laugardagur, janúar 28, 2006

Fréttnæmt: Þroskaferli

Allt er með kyrrum kjörum hjá okkur í Granaskjólinu. Svefnrútinan er aðeins að taka á sig mynd og við skiptumst á að vaka þegar svo ber undir. Annars er skemmtilegast að sjá hvað dóttir okkar er að þroskast mikið. Hún er komin með myndarlega undirhöku, eins og ég minntist á nýlega, en hún er líka farin að átta sig betur á umhverfinu. Þetta innhverfa bros sem maður tók stundum eftir er núna að breytast stig af stigi í eiginlegt samskiptabros. Við getum nánast kallað fram bros hjá henni með markvissum svipbrigðum og lifandi tón í röddinni. Svo er hún farin að grípa ansi fast. Þegar við leggjum hana á magainn á okkur þá hangir hún nánast í okkur með þéttu gripi (það er ekki alltaf sársaukalaust). Um daginn tók ég eftir því að hún teygði sig í leikfang og náði þéttu gripi um hringlaga handfang. Síðan kunni hún ekki almennilega á framhaldið. Það kemur bara seinna.

þriðjudagur, janúar 24, 2006

Upplifun: Skipulagsleysi

Ótrúlega get ég verið óskipulagður stundum. Ég fór á bensínstöð, dældi á bílinn og vippaði mér upp að afgreiðsluborðinu - en fann ekkert veski (var nýbúinn að skipta um yfirhöfn). Við fundum eitthvað út úr þessu samt; ég skrifaði niður nafn og bílnúmer og lofaði að koma daginn eftir. Nokkrum mínútum seinna ætlaði ég svo að redda mér smá hádegismat gegnum það litla klink sem ég hélt væri með í rassvasanum. Kemur þá ekki fimmþúsundkrónaseðill upp úr krafsinu. Það er náttúrulega vítavert að eiga svona mikinn pening í reiðileysi, en ég var því feginn í þetta skiptið: Ég fór aftur að fyrra afgreiðsluborðinu og borgaði skuldina mína.

sunnudagur, janúar 22, 2006

Sjónvarpið: Eurovisionforkeppni

Við horfðum á sjónvarpið í gær og skemmtum okkur konunglega yfir létt flippuðum spurningaþætti um Eurovision og horfðum svo á fyrstu forkeppnina í kjölfarið. Við vorum eiginlega hissa á því hvað lögin voru vönduð og góð. Af átta fannst okkur fjögur vera mjög vel heppnuð.

Ómar var með skemmtilega nostalgíu sem fór hvergi yfir væmnu mörkin þó lagið hafi verið þrungið tilfinningu og söknuði. Söngvarinn Friðrik Ómar brilleraði í píanopopplagi í anda "Oliver´s Army/Elvis Costello" og Abba. Fyrir utan nokkuð hefðbundna hækkun undir lokin var lagið laust við klisjur og smitaði út frá sér í frábærum flutningi. Regína Ósk var ekki síðri stuttu seinna með sérlega mögnuðum söng. Lagið var þjóðlegt og klassískt í senn. Mér hefur eiginlega alltaf fundist Regína vera svona ekta bakraddasöngkona; svolítið karakterlaus fyrir aðalrödd; en þarna glansaði hún eftirminnilega með karlakórsraddirnar á bak við sig. Svo var Davíð Olgeirsson með flott lag í anda Justin Timberlake plötunnar nýju. Staccato gítargrip og smellt í fingri. Töff og grípandi.

Þjóðin var, aldrei þessu vant, sammála mati okkar Vigdísar á því hverjir sköruðu fram úr; einmitt þessi lög komust áfram. Það hvetur okkur hér í Granaskjólinu til að fylgjast grannt með næstu vikurnar. Eiginlega ekki annað hægt því við leyfðum okkur þann munað að senda inn atkvæði og höfum því fjárfest í framhaldinu.

Mælum með því að fólk smelli á tengilinn hér fyrir ofan til að hlusta nánar á lögin.

föstudagur, janúar 20, 2006

Kvikmyndir: Fimm góðar

Vinnan hófst á ný í vikunni og það var virkilega erfitt að vakna svona snemma eftir langt frí. Það var eins og að rífa sig upp um miðja nótt. Kennslan gekk hins vegar vel þrátt fyrir syfjuna og sljóleikann í mér, enda óvenju fáir og meðfærilegir nemendur í skólanum þessa dagana.

Eins og áður var ýjað að einkenndist barneignarfríið, sem nú er á enda, af óreglulegum vökum og vídeóglápi. Það er því gaman að impra á þeim bíómyndum sem við höfum haft fyrir að horfa á. Þær eru ákaflega ólíkar innbyrðis, en eru allar áhugaverðar á einhvern hátt:

Mr. and Mrs. Smith: Ótrúlega vel heppnuð glanshasarmynd. Hún er smekklega útfærð og stíliseruð en er blessunarlega laus við allt yfirgengilegt tæknibrellujukk. Tæknin þjónar sögunni og stílnum fyrst og fremst enda er myndin falleg, flott, sexý og skemmtileg. Jolie og Pitt glansa á skjánum. Sagan sjálf er að mörgu leyti frumleg og handritið laust við leiðinlegar klisjur. Atriðin eru töff, plottið er vel hugsað og lokin eru smekkleg. Ögn dýpri en meðal Bondmynd, og það fer vel á því.

The War of the Worlds: Að mörgu leyti misheppnuð mynd og hálf tilgangslaus, en það er líka margt til að gleðjast yfir. Í fyrsta lagi er gaman að sjá Tom Cruise leika mjög "ósympatískan", sjálfumglaðan en misheppnaðan gaur. Hann er mjög sannfærandi. Í öðru lagi er gaman að sjá breska sögu lifna við á amerískum grunni. Í þriðja lagi er gott hvað spennuatriðin og öll uppbyggingin laus við yfirdrifna dramatík. Sagan er bara sögð á tiltölulega látlausan hátt og það gerir það að verkum að hægt er að njóta þess að horfa á hana í friði á eigin forsendum. Svo eru mörg atriðin útfærð mjög smekklega. Hins vegar eru veigamiklir og hálf undarlegir hnökrar í frásögninni (og liggur skýringin líklega einhvers staðar á klippiborðinu). En samt, að mörgu leyti prýðileg afþreying.

A Clockwork Orange: Þessa horfði ég á í þriðja skipi. Snilld. Ólýsanleg snilld í alla staði. Myndin er mjög yfirgengileg og hneykslanleg og hiklaust með frumlegustu og best heppnuðu myndum allra tíma.

Battle Royale: Þessi umdeilda japanska mynd kemur á óvart. Fyrst hélt ég myndin væri í blóðslettustíl en komst að því að svo væri ekki. Hún hafði að geyma dulinn og merkilega djúpan áróður á samfélagið og stríðsrekstur almennt. Fullt af smærri frásögnum og uppgjörum sögupersónanna vekja mann til umhugsunar um ýmis dýpri gildi. Óhugnaðurinn situr hins vegar eftir. Ekki myndrænt heldur hugrænt, því það eru kringumstæður sögupersónanna sem sitja í manni. Handritið er virkilega flott.

Almost Famous: Vá! Þvílík gersemi. Ein mesta "feelgood" mynd sem ég hef séð í mörg ár (ég man í fljótu bragði eftir "Billy Elliott" og "Fucking Aamaal" svona til samanburðar). Þetta er þroskasaga ungs drengs sem fær umboð frá Rolling Stone tímaritinu til að elta þekkta rokkhljómsveit í því skyni að ná af þem tali, en lýsa í leiðinni hljómsveitarbrölti þeirra, lífsstíl og persónum. Fyrr en varir er drengurinn kominn á bólakaf í þetta ævintýralega líferni. Og við með. Myndin lýsir unaðslega samtímanum (1973) og öllum þessum hráa en frjálsa lífsstíl. Maður fann næstum því vínyllyktina inn í stofu til sín. Persónusköpunin í þessari mynd er með ólíkindum góð; persónur, fullar af töfrum og breyskleika.

mánudagur, janúar 16, 2006

Fréttnæmt: Vigtunarsaga, II. hluti

Ljósan kom í dag. Hún kom síðast fyrir tveimur vikum og vigtaði þá dóttur okkar. Þá reyndist hún hafa þyngst á einni viku frá 3.000 grömmum upp í 3.350 grömm, sem þykir nokkuð mikið. Núna hélt hún nokkurn veginn uppteknum hætti og vigtaðist eftir tveggja vikna vaxtartíma um 3.850 grömm. Okkur finnst hún stækka dag frá degi, sem hún gerir. Á síðustu tveimur vikum höfum við líka tekið eftir því að hún hefur styrkst nokkuð. Hún er farin að halda haus, geta lyft honum og snúið, jafnvel snúið sjálfri sér í rúminu. Stundum hriktir í vöggunni þegar hún byltir sér. Nýlega hef ég tekið eftir því að hún er farin að geta lyft sér af maganum, eins of Sfinxinn í Egyptalandi, og horft þannig í kringum sig, styrkum höndum.

sunnudagur, janúar 15, 2006

Upplifun: Stæk hreinsunaraðgerð

Í vikunni lentum við Vigdís í hrikalegu ógeði þegar jólaölbrúsi lak inni í geymslu, með tilheyrandi lykt og klístri. En við föttuðum það ekki strax. Við héldum fyrst að lyktin kæmi úr endurvinnslupoka þar sem við söfnum saman dósum. Í honum var myndarlegur pollur af brúnu jukki. Eftir að ég hafði hreinsað hann burt hélt ég að lyktin myndi hverfa, en það gerðist ekki. Alltaf var sama rónastækjan í anddyrinu hjá okkur. Þá tók ég pokann og setti hann út og hótaði honum (eða þannig) að ég myndi þrífa hann með sjóðandi vatni næst. Þar geymdi ég hann um stund og leit aftur inn í geymslu og sá mér til hrellingar að sama brúna jukkið lá snyrtilega í einu horninu á tómum pappakassa sem lá þar einhvern veginn á ská þvert yfir geymsluna. Pappakassanum varð náttúrulega ekki bjargað, enda hornið með brúna pollinum algerlega gegnsósa. Þegar honum var lyft snyrtilega, á leiðinni út í ruslafötu, birtist þá óhugnaðurinn í öllu sínu veldi. Brúnu sletturnar voru á gólfinu undir kassanum líka, og taumarnir lágu upp í hillu, um það bil í andlitshæð þar sem ég kom auga á jólaölsbrúsann. Um einn og hálfur lítri af þessu fljótandi klístri hafði þá seytlað niður í marga daga án þess að mikið bæri á (annað en lyktin). Það varð þess valdandi að ég tók mig til og tók geymsluna í gegn, eftir dágóða stund af óráðsstunum og ósjálfráðum blótsyrðum sem heyrðust alla leið inn í stofu.

Þrátt fyrir þetta var ég að sumu leyti feginn þessari ógeðfelldu hvatningu til að taka til því það hafði staðið til lengi. Ég var líka mjög feginn því að ekkert ómetanlegt skyldi hafa legið undir brúsanum annað en töskur sem ég gat hreinsað (og ein sem fór í ruslið, enda ljót fyrir) og gamlar kassettur sem rétt sluppu fyrir tilstilli plasthylkjanna. En af þessu lærði ég líka tvö mikilvæg atriði sem ég ætla að hafa vandlega í huga hér eftir:

1) Aldrei geyma jólaöl annars staðar en í ísskáp, í neðsta hólfi. Mér var sagt, eftir á, að brúsinn hefði allt eins getað sprungið ef hitasveiflurnar hefðu verið meiri. Þann óhugnað vildi ég helst ekki þurfa að ímynda mér, hvað þá upplifa.

2) Maður skyldi aldrei hafa geymsluna svo þétt skipaða (úttroðna) af dóti og drasli að maður hafi ekki skýra yfirsýn yfir hana jafn óðum. Ég leyfði tilgangslausum kössum að fljóta nokkuð frjálslega um og hylja gólfið - og því fór sem fór.

Daglegt líf: Tímaleysi

Ekki hefur farið mikið fyrir skrifum mínum undanfarna daga. Þetta eru líka búnir að vera svolítið sérkennilegir dagar. Frá því að jólafríinu lauk formlega tók frekar einkennilegt tveggja vikna tímaleysi við, - barneignarfrí. Næsta miðvikudag verða tvær vikur liðnar frá lokum jólafrísins (og upphafi barneignarfrísins) og þá byrja ég að vinna aftur (ég klára restina af barneignarfríinu í haust). Tímaleysi er kannski eina orðið sem nær utan um þessa óvenjulegu daga því við Vigdís erum bæði búin að vera í algjöru fríi frá öllu samfélaginu og vökum og sofum þegar okkur sýnist svo - eða, öllu heldur, eins og dóttur okkar sýnist. Hún er afar stillt og prúð að jafnaði en á það helst til að láta í sér heyra á nóttunni. Ef það er ekki grátur þá er það einhvers konar uml, andköf, kjams eða nautnalegar teygjur. Yfirleitt er þetta bara notalegt og sætt. Hins vegar hrekk ég við þegar hún tekur andköf upp úr þurru. Þá hrekk ég í kút og á oft erfitt með að sofna lengi á eftir. Í ofanálag verðum við að gæta þess vandlega að kuldinn læðist ekki að henni. Hitinni í herberginu er því yfirleitt töluvert fyrir ofan það sem mér þykir þægilegast (og loftið þyngra fyrir vikið). Svefnrútínan hefur því verið á alla kanta. Sumar nætur hef ég ekki sofnað fyrr en upp úr fjögur. Þá sefur maður fram yfir hádegi - og fer létt með það. Þannig var það marga daga í röð að við Vigdís vöknuðum stundvíslega klukkan hálf tvö. Í kjölfarið reyndum við af einbeitni að fara að sofa snemma. Þá vaknaði ég kannski við fyrstu brjóstagjöf næturinnar, um tvöleytið, og var glaðvakandi og nánast útsofinn eftir það (Vigdis er mjög næturvaktavön og á miklu betra en ég með það að vakna um miðja nótt og sofna aftur). Við höfum einstöku sinnum horft á bíómynd um miðja nótt, bæði andvaka, en yfirleitt er það þó ég sem stari út í myrkrið. Stundum nýtast næturnar mér vel til að lesa í ró og næði inni í stofu, algjörlega laus við að vera þreyttur (og þá skil ég ekkert hvað fólk er að gera með að sofa yfirleitt). Einn daginn fór ég á fætur um fimmleytið og fór að sinna morgunverkum. Fór með bílinn í þvott og olíuskipti fyrir allar aldir. Það er því ýmist of eða van. Dagsrútinan raskast fyrir vikið ákaflega mikið og maður nær illa að halda uppi reglulegum takti við tilfallandi verk, eins og bloggskrif. En sem betur fer eru næturnar misjafnar. Sú litla á það til að sofa sumar nætur í fimm til sex tíma lotum - þó tveggja til þriggja stunda mynstrið sé ennþá ráðandi.

mánudagur, janúar 09, 2006

Upplifun: Tónleikaveisla

Fyrir tveimur dögum síðan fór ég á tvenna stórtónleika, geri aðrir betur. Það stóð reyndar aldrei til vegna þess að tímasetning þeirra stangaðist óþægilega á við áætlaðan fæðingardag í byrjun ársins. Það sannast því hér með enn einu dæminu hversu snilldarleg tímasetning fæðingarinnar var. Vegna þess hversu snemma sú litla kom í heiminn þá var heimilislífið komið í jafnvægi þeim mun fyrr. Með semingi yfirgaf ég hins vegar mæðgurnar sem sátu heima þetta laugardagskvöld.

Tónleikarnir sem voru í vændum voru ekki af lakari endanum enda fór um mig í bæði skiptin er ég frétti af þeim á hausmánuðum. Annars vegar var það ein virtasta söngsveit samtímans, The Tallis Scholars (sem hefur undanfarinn aldarfjórðung sérhæft sig í tónlist miðalda með byltingarkenndum upptökum og rannsóknum). Hins vegar voru það áróðurstónleikarnir Ertu að verða náttúrulaus? þar sem fram komu margir af okkar allra bestu tónlistarmönnum (ásamt Damien Rice og Damon Albarn).

Ég keypti miða á fyrri tónleikana, daginn fyrir tónleika, og taldi mig heppinn að geta reddað þessu svona á síðustu stundu. Ætlaði ekkert á hina (hélt það væri löngu uppselt). Þá er hringt í mig, Þröstur fyrr. mágur, og hann hafði í hendi sér miða á lausu og spurði hvort ég væri ekki til. Þetta var sama kvöld, bara örlítið seinna. Eftir rækilegar vangaveltur sá ég að þetta gat púslast saman því fyrri tónleikarnir byrjuðu það snemma (kl. 5).

Tallis-tónleikarnir voru mikil og djúp kyrrðarstund með margslunginni tónlist. Það var því óneitanlega kyndugt að heyra í fjarska sprengingar í háloftunum, dempaðar en reglulegar (það var víst eins dags frestun á þrettándanum vegna veðurs). Eftir óaðfinnanlegan og upplífgandi söng Tallis-söngvaranna í Langholtskirkju gat ég auðveldlega rölt yfir í Laugardalinn og orðið vitni að stóru uppákomunni þar. Stórir skermar voru komnir upp beggja megin við sviðið, eins og maður er vanur frá erlendum tónleikahátíðum. Mjög flott aðkoma. Það sem var líka sérkennilegt við þetta allt saman var að þarna sungu hinir heimsfrægu Björk og Sigurrós mjög lítið. Atriðin þeirra voru fremur hófstillt og meira til þess fallin að kynda undir það sem seinna kom. Það undirstrikaði líka hvað við búum við mikla vídd í íslensku tónlistarlífi að geta veitt okkur þann munað að nota þessa fágætu listamenn svo kurteislega - án þess að það bitni svo mikið á gæðum hátíðarinnar.

Björk var flott, með hörpuundirleik, og söng þrjú lög. Svona berskjölduð hljómar hún best, eins og norn að magna fram einhvern dularfullan seið. Sigurrós stóðu líka fyrir sínu - með salinn á öndinni - og svo búið. Bara eitt tiltölulega stutt lag af nýju plötunni (Heysátan). HAM voru gríðarlega kraftmiklir, en að mínu mati einhæfir. Mugison þrælmagnaður, og átti salinn. Hins vegar fannst mér hápunktur kvöldsins vera í höndum útlendings. Ójarðneskur flutningur Damien Rice hélt við stöðugri gæsahúð hjá mér í þær tíu mínútur sem síðasta lagið ummyndaðist stig af stigi, með einföldum tækjabúnaði, en gríðarlega hugmyndaríkum flutningi. Þessi maður er ótrúlegur. Svo komu Egó í lokin; og þá var ég orðinn þreyttur og fór fljótlega.

miðvikudagur, janúar 04, 2006

Kvikmyndir: Þrjár góðar

Við Vigdís erum búin að hafa það náðugt frá áramótum og verðum saman í fríi næstu tvær vikurnar; þá fer ég að vinna aftur. Það sem af er árinu höfum við séð þrjár markverðar bíómyndir.

Fyrst var það franska myndin Les Choristes sem við tókum á spólu yfir áramótin. Ég varð fyrir nokkrum vonbrigðum með hana því væntingarnar voru nokkuð miklar. Hún fjallar um kennara sem tekur að sér kennslu í skóla fyrir erfiða krakka og, eins og í öðrum sambærilegum kennaramyndum, þá nær hann undraverðum árangri. Hann notar kórsöng til að ná til krakkanna. Myndin er nokkuð hefðbundin og fyrirsjáanleg en umgjörðin er skemmtilega súrrealísk; gerist uppi í sveit á afskekktu setri og hefur fyrir vikið yfir sér sérkennilegan gamlan blæ. Stereótýpurnar eru heldur ekki þær sömu og maður er vanur úr bandarískum myndum af sömu gerð. Það gerir myndina líka svolítið skemmtilega. Handritið er hins vegar nokkuð gloppótt og skýrir aldrei almennilega út hvernig hann nær til krakkanna, sem er náttúrulea aðalmálið. Það bara gerist smám saman. Án væntinganna hefði ég eflaust verið afar sáttur við myndina því hún er fín afþreying og uppbyggileg.

Stuttu síðar sáum við í sjónvarpinu spænsku myndina Habla con ella. Hún kom okkur verulega á óvart fyrir það hvað efnistökin voru óvenjuleg, persónusköpun frábær, fléttan frumleg og hvernig myndinni tókst að vera bæði hneykslanleg og manneskjuleg. Maður meðtekur breyskleika persónanna og lifir sig inn í hlutskipti þeirra af samúð. Snilldarleg mynd - en hún er hæggeng þessi og krefst þess að maður sé vel upplagður.

Að lokum var það mynd sem við horfðum á í DVD í gærkvöldi: Control. Þetta er þriller af bestu gerð og fjallar um tilraun sem fer út um þúfur (ekki ósvipað Das Experiment). Hugmyndin að baki myndinni er góð. Lyfjafyrirtæki nælir sér í dauðadæmdan fanga, kemur honum undan dauðasprautunni og fær að gera tilraun með nýtt lyf á honum. Lyfið á að breyta skapgerð hans og mýkja forhertan glæpamanninn. Til að hann þekkist ekki á götu úti er andlitinu einnig breytt (núna hljómar þetta eins og "Face/Off"). Á gaurinn reynir ekki í alvöru fyrr en honum er komið fyrir í sjálfu samfélaginu í lítilli íbúð; þar þarf hann að spjara sig á eigin spýtur. Það reynist flóknara en upphaflega var ætlað. Í stuttu máli gengur handritið vel upp; nógu vel til að halda athyglinni til enda. Nokkrar óvæntar fléttur koma meira að segja aftan að manni á ögurstundu. Myndin er alls ekkert meistaraverk en traust afþreying engu að síður.

þriðjudagur, janúar 03, 2006

Pæling: Tímasetning fæðingarinnar - annar hluti.

Á fyrsta degi janúarmánaðar sá ég í sjónvarpinu viðtal við ungt par sem fætt hafði fyrsta barn ársins. Þá rifjaðist upp með mér að þetta var einmitt nokkuð sem dóttir okkar forðaði okkur frá með því að fæðast snemma. Þessu atriði má því bæta við listann sem ég gerði um daginn, ásamt nokkrum í viðbót.

1) Okkur Vigdísi leist aldrei á tilhugsunina um að fæða barn milli jóla og nýárs, né heldur í blábyrjun ársins (svo við myndum nú ekki lenda í vandræðalegri fjölmiðlaúttekt). Við stefndum því markvisst og meðvitað að því að fæða stúlkuna okkar nokkru seinna en um áramótin, og sáum þrettándann fyrir okkur sem skemmtilega dagsetningu. Auðvitað fær maður litlu ráðið þegar á hólminn er komið, eins og sannaðist fyrir þremur vikum. Í stað þess að fæðast á þrettándanum vildi hins vegar svo skemmtilega til að fyrir valinu varð "þrettándi" dagur mánaðarins.

2) Einhver benti okkur lymskulega á þá staðreynd að áætlaðri dagsetningu hafi, þegar öllu er á botninn hvolf, bara verið snúið á hvolf. Hún átti að fæðast 31. desember en fæddist 13.

3) Við þetta vil ég svo bæta að þó það hafi verið ákaflega heppilegt að hún fæddist svo snemma, þrátt fyrir allt, þá mátti hún í rauninni ekki fæðast miklu fyrr, af tveimur ástæðum:

a) Ég stundaði karate á haustönn af miklu kappi (sem ég hef reyndar ekkert verið að minnast á hér í blogginu). Æfingar voru haldnar á fimmtudags- og þriðjudagskvöldum. Sem sé, síðustu æfinguna fyrir fæðingu var próf, svokölluð gráðun, í Þórshamri, sem ég stóðst með ágætum. Hefði prófið hins vegar verið haldið í næsta tíma á eftir hefði ég þurft að boða forföll því á þriðjudaginn var ég upptekinn eftir fæðinguna (sem var þá um morguninn). En forföllin þurfti ég ekki að boða, því tímasetningin á fæðingunni var svo einstaklega nákvæm.

b) Daginn sem hún fæddist, og helgina á undan, má segja að hún hafi rétt náð að laumast yfir þau mörk sem formlega greina "fyrirburafæðingu" frá venjulegri fæðingu. Hún hafði sem sé fyrst í þessari viku, sem var að byrja, formlegt samþykki stéttarinnar fyrir að fæðast.

Dagsetningin er því rækilega innsigluð á alla kanta - svona eftir á að hyggja :-)

Matur: Áramótagóðgæti

Áramótin hjá okkur Vigdísi voru frekar óvenjuleg. Við ákváðum að vera ein út af fyrir okkur. Við erum bæði frekar sprengjuhvekkt að eðlisfari og vildum allra síst leggja óþægindin á litlu væru dóttur okkar. Við vorum því heima, borðuðum góðan mat og horfðum á sjónvarpið og síðan vídeó.

Þrátt fyrir skringilega einveruna nutum við okkur ljómandi vel, enda var maturinn ekki af verri endanum: Grafinn lax ásamt sósu og ristuðu brauði, rauðlaukssalat með kavíar og hvítlaukssteiktur humar. Í eftirrétt (með sjónvarpinu) mauluðum við samósur; en það eru grænmetisfylltar smábökur úr smjördeigi sem djúpsteiktar eru og borðaðar sem fingramatur. Samósur eru "aldagömul" hefð sem viðhafnarmatur á mínum borðum. Það er nú svolítið síðan ég bjó þær til síðast og hafði Vigdís því ekki smakkað þær áður. Henni leist satt að segja ekki sérstaklega á fyllinguna (sem inniheldur blómkál, sætar baunir og kartöflur) og stakk upp á sinni eigin fyllingu í staðinn (aspas, gulrætur og spergilkál). Það reyndist ekkert síðra á bragðið og kom það mér skemmtilega á óvart. Gestir og gangandi hirtu restar með góðri lyst, eins og vera ber.