þriðjudagur, október 14, 2008

Daglegt líf: Í skugga kreppunnar, fyrri hluti

Manni finnst hálf ómerkilegt að rekja atburði sem áttu sér stað samtímis og samfélagið riðaði til falls. Fyrir vikið verð ég að kalla þennan póst "í skugga kreppunnar". Auðvitað aðhefst maður alltaf eitthvað þó að skugga sé varpað yfir allt. Við fórum til að mynda öll í eins árs afmæli Melkorku, þeirra Jóns Más og Margrétar. Þar voru saman komnir gestir úr ýmsum áttum og voru greinilega mjög uggandi. Þá voru þegar talsverðar blikur á lofti og þó enn stæðu tveir bankar uppi af þrem. Nokkrum dögum síðar hafði ástandið versnað til muna. Ég man eftir mér í stofunni heima horfandi á enn einn krýsufundinn í sjónvarpinu. Vigdís var á kvöldvakt svo ég ákvað bara að slökkva á öllu saman. Strangt til tekið þurfti ég ekki að fylgjast með þar sem við Vigdís erum eins trygg og hugsast getur með okkar takmörkuðu fjárhagslegu skuldbindingar. Við það fann ég annan kraft leysast úr læðingi, undan fargi umræðunnar. Staður og stund. Ég setti klassíska tónlist á og hlustaði með Hugrúnu og Signýju. Þær þekkja nú ótal tónverk (þökk sé Snillingunum) og það kom mér á óvart hvað þær voru þolinmóðar og hlustuðu af athygli á meira en bara þekktustu stefin. Heilu kaflarnir runnu í gegn og á endanum vorum við farin að dansa vals fram og aftur. Signý var sigri hrósandi og hrópaði: "Áfram Rauðka!" (=sögupersóna úr þáttunum). Ég tók undir með henni að sjálfsögðu, "áfram Rauðka", en þá bætti hún um betur og sagði: "Þú getur þetta alveg!". Mér fannst þetta aðallega fyndið þá en svona eftir á að hyggja finnst mér þau orð eiga svo sannarlega við á þessum síðustu og verstu tímum :-)

Engin ummæli: