mánudagur, júní 28, 2010

Pæling: Fótboltapælingar

Maður situr heima þögull, steinrunninn, yfir fótboltanum. Nánast allur frítíminn fer í leiki. Ég hef náð að horfa á annan hvern leik, á að giska, og fylgist að auki náið með stöðu leikja hverju sinni þegar ég er í fjarsambandi. Ég hef ekki fyglst svona vel með heimsmeistaramóti síðan Maradona varð heimsmeistari 1986! Mér finnst umfjöllunin fyrir og eftir leiki, undir stjórn nafna míns og spekinganna þriggja, vera hreint afbragð. Hún er betri en áður. Það er eins og samvinna þeirra sé að slípast til ár frá ári. Hins vegar er netleikur á vegum Keflavíkurflugvallar (Kefairport.is) búinn að grípa mig kverkataki. Þetta er getraunaleikur þar sem engu er að tapa (engu veðjað, sem sagt) en allt að vinna (fyrsti vinningur ferð fyrir tvo til Tyrklands, annar vinningur sjónvarp, og svo fjöldi smærri vinninga). Fyrst hélt ég að þetta væri einfaldur leikur sem gengi út á að giska á sigurvegara keppninnar bara í eitt skipti fyrir öll, svona eins og verslanirnar gera (og bjóða vinning eða endurborgun fyrir það sem keypt er). Nei, þessi getraunaleikur er sko alvöru og krefst stöðugrar þátttöku. Svona virkar hann:

Hver einasti leikur er liður í stigasöfnun. Hægt er að giska á þrjá möguleika fyrir hvern leik (1-X-2) og hverjum möguleika fylgja stig (eða stuðlar). Giski maður á rétt fær maður stigafjöldann sem samsvarar ágiskuninni. Til dæmis núna síðast, þegar Argentína mætti Mexíkó, voru stuðlarnir þessir: 2.20-3.00-6.00. Það var sem sagt talið líklegast að Argentína myndi vinna en býsna líklegt líka að leikurinn endaði með jafntefli (miðað við venjulegan leiktíma). Langólíklegast var talið að Mexíkó myndi vinna. Þeir sem giskuðu á sigur Argentínu fengu því 2.20 stig en aðrir ekkert. Hefði leikurinn hins vegar endað með jafntefli þá hefði ég fengið 3 stig (ég giskaði á jafntefli).

Þessi leikur er ótrúlega ávanabindandi því maður giskar tiltölulega stutt fram í tímann, kannksi 2-6 leiki í einu, og getur skipt um skoðun fram og til baka allt þar til flautað er til leiks. Oft hefur það komið mér í koll. Nokkrum sinnum hef ég breytt á síðustu stundu, frá því sem var rétt, og það er ótrúlega svekkjandi. Ég lít hins vegar svo á að þetta sé þjálfun í að fylgja eftir sannfæringu sinni (þá verður maður síður svekktur þegar úrlitin stangast á við ágiskunina). Svo er gaman og þrælspennandi að bera sig saman við aðra keppendur. Þeir eru eitthvað á bilinu 3-4000 talsins og safna áfjáðir stigum. Heildarlistinn er opinn þannig að öllum er ljóst hvernig leikar standa í þessari hliðarkeppni við sjálft heimsmeistaramótið. Efstu menn skipta sætum reglulega. Ég er ekki meðal þeirra en gekk hins vegar geysilega vel framan af. Af fyrstu níu leikjunum giskaði ég rétt í sex tilvikum. Ef maður miðar við tölfræðilegu líkurnar þá er einn á móti þremur að maður giski rétt í hvert skipti. Líkur eru því á að maður nái einum leik réttum af hverjum þremur að jafnaði - jafnvel þó maður giski út í loftið. Tveir af þremur er því nokkuð gott en skilaði mér þó ekki nema 180. sæti til að byrja með. Ég vissi hins vegar af því að í tveimur tilvikum hafði ég breytt ágiskuninni á síðustu stundu frá því sem reyndist rétt svo mér fannst ég alveg líklegur til að ná enn betri árangri.

Sjá hér (ágiskun mín innan sviga):

Suður-Afríka og Mexíkó 1:1 (1) fyrst giskaði ég á jafntefli en svo breytti ég gegn "sannfæringunni" og fylgdi "óskhyggjunni" því mér fannst það gott fyrir keppnina að S-Afríka byrjaði vel. Kannski var það vorkunnsemi gagnvart heimaþjóðinni sem ekki virtist líkleg til að komast upp úr riðlinum. En þessu breytti ég einni mínútu fyrir leik og klikkaði.

Uruguay og Frakkland 0:0 (x) Fyrstu leikir Frakka hafa yfirleitt verið bragðdaufir. Svo hafði ég sérstaklega litla trú á þessu liði yfir höfuð eins og það hefur spilað að undanförnu.

Suður-Kórea og Grikkland 2:0 (1) Grikkir koma til með að eiga erfitt uppdráttar í næstu stórmótum eftir að hafa uppskorið fyrir heila öld í Evrópukeppninni 2004, sem meistarar.

Argentína og Nígería 1:0 (2) Hér stólaði ég á að Argentínumenn væru illa undirbúnir og að Nígeríumenn kæmu mjög einbeittir til leiks.

England og Bandaríkin 1:1 Þegar þessar þjóðir mætast er ekki ekki von á öðru en jafntefli. Það er bara þannig.

Alsír og Slóvenía 0:1 (2) Ég hélt hálfpartinn með "austantjaldsþjóðunum": Slóveníu, Slóvakíu, Serbíu....

Serbía og Ghana 0:1 (1) ...sem kom mér illa í þessu tilviki, en vel í leiknum hér á undan.

Þýskaland og Ástralía 4:0 (1) Þetta var nú eins og að hirða sleikipinna af smákrakka. Það voru miklu fleiri stig í boði fyrir Ástralasigur (7.05) heldur en Þjóðverjasigur (1.55) en maður verður að vera sæmilega skynsamur.

Holland og Danmörk 2:0 (1) Hvernig get ég giskað á annað en hollenskan sigur gegnu gömlu og þreyttu dönsku liði?

Þegar hér var komið sögu var ég með 66,7% árangur (tveir af hverjum þremur) og ætlaði hærra en 180. sæti. Það voru ekki nema örfá stig frá þessu sæti og því fyrsta. Ef ég bara hefði giskað rétt í upphafsleiknum....

Í næstu þremur leikjum gekk mér hins vegar ekki eins vel.

Japan og Kamerún 1:0 (2) Nokkuð óvænt úrslit.
Ítalía og Paraguay 1:1 (2) Þarna hafði ég trú á Paraguay en var bara óheppinn.
Nýja Sjáland og Slóvakía 1:1 (2) Aftur óvænt úrslit.

Þrír rangir í röð!! Bæði óvænt úrslit og óheppni í bland. Ég féll um mörg sæti eftir hvern leik (lenti í sæti nr. 230 eftir Japansleikinn, svo 340. og loks 520.). Ég var samt enn nokkuð kokhraustur þar sem um mjög óvænt úrslit hafði verið að ræða í öllum tilvikum (og ég var nærri því að ná einum leiknum réttum). Á þessum tímapunkti greindi ég Vidísi frá þessum skemmtilega leik og að við ætluðum saman til Tyrklands eftir keppnina (maður er alltaf að ögra sjálfum sér). Við vorum þá á leið niður í bæ að horfa á næsta leik, Portúgal spila við Fílabeinsströndina. Við sáum þennan leik saman af því við eigum góðar minningar í Portúgalska liðinu frá því fyrir átta árum. Þá vorum við að kynnast á meðan þáverandi keppni stóð yfir. Hún þekkti ekki liðin en hafði áhuga á að fylgjast með keppninni með mér og spurði mig markvisst út í liðin. Þá sagði ég henni frá Portúgal (sem hafði verið frábært lið árin á undan) og við ættum að halda með þeim. Svo þegar út í keppnina var komið reyndist liðið "okkar" illa undirbúið og andlaust. Mér líkaði engan veginn hvernig þeir spiluðu og var fljótur að hafna þeim. Ég á það til að hafna hvaða liði sem er á staðnum ef þeir standa sig ekki vel þegar á hólminn er komið. Þá sneri Vigdís sér að mér og var heldur en ekki ósátt við skort minn á staðfestu og sagði við mig ákveðin: "Þetta er engin góðgerðastarfsemi!" Mér fannst þetta lýsa afstöðu manneskju sem fylgir sínum mönnum eftir, eða manni, í gegnum súrt og sætt. Þetta situr þess vegna eftir sem svolítið sæt minning.

Fílabeinsströnding og Portúgal 0:0 (2) Þessum leik breytti ég úr jafntefli á síðustu stundu. Treysti ekki innsæinu sem sagði mér að Portúgalar gætu ekkert. Ég lét "óskhyggjuna" trufla mig því ég vildi helst sitja með Vigdísi yfir góðum Portúgölskum leik - vitandi það að liðið gæti þó líklega ekkert. En nú var ég kominn með fjóra ranga í röð!! Í kjölfarið féll ég enn og aftur um sæti og var kominn í rúmlega þúsundasta sæti!! Ég ferðina til Tyrklands fjarlægjast óðfluga og stigabilið milli mín og fyrsta sætisins aukast. Næsta leik gerði ég þó rétt.

Brasilía og Norður-Kórea 2:0 (1) Hér var ég næstum búinn að freistast til að giska á jafntefli. Ég hef nefnilega ekkert sérstaka trú á Brasilíu og var að vonast til að Norður-Kórea kæmi á óvart (sem þeir sannarlega gerðu í þessum leik). En ég ákvað að vera skynsamur á síðustu stundu og giskaði á brasilískan sigur. En það hafa nánast allir í getraunaleiknum gert það sama því ég færðist ekkert upp á við í stigatöflunni eftir þennan leik.

En ef þetta var slæmur kafli þá var framhaldið skelfilegt. Ég fór ég að gera helling af mistökum. Ég reyndi af örvæntingu að hala markvisst inn stig með því að giska ítrekað á ólíklega kostinn. Græðgi? Ég fór í smá greiningarvinnu eftir á og áttaði mig á að þrennt varð mér að falli: græðgin (vildi giska á þann kost sem gæfi fleiri stig), óskhyggjan (sem stundur stríðir gegn köldu mati) og hrein óheppni (leikir þar sem ég er sáttur við sjálfa ágiskunina eftir á þó hún hafi verið röng). Svona leit þetta út:

Hondúras og Chile 0:1 (1). Græðgi: (stuðlar voru 5.1/3.3/2.5). Ég viss að Chile væru sterkari fótboltaþjóð.
Spánn og Sviss 0:1 (x) Óheppni. Ég vissi að Sviss myndi koma á óvart og ekki fá á sig mark.
Suður-Afríka og Uruguay 0:3 (1) Óskhyggja. Enn fann ég til með heimamönnum og vissi ekki alveg hvar ég hafði Uruguay.
Argentína og Suður-Kórea 3:1 (x) Græðgi: (stuðlar voru: 1.95/6.95/10.2). Ég vissi eignlega betur.
Grikkland og Nígería 2:1 (x) Óheppni. Furðuleg uppákoma í leiknum, með brottvísun, gjörbreytti gangi leiksins.
Frakkland og Mexíkó 0:2 (x) Óheppni. Ég bjóst við daufum jafnteflisleik. Það var meira varið í Mexíkó en ég átti von á.
Þýskaldand og Serbía 0:1 (1) Óheppni. Hér hvarflaði að mér að stóla á Serbíu en breytti yfir í "kalt mat" á síðustu stundu.
Slóvenía og Bandaríkin 2:2 (2) Óheppni. Bandarískur sigur var mjög líklegur enda "löglegt" mark dæmt af liðinu undir lokin.
England og Alsír 0:0 (1) Óskhyggja. Ég vonaðist til að England færi að spila vel en hafði samt ekki trú á því.

Níu rangir í röð!! Hér var gengi mitt í getraunaleiknum hræðilegt. Ég var kominn í tvöþúsundasta sæti!! Skandall. Núna breytti ég afstöðu minni. Ég átti ekki lengur raunhæfan möguleika á stórum vinningi og ákvað að taka þetta af yfirvegun. Ég ákvað að taka þetta eins og hver annar íþróttamaður. Í stað þess að spila af örvæntingu og klúðra málunum algjörlega einsetti ég mér að vinna mig inn í leikinn (eins og sagt er á íþróttamáli) hægt og rólega og setja mér persónulegt takmark. Vinna marga smásigra og hala inn örugg stig þegar þau bjóðast. Ef ég enda ofar en í þúsundasta sæti héðan í frá get ég verið mjög sáttur. Það er takmarkið.

Þetta eru auðvitað mikil vísindi allt saman, ekki bara hvað varðar þekkingu á fótboltanum heldur reynir mikið á sjálfsþekkingu líka (hvenær er mat byggt á "óskhyggju" eða "græðgi"? Hvenær beitir maður "köldu mati" eða "innsæi"?). Með hæfilegri blöndu af þessu öllu saman hefur mér undanfarið tekist að giska á ólíkleg úrslit (Suður-Afríka vann loksins... Frakkland, af öllum liðum) en verið stundum óheppinn (hvernig tókst Nýja-Sjálandi að halda jöfnu gegn Ítalíu?) og full vongóður á köflum (giskaði á Norður-Kóeyskan sigur gegn Portúgal, sem endaði 7:0 fyrir Portúgal, eins og frægt er orðið). Eftir útrýmingu stigagræðginnar og tortryggni í garð eigin óskhyggju og ég hef rokkað á milli 1100 og 1500 og er staddur í sæti númer 1064 (er það ekki frægt ártal?). Mér hefur tekist að giska rétt í öðrum hverjum leik að undanförnu.

Sem sagt.... mæli með þessum leik í næsta móti (ef menn geta leyft sér að sökkva sér ofan í keppnina).

föstudagur, júní 18, 2010

Upplifun: Útilegustemning í Vatnsmýrinni

Fyrir nokkrum vikum baðaði maður sig í sólskini. Mér leist ekki á að hafa sama veður yfir mér í júní. Þá yrði ég að bíta í það súra að sitja inni á meðan aðrir spókuðu sig utandyra. En það kom ekki til þess. Veðrið breyttist snögglega rétt fyrir mót. Ég var eiginlega hálfpartinn búinn að spá því - án þess að ég lýsi mig ábyrgan. Reyndar var óheppilegt að fá hellirigningu á laugardaginn var því þá hélt Stella (stundum kennd við Kristján) útskriftarveislu í glerskála bak við Norræna húsið. Það hefði verið ljúft að hafa glampandi sól við litlu tjörnina svo að börnin gætu valsað um frjálslega. Í staðinn myndaðist all sérstök og hugguleg tjaldstemning á meðan droparnir féllu á glerið. Veitingar voru að sjálfsögðu fyrsta flokks, þar sem laukmarínerað kartöflusalat kom skemmtilega á óvart.