sunnudagur, janúar 15, 2006

Daglegt líf: Tímaleysi

Ekki hefur farið mikið fyrir skrifum mínum undanfarna daga. Þetta eru líka búnir að vera svolítið sérkennilegir dagar. Frá því að jólafríinu lauk formlega tók frekar einkennilegt tveggja vikna tímaleysi við, - barneignarfrí. Næsta miðvikudag verða tvær vikur liðnar frá lokum jólafrísins (og upphafi barneignarfrísins) og þá byrja ég að vinna aftur (ég klára restina af barneignarfríinu í haust). Tímaleysi er kannski eina orðið sem nær utan um þessa óvenjulegu daga því við Vigdís erum bæði búin að vera í algjöru fríi frá öllu samfélaginu og vökum og sofum þegar okkur sýnist svo - eða, öllu heldur, eins og dóttur okkar sýnist. Hún er afar stillt og prúð að jafnaði en á það helst til að láta í sér heyra á nóttunni. Ef það er ekki grátur þá er það einhvers konar uml, andköf, kjams eða nautnalegar teygjur. Yfirleitt er þetta bara notalegt og sætt. Hins vegar hrekk ég við þegar hún tekur andköf upp úr þurru. Þá hrekk ég í kút og á oft erfitt með að sofna lengi á eftir. Í ofanálag verðum við að gæta þess vandlega að kuldinn læðist ekki að henni. Hitinni í herberginu er því yfirleitt töluvert fyrir ofan það sem mér þykir þægilegast (og loftið þyngra fyrir vikið). Svefnrútínan hefur því verið á alla kanta. Sumar nætur hef ég ekki sofnað fyrr en upp úr fjögur. Þá sefur maður fram yfir hádegi - og fer létt með það. Þannig var það marga daga í röð að við Vigdís vöknuðum stundvíslega klukkan hálf tvö. Í kjölfarið reyndum við af einbeitni að fara að sofa snemma. Þá vaknaði ég kannski við fyrstu brjóstagjöf næturinnar, um tvöleytið, og var glaðvakandi og nánast útsofinn eftir það (Vigdis er mjög næturvaktavön og á miklu betra en ég með það að vakna um miðja nótt og sofna aftur). Við höfum einstöku sinnum horft á bíómynd um miðja nótt, bæði andvaka, en yfirleitt er það þó ég sem stari út í myrkrið. Stundum nýtast næturnar mér vel til að lesa í ró og næði inni í stofu, algjörlega laus við að vera þreyttur (og þá skil ég ekkert hvað fólk er að gera með að sofa yfirleitt). Einn daginn fór ég á fætur um fimmleytið og fór að sinna morgunverkum. Fór með bílinn í þvott og olíuskipti fyrir allar aldir. Það er því ýmist of eða van. Dagsrútinan raskast fyrir vikið ákaflega mikið og maður nær illa að halda uppi reglulegum takti við tilfallandi verk, eins og bloggskrif. En sem betur fer eru næturnar misjafnar. Sú litla á það til að sofa sumar nætur í fimm til sex tíma lotum - þó tveggja til þriggja stunda mynstrið sé ennþá ráðandi.

Engin ummæli: