þriðjudagur, ágúst 31, 2004

Kvikmyndir: Videó. Girl with the Pearl Earring & Henry Fool

Við Vigdís gerðum okkur huggulegt kvöld í rokinu í gær og tókum tvær vídeóspólur. Leigan í hverfinu býður nefnilega upp á fríspólu með hverri nýrri spólu. "Nýja" myndin var the Girl with the Pearl Earring. Hún er heillandi innsýn í Niðurlönd sautjándu aldar og það menningarsamfélag sem þar var að finna. Sagan er í raun atburðarásin að baki eins af frægustu málverkum Vermeer. Reyndar er söguþráðurinn ekki neitt ýkja merkilegur en framsetningin og kvikmyndatakan gera myndina að augnayndi.

Henry Fool er hin myndin, eftir Hal Hartley, frá 1997. Þetta er gömul uppáhaldsmynd. Frábær persónusköpun, makalaus húmor og snilldarhandrit. Samtölin og persónurnar sitja í manni lengi á eftir.

sunnudagur, ágúst 29, 2004

Upplifun: Lokakvöld ólympíuleikanna

Það var gaman að horfa á hlauparana í maraþoninu í dag hlaupa frá sjálfri Maraþon til Aþenu, rétt eins og sendiboðinn gerði fyrir þúsundum ára (og hneig dauður niður á eftir). Hlýtur að hafa verið einstök upplifun fyrir hlauparana í dag. Ólympíuleikarnir eru loksins komnir heim. Gott og vel. En ætli flugeldasýningin verði ekki þá stórkostleg í Peking eftir fjögur ár! Þá eru flugeldarnir komnir heim.

sunnudagur, ágúst 22, 2004

Fréttnæmt: Viðburðarík vika

Þetta á eftir að verða eftirminnileg vika. Lou Reed hélt frábæra tónleika í Laugardalshöllinni, Ísland vann Ítalíu glæsilega á Laugardalsvellinum fyrir framan metfjölda áhorfenda og ríflega hundrað þúsund manns söfnuðust saman í miðbæ Reykjavíkur á Menningarnótt. Þessa vikuna byrjaði ég líka í nýrri vinnu, minni fyrstu dagvinnu í áraraðir. Ég vinn í gamla Dalbrautarskólanum (undir yfirstjórn Brúarskóla). Þetta er lítil og hugguleg kofaþyrping í Laugardalnum í mjög vernduðu umhverfi. Í næsta húsi er Barna- og unglingageðdeild. Þaðan koma nemendur okkar og sinnum við skólaskyldu þeirra frá hálf níu til hádegis. Síðan er fundað, tekið til og undirbúið fyrir næsta dag. Reiknað er með að vinnu ljúki fyrir klukkan fjögur að jafnaði en vinnutími er samt nokkuð sveigjanlegur. En þetta er dagvinna og það er mikil breyting fyrir sjóaðan vaktavinnumann að svissa yfir, eins og að fljúga á milli tímabelta. En það er þess virði því nú get farið að nýta kvöldin markvissar en undanfarin ár.

þriðjudagur, ágúst 17, 2004

Upplifun: Sest á rónabekk

Ég hitti Bjart rétt áðan og rölti með honum Austurstrætið. Ég keypti mér drykkjarjógúrt og við settumst á bekk sem oftast er skipaður rónum. Þetta vissum við reyndar en það kom okkur samt nokkuð í opna skjöldu að kona nokkur, sjúskuð mjög, með hlandblett um sig miðja, skyldi vinda sér að okkur með drafandi frasann "Betra er að gefa en þiggja". Hún var sem sé að sníkja sígarettu af okkur. Hjá okkur kom hún að sjálfsögðu að tómum kofanum. Þegar hún áttaði sig á því vildi hún sýna okkur framtönn sem hún var að brjóta úr sér. Þá sáum við skarðið í daufu brosinu. Hlandlyktin var á þessum tímapunkti orðin megn og við fundum okkur afsökun til að yfirgefa bekkinn.

Kvikmyndir: Vídeó. Gothika.

Í gær sáum við Vigdís Gothika. Ég hafði enga sérstaka trú á henni fyrirfram. Hún kom mér því mjög á óvart fyrir að vera áhugaverð allan tímann. Hún nær gæsahúðinni á köflum og bregður manni hæfilega þess á milli. Það sem er best við hana er þó handritið og lyftir það henni í úrvalsflokk hryllingsmynda. Minnir að sumu leyti á The Others og Nattevagten.

Fréttnæmt: Nýr sófi í stofuna

Við Vigdís fréttum af smekklegum, drapplituðum og gamaldags sófa sem var til sölu fyrir slikk. Þessi sófi er bólstraður og því afar notalegur að sitja í, ólíkt gamla garminum. Reyndar tók Greiðabílstjórinn sér það bessaleyfi að henda gamla sófanum í ruslgám bara af því að nytjagámurinn var fullur (í stað þess að fara í næsta útibú Sorpu). Þessu komst ég að eftir á og var afar pirraður yfir því. Reyndar tekur nýi sófinn sig vel út í stofunni og allar sjónvarpsstundir verða notalegri. Engu að síður situr meðferð gamla sófans í mér. Hann hefur fylgt mér lengi.

mánudagur, ágúst 16, 2004

Fréttnæmt: Kór öðlast nafn í skírnarmessu

Í gærmorgun mætti ég í skírnarmessu til að syngja með tvöföldum karlakvartett. Þetta er vanur sönghópur sem ég hef hóað saman á undaförnum misserum í samvinnu við Bjart Loga. Við ætlum okkur að bjóða upp á óvenjulega söngdagskrá þegar líður á veturinn ásamt því að skemmta okkur vel í samsöng jafn óðum. Við komum saman síðasta vor og æfðum í nokkur skipti. Tónlistin hljómaði fljótt mjög vel í hópnum og prógrammið var bæði áhugavert og spennandi en það var sama hvað við reyndum, við gátum ekki fundið nafn á hópinn. Nafnaleitin kraumaði undir í sumarfríinu og á þeim tíma hafa margar ágætar (en misalvarlegar) hugmyndir litið dagsins ljós:

Bjartur yfir Betlehem
Sönghópurinn org"andi"
Hinn Íslenski tvöfaldi söngkvartett.

En nafnlausir komum við hins vegar til leiks í gærmorgun og áttum í vændum okkar fyrsta opinbera söng. Vont var að geta ekki kynnt sig með nafni við þetta tilefni. En eitthvað var það nú við þessa skírnarmessu því á sama tíma og lítill drengur hlaut nafnið Ágúst Viðar fór prestur um víðan völl og talaði um "gull og græna skóga". Bjartur greip frasann á lofti og viðraði við okkur hina eftir messuna. Það var öllum ljóst í þessari skyndingu að frasinn er rausnarlegur og vísar einnig á mjög opinn hátt bæði til náttúru og menningar. Einnig býður hann upp á fjölmarga orðaleiki og útúrsnúninga, sem er mikill kostur. Gull og grænir skógar var því samþykkt einróma. Við hlutum skírn að messu lokinni.

föstudagur, ágúst 13, 2004

Matur: Uppskrift. Eggjaloka með tómötum, lauk og Camembert.

Í hitanum sem búinn er að vera undanfarið er ómögulegt að borða þungan mat. Það er líka sóun að eyða of miklum tíma í matseld þegar hægt er að spranga um úti við. Ein af uppáhaldsuppskrifum okkar Vigdísar, allt frá því við kynntumst fyrir um tveimur árum, er einmitt létt eggjaloka sem smellapassar inn í sumarið. Hún bragðaðist að venju vel í hitanum:

Annars vegar bakan sjálf:
1. Hræra saman 4 egg með graslauk (má sleppa), salti og pipar.
2. Hella á pönnu í tveimur skömmtum (þ.e. tvö egg á mann).
3. Þegar eggin líta út eins og falleg pönnukaka er hún tilbúin fyrir fyllinguna.

Hins vegar fylling:
1. Hita lauk (1 stk.) á pönnu þar til hann glærist.
2. Bæta skornum tómötum við (4 stk.) og malla smástund
3. Bæta Camambert osti við (hálft stykki). Nokkrar sekúndur.

Fylling er sett inn í eggjalokuna og henni lokað. Gott með ristuðu brauði og pilsner.


Upplifun: Strætóbók á sundlaugarbakka.

Strætóbók (sbr. nýlega færslu) er mjög teygjanlegt hugtak. Hún kemur að góðum notum á kaffihúsi jafnt sem sundlaugarbakka. Í blíðviðrinu undanfarið höfum við Vigdís sem sé nýtt okkur sundlaugarnar og aðferðafræðin hefur með tímanum tekið á sig suðrænan blæ (þ.e. handklæði + gosdrykkur + bók og sundlaugin aðeins nýtt til kælingar). Ég tók eftir því hvað fólk var frekt á sitt. Sundlaugarbekkirnir voru hernumdir af heilu fjölskyldunum í stað þess að samnýta færri bekki og leyfa fleiri að njóta. Fyrir vikið komust gestirnir almennt upp á lagið með að sveima um eins og hrægammar. Ég leit ofan í bókina mína á bakkanum og sá að orð búddíska hagfræðingsins Fritz Schumacher (Small is Beautiful) rímuðu vel við upplifunina:


"it does not require more than a simple act of insight to realise that infinite growth of material consumption in a finite world is an impossibility"

Ég saup á gosinu mína, hallaði mér í átt að sólinni og hlustaði á gjálfrið í vatninu. Þvílík sumarlok! Þegar við yfirgáfum sundlaugina sveimuðum við Vigdís í hitanum í átt til næstu ísbúðar. Mér varð að sjálfsögðu oft hugsað til þess hvað ég var heppinn að vera í fríi á svo sólríkum degi. "Work less and live better" sagði kallinn einhvers staðar í bókinni. Svo sannarlega hugsaði ég með mér. Það er málið.


Pæling: Áhrifamáttur kvikmyndanna

Þegar ég spilaði gömlu Lou Reed plöturnar mínar fyrir Vigdísi um daginn, yfir skrabblinu, tók ég eftir að hún þekkti Perfect Day betur en flest önnur lög. Þessu hef ég tekið eftir í umræðum mínum við aðra að undanförnu í hvert skipti sem Lou Reed hefur borið á góma. Það þekkja allir Perfect Day. Það sem er athyglisvert við þetta er að lagið var ekkert þekkt áður en það sló óvænt í gegn í Trainspotting fyrir tæpum tíu árum (1996) (sjá handrit myndarinnar). Ég fór að kanna þetta nánar og grunur minn var staðfestur: Lagið birtist ekki á einni einustu safnplötu Lou Reed framan af ferlinum (og safnplöturnar eru margar), ekki einu sinni á afskaplega ítarlegu 45 laga safni sem kom út 1993 (Between Thought and Expression). Núll og nix. Lagið var nánast ekki til. Árið 1996, í kjölfar myndarinnar, birtist Perfect Day hins vegar í fyrsta skipti á safnplötu og árið eftir er kemur út enn önnur safnplata. Hún heitir einfaldlega Perfect Day, hvorki meira né minna. Mér finnst þetta vera sláandi dæmi um allt að því óhuggulegan áhrifamátt kvimyndanna. Hvernig var þetta með Doors um árið?

miðvikudagur, ágúst 11, 2004

Tónlist: Uppgötvun: Lenny Kravitz.

Í gærkvöldi komum við Vigdís okkur vel fyrir kringum hringborðið í stofunni, spiluðum skrabbl og hlustuðum á Lou Reed fram eftir kvöldi: Transformer (´72), Berlin (´73) og Magic & Loss (´92) í tilefni af tónleikum hans eftir viku (sem við bæði ætlum á). Vigdís gjörsigraði mig í skrabblinu (aldrei þessu vant :-) og við tókum upp Yatzyið í kjölfarið. Í leiðinni skiptum við um tónlist og við tók safnplatameð Lenny Kravitz úr safninu hennar. Í gegnum tíðina hefur mér aldrei þótt Kravitz sérlega áhugaverður tónlistarmaður en það sló mig skyndilega hvað hann var þrátt fyrir allt merkilega góður á sínu sviði. Hann gerir það meistaralega að blanda saman gömlum tónlistarstefnum og slípa þær til í grípandi popplög. Mér skilst á Allmusic (sjá síðustu færslu) að þrjár fyrstu plöturnar hans séu afar traustar. Ég á eftir að hafa það á bak við eyrað (eða þannig).

þriðjudagur, ágúst 10, 2004

Netið: Alfræðibanki um tónlist. Allmusic.

Það er margt jákvætt um tölvur að segja, þrátt fyrir allt. Allir þekkja Amazon - sem er upplifun út af fyrir sig. Lengi vel fannst mér sá staður einn og sér réttlæta tilvist vefsins (sem annars er uppfullur af tilgangslausu rusli). Tónlistarsíður allmusic eru einnig slíkar síður. Þar er netið nýtt til að gera eitthvað einstakt sem aðeins tölvutæknin ræður við. Þetta er í raun tónlistarhandbók þar sem tengingar eru nýttar til hins ýtrasta til að skoða allar hugsanlegar tengingar á milli tónlistarmanna. Ég á ekki orð til að lýsa því hversu vel þetta gengur upp. Eftir nýlega uppfærslu (sjá síðustu færslu) eru síðurnar enn betri en áður, bæði gagnvirkari og myndrænni, með auknum fjölda af hljóðskrám auk þess sem þær flokka tónlist ótrúlega skemmtilega í þessari nýju útgáfu. Þvílíkur alfræðibanki!

Pæling: Tölvuheimur og fíkn

Tvær ástæður urðu þess öðru fremur valdandi að ég ákvað að uppfæra tölvuna mína. Í fyrsta lagi eignaðist ég nýverið prentara sem gerði ráð fyrir XP stýrikerfinu. Á meðan hann lá ónothæfur við hlið tölvunnar komst ég jafnframt að því að uppáhaldsvefsvæðið mitt hefði verið uppfært þannig að með gamla stýrikerfinu mínu hafði ég ekki lengur greiðan aðgang að því. Ég var svo sem sáttur við tölvuna mína eins og hún var en var orðinn þreyttur á að eiga erfitt með að taka á móti brengluðum viðhengjum og tölvupósti frá öðrum. Netheimurinn uppfærist reglulega og með því móti rýrnar notagildi tölvunnar minnar þannig að maður er nánast neyddur til þess að uppfæra reglulega. Það að kaupa tölvu er því bindandi fíkn. Eins og fíkillinn (sem reynir að birgja sig upp af efnum af ótta við að verða uppiskroppa) lifir tölvunotandin sífellt í ótta við að græjurnar hans verði úreltar. Ég fer ekki leynt með það að viðhorf mitt til tölvutækninnar er afar blendið. Helst vildi ég geta keypt tölvu og notið kosta hennar óskert í eins og tíu ár. Rétt eins og hljómflutningstækin mín, sem ég keypti fyrir fimmtán árum og standa enn fyrir sínu.

mánudagur, ágúst 09, 2004

Fréttnæmt: Tölvan uppfærð

Til er hugtak í félagsfræðinni sem útleggst sem "the new poor". Það á við um það bjargarleysi í tækniheiminum sem margir upplifa frá degi til dags yfir því þeir geta ekki með góðu móti skilið tækni nútímans (og verða fyrir vikið að treysta á aðra í hvívetna). Ég fell að mestu leyti undir þann flokk. Sem betur fer er Villi bróðir og vinur hans Guðmar mjög færir á þessu sviði og tilkippilegir þegar (neyðar-)kallið kemur. Í gær fékk ég þá í heimsókn í nokkra klukkutíma til að uppfæra tölvuna mína. Hún þurfti í raun að færa sig upp um stýrikerfi (frá 98 yfir í xp) en til þess að það gengi upp varð ég einnig að bæta vinnsluminnið og stækka harða diskinn (XP er hálfgert skrímsli og þarf fáránlega mikið pláss). Í leiðinni pantaði ég prufumánuð hjá Fjöltengi (sem boðið var upp á ókeypis). Græjurnar eru því klárar og puttarnir spenntir, tilbúnir að pikka og pikka...

Upplifun: Hitamistur í lok sumars

Ég fór út rétt áðan og tók eftir því að þrátt fyrir sólarleysi liggur hitamistur yfir borginni til tilheyrandi "útlandalykt". Samkvæmt veðurspánni á að vera heitt næstu dagana. Líklega síðustu "góðu" dagar sumarsins. Ég er heppinn því frá og með deginum í dag er ég í tveggja vikna sumarfríi frá Vættaborgum og er nýbúinn að vinna af mér rigningu síðustu tveggja vikna.

föstudagur, ágúst 06, 2004

Pæling: Strætóbókin

Menn þekkja vel hugtakið náttborðsbók. Með því að hafa bók á náttborðinu finnst oft í viku friðsöm náðarstund sem margir upplifa einungis á jólunum eða uppi í sumarbústað. Þetta er mikils virði. Ég á mér hins vegar strætóbók Hún er allt annars eðlis en náttborðsbókin. Hún má til dæmis ekki vera svo spennandi að hætta sé á að maður gleymi sér. Hún má heldur ekki krefjast svo mikillar einbeitingar að utanaðkomandi áreiti stuði mann (allt frá hristingi vagnsins yfir í tillitslausan umgang annarra farþega). Einnig verður bókin að geta notið sín í smáum afmældum skömmtum því strætólestur er bútalestur. Umfram allt þarf hún hins vegar að bjóða upp á vangaveltur því fátt er betra eftir mergjaða málsgrein en að líta upp drjúga stund og geta leyft nýju innihaldi hugans að reika um lifandi og síbreytilegt landslagið sem rennur hjá.

fimmtudagur, ágúst 05, 2004

Fréttnæmt: Jákvætt svar við starfsumsókn

Loksins almennilegar fréttir! Ég fékk jákvætt svar við um það bil mánaðargamalli starfsumsókn um núna rétt eftir helgi. Þetta er sérkennarastarf í Brúarskóla. Brúrarskóli er nýstofnsettur (aðeins tveggja ára gamall) og er hálfgerð skammtímavistun því þangað fara nemendur aðeins tímabundið (í sex vikur hver hópur). Þeir sem eiga erindi í skólann eru að jafnaði nemendur sem eiga erfitt með að fóta sig í öðrum skólum, finna sig ekki í bekkjarkerfinu eða heltast úr lestinni sökum tilfinningalegs eða sálræns vanda. Hlutverk "okkar" (núna get ég orðað þetta svona) er að koma faglegu fótunum undir nemendurna og styrkja sjálfstraustið áður en við sendum þau til baka. Við kennum þeim að sjálfsögðu öll hin helstu fög, jafnhliða hinni félagslegu endurnýjun, svo nemendurnir missi nú ekki úr á meðan. Í þessu starfi tvinnast því saman listilega eins konar aðhlynning og formleg kennsla. Ég verð að viðurkenna að ég gerði mér alltaf raunhæfar vonir um að fá þetta starf en það þarf líka að treysta á lukkuna. Eftir mánaðarbið get ég ekki sagt annað en að ég sé í dag dauðfeginn (og í leiðinni himinlifandi) yfir að vera búinn að finna lendingu fyrir veturinn. Ég byrja að vinna 16. ágúst og hlakka mikið til, enda lofar starfsandinn afar góðu við fyrstu kynni.

þriðjudagur, ágúst 03, 2004

Kvikmyndir: Vídeó. The Whale Rider.

Í gær tókum við Vigdís spólu á leigu. Það var hin margrómaða mynd the Whale Rider. Við urðum satt að segja fyrir talsverðum vonbrigðum. Þetta er reyndar falleg og göfug saga en hún er afskaplega einföld, fyrirsjáanleg og illa sögð. Handritið er pirrandi á köflum. Leikurinn nær því að vera rétt mátulega góður. Töfrar myndarinnar voru eflaust til staðar á breiðu kvikmyndatjaldi en á ferköntuðum litlum sjónavarpsfleti skiluðu þeir sér ekki vel.

Netið: Uppfærsla. Nokkrar nýjar undirsíður

Ég var rétt í þessu að dæla nokkrum undirsíðum á Uppskriftasvæðið mitt. Þó þessi undirsíða hafi upphaflega verið helguð uppskriftum verður hún hálf rytjuleg á næstunni enda ætla ég að viðra þar ýmislegt annars konar efni áður en ég flokka það betur síðar.

sunnudagur, ágúst 01, 2004

Upplifun: Árið er 1986

Í dag eyddi ég eftirmiðdeginum með Birki frænda mínum á vappi um bæinn, Kolaportið og ýmsar verslanir. Hann er rúmlega tíu árum yngri en ég svo hann átti auðvelt með að draga mig inn í tölvuna sína þegar heim var komið. Þar rak ég augun í áramótaskaup frá 1986. Mér fannst ég sogast aftur í tímann til þess samfélags sem var að reisa Kringluna, tók á móti Reagan og Gorbatsjov, prufukeyrði Stöð tvö og varð fyrir árás spellvirkja í hvalbátahöfn. Spaugstofan (sem ekki var enn til formlega) stóð að þessu skaupi eins og árið á undan. Þau tvö standa enn hátt upp úr minningu annarra skaupa. Eins og kunnugt er hefur Spaugstofunni verið úthlutað skaupinu í ár og hugsa ég mér því verulega gott til áramótaglóðarinnar að þessu sinni. Ætli þeim takist að vekja upp sams konar stemningu og í hin tvö skiptin?