þriðjudagur, ágúst 17, 2004

Upplifun: Sest á rónabekk

Ég hitti Bjart rétt áðan og rölti með honum Austurstrætið. Ég keypti mér drykkjarjógúrt og við settumst á bekk sem oftast er skipaður rónum. Þetta vissum við reyndar en það kom okkur samt nokkuð í opna skjöldu að kona nokkur, sjúskuð mjög, með hlandblett um sig miðja, skyldi vinda sér að okkur með drafandi frasann "Betra er að gefa en þiggja". Hún var sem sé að sníkja sígarettu af okkur. Hjá okkur kom hún að sjálfsögðu að tómum kofanum. Þegar hún áttaði sig á því vildi hún sýna okkur framtönn sem hún var að brjóta úr sér. Þá sáum við skarðið í daufu brosinu. Hlandlyktin var á þessum tímapunkti orðin megn og við fundum okkur afsökun til að yfirgefa bekkinn.

Engin ummæli: