þriðjudagur, nóvember 02, 2010

Draumur: Andsetinn íverustaður

Það er búið að vera einstaklega leiðinlegt veður að undanförnu - bæði kalt og hvasst. Það bitnar á manni með ýmsum hætti, meðal annars með því að maður þarf að hita íbúðina meira en venjulega og lokar frekar glugganum. Þetta tvennt fer illa saman. Yfirleitt þegar heitt er inni og glugginn lokaður sef ég illa, eins og ég sé með óráði. Oftast nær þegar ég sit vankaður á rúmstokknum þá rifjast upp fyrir mér einhvers konar martröð.

Núna í nótt til dæmis dreymdi mig ferlega illa. Mig dreymdi að ég væri staddur í einhverri íbúð í Bústaðahverfinu, nánar tiltekið í Grófarhverfinu (nálægt Elliðaárdalnum). Mér fannst eins og ég byggi þarna ásamt einhverjum öðrum (ég veit ekki hvort það var Vigdís en það virtist einhver náinn, í það minnsta). Þarna leið mér illa. Ég fann að mér var ekki sjálfrátt. Húsið var reimt. Einhverjir andar settust að inni í mér, og hinum aðilanum, og létu okkur gera alls konar andstyggilega hluti. Ég man til dæmis eftir ketti í þvottavél. Svo sé ég fyrir mér hinn aðilann upprúllaðan í sæng eins og það væri liður í pyntingum. Ég upplifði stöðuga ógn og óþægindi, eins og það væri alltaf eitthvað yfirvofandi. En svo komst ég þaðan einhvern veginn og man eftir húsinu úr fjarska. Gott ef það rann ekki lækur undir það eins og húsið væri einhvers konar brú og ég man hvernig það reyndi að lokka mig til sín á meðan ég fjarlægðist. Ég fann hvað þetta var íþyngjandi en samt upplifði líka einhvers konar létti.

1 ummæli:

Begga sagði...

oops sem betur fór vaknaðir þú..
en sá draumur !!!!!