mánudagur, maí 30, 2011

Fréttnæmt: Netsamband

Ég hef verið í stökustu vandræðum með að halda netsambandi undanfarið. Við Vigdís ákváðum á dögunum að taka stökkið yfir í hinn glæsilega ljósleiðaravædda heim í boði Vodafone. Þeir komu á staðinn á þriðjudaginn var og aftengdu gömlu ADSL tenginguna og settu ljósleiðara í allt: Sjónvarp, síma og net. Sjónvarpið er orðið mun skarpara en áður. Við vorum með loftnetsdraug sem hvarf eins og dögg fyrir sólu með þessari nýju tækni. Síminn er bara eins og áður; hann virkar. Netið var hins vegar í lamasessi. Sambandið var stopult strax frá fyrsta degi. Auðvitað var það fínt á meðan tæknimaðurinn var á staðnum en strax um kvöldið var það farið að stríða okkur og hefur gert það alla tíð síðan. Þetta kostaði mikla símadvöl við það eitt að bíða eftir að komast að hjá símaþjónustu Vodafone. Eftir fjöldann allan af leiðbeiningum símleiðis og þreytandi biðtíma ákvað ég að varpa boltanum yfir til þeirra. Ég hringdi til þeirra fyrir hádegi úr vinnunni (þá er auðveldara að komast að) og pantaði símatíma hjá þeim, ef svo má að orði komast. Ég bara lýsti ástandinu og fór fram á það að þeir hringdu í mig um fimmleytið. Og það gerðu þeir, að sjálfsögðu, og náðu með einhverjum nýjum göldrum (og samvinnu við mig) að endurstilla "routerinn". Nú virkar þetta eins og smurt. Nýtt líf, að sjálfsögðu, í netskilningi þess orðs.

föstudagur, maí 20, 2011

Tungumál: Tungubrjótur

Ég var að spila teningaspil í vinnunni með nemendum mínum þegar út úr mér datt einhvers konar tungubrjótur:

Þá fékkst þú strax þrjú stig.

Reynið bara að segja þessa setningu án þess að fipast. Það er furðu erfitt. Ekki verður það auðveldara er við röðum orðunum öðruvísi upp:

Þá fékkst þú þrjú stig strax

Þetta er býsna óþægilegt :-)

miðvikudagur, maí 18, 2011

Pæling: Falskar minningar

Hugrún getur stundum verið gleymin. Um daginn gleymdi hún sólhatti í matvörubúð Hagkaupa á Eiðistorgi. Við vorum þá öll fjögur á ferðinni og svolitið flókið að rekja ferðir okkar aftur í tímann. Fyrir vikið fundum við hann ekki sama hvar við leituðum. Daginn eftir vorum við Hugrún hins vegar þar á ferð aftur af tilviljun. Við vorum bara að drepa tímann á bókasafninu og ráfuðum niður í anddyri Hagkaupa. Allt í einu rak ég tána í hattinn þar sem hann lá á gólfinu í versluninni. Þá mundum við eftir því hvernig hún hafði sest í smástund í leikfangabíl (knúinn krónupeningum) sem þarna er alltaf í horninu og svo hafði hún yfirgefið hann í flýti. Þannig gerast hlutirnir yfirleitt. Við brostum bæði tvö við að sjá hattinn birtast upp úr þurru. Það voru ánægjulegir endurfundir. En hún var hins vegar ekki eins ánægð í dag þegar hún fann buffið sitt í annarri verslun. Sú saga hófst í gær. Þá fór ég í lagersölu forlaganna á Granda með Signýju og Hugrúnu. Þær voru báðar með buff á höfði. Síðan fórum við í BYKO og þaðan heim. Þá var Hugrún allt í einu ekki með buffið lengur á höfðinu. Ég spurði þær systurnar út í það hvort þær myndu eftir buffinu á einhverjum stað frekar en öðrum og þær náðu að tala sig saman um það að Hugrún hefði verið með buffið á höfðinu þegar þær fóru inn í BYKO. Þær voru eiginlega alveg sannfærðar um það. Við fórum auðvitað þangað strax en fundum ekki neitt. Ég vissi að lagersalan var lokuð þegar hér var komið sögu svo við fórum bara heim eftir þetta, bufflaus.

Í dag fór ég hins vegar beint í lagersöluna eftir að ég sótti Signýju og Hugrúnu í leikskólann. Á leiðinni þangað reyndu þær að telja mér trú um að þetta væri erindisleysa því þær mundu vel eftir buffinu í BYKO. Ég batt hins vegar vonir við að finna það þar þrátt fyrir sannfæringarkraft systranna því ég mundi vel eftir því að Hugrún hafði verið svolítið kærulaus með buffið í lagersölunni. Og viti menn! Þar lá það á vísum stað. Signý og Hugrún þurftu ekki einu sinni að koma inn í söluna með mér að leita að buffinu því það var svo auðfundið. Þegar ég veifaði buffinu til þeirra glaður þar sem þær sátu í bílnum settu þær strax upp tortryggnissvip og fóru að efast um að þetta væri sama buffið. Þeim fannst það vera eittvað öðruvísi, kannski svolítið hreinlegra en buffið hennar Hugrúnar. Það hlyti einhver annar að eiga það! Hugrún gekk meira að segja svo langt að álykta að vinkona hennar úr leikskólanum (sem á eins buff og hún) hlyti að hafa verið þarna í gær! Þær gáfu sig ekki með þetta fyrr en ég stakk upp á því að við færum með buffið heim til vinkonu hennar. Þá viðurkenndi Hugrún loksins að hún ætti það.

Þetta er svolítið magnað og rímar ágætlega við félags- og sálfræðikenningar sem greina frá því hversu hæglega við skáldum inni í eyður í minningasafninu. Okkur finnst við stundum hafa gert eitthvað bara ef við höfum heyrt endurtekna frásögn af því. Vitnisburður sjónarvotta er ekki lengur talinn áreiðanleg sönnun fyrir einu eða neinu í rétti af þessum sökum. Hópar manna geta talið sjálfum sér trú um að hafa upplifað eitthvað í sameiningu, svo lengi sem þeir geta talað sig saman um það. Í þessu tilviki voru Signý og Hugrún búnar að búa til sameiginlega minningu sem reyndist röng. Það hefur ábyggilega verið óþægileg upplifun fyrir þær báðar.

sunnudagur, maí 15, 2011

Upplifun: Smá menningarreisa

Í dag var fallegur dagur og við nýttum hann til að kíkja á Hörpu, nýja tónlistar- og ráðstefnuhúsið við höfnina. Kraðakið var mikið í mannþrönginni svo það er erfitt að meta áhrifamátt hússins að svo stöddu. Okkur fannst það í fljótu bragði svolítið kuldalegt og hrátt en það er ekki alveg að marka. Það er ekki alveg tilbúið enn þá.

Við fórum á kynningartónleikana með "Maxímús músíkús" með Signýj og Hugrúnu ásamt Beggu, Fannari og Guðnýju. Þetta var athyglisverð dagskrá. Sagan var um músina Maxímús sem villist inn í tónlistarhúsið og undrast yfir öllum þeim hljóðum sem þar berast um. Þetta er kynning á tónheim sinfóníuhljómsveitarinnar af sjónarhóli músarinnar. Sögumaður hélt þræðinum og talaði fyrir hönd músarinnar á meðan hljómsveitin spilaði Bolero, upphafskaflann úr 5 sinfóníu Beethovens og Fanfara for the Common man (e. Copland) ásamt íslenskum sönglögum. Vel heppnað, að mínu mati, og sniðugt að hafa sögumann inni í tónlistinni sem túlkar þennan framandi tónheim eins og hann berst músinni.

Eftir tónleikana fórum við saman á Kjarvalsstaði. Þetta var sem sagt eins konar menningarreisa. Við kíktum á sýninguna sem helguð er íslenska hestinum. Ég mæli með henni við alla. Hún höfðar sterklega til þeirra sem aðhyllast natrúarlisma í myndlist og er í leiðinni mjög skiljanleg börnum. Signý og Hugrún virtust að minnsta kosti hafa áhuga á að skoða allar myndirnar. Þetta er líka áhugaverður þverskurður íslenskrar myndlistar í gegnum tíðina því nálgunin á viðfangsefnið var mjög ólík, frá náttúrutómantí Þórarins B. Þorlákssonar til dagsins í dag.

Gullmolar: Daginn í dag - eða í Gamla daga.

Þrítugasti apríl er ekki bara afmælisdagur Hugrúnar. Hollendingar halda upp á Drottningardaginn, þjóðhátíðardag sinn, sama dag (og fyrir þá sem ekki vita geta Hugrún og Signý rakið ættir sínar þangað gegnum mig). Við ætluðum að kíkja saman á snittur og veitingar í boði Hollenska ræðismannsins en komumst að því að boðinu hafði verið flýtt um einn dag af því að ræðismaðurinn vinnur ekki um helgar! Sérkennilegt, finnst mér. Sama dag og boðið var haldið var aldeilis mikið um að vera í Englandi því einmitt þann dag voru þau William og Kate gefin saman hátíðlega. Það var því mikið rætt um drottningar þessa dagana einmitt þegar Hugrún kom heim með afmæliskórónuna sína úr leikskólanum. Þegar afmælisveislan var að baki heyrði ég í Hugrúnu syngja lagbút á meðan við Vigdís tókum til. Lagið var: "Daginn í dag, dagin í dag, gerði Drottinn Guð...." og svo framvegis. En eitthvað hafði textinn skolast til:

Daginn í dag
Daginn í dag
Gerði Drottningu,
Gerði Drottningu


Þetta var eiginlega bara vel við hæfi. Svo fórum við saman eftir afmælisveisluna niður í bæ að kaupa núðlur. Við ákváðum að veita okkur smá skyndimat á meðan Vigdís snurfusaði heimilið eftir veisluna. Ég tók sem sagt stelpurnar báðar með og var um það bil að fara að leggja bílnum á Hverfisgötunni þegar heyrðist í Signýju:

"Pabbi, varst þú til í Gamla daga?".

Hún er alltaf eitthvað að pæla og í þetta skiptið var mér svarafátt fyrst í stað. Hugtakið er svo afstætt. Ég ákvað því að gefa henni einfalt svar: "Nei, Signý. Ég var ekki til í Gamla daga". Þá svaraði hún undir eins: "Ekki ég heldur".

Auðvitað.

Hugrún bætti síðan við snarlega: "Og ekki ég heldur - og ekki mamma heldur" svona til staðfestingar. Þetta gerir hún yfirleitt. Þegar einhver byrjar að telja saman fjölskyldumeðlimi þá klárar hún dæmið og telur alla upp, svo það sé ábyggilega enginn útundan.

Við vorum sem sagt "ekki til" saman, í Gamla daga. :-)

laugardagur, maí 14, 2011

Fréttnæmt: Fjögurra ára afmæli Hugrúnar

Svo að öllu sé nú haldið til haga verð ég að rifja lauslega upp fjögurra ára afmæli Hugrúnar sem haldið var samkvæmt venju rétt fyrir mánaðamótin síðustu. Hugrún var mjög spennt dagana fyrir afmælið og kvartaði sáran undir það síðasta (alveg fram á síðasta dag) yfir því hvað það væri enn langt í afmælið. En svo kom þetta allt saman á endanum. Afmælið var tiltölulega hefðbundið en frekar opið enda ekki um neina formlega veisluboðun að ræða. Þetta bara spurðist út svo að segja. Sumir komu á laugardegi, aðrir á sunnudegi og svo var botninn sleginn í þetta á mánudegi. Það vildi svo skemmtilega til að þeir sem hrifnastir eru af pönnukökum fengu sitt á laugardegi, aðrir fengu kökur og með því næsta dag á meðan mánudagsgestir nutu góðs af léttum kvöldmat og veislurestum í eftirrétt. Margt var í boði og flest allt kökukyns, frá brauðtertum yfir í rjómatertur með viðkomu í hefðbundinni súkkulaðiköku. Hins vegar er óhætt er að fullyrða að hjónabandssælan sem Begga systir kom með hafi slegið í gegn. Sumir veislugesta voru farnir að gera ráð fyrir henni og urðu hreint ekki fyrir vonbrigðum.

Svo tóku margir gestanna eftir myndarlegu teppi í stofunni (sem ég minntist á í síðustu færslu). Við keyptum það á flóamarkaði á Eiðistorgi í miðjum aprílmánuði. Það er hnausþykkt og veitir velkomna hlýju gegnum iljarnar. Ekki veitir af í okkar gólfköldu íbúð. Það er bæði hlýlegt að sjá og notalegt viðkomu. Svo þurfum við heldur ekki lengur að dreifa inniskóm á alla okkar gesti, sem er óneitanlega hagræðing í leiðinni (inniskórnir eru samt enn í boði fyrir þá sem vilja). Mamma var kannski hrifnust allra af teppinu og kíkti strax undir það og staðfesti að þetta væri alveg sérstakt hágæðateppi. Við vorum ákaflega ánægð með þann vitnisburð því oft áður höfðum við reynt að kaupa teppi á gólfið en orðið fyrir vonbrigðum. Þetta er sko allt annað en IKEA og rúmfatalagersteppin sem við reyndum að redda okkur með á sínum tíma.

mánudagur, maí 09, 2011

Daglegt líf: Veðrabrigði

Þá er sumarið loksins komið. Gærdagurinn var nýttur að fullu til útivista, bæði sund og göngutúra. Vonandi er eitthvað allt annað framundan en það sem við fengum í slyddukenndum apríl. Reyndar var þetta ekki svo slæmur mánuður að öðru leyti. Að minnsta kosti fann ég mig knúinn til þess að blogga oftar en ég hef gert í áraraðir. Og það tókst mér án þess að minnast einu orði á afmæli Hugrúnar og töfrateppið sem sveif inn í stofuna til okkar (meira um það ásamt afmælinu næst).