þriðjudagur, ágúst 10, 2004

Pæling: Tölvuheimur og fíkn

Tvær ástæður urðu þess öðru fremur valdandi að ég ákvað að uppfæra tölvuna mína. Í fyrsta lagi eignaðist ég nýverið prentara sem gerði ráð fyrir XP stýrikerfinu. Á meðan hann lá ónothæfur við hlið tölvunnar komst ég jafnframt að því að uppáhaldsvefsvæðið mitt hefði verið uppfært þannig að með gamla stýrikerfinu mínu hafði ég ekki lengur greiðan aðgang að því. Ég var svo sem sáttur við tölvuna mína eins og hún var en var orðinn þreyttur á að eiga erfitt með að taka á móti brengluðum viðhengjum og tölvupósti frá öðrum. Netheimurinn uppfærist reglulega og með því móti rýrnar notagildi tölvunnar minnar þannig að maður er nánast neyddur til þess að uppfæra reglulega. Það að kaupa tölvu er því bindandi fíkn. Eins og fíkillinn (sem reynir að birgja sig upp af efnum af ótta við að verða uppiskroppa) lifir tölvunotandin sífellt í ótta við að græjurnar hans verði úreltar. Ég fer ekki leynt með það að viðhorf mitt til tölvutækninnar er afar blendið. Helst vildi ég geta keypt tölvu og notið kosta hennar óskert í eins og tíu ár. Rétt eins og hljómflutningstækin mín, sem ég keypti fyrir fimmtán árum og standa enn fyrir sínu.

Engin ummæli: