þriðjudagur, janúar 03, 2006

Pæling: Tímasetning fæðingarinnar - annar hluti.

Á fyrsta degi janúarmánaðar sá ég í sjónvarpinu viðtal við ungt par sem fætt hafði fyrsta barn ársins. Þá rifjaðist upp með mér að þetta var einmitt nokkuð sem dóttir okkar forðaði okkur frá með því að fæðast snemma. Þessu atriði má því bæta við listann sem ég gerði um daginn, ásamt nokkrum í viðbót.

1) Okkur Vigdísi leist aldrei á tilhugsunina um að fæða barn milli jóla og nýárs, né heldur í blábyrjun ársins (svo við myndum nú ekki lenda í vandræðalegri fjölmiðlaúttekt). Við stefndum því markvisst og meðvitað að því að fæða stúlkuna okkar nokkru seinna en um áramótin, og sáum þrettándann fyrir okkur sem skemmtilega dagsetningu. Auðvitað fær maður litlu ráðið þegar á hólminn er komið, eins og sannaðist fyrir þremur vikum. Í stað þess að fæðast á þrettándanum vildi hins vegar svo skemmtilega til að fyrir valinu varð "þrettándi" dagur mánaðarins.

2) Einhver benti okkur lymskulega á þá staðreynd að áætlaðri dagsetningu hafi, þegar öllu er á botninn hvolf, bara verið snúið á hvolf. Hún átti að fæðast 31. desember en fæddist 13.

3) Við þetta vil ég svo bæta að þó það hafi verið ákaflega heppilegt að hún fæddist svo snemma, þrátt fyrir allt, þá mátti hún í rauninni ekki fæðast miklu fyrr, af tveimur ástæðum:

a) Ég stundaði karate á haustönn af miklu kappi (sem ég hef reyndar ekkert verið að minnast á hér í blogginu). Æfingar voru haldnar á fimmtudags- og þriðjudagskvöldum. Sem sé, síðustu æfinguna fyrir fæðingu var próf, svokölluð gráðun, í Þórshamri, sem ég stóðst með ágætum. Hefði prófið hins vegar verið haldið í næsta tíma á eftir hefði ég þurft að boða forföll því á þriðjudaginn var ég upptekinn eftir fæðinguna (sem var þá um morguninn). En forföllin þurfti ég ekki að boða, því tímasetningin á fæðingunni var svo einstaklega nákvæm.

b) Daginn sem hún fæddist, og helgina á undan, má segja að hún hafi rétt náð að laumast yfir þau mörk sem formlega greina "fyrirburafæðingu" frá venjulegri fæðingu. Hún hafði sem sé fyrst í þessari viku, sem var að byrja, formlegt samþykki stéttarinnar fyrir að fæðast.

Dagsetningin er því rækilega innsigluð á alla kanta - svona eftir á að hyggja :-)

Engin ummæli: