mánudagur, september 29, 2008

Fréttnæmt: Viðburðaríkar tvær vikur

Nú eru liðnar rúmlega tvær vikur frá síðasta pósti. Ekki get ég kennt eintómu framtaksleysi um því þessi tími er búinn að vera annasamur í meira lagi. Fjórir atburðir marka þennan tíma öðru fremur:

1) Ég bakkaði á bíl daginn eftir síðustu færslu. Það gerðist á stæðinu heima. Hinum bílnum var lagt þannig að hann teygði skottið inn fyrir innkeyrsluna þannig að ég hefði þurft að taka varlega beygju fram hjá honum. Þar sem hann var lágur í þokkabót, hvarf bak við vegg að mestu leyti og aftursýnin úr mínum bíl var byrgð af barnabílstól og afturdekki átti ég varla möguleika á að forðast ákeyrslu. Sem betur fer fór ég sérlega hægt út í þetta skiptið (var eitthvað að spjalla við Signýju) og í þann mund er ég lít til hægri og vinstri heyri ég skruðning. Þetta var varla nema nokkrar rispur (rétt niður fyrir lakkið) en bíllinn var nýr og dýr. Kostnaður fer líklega vel yfir 100 þúsund. Ábyrgðin er náttúrulega mín þar sem ég bakkaði á kyrrstæðan bíl (sem ekki var ólöglega lagt). Hins vegar var staðan svolítið sérkennileg fyrir þær sakir að þetta var bíll Ásdísar (sem var í heimsókn) og Togga. Þau voru með hann á rekstrarleigu hjá Honda og voru í þann mund að fara að skila honum inn og skipta út fyrir annan. Þar sem umboðið selur bílinn á endanum var fyrirsjáanlegt að þeir myndu ekki líta fram hjá rispunni. Tjónaskýrslan í kjölfarið var að auki ögn vandasamari en gengur með svona ákeyrslur vegna þess að pabbi á bílinn sem ég var á og þurfti að kvitta fyrir skýrsluna. Það tók sinn tíma, í hjáverkum, að hitta á hann en hann sýndi þessu öllu fullan skilning þegar á reyndi. Nú fyrir helgi skiluðu þau Ásdís og Toggi bílnum og málið úr sögunni. Mér skilst að tryggingarfélagið taki á sig tjónið að sjálfsábyrgð undanskilinni (rúmlega 23 þúsund krónur).

2) Ég tók upp á því stuttu eftir ákeyrsluna að renna við í Góða hirðinum. Þar var óvenjuleg mubla til sölu sem ég fann að hentaði okkur vel heima. Þetta er horneining úr Billy-hillusamstæðu, eins og fæst í IKEA - ekki hvít heldur dökkbrún (í stíl við skrifborðið). Í raun er hillan ekki upphaflega seld sér en hefur fengist sem slík í Hirðinum að undanförnu, í ýmsum litum, og virðist gagnslítil þannig. Hins vegar sá ég heilmikil not fyrir hana heima þar sem hún smellpassar í hornið þar sem skrifborðið hefur verið hingað til. Erfitt er að lýsa notagildinu öðruvísi en þannig að inn í hana kemst allt sem tengist tölvunni (skjár, prentari, aukahlutir og tölva) í aflokuðu rými, hvert á sinni hillu, þannig að lítið ber á. Efst geymi ég svo þráðlausa lyklaborðið og músina og vinn við tölvuna af nærliggjandi borði. Ef ég vinn lengi í einu er lítið mál að lyfta skjánum niður sömuleiðis. Vandinn við þessa breytingu var hins vegar sá að ég ráðfærði mig ekki við Vigdísi. Ég átti ekki gott með að útskýra hugmyndina og ákvað því að kaupa hana á spottprís (1500 kall plús rúmlega 3000 í flutning). Þetta gerði ég eftir að ég hafði skultað Vigdísi á kvöldvakt. Hálfgert leynimakk, kannski, en ég vildi heldur sýna henni hugmyndina og hætta eftir það við ef út í það færi (ekki svo dýr tilraun). Vigdísi rak auðvitað í rogastans þegar hún sá breytinguna. Hún var fyrst í stað frekar ósátt - bæði við að hafa ekki verið með í ráðum og svo fannst henni hillan full dökk og há miðað við þann stíl sem fyrir var. Hún gaf þessu hins vegar séns og verið opin fyrir þessari breytingu síðan. Flestir gestir verða líka hálf hvumsa - ýmist stórhrifnir eða bara hissa. Uppsetningin er það nýstárleg. Tölvan tekur lágmarkspláss en nýtist einstaklega vel. Svo er ótrúlega gaman að vinna þráðlaust núna.

3) Í síðustu viku dró til tíðinda í löngu og erfiðu máli sem sligað hefur marga í fjölskyldunni. Begga systir hefur undanfarin tvö ár þurft að standa í forræðisdeilu við sinn fyrrverandi. Ég var henni mikið til stuðnings bæði við skýrslugerðir auk þess sem ég bauðst til að koma fram sem vitni ef ekki fengist sátt í málið. Ekki fer ég að rekja málavexti hér en málið hefur hins vegar kallað á mikla vinnu, marga fundi auk nákvæmra greiningarviðtala sem tekin voru við nánustu aðstandendur (beggja vegna). Núna á fimmtudaginn var þetta mál hins vegar klárað endanlega fyrir héraðsdómi. Það fór á besta hugsanlega vel með eins konar sátt sem kemur börnunum afar vel. Það sem stendur hins vegar upp úr öllu þessu er að staða systur minnar sem forsjárforeldris styrktist gríðarlega eftir því sem fleiri málsmetandi aðilar gáfu sitt álit. Upp á hana var einfaldlega ekkert að klaga - og þá meina ég það í merkingunni "ekkert!". Við vonum bara að þetta slítandi ferli, sem reynt hefur á svo marga í allan þennan tíma, reynist uppbyggilegt þegar fram í sækir. Nú er gott að horfa fram á við.

4) Að endingu ber að nefna það að ég er kominn í nokkurra vikna feðraorlof á ný. Ég átti meira inni en ég hélt og tek því fegins hendi áður en rétturinn fyrnist við átján mánaða aldur Hugrúnar (þarnæstu mánaðarmót). Það var satt að segja fremur knappur tími sem ég hafði til að ganga frá stofunni og hagræða fyrir staðgengil minn á meðan. En það tókst ágætlega og ég ætla mér að nýta tímann vel. Þeir sem eru lausir á daginn mega gjarnan sjá sér leik á borð!

laugardagur, september 13, 2008

Upplifun: Tindersticks-tónleikarnir

Tónleikarnir á fimmtudaginn var voru að vonum frábærir. Gaman að sjá Stuart Staple með berum augum. Hann hefur breyst eitthvað frá því maður las viðtölin við sveitina fyrir 10-15 árum. En hann var afar kátur á sviðinu, ekki neinn drungi yfir honum. Hann brosti mikið og var greinilega glaður yfir því að vera kominn á stjá á ný. Hljómsveitin var 6-7 manns, sem er í meira lagi miðað við hvað gengur og gerist í bransanum en í allra minnsta lagi fyrir tónlist Tindersticks. Sum laganna komu afbragðsvel út - og þá var ég sérstaklega hrifinn af innkomu málmblástursins (var það trompet?) sem tætti lögin í sig í tví- eða þrígang. Sellóið var líka sniðug lausn ef menn vilja ekki ferðast með strengjasveit. Það er myndarlegur hljómur í einu sellói og gat því oftar en ekki komið í stað strengjanna. Samt vantaði aðeins upp á. Ég er nefnilega sérlega hrifinn af því hvernig strengjahljómur Tindersticks (á fyrstu tveimur plötunum sérstaklega) nær að lyfta tónlistinni upp í hæstu hæðir. Hljómsveitin var greinilega meðvituð um sín takmörk uppi á sviðinu og spilaði fyrst og fremst af nýjustu plötunni sinni og tók síðan kannski 2-3 lög að meðaltali af hinum plötunum. Ég saknaði þess óneitanlega að heyra meira af allra fyrstu plötunum og átti fastlega von á þriðja uppklappi - sem ekki varð af.

Engu að síður voru frábærir tónleikar staðreynd. Það munaði mikið um það að vera vel staðsettur. Við Vigdís komum mjög snemma og fengum sæti við "svalirnar" á besta stað. Mér fannst notalegt að geta setið rólegur án þess að hafa hugann við óþægindi í baki og með strengi í fótum. Ég finn yfirleitt til líkamlegra óþæginda á standandi tónleikum - sem draga þá verulega úr ánægjunni - en þarna sat maður eins og heima í stofu og lyngdi aftur augum. Ekki skemmdi heldur fyrir að salurinn - þverskurðurinn af áhorfendum, það er að segja - var mér sérstaklega að skapi. Ég hitti eða sá ótrúlega marga gamla kunningja - fólk sem ég umgekkst meira á þeim árum sem ég var í háskólanum, fyrir svona 10-15 árum. Það rímar ágætlega við þann tíma þegar ég var á bólakafi í að hlusta á Tindersticks. Svo kom mér skemmtilega á óvart (og þó ekki) að hitta Konna, sem ég minntist á í síðasta pósti. Ég sá hann við barinn og gaf mig að honum - rétt eins og hann væri löngu týndur Livingstone. Við urðum snarlega spjallreifir yfir því að hittast á þessum stað og þessari stund. Við rifjuðum ýmislegt upp frá útvarpsárunum og skiptumst á gamalkunnugum skoðunum. Hvorugur okkar hafði séð Tindersticks áður. En í miðjum klíðum var spjallið rofið af barþjónninn sem hallaði sér að okkur: "Áhorfendur eru að kvarta undan hávaða". Úps! Allt í einu er maður orðinn einn af þessum óþolandi tónleikagestum. Við slitum samtalinu þar með og héldum í sitt hvora áttina til að njóta tónleikanna.

þriðjudagur, september 09, 2008

Upprifjun: Þegar Tindersticks birtist

Nú eru aðeins tveir dagar í Tindersticks-tónleikana. Ég hef fylgst með þeim síðan þeir komu fram í fyrsta skipti árið 1993 og er sannfærður um að þeir hafi hljómað í fyrsta skipti í íslensku útvarpi í þættinum sem ég var með þann veturinn (ásamt Hákoni vini mínum úr F.B.). Þátturinn hét "Straumar" og var á X-inu, þegar sú útvarpsstöð var nýstofnuð. Við lögðum okkur fram um að fjalla um tónlist samtímans á faglegan hátt og reyndum í leiðinni að mynda tengingar við eitt og annað í fortíðinni. Við vorum meira að segja með klassískt tónlistarhorn, í svona kortér, þar sem við tengdum einhverja lagasmíð gömlu meistaranna við umfjöllunarefni þáttarins hverju sinni. Einn þátturinn fjallaði til dæmis um dauðann og þá voru allar lagasmíðar þáttarins á einhverju hringsóli um þetta þema, líka klassíska hornið (við gripum inn í sönglagaflokkinn "Songs and Dances of Death" eftir Mussorgsky). Annar þáttur fjallaði um "syngjandi gítarspil" þar sem gítarinn er notaður sem staðgengill mannsraddarinnar til að flytja söngvænar melódíur. Shadows voru þekktir fyrir þetta, Dire Straits og aðrir mjúkir rokkarar, en ekki síður nýbylgjusveitir eins og Television og Pixies. Í klassíska horninu var til samanburðar gripið niður í einverja sinfóníu Schuberts (Þá ókláruðu, að mig minnir) sem ber einmitt sama yfirbragð. Fiðlurnar eru þá fengnar til að "syngja" laglínuna mjög blátt áfram án flókins hljómagangs eða óvæntra taktskiptinga. Svona gekk þetta þátt fyrir þátt - taktföst tónlist í einum þætti, rómantísk tónlist í næsta, hávaði (eða bara "feedback") í þeim þriðja. Umfjöllunarefnin voru ótalmörg og hjálpuðu okkur við að fókusera í hverjum þætti og gerðu þá í leiðinni fjölbreyttari. Þetta vakti svolitla athygli, innahúss að minnsta kosti, enda vorum við í góðlátlegu gríni kallaðir "spekingarnir" á stöðinni af gaurunum sem þarna störfuðu. Þetta voru skemmtilegir tímar.

Svo kom að áramótaþættinum sem fékk það sjálfgefna viðfangsefni að gera áramótauppgjörum tónlistarblaðanna skil. Við vorum búnir að fylgjast vel með tónlistinni gegnum vikublöðin Melody Maker og NME og keyptum tónlist grimmt á þessum árum. Áður en maður opnaði þessi blöð renndi maður alltaf í gegnum huga sér þeim plötum sem manni fannst sjálfum standa upp úr á árinu. Nokkrar komu strax upp í hugann að þessu sinni: Björk gaf út sína fyrstu plötu, the Boo Radleys gáfu út frábæra og nútímalega plötu undir áhrifum frá hvíta albúmi Bítlanna og the Afghan Whigs og Smashing Pumpkins gáfu út frábærar rokkskífur undir áhrifum Grunge rokksins. PJ Harvey kom öflug á sjónarsviðið með tvær plötur, Nirvana og Pearl Jam létu sitt ekki eftir liggja auk þess sem Britpoppið var rétt að læðast inn (fyrsta plata Suede, snilldarplata Auteurs og endurkomuplata Blur eftir smá hlé). Þegar maður opnaði áramótablað Melody Maker 1993 var maður hins vegar gáttaður: Plata ársins var með algjörlega óþekktri hljómsveit sem hét Tindersticks. Hún var ekki einu sinni á topp 50 hjá hinum blöðunum. Strax í næsta útvarpsþætti var Konni búinn að næla í plötuna og við renndum henni í gegn - ekki allri, en ansi mörg lög fengu að fljóta. Hróðugir vissum við að svo gott sem enginn þeirra hlustenda sem rýndu út í næturmyrkrið þennan janúarmánuð 1994 hefði heyrt þessa tónlist áður. Svei mér ef þetta var ekki síðasti þátturinn minn í útvarpi líka. Að minnsta kosta lognaðist þátturinn út af stuttu seinna vegna óanægju okkar með stjórnun stöðvarinnar.

Núna, síðla árs 2008, næstum fimmtán árum seinna, er sveitin á leiðinni til landsins. Að þessu sinni eiga þeir langan feril að baki. Þeir gáfu út aðra stórkostlega plötu tveimur árum eftir frumburðinn og nokkrar góðar í kjölfarið. Ég hef alltaf haldið mikið upp á tvær fyrstu plöturnar en einhverra hluta vegna hætti ég að fylgjast með sveitinni eftir það. Svo hættu þeir í nokkur ár en eru nú komnir til baka með vægast sagt frábæra plötu. Hún er betri en allt það sem kom út á síðari hluta ferilsins og er til vitnis um mjög magnaða endurkomu. Það vill svo undarlega til að fyrir örfáum vikum síðan tók ég að mér það verkefni að skrifa stuttan pistil um hljómsveitina, án þess að hafa hugmynd um að sveitin væri á lífi - og einmitt þá kom nýja platan út. Pistillinn sem ég skrifaði var á vefsetrinu "rateyourmusic.com" (sem ég hef skrifað um áður). Þar er félagsskapur sem hefur einsett sér að búa til handhægt yfirlit yfir tónlistarsöguna (Rough Guide to Everything). Þar er hugmyndin að maður geti slegið upp nafni hvaða hljómsveitar sem er og fengið lista yfir þau lög og plötur sem óhætt er að mæla með að maður kynni sér fyrst í stað- ásamt umsögnum. Þetta kemur mjög skemmtilega út í flestum tilvikum og óhætt að fullyrða að margir þátttakendur í þessu verkefni nálgast það af fullum metnaði. Mitt framlag til Tindersticks innslagsins er notað sem megintextinn um sveitina (smellið á linkinn hér fyrir ofan og veljið svo síðu 37). Þar segi ég um það bil allt sem ég hef um hljómsveitina að segja. Þeir sem fara á tónleikana mega gjarnan lesa sér til upphitunar. Hinir hafa enn tækifæri til að kaupa sér miða. Þetta verður mergjað.

miðvikudagur, september 03, 2008

Pæling: Sumarglæta að hausti

Nú er sólin búin að skína skært í þrjá daga og útlit fyrir framhald á því fram að helgi, eða lengur. Þetta er að mínu mati besta sólin. Betra en hásumarshitabylgja. Ég nýt mín alveg sérstaklega þegar sólin skín svona á haustin vegna þess að:

1) Loftið er svalara og ferskara (án þess að vera orðið kalt) og í því engin hætta á leiðindamollu. Manni er hlýtt í léttum bol eða skyrtu en finnur samt fyrir þægilegri kælingu í andliti öðru hvoru.
2) Ofnæmisvaldar í loftinu eru á undanhaldi. Ég get andað djúpt að mér án þess að taka út refsingu með hnerrakasti stuttu seinna. Þar af leiðandi get ég spókað mig utandyra að vild í blíðviðrinu.
3) Það myndast ekki sama örvænting og á sumrin þegar sólin gægist fram núna. Á sumrin eru flestir í frí og þjóðin lætur þá eins og örvæntingarfullur fíkill og hleypur upp til handa og fóta. Núna er fólk bundið heimahögum, vinnu eða námi og fær ekki sama samviskubit yfir því að lifa eðlilegu lífi á meðan. Það nýtur sólarinnar á einfaldari og eðlilegri hátt á heimaslóðum.
4) Á þessum tíma árs er maður farinn að búast við kulda, myrkri og rigningu. Maður kann því betur að meta sólina og er einfaldlega þakklátari fyrir hana en um hásumarið.

þriðjudagur, september 02, 2008

Upplifun: Fjaran í fyrsta skipti

Hvað er betra en að leika sér í sandkassanum þegar maður er rúmlega eins árs? Svar: Að leika sér í fjöruborðinu! Finna alls kyns smáhluti og kasta litlum steinum í flæðarmálinu. En ef maður er tæplega þriggja ára? Þá er fjaran alveg jafn spennandi enda ekkert skemmtilegra en að leita að kröbbum (eða því sem er eftir af þeim) og handfjatla blöðruþang. Svo má alltaf kasta steinvölum í sjóinn eins og litla systir og passa að blotna ekki í fæturna. Ég minnist á þetta núna vegna þess að í dag fór Hugrún í fyrsta skipti í fjöruna. Hún hafði áður átt leið um en aldrei dvalið eins lengi í dag og notið sín eins vel. Það var frábært að sjá hana ganga örugglega yfir ójafnan sandinn. Maður þurfti náttúrulega að grípa inn í á vissum stöðum og passa sérstaklega upp á að hún færi ekki beina leið í sjóinn (Hugrún fagnaði öldunum og hrópaði "Bað! Bað!"). Eftir notalega og drjúga stund í fjörunni skokkuðum við heim í frábæru veðri.

mánudagur, september 01, 2008

Daglegt líf: Bókabíllinn

Signý fór í bókabílinn í fyrsta skipti í dag. Honum er lagt við KR-völlinn um fjögurleytið á mánudögum og eiginlega rakið að stunda hann héðan í frá þegar ég sæki Signýju. Furðulegt að maður skuli ekki hafa fattað þetta fyrr. Þetta er eiginlega sniðugra en bókasöfn vegna þess að það er ekki hægt að valsa um og hverfa úr augsýn. Þarna sitjum við bara tvö í ró og næði og getum átt einfalda og notalega stund. Signýju fannst að minnsta kosti mikið til bílsins koma og fékk að taka með sér tvær nettar bækur - sem Vigdís las fyrir svefninn rétt áðan.