Í gær gerði ég svolítið sem ég hef ekki látið eftir mér mánuðum saman: Ég fór út að hjóla í tíu mínútur og eyddi svo um kortéri í innhverfa íhugun. Hvort tveggja hreinsaði mig svo um munaði. Mér fannst ég nánast ósnertanlegur og gjörsamlega laus við streitu í kjölfarið þrátt fyrir að hafa verið talsvert þreyttur klukkustundu fyrr.
Hjólatúrinn var sérlega endurnærandi. Vegna plássleysis geymum við hjólin okkar hálft árið inni í geymslu og drögum ekki út fyrr en á vorin. Sem hreyfing slær þetta skokkinu auðveldlega við. Maður þarf ekki að eyða tíu mínútum í að "hitna" áður en maður tekur á því vegna þess að hreyfingin er svo miklu mýkri. Umhverfið breytist líka talsvert hraðar og gerir manni því kleift að upplifa hverfið í miklu stærra samhengi heldur en skokkið. Svo er vindurinn kringum hjólið alltaf frískandi. Ég semsagt þurfti ekki langan tíma til að koma heim eins og gormur.
Þá var stutt í að ég stigi inn í svæfingarferlið hjá Signýju og Hugrúnu. Vigdís hafði tekið það að sér til að hleypa mér út á hjólinu (útiveran tók reyndar lengri tíma en tíu mínútur því ég þurfti að yfirfara hjólin í leiðinni). Þegar ég kom inn voru Signý og Hugrún ekki alveg sofnaðar enn. Búið var að lesa og fara í gegnum rútínuna en vantaði bara herslumuninn. Hugrún á það til að brölta út í hið endalausa, jafnvel þó hún sé dauðþreytt. Ég ákvað því að setjast inn til þeirra, loka augunum og hverfa inn á við. Mér fannst þær upplifa sérstaka ró á sama tíma. Það er nefnilega ekki súrrealískur hugarburður hjá David Lynch að áhrif innhverfrar íhugunar nái til umhverfisins. Þetta hefur verið rannsakað í bak og fyrir. Sjálfur hef ég hug á að láta á þetta reyna hér heima. Í stað þess að halla höfðinu og þykjast sofna - og gera mér jafnvel upp hrotur (og verða smám saman syfjaður sjálfur) - er langtum skynsamlegra að nýta sér þennan tíma sjálfur til slökunar og til að fínstilla hugann. Íhugun er nefnilega vökuástand og hefur þann augljósa og eftirsóknarverða kost umfram "lúr" að maður staulast ekki fram í svefnrofunum eftir á.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli