föstudagur, maí 01, 2009

Daglegt líf: Afmælisveisla Hugrúnar

Nú er dagur að kveldi kominn. Þessi var fremur annasamur vegna þess að við héldum upp á tveggja ára afmæli Hugrúnar (sem er tveggja ára frá í gær). Við buðum öllum nánustu aðstandendum heim til okkar en gátum ekki (frekar en áður fyrr) boðið vinum okkar líka, vegna plássleysis (vonandi verður sú takmörkun úr sögunni að ári). Erum hins vegar mjög opin fyrir heimsóknum um helgina án þess að stefna fólki sérstaklega saman. Það er alltaf gaman að fá góða gesti :-)

Afmælisagurinn var tiltölulega hefðbundin, sem slíkur. Veitingar plús gestir. Það sem var óvenjulegt var hins vegar tvennt. Annars vegar sáu gestirnir um veitingarnar að mestu leyti. Vigdís bjó reyndar til dýrðarinnar brauðtertur en sjálf afmæliskakan (súkkulaðikakan) kom frá tengdó (ríkulega skreytt með jarðarberjum). Mamma mín kom með rausnarlegan skammt af pönnukökum og tvær rjómatertur til viðbótar og Begga systir mætti með sínar eðal-hjónabandssælur. Ég ætlaði reyndar upphaflega að leggja bananabrauð í púkkið en fannst það fullmikið þegar allt kom til alls.

Hitt sem gerði afmælisboðið sérstakt var mætingin, sem var vægast sagt góð. Varla nokkur forföll og það vildi svo sérstaklega til að mætingin dreifðist lítið sem ekkert yfir tímabilið sem við gáfum upp (2-6). Yfirleitt hefur þetta gengið fyrir sig í hollum þannig að ca. 6-10 manna hópur er á staðnum hverju sinni en í þetta skiptið voru nánast allir mættir fyrir þrjú (og því fullsnemmt fyrir þá fyrstu að yfirgefa samkvæmið). Þá var tímabært að syngja og blása. Á þeim tímapunkti reiknaðist okkur Vigdísi (eftir á) til að í íbúðinni væru saman komnir sautján gestir. Með okkur húsráðendum gerir það 21 manneskju (og líklega voru allir í stofunni um tíma). Svona mannmergð hef ég ekki upplifað síðan ég kom heim frá Indlandi :-) En það virtist fara vel um alla sem er fyrir öllu. Hugrún og Signý voru kampakátar með gjafirnar sínar og hafa í kvöld verið að leika sér af miklu kappi. Þær fóru frekar seint í háttinn.

Takk fyrir okkur

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir okkur ....þetta var reglulega skemmtilegt og ljúft í alla staði....
kb.Begga