sunnudagur, október 12, 2008

Pæling: Kreppan

Jæja. Ég verð að brjóta ísinn. Í þessu fárviðri sem búið er að geisa í samfélaginu er maður nánast ófær um að setjast niður og taka hugsanir sínar saman. Það sem stendur upp úr er hversu þægilegt það er að vera eignalaus maður á þessum tíma. Hefðum við Vigdís skellt okkur á íbúð á síðasta ári hefði það þurft að standa tæpt í upphafi (við erum ekki það vel stæð) og á endanum kafsiglt okkur. Ég tala nú ekki um ef lánið hefði verið tekið í erlendri mynt. Sem betur fer eigum við enn innistæðuna okkar óskerta í bankanum. Til greina kom á sínum tíma að skipta yfir í sjóð níu en þá hefði maður tapað umtalsverðum upphæðum. Á gamla innlánsreikningnum okkar eru innistæðurnar hins vegar víst tryggðar. Eins gott. Vonandi nær það yfir lífeyrissjóði líka, svo maður hugsi til sinna allra nánustu. Mér skilst það reyndar.

Á stundu sem þessari verður manni helst hugsað til alls þess sem hægt er að njóta í lífinu án þess að það kosti krónu. Þeir sem vanir eru því að bruna um á neyslupeningum koma til með að eiga erfitt með að hægja á sér. Það er ekki allra að standa í þögn og njóta þess að hugsa. Það geta ekki allir gengið um í náttúrunni og látið tímann líða, eða standa í stað. Kannski fær maður svigrúm til að lesa bækurnar sínar loksins. Verst að Vigdís er búin að panta sér ferð til Danmerkur gegnum vinnuna sína. Þangað fer nokkur hópur saman að skoða ýmsar stofnanir og slappa af í fjóra daga í lok október. Greitt hefur verið fyrir ferð og gistingu nú þegar (sem betur fer) en neyslupeningarnir eiga eftir að vera blóðugir. Við skoðuðum matseðla á netinu af nokkrum valinkunnum stöðum í Köben og sáum í hendi okkar hvað hlutirnir muni kosta. Kaffibollinn hefur rokið upp úr ca. 350 krónum í 700. Máltíð kostar ekki lengur 1750 krónur heldur 3500. Þannig er það fram eftir götunum. Við höfum því ákveðið að ég verði þarna með henni í anda í Köben, á kaffihúsunum og veitingahúsunum, því hún borgar fyrir tvo :-)

Engin ummæli: