föstudagur, nóvember 26, 2010

Þroskaferli: Fyrsta tönnin farin

Signý missti sína fyrstu tönn á þriðjudaginn. Tönnin var búin að vera laus í rúmlega viku. Það er eiginlega dæmigert fyrir hana að ná að "geyma" hana svo lengi því þannig eru hún. Til dæmis, ef hún fær eitthvað gott að morgni dags, eins og rúsínur, þá er hún líkleg til að geyma þær þangað til hún mætir í leikskólann til að geta sýnt vinum sínum. Góðan mat getur hún sömuleiðis treinað sér auðveldlega. Hún er lengi að borða mat sem hún er hrifin "af af því að hann er svo góður". Að sumu leyti má segja að hún sé mjög öguð að eðlisfari. En nákvæm líka. Hún gagnrýnir sjálfa sig óspart þegar hún gerir mistök. Það gerir hún með að missa móðinn og finnast hún sjálf vonlaus. Fullkomnunaráráttan getur virkilega verið til vansa. En lausu tönnina passaði hún sem sagt afar vel og lengi. En tönnin varpar líka skemmtilegu ljósi á systkinasamskiptin. Um leið og Signý tilkynnti um það að hún væri með lausa tönn sagði Hugrún: "Ég er líka með lausa tönn". Nema hvað! Hugrún notar Signýju stöðugt sem viðmið eins og algengt er með náin systkini. Metingurinn er hins vegar sjaldnast neikvæður. Þegar þær keppa, til dæmis í kapphlaupi, þá er Signý yfirleitt á undan og undirstrikar það náttúrulega með því að segja: "Ég vann!" Þá kemur Hugrún nokkrum skrefum á eftir henni og gerir nákvæmlega eins: "Ég vann líka!" Þannig er Hugrún. Hún er ekkert að flækja hlutina. Signý veltir hins vegar tilverunni mikið fyrir sér og tekur afar nærri sér ef henni finnst hún ekki vera að standa sig.

En tönnin er búin að vera mikið umhugsunarefni. Það vill svo til að Vigdís var í nokkurra daga ferðalagi á þessum tíma og kom heim einmitt þegar tönnin féll. Það fannst henni afar táknrænt. Sem er líka lýsandi fyrir hana. Hún á það til að leita að táknum og fyrirboðum víða og hrífst alltaf af þvi sem samræmist skemmtilega, eins og þessu. Sem sagt, það lögðu allir sína merkingu í tönnina. En hvað um mig þá? Ég segi bara "Úff!" Mér finnst tilhugsunin um fallandi tennur frekar skuggaleg. Það er bara synd af svona fallegar tennur skuli þurfa að losna. En sú mynd sem situr efst í huga mér er þessi fallega tönn. Hún var alveg skjannahvít og greinilegt að tannhirðan er í lagi á þessu heimili :-)

miðvikudagur, nóvember 17, 2010

Pæling: Kynbundnir litir og beyging lýsingarorða

Þegar kom að kvöldmatnum í kvöld sagði Hugrún: "ég er ekki svangur". Hún á það til að nota lýsingarorð svona um sjálfa sig, í karlkyni. Það liggur svo sem engin merking að baki því önnur en sú að hún sé ekki meðvituð um muninn. Hún er það góð í málnotkun almennt að ég hef engar áhyggjur haft af þessu og ekki áréttað það neitt markvisst nema með því að endurtaka setninguna í réttri beygingu. En í þetta skiptið gerði Signý athugasemd við þetta og ég sá mér leik á borði og langaði að gera úr þessu smá endurtekningarleik.

Þegar strákarnir segja: "Ég er þreytt-UR" þá segja stelpurnar "Ég er þreytt"

Þegar strákarnir segja: "Ég er syfjað-UR" þá segja stelpurnar "Ég er syfjuð".

Og svo leyfði ég þeim að botna. Þær höfðu mjög gaman af því og lögðu sig fram um að vera á undan mér að klára setningarnar. Eftir nokkar endurtekningar sneri ég þessu við þannig að ég byrjaði á stelpunum og leyfði þeim að botna með strákunum.

Þegar stelpurnar segja: "Ég er þyrst" þá segja strákarnir "Ég er þyrst-UR"

og svo framvegis. Smám saman langaði mig að stríða þeim pínulítið og notaði orð sem virkar sérkennilega hjá strákunum:

Þegar stelpurnar segja: Ég er sæt" þá segja strákarnir "Ég er sæt-UR". Þeim fannst ekkert undarlegt við að ímynda sér strákana tala svona um sjálfa sig þó mér þætti það kannski heldur óvenjulegt (yfirleitt er því haldið að strákunum að þeir séu stórir og sterkir en ekki "sætir", en þær bara vissu það greinilega ekki, sem er náttúrulega bara gott).

En næsta tilraun fór á annan veg. Þá ögraði ég þeim með lýsingarorðinu "bleikur":

Þegar stelpurnar segja: "Ég er bleik" þá segja strákarnir.....

Hugrún var ekki lengi að botna þessa línu:

....þá segja strákarnir: "Ég er SVARTUR".

Hún var ekkert að leiðrétta mig eða útskýra neitt. Það hvarflaði bara ekki að henni að nota bleika litinn á strákana. Sem sagt, litaaðgreining kynjanna lifir enn góðu lífi.

miðvikudagur, nóvember 10, 2010

Sýning: Ormurinn ógnarlangi

Við í skólanum skruppum í gær með nemendur á sýninguna "Ormurinn ógnarlangi" í Gerðubergi. Þetta er stórkostleg sýning, bæði fyrir börn og fullorðna. Sagt er með risavöxnum leikmunum frá heimsmynd norrænnar goðafræði (hægt er að skríða inn í Miðgarðsorm og sitja í kjöltu Fenrisúlfs). Sýningin er listaverk og það er svo rækilega nostrað við hvern krók og kima að maðuur á ekki orð. Sýningin er opin fram í mars (þetta er langur opnunartími vegna þess hve mikill tími fór í að setja sýninguna upp). Ég mæli hins vegar með því að fara sem fyrst áður en leikmunir láta á sjá og til þess að hafa möguleika á að fara aftur og aftur...

þriðjudagur, nóvember 09, 2010

Uppákoma: Afgreiðsla í Krua Thai

Við Vigdís ákváðum að panta okkur tælenskan mat hjá Krua Thai (Tryggvagötu). Við stóðum í ströngu og gerðum vel við okkur; pöntuðum þrjá rétti. Einn þeirra var fiskréttur (hitt voru djúpsteiktar rækjur og einhver kjötréttur, fyrir Vigdísi). Ég skutlaðist eftir matnum og var snöggur að því, enda svangur. Upp úr dúrnum kom hins vegar rækjurétturinn og tveir kjötréttir. Þá fór ég á netið til að skoða hvort ég hefði gert einhver mistök í pöntun og sá mér til undrunar að rétturinn minn var "fiskur" samkvæmt íslensku skýringunni en "beef" (nautakjöt) samkvæmt ensku skýringunni . Ég hringdi undir eins og benti þeim á þessa villu sem augljóslega staðfesti að þeir hefðu gert mistök. Ég þurfti að eyða talsverðum tíma í að útskýra þetta og um tíma fannst mér eins og starfsmaðurinn væri að taka niður nýja pöntun. Þegar ég hafði klippt skilaboðin niður smáar einingar, í eins konar skeytastíl, skildi starfsmaðurinn loks hvað ég var að meina, skaust á bak við (til að tékka á vefsíðunni) og kom hlæjandi til baka. Nú átti ég von á því, samkvæmt íslenskum hefðum, að fá einhverjar sárabætur fyrir þessi leiðu mistök því ég sá fram á að þurfa að skutlast aftur (staðurinn býður ekki upp á heimsendingu). Nei, þá var ég spurður: "Geturðu komið með hinn réttinn!". Ég var svo hissa að ég sagði ósjálfrátt "já" en fattaði um leið og símtalinu lauk að þetta væri algjör vitleysa. Ég var reiður sjálfum mér og hringdi aftur og reyndi að útskýra að ég ætti ekki að þurfa að koma með hinn réttinn til baka því þeir bera ábyrgð á mistökunum. Þeir ættu að koma til móts við mig með einhverjum hætti. En það komst einhvern veginn ekki alveg til skila gegnum símann þannig að ég snöggreiddist og skellti á.

Niður eftir skutlaðist ég og var nokkuð heitt í hamsi og reyndi að tala sjálfan mig niður. Undirbjó einfalda útskýringu á því hvernig þetta ætti að ganga fyrir sig. Þegar á staðinn var komið var fiskurinn tilbúinn. Ég var mjög yfirvegaður þegar á hólminn var komið, en ákveðinn, og bað um starfsmanninn sem hafði talað við mig í símann. Ung stúlka kom þá lafhrædd (að því er virtist). Mér tókst í þetta skiptið að útskýra hvernig staðurinn ætti að koma til móts við mig fyrir eigin mistök. Þá ýtti hún nautakjötsréttinum varlega að mér, hikandi, og benti mér á að ég mætti alveg hafa hann líka. Hún var greinilega fegin þegar ég sætti mig við þessa lágmarksmálamiðlun. Síðan afsakaði ég mig fyrir að hafa reiðst svo snögglega í símanum og ég kvaddi kurteislega.

Eftir á veltum við Vigdís þessu fyrir okkur. Þetta er dæmi um spennu á milli ólíkra þjóðfélagshópa þar sem upp getur komið misskilningur (eða bara takmarkaður skilningur). Líklega er það vinnuregla á þessum stað að kúnninn skili rétti ef hann kvartar yfir honum en í þessu tilviki var þessu öðruvísi farið. Reynslulítill starfsmaður dettur auðveldlega inn í vélrænt vinnulag án þess að skoða samhengið hverju sinni. En ég var feginn því að hafa ekki verið með leiðindi og læti á staðnum þegar inn var komið. Það hefði ekki haft neitt upp á sig nema óþægindi á báða bóga.

Nú verður hins vegar gaman að sjá hvað þeir eru lengi að laga vefsíðuna síná (sjá rétt númer 37 á maðseðlinum). Þangað til geta óprúttnir séð sér leik á borði.

þriðjudagur, nóvember 02, 2010

Draumur: Andsetinn íverustaður

Það er búið að vera einstaklega leiðinlegt veður að undanförnu - bæði kalt og hvasst. Það bitnar á manni með ýmsum hætti, meðal annars með því að maður þarf að hita íbúðina meira en venjulega og lokar frekar glugganum. Þetta tvennt fer illa saman. Yfirleitt þegar heitt er inni og glugginn lokaður sef ég illa, eins og ég sé með óráði. Oftast nær þegar ég sit vankaður á rúmstokknum þá rifjast upp fyrir mér einhvers konar martröð.

Núna í nótt til dæmis dreymdi mig ferlega illa. Mig dreymdi að ég væri staddur í einhverri íbúð í Bústaðahverfinu, nánar tiltekið í Grófarhverfinu (nálægt Elliðaárdalnum). Mér fannst eins og ég byggi þarna ásamt einhverjum öðrum (ég veit ekki hvort það var Vigdís en það virtist einhver náinn, í það minnsta). Þarna leið mér illa. Ég fann að mér var ekki sjálfrátt. Húsið var reimt. Einhverjir andar settust að inni í mér, og hinum aðilanum, og létu okkur gera alls konar andstyggilega hluti. Ég man til dæmis eftir ketti í þvottavél. Svo sé ég fyrir mér hinn aðilann upprúllaðan í sæng eins og það væri liður í pyntingum. Ég upplifði stöðuga ógn og óþægindi, eins og það væri alltaf eitthvað yfirvofandi. En svo komst ég þaðan einhvern veginn og man eftir húsinu úr fjarska. Gott ef það rann ekki lækur undir það eins og húsið væri einhvers konar brú og ég man hvernig það reyndi að lokka mig til sín á meðan ég fjarlægðist. Ég fann hvað þetta var íþyngjandi en samt upplifði líka einhvers konar létti.

mánudagur, nóvember 01, 2010

Gullmolar: Athugsemdir yfir morgunsjónvarpinu

Helgarsjónvarpið olli heilabrotum, eins og um síðustu helgi. Það var þessi dæmalausi þáttur um mannslíkamann "Einu sinni var...lífið" sem persónugerir alla líkamsstarfsemina (sjá næst síðustu færslu). Núna tók Signý eftir undarlegri þversögn. Við fylgdumst með sögupersónu athafnast eitthvað, hlaupa eða hvað það nú var, og skyggndumst síðan inn í líkamann og sáum þar alls konar verur svara kalli líkamans. Þar á meðal voru yfirvegaðir náungar í stjórnstöð líkamans (ekki var sýnt nákvæmlega hvar hún var staðsett en ég sem foreldri ímynda mér að það eigi að vera staðsett einhvers staðar í heilanum). Þetta herbergi var alsett tölvum. Vandinn var hins vegar sá að þær verur sem höfðu yfirsýn yfir alla líkamsstarfssemina og unnu fyrir framan tölvurnar voru minni útgáfur af persónunum sem voru að hlaupa og hamast. Þá gall í Signýju:

"Hann er í maganum sínum! Hann er í maganum sínum! Hvernig komst hann í magann á sér?"


Í þetta skiptið svaraði ég engu og brosti bara með.

Eins vakti athygli mína glögg athugasemd Hugrúnar yfir Stundinni okkar. Við fylgdumst náið með stúlku syngja dapurlegt lag ("Bátur líður út um Eyjasund..."). Hún hafði fallega söngrödd en var mjög óörugg með sig. Röddinn var óstyrk og öll holningin bar með sér að hún væri allt annað en afslöppuð. Hún virtist eiginlega lafhrædd og hálf stjörf. Signý og Hugrún horfðu á þetta og hlustuðu gaumgæfilega og sögðu ekki múkk fyrr en lagið var rúmlega hálfnað. Þá fann Hugrún sig knúna til að grípa inn í með útskýringu eins og henni er einni lagið:

"Hún á enga vini Signý. Hún á bara enga vini."
.

Þetta vakti mig til umhugsunar um það hvað börn eru næm hvert á annað. Þau þekkja kannski ekki forsendurnar fyrir líðan hvers annars en geta samt verið fljót að álykta.