhús og daginn á undan. Þar tók við brjálæðisleg indversk tónlist, blómskrúð og gangstéttar skreyttar með málningu. Uppi á sviði var Jayanth ásamt skyldmennum og prestum í lótusstellingu að taka á móti einhvers konar blessun. Reykelsi og einhver stærri eldur logaði þar uppi á sviði. Mikið blómskrúð - allt mjög framandi. Mikil lykt í loftinu. Verst er að myndavélin mín lognaðist út af þennan morguninn. Ég gleymdi að hlaða hana og verð að stóla á myndir frá ferðafélögum mínum (sem enn hafa ekki borist). En þegar Leonie birtist barst leikurinn út. Þar voru þau tvö hysjuð upp á axlir þeirra tveggja veislugesta sem hávaxnastir voru og var att saman í eins konar hanaslag, nema hvað það virtist ganga út á að sveipa hvort öðru blómsveig (eins og þau væru að ræna hvoru öðru). Síðan voru þau sett í rólu (ríkulega skreytta blómum) og þar sátu þau á meðan nánaustu aðstandendur köstuðu í þau hrísgrjónakúlum eftir kúnstarinnar reglum. Einhvers konar blessun, eflaust. Allt rann þetta saman en einvern veginn endaði þetta innandyra aftur með formlegum hætti, en fæstir okkar enskumælandi gesta áttuðu sig almennilega á því hvenær nákvæmlega þau Leo og Jay giftust. Það virtist ekki vera nein afmörkuð stund. Enginn koss. Bara flæði. Eins og að vera staddur úti í skógi og sjá heilmikið sjónarspil en ná ekki plottinu.
Þar sem giftingin átti sér stað eldsnemma vorum við hin laus upp úr hádegi og gátum eytt deginum eins og við vildum. Ég fór eitthvað að versla og fór svolítið að kynna mér menningu staðarins með því að bjarga mér á eigin spýtur. Það var heilmikið ævintýri. Um kvöldið var öllum svo hóað saman til kvöldverðar - sem var ágætt. Þá fyrst náði ég að spjalla við Leonie almennilega, þegar allt var um garð gengið.
Á fjórða degi (lokadegi) hafði ég það líka mjög náðugt og skoðaði ég mig um. Ég leyfði mér meira að segja að þvælast um fátækrahverfi og um ströndina (sem var ekki svo langt undan). Ég heillaðist af fólkinu sem þarna bjó. Eyddi líka meiri gæðastundum um eftirmiðdaginn með brúðhjónunum og við komum okkur saman um að endurfundir yrðu á Íslandi áður en langt um líði. Um kvöldið flaug ég svo heim (þ.e. í átt til London).
Morguninn eftir var ég kominn til London, eyddi þar deginum (og þó nokkrum seðlum í leiðinni) og var kominn heim á miðnætti. Þá var miðvikudagur og ekki nema fimm og hálfum dagur liðinn frá skírdegi. Lengri mátti giftingarferlið ekki vera til að áætlunin gengi upp. Mér skilst reyndar að hefðbundið indverskt brúðkaup geti varað í allt að viku. Þá er verið að gefa frá sér brúðina (sem kemur kannski ekki aftur) - og þá er víst mikið grátið. Slík dramatík var aldeilis ekki uppi á teningnum í þetta skiptið, athöfnin hin hófsamasta, og þau núna komin heim í kotið, í Singapoor.
Skyldi maður eiga eftir að ferðast þangað einhvern tímann?
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli