mánudagur, september 29, 2008

Fréttnæmt: Viðburðaríkar tvær vikur

Nú eru liðnar rúmlega tvær vikur frá síðasta pósti. Ekki get ég kennt eintómu framtaksleysi um því þessi tími er búinn að vera annasamur í meira lagi. Fjórir atburðir marka þennan tíma öðru fremur:

1) Ég bakkaði á bíl daginn eftir síðustu færslu. Það gerðist á stæðinu heima. Hinum bílnum var lagt þannig að hann teygði skottið inn fyrir innkeyrsluna þannig að ég hefði þurft að taka varlega beygju fram hjá honum. Þar sem hann var lágur í þokkabót, hvarf bak við vegg að mestu leyti og aftursýnin úr mínum bíl var byrgð af barnabílstól og afturdekki átti ég varla möguleika á að forðast ákeyrslu. Sem betur fer fór ég sérlega hægt út í þetta skiptið (var eitthvað að spjalla við Signýju) og í þann mund er ég lít til hægri og vinstri heyri ég skruðning. Þetta var varla nema nokkrar rispur (rétt niður fyrir lakkið) en bíllinn var nýr og dýr. Kostnaður fer líklega vel yfir 100 þúsund. Ábyrgðin er náttúrulega mín þar sem ég bakkaði á kyrrstæðan bíl (sem ekki var ólöglega lagt). Hins vegar var staðan svolítið sérkennileg fyrir þær sakir að þetta var bíll Ásdísar (sem var í heimsókn) og Togga. Þau voru með hann á rekstrarleigu hjá Honda og voru í þann mund að fara að skila honum inn og skipta út fyrir annan. Þar sem umboðið selur bílinn á endanum var fyrirsjáanlegt að þeir myndu ekki líta fram hjá rispunni. Tjónaskýrslan í kjölfarið var að auki ögn vandasamari en gengur með svona ákeyrslur vegna þess að pabbi á bílinn sem ég var á og þurfti að kvitta fyrir skýrsluna. Það tók sinn tíma, í hjáverkum, að hitta á hann en hann sýndi þessu öllu fullan skilning þegar á reyndi. Nú fyrir helgi skiluðu þau Ásdís og Toggi bílnum og málið úr sögunni. Mér skilst að tryggingarfélagið taki á sig tjónið að sjálfsábyrgð undanskilinni (rúmlega 23 þúsund krónur).

2) Ég tók upp á því stuttu eftir ákeyrsluna að renna við í Góða hirðinum. Þar var óvenjuleg mubla til sölu sem ég fann að hentaði okkur vel heima. Þetta er horneining úr Billy-hillusamstæðu, eins og fæst í IKEA - ekki hvít heldur dökkbrún (í stíl við skrifborðið). Í raun er hillan ekki upphaflega seld sér en hefur fengist sem slík í Hirðinum að undanförnu, í ýmsum litum, og virðist gagnslítil þannig. Hins vegar sá ég heilmikil not fyrir hana heima þar sem hún smellpassar í hornið þar sem skrifborðið hefur verið hingað til. Erfitt er að lýsa notagildinu öðruvísi en þannig að inn í hana kemst allt sem tengist tölvunni (skjár, prentari, aukahlutir og tölva) í aflokuðu rými, hvert á sinni hillu, þannig að lítið ber á. Efst geymi ég svo þráðlausa lyklaborðið og músina og vinn við tölvuna af nærliggjandi borði. Ef ég vinn lengi í einu er lítið mál að lyfta skjánum niður sömuleiðis. Vandinn við þessa breytingu var hins vegar sá að ég ráðfærði mig ekki við Vigdísi. Ég átti ekki gott með að útskýra hugmyndina og ákvað því að kaupa hana á spottprís (1500 kall plús rúmlega 3000 í flutning). Þetta gerði ég eftir að ég hafði skultað Vigdísi á kvöldvakt. Hálfgert leynimakk, kannski, en ég vildi heldur sýna henni hugmyndina og hætta eftir það við ef út í það færi (ekki svo dýr tilraun). Vigdísi rak auðvitað í rogastans þegar hún sá breytinguna. Hún var fyrst í stað frekar ósátt - bæði við að hafa ekki verið með í ráðum og svo fannst henni hillan full dökk og há miðað við þann stíl sem fyrir var. Hún gaf þessu hins vegar séns og verið opin fyrir þessari breytingu síðan. Flestir gestir verða líka hálf hvumsa - ýmist stórhrifnir eða bara hissa. Uppsetningin er það nýstárleg. Tölvan tekur lágmarkspláss en nýtist einstaklega vel. Svo er ótrúlega gaman að vinna þráðlaust núna.

3) Í síðustu viku dró til tíðinda í löngu og erfiðu máli sem sligað hefur marga í fjölskyldunni. Begga systir hefur undanfarin tvö ár þurft að standa í forræðisdeilu við sinn fyrrverandi. Ég var henni mikið til stuðnings bæði við skýrslugerðir auk þess sem ég bauðst til að koma fram sem vitni ef ekki fengist sátt í málið. Ekki fer ég að rekja málavexti hér en málið hefur hins vegar kallað á mikla vinnu, marga fundi auk nákvæmra greiningarviðtala sem tekin voru við nánustu aðstandendur (beggja vegna). Núna á fimmtudaginn var þetta mál hins vegar klárað endanlega fyrir héraðsdómi. Það fór á besta hugsanlega vel með eins konar sátt sem kemur börnunum afar vel. Það sem stendur hins vegar upp úr öllu þessu er að staða systur minnar sem forsjárforeldris styrktist gríðarlega eftir því sem fleiri málsmetandi aðilar gáfu sitt álit. Upp á hana var einfaldlega ekkert að klaga - og þá meina ég það í merkingunni "ekkert!". Við vonum bara að þetta slítandi ferli, sem reynt hefur á svo marga í allan þennan tíma, reynist uppbyggilegt þegar fram í sækir. Nú er gott að horfa fram á við.

4) Að endingu ber að nefna það að ég er kominn í nokkurra vikna feðraorlof á ný. Ég átti meira inni en ég hélt og tek því fegins hendi áður en rétturinn fyrnist við átján mánaða aldur Hugrúnar (þarnæstu mánaðarmót). Það var satt að segja fremur knappur tími sem ég hafði til að ganga frá stofunni og hagræða fyrir staðgengil minn á meðan. En það tókst ágætlega og ég ætla mér að nýta tímann vel. Þeir sem eru lausir á daginn mega gjarnan sjá sér leik á borð!

1 ummæli:

Unknown sagði...

Er ekki bara borðleggjandi að við hittumst með litlu stelpurnar okkar? Þið eruð ávallt velkomin í hlíðarnar líka.