fimmtudagur, ágúst 05, 2004

Fréttnæmt: Jákvætt svar við starfsumsókn

Loksins almennilegar fréttir! Ég fékk jákvætt svar við um það bil mánaðargamalli starfsumsókn um núna rétt eftir helgi. Þetta er sérkennarastarf í Brúarskóla. Brúrarskóli er nýstofnsettur (aðeins tveggja ára gamall) og er hálfgerð skammtímavistun því þangað fara nemendur aðeins tímabundið (í sex vikur hver hópur). Þeir sem eiga erindi í skólann eru að jafnaði nemendur sem eiga erfitt með að fóta sig í öðrum skólum, finna sig ekki í bekkjarkerfinu eða heltast úr lestinni sökum tilfinningalegs eða sálræns vanda. Hlutverk "okkar" (núna get ég orðað þetta svona) er að koma faglegu fótunum undir nemendurna og styrkja sjálfstraustið áður en við sendum þau til baka. Við kennum þeim að sjálfsögðu öll hin helstu fög, jafnhliða hinni félagslegu endurnýjun, svo nemendurnir missi nú ekki úr á meðan. Í þessu starfi tvinnast því saman listilega eins konar aðhlynning og formleg kennsla. Ég verð að viðurkenna að ég gerði mér alltaf raunhæfar vonir um að fá þetta starf en það þarf líka að treysta á lukkuna. Eftir mánaðarbið get ég ekki sagt annað en að ég sé í dag dauðfeginn (og í leiðinni himinlifandi) yfir að vera búinn að finna lendingu fyrir veturinn. Ég byrja að vinna 16. ágúst og hlakka mikið til, enda lofar starfsandinn afar góðu við fyrstu kynni.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Til hamingju með nýja starfið!

Kveðja,
Kristján og Stella