þriðjudagur, mars 27, 2012

Daglegt líf: Tvær kvöldstundir í boði Beggu

Við Vigdis erum svo heppin að eiga góða að og hún Begga systir hefur reynst okkur séstaklega vel þegar við þurfum að bregða okkur úr húsi saman. Fyrir rúmri viku síðan passaði hún fyrir okkur þegar haldinn var merkilegur fyrirlestur í Grandaskóla um uppeldi. Hugo sálfræðingur var með sérlega lifandi og skemmtilega umfjöllun um hvernig best sé að nálgast börnin á jákvæðan hátt og nota til þess heppilegt orðalag. Meira um það síðar. Núna um páskana hljóp Begga aftur í skarðið til að við Vigdís kæmumst austur fyrir fjall að borða á Rauða húsinu (eins og lengi hefur staðið til að gera). Þoka lá yfir heiðinni en það kom ekki að sök, maturinn var frábær og andrúmsloftið afslappað og notalegt. Við tókum eftir ýmsum antíkmunum hér og þar í salnum, sem vörpuðu skemmtilegum blæ á umhverfið, og vorum sammála um að svona væri betra að geyma gamla muni heldur en á minjasöfnum í kraðaki annarra muna. Þetta er lifandi nærumhverfi og því má segja að munirnir hafi gengið í endurnýjun lífdaga. Eins og gamli karlinn, "fertugi", sem þarna leysti út afmælisgjöf í boði konunnar :-) Kvöldin verða ekki huggulegri.

p.s. Þessi færsla var skrifuð viku seinna en hún var skráð. Fyrir því liggja tæknileg mistök sem of flókið er að fara nákvæmlega út í hér.

Upplifun: Vorkoma að innan

Um síðustu helgi ætluðum við Vigdís að skella okkur austur fyrir fjall að borða. Við áttum enn inni máltíð á Rauða húsinu í tilefni af afmæli mínu. Það fór hins vegar á annan veg en við ætluðum. Það var ekkert spennandi veður - rok og skýjað. Svo var ég eiginlega of slappur og áhugalítill einhvern veginn. Ég skildi eiginlega ekki hvernig á því stóð - ég fann bara enga "löngun". Við vorum búin að redda pössun og allt! Ég fann að ég var ekki að verða veikur en var samt svo orkulaus. Ég nennti ekki einu sinni að lesa bók um kvöldið eða horfa á sjónvarpið. Fór feginn að sofa um kvöldið.

Það hvarfla að manni alls konar hugsanir þegar heilsunni hrakar á dularfullan hátt og maður verður "slappur" en ég ákvað að velta mér ekkert upp úr því. Daginn eftir vaknaði ég hins vegar nokkuð sprækur eins og ekkert hefði í skorist - langt frá því að vera lasinn. Þá fattaði ég hvað hafði amað að mér því þessari sveiflur voru eitthvað kunnuglegar: Þetta var líklega fyrstu ofnæmisviðbrögð vorsins. Það gerist einmitt þegar náttúran sprettur fram með fyrstu hlýju dögunum og áhrifin magnast upp í roki. Þegar ég bar slappleikann undir aðra sem eiga við frjókornaofnæmi að stríða bar sögum okkar saman. Það voru fleiri slappir en ég. Vorið er sem sagt komið!

Tónlist: Nýjustu Bowie plöturnar

Ég er búinn að hlusta talsvert á Bowie síðustu daga. Þetta kemur í tímabilum. Hann hefur alltaf verið í uppáhaldi síðan .... (hugs, hugs, hugs) 1986 en ég hlusta mjög misjafnlega mikið á hann, enda bæði mikið að gera og margt annað áhugavert að hlusta á. En þegar ég dreg fram góða Bowie plötu þá líður mér eins og ég hafi boðið góðum vini í heimsókn, einhverjum sem ég þekki mjög vel, sem ég hef ferðast með gegnum tíðina, tenging við bæði sjálfan mig og fortíðina.

Rétt áður en afmælisgestirnir komu í heimsókn um daginn skellti ég Bowie á fóninn. Ég vildi gíra mig aðeins upp og stóð frammi fyrir smá uppvaski. Þá mundi ég eftir nýjustu tveim plötunum hans sem hann gaf út rétt eftir aldamótin, Heathen og Reality. Þær hafa vaxið talsvert í áliti eftir því sem frá líður. Þær eru persónulegri en allt sem hann hefur gefið út á ferlinum ef undan er skilið það sem hann samdi áður en hann sló í gegn sem Ziggy Stardust (við erum að tala um tónlist frá því fyrir 1972 - sem reyndar er fæðingarár mitt). Eftir að Bowie spratt fram í gervi Ziggys hefur hann verið stöðugt að endurmeta ímynd sína og verið gríðarlega skapandi og hrist fram úr erminni nýjar tónlistarstefnur með nokkurra ára millibili (þetta eru engar ýkjur - enda hefur hann oft verið efstur á blaði þegar teknir eru saman listar yfir áhrifamestu tónlistarmenn rokksins - ofar bæði Bítlunum og Miles Davis, og þá er mikið sagt). Síðan fór hann í gegnum öldudal á níunda áratugnum (hann gerðist vinsæll poppari með Let´s Dance og missti flugið og sjálfstraustið í leiðinni). En hann var á þeim tímapunkti fastur í þeirri áráttu að "endurskapa sig" og reyndi stöðugt að koma fram með nýja ímynd en tókst það mjög illa fram til 1995. Þá náði hann umtalsverðum listrænum hæðum á ný. Það má hins vegar telja hans akkilesarhæl að í tónlistarsköpun sinni - þrátt fyrir frumleika og djörfung - sé hann sem persóna yfirleitt frekar fjarlægur, eins og tónlist hans og framkoma sé bara eitt stórt leikrit. Hann getur virkað kaldur og jafnvel vélrænn á köflum, einkum í seinni tíð. En þegar nær dró aldamótum fór hann einhverra hluta vegna að hugsa öðruvísi og ákvað að koma bara fram eins og hann var klæddur sem "the bloke next door" (eins og mig minnir að hann hafi orðað það) og fór að semja persónulega tónlist um sjálfan sig og tilveruna eins og hún blasti við honum. Platan sem kom úr árið 1999 var reyndar ekkert sérstök (hún hét "...hours") og hún leið fyrir misheppnaða hljóðvinnslu og einhverja tilgerð (eins og hann væri ekki alveg nógu öruggur í eigin skinni enn þá). Það eiginlega fór honum ekkert sérstaklega vel að birtast á svona látlausan hátt. En svo gerðust undrin. Á næstu plötu (Heathen, 2002) fékk hann til liðs við sig útsetjara sem hafði unnið með honum á áttunda áratugnum (Tony Visconti) og það skipti sköpum. Maður gerir sér best grein fyrir því í dag hvað hann á mikið í gömlu plötunum hans Bowie því þessi blanda snarvirkaði. En það sem gerði plötuna alveg einstaka er hvað Bowie kafaði djúpt í þetta skiptið í eigin persónu, tilvistarkreppu og velti vöngum í leiðinni um heimspekilegar hugmyndir sem sækja á okkur eftir því sem við eldumst. Platan er ekki gallalaus en hún er í stórum dráttum alger gersemi. Hljómurinn er skuggalegur og dramatískur á köflum með hæfilegum léttleika á milli (og þá er Bowie að leika sér með tónlistina á mjög afslappaðan hátt án þess að reyna að landa nýrri stefnu eða breyta tónlistarsögunni). Árið eftir fylgdu þeir félagar plötunni eftir með Reality, sem var ekki eins djúp en var í staðinn heilsteyptari og öruggari. Bowie var sannarlega kominn á flug aftur og virtist hafa lítið fyrir þessu. Hann var að greinilega að ná áttum á ný og finna sig í tónlistinni á öðrum forsendum en áður. En þá gerðist hið óumflýjanlega: Hann missti heilsuna. Á tónleikum hneig hann niður og var í lífshættu um tíma vegna heilablóðfalls, minnir mig. Eftir það hefur ekkert heyrst í honum. Hann hefur ekki komið fram opinberlega síðan 2006, hvorki í viðtölum né öðrum vettvangi. Hann hefur ekki gefið frá sér eitt einasta lag. Ekkert er af honum að frétta. Þegar sögusagnir um hrakandi heilsu hans ná flugi á umræðuvefum tengdum honum og menn velta fyrir sér hvort hann eigi nokkuð afturkvæmt hefur hann ekki nýtt tækifærið til að kveða þær sögusagnir í kútinn. Enginn orðsending hefur borist frá honum. Maður ályktar ósjálfrátt að hann hafi í það minnsta skaddast eitthvað varanlega og hafi ekki getu eða sjálfstraust til að koma fram. Þeir bjartsýnustu leyfa sér hins vegar að vonast til að hann hafi bara ákveðið að setjast í helgan stein og njóta góðs af eigin ríkidæmi í faðmi fjölskyldunnar.

Ég velti þessu öllu fyrir mér eftir að ég tók Bowie plöturnar tvær fram. Þær voru nógu persónulegar og margslungnar til að standa sem afbragðs minnisvarði en í leiðinni ótrúlega viðeigandi sem lokakafli á ferli sem hófst með mjög persónulegum plötum (sem fáir þekkja). Maður setti þetta að sjálfsögðu í samhengi við eigin tímamót í leiðinni og hugsaði um það hvernig við erum öll á óumflýjanlegu ferðalagi í sömu átt, hægt og bítandi, jafnvel þeir sem skipta ört um ham og endurnýja sig í sífellu.

föstudagur, mars 23, 2012

Pæling: Afmælisupplifun

Nú eru liðnir nokkrir dagar frá því ég átti afmæli. Ég var með opið hús og hafði þetta eins einfalt og hugsast gat; bauð upp á kaffi og pönnukökur fyrir þá sem melduðu sig í heimsókn og leyfði gestum að bæta við veitingum. Mamma kom með kökur og ástarpunga. Sirry (tengdó) mætti með brauðmeti með afbragðs fyllingu (sem ég hef nú þegar skrifað vandlega hjá mér svo ég geti endurtekið leikinn sjálfur). Gjafirnar hittu allar í mark, bæði föt og afþreying. Ég eignaðist meira að segja ísvél sem á eftir að koma að góðum notum. Ég ætla mér að bjóða upp á ísveislur á næstunni.

Dagurinn endaði á því að ég kíkti í tölvupóstinn og þar var vart þverfótað fyrir Facebook tilkynningum. Ég kíki almennt aldrei á Facebook nema einhver beini sjónum mínum að því sérstaklega, eins og núna. Mér fannst það bara gaman að ljúka deginum á þessum nótum og renna gegnum kveðjur. Takk fyrir það. Ég svaraði því reyndar þar og útskýrði að þessi aldur hefði ekki stigið mér til höfuðs á neinn óþægilegan hátt. Ég var nefnilega svo útsjónarsamur að lafa frameftir kvöldið fyrir afmælið við lestur góðrar bókar og upplifði mjög áþreifanlega að nákvæmlega ekkert "gerðist" á miðnætti. Það er þægilegri upplifun en að vakna að morgni og finnast maður allt í einu vera orðinn hundgamall. Ég aftengdi "sjokkið".

laugardagur, mars 17, 2012

Pæling: Ferðalag um tuttugustu öldina

Saga tuttugustu aldarinnar hefur verið mér hugleikin að undanförnu. Það byrjaði í skólanum þar sem ég kenni. Fyrir þá sem ekki átta sig á kennsluumhverfinu þá sinni ég sérkennslu og er með fáa nemendur í stofunni í einu (kannski 2-4) og er yfirleitt að vinna með ýmiss konar grunnfærni, eins og að lesa eða reikna. Oft koma til mín nemendur sem hvorki kunna á klukku né átta sig á umhverfi sínu, muninum á vinstir og hægri eða sögulegu samhengi. Margir nemenda minna eru haldnir mikilli skólafælni eða svo miklum athyglisbresti að hefðbundin námsgögn duga skammt. Það er mjög brýnt við þessar aðstæður að hafa námsþætti mjög áþreifanlega; eitthvað sem hægt er að föndra með eða fikta í. Einnig hef ég lagt áherslu á að kennsluefnið sé sýnilegt öllum stundum sem eðlilegur hluti af umhverfi nemandans í stofunni, eins og plaköt og annað í þeim dúr. Oft útbý ég kennslugögn sérsniðin að þörfum þessara nemenda og hef til að mynda sett líkan af sólkerfinu upp á vegg. Það sem ég hef verið með hugann við að undanförnu er tímaás sem rennur saman við dyrakarm sem er áberandi í stofunni. Þar hef ég markað ártöl frá 1900 og upp úr. Við hlið dyrakarmsins má svo finna spjöld sem staðsett eru á réttum stað samkvæmt framvindu sögunnar. Á þessum spjöldum eru stutt lýsing á sögulegum atburði ásamt ártali. Þetta sjá nemendur og geta leikið sér með ef þau verða leið á námsbókunum. Ég er reyndar enn í öða önn að útbúa þetta og velja sögulega atburði á vegginn en ég sé fyrir mér að nemendur geti fengið spjöldin í hendur (þau eru bara fest með kennartyggjói) með það fyrir augum að raða atburðunum aftur rétt upp. Þetta er bæði æfing í að staðsetja háar tölur á lóðréttri talnalínu en verður á sama tíma tækifæri fyrir nemendur til að fræðast um einhvert tiltekið ártal eða atburð. Þeir nemendur sem er fróðleiksfúsir og spjallasamir eru mjög líklegir til að komast á flug í kjölfarið í tengslum við það sem er þeim helst hugleikið.

En hvað um það, ég hef verið að vinna í þessu og pæla í því hvaða atburðir standa upp úr tuttugustu öldinni. Auðvitað hef ég nýtt mér vinnu annarra hvað þetta varðar (eins og þessa síðu hér sem ég prentaði út og krotaði í) en þegar upp er staðið kem ég alltaf til með að þurfa að vega og meta hvað varðar mína nemendur og hvað ekki. Heimsviðburðir eins og kreppan 1929, heimsstyrjöldin 1914-1918 og seinna stríðið 1939-1945 komu strax upp í hugann ásamt tunglgöngunni 1969 og falli Berlínarmúrsins 1989. Hins vegar þurfti ég að glöggva mig á ýmsu öðru og komst með þessari markvissu vinnu að því að ég áttaði mig ekki nógu vel á mörgum meginatburðum aldarinnar. Þá fékk ég óvænt í hendur merkilega bók sem ber nafnið Century. Ég fékk hana að láni, sem betur fer, því sú bók er gríðarlega þykk og vegleg. Ég prísa mig beinlínis sælan að hafa getað skilað henni aftur en á meðan ég lumaði á henni (í um það bil tvær vikur) skoðaði ég hana mjög vandlega. Þetta er áhrifamikil og oft á tíðum sjokkerandi ljósmyndabók sem fer með mann í nærgöngult ferðalag um öldina sem leið. Á meðan ég fletti í gegn áttaði ég mig enn betur á því hvað ég þekkti ógnarsögu aldarinnar illa. Það kveikti í mér löngun til að fara í saumana á nokkrum af helstu þráðunum: blóðuga byltingarsögu rómönsku Ameríku, viðbjóðslegar einræðisstjórnir í Afríku og furðulega stjórnarhætti í bæði Kína og Sovétríkjunum sálugu. Og hvernig var þetta með Biafra, Kambódíu, Londonderry og deiluna milli Pakistan og Indlands sem kostaði tugi þúsunda lífið eða innrás Sovétmann í Afganistan? Hryðjuverk urðu mjög áberandi á öldinni upp úr stofnun Ísraelsríkis og breiddist út víða. Þetta þarf ég allt að skoða betur sem og forsendur Bandaríkjamanna til að stunda óhæfuverkin í Víetnam. En þetta var ekki bara eymd og hörmungar. Á öldinni sem leið hlutu mannréttindi allra loks viðurkenningu og þjóður bundust ýmsum varnarbandalögum sem virkuðu hamlandi á allan stríðsrekstur. Á jákvæðu nótunum var líka hægt að fylgja eftir örri tækniþróun á þessu tímaskeiði í sögu mannsins. Hvenær kom gramófónninn fyrst fram, fyrsta myndavélin fyrir almenning eða hljómyndin? Það er stórmerkilegt að athuga áhrif ljósritunarvélarinnar á skrifstofustörf út um allan heim, breytingu á samskiptum manna með síbreytilegri samskiptatækni og framfarir í læknavísindum. Í sama dúr má skoða "alvarlegri" tækniframfarir (sem hafa bein áhrif á valdastöðu þjóða) eins og fyrsta gervihnöttinn, fyrsta geimskotið eða fyrstu þyrluna svo að ekki sé minnst á þróun kjarnorkusprengjunnar. Allt þetta gerist í einhvers konar jafnvægi þannig að eitt leiðir undursamlega af öðru hversu kaótísk sem söguleg framvindan kann að virðast. Í flestum tilvikum er það nú þannig að einn atburður gæti ekki hafa gerst á öðrum tíma en raun bar vitni. Það er einmitt það sem menn eiga við með sögulegu samhengi hlutanna.

Fyrir þá sem hafa gaman af að grúska vil ég benda á frábæra afþreyingarsíðu sem er skrifuð af þekkingu og innsæi. Hún heitir listverse og þematískt flokkað safn af top 10 listum yfir alla hugsanlega hluti, með ítarlegri umfjöllun um hvern efnisþátt. Sagnfræðikaflinn býður meðal annars upp á þessa frábæru samantekt: 10 Worst Moments in Human History. Lesefnið er ekki fyrir viðkæma. Það segir sig líklega sjálft.

föstudagur, mars 16, 2012

Daglegtlíf: Borðað á Einari

Nú styttist í stórafmæli hjá mér. Ég skríð inn fyrir mörk fimmtugsaldursins næsta sunnudag, eins fáránlega og það hljómar. Það verður hins vegar ekkert sérstaklega haldið upp á það. Ég verð líklega bara heima og býð upp á kaffi og með´ðí ef einhver vill kíkja en ekkert stórvægilegt. Við Vigdís erum reyndar búin að halda upp á áfangann saman. Hún keypti handa okkur gjafabréf á Rauða húsið á Eyrarbakka sem við hugðumst nota um síðustu helgi. Það var búið að redda pössun og við í startholunum þegar veðrið fór snarversnandi. Það var tvísýnt um lokun yfir heiði þannig að við drógum fram plan B. Við nýttum okkur tilboð á vegum World for 2 á Einar Ben. Þar gátum við borðað þrírétta máltíð á hálfvirði, sem reyndist vera Seljurótarsúpa, lax og dökk súkkulaðikaka í eftirrétt, ásamt kaffi. Þetta var frábær máltíð, akkúrat passleg. En smjörið sem borið var fram með brauðinu stal senunni: ristað smjör! Hafiði heyrt annað eins? Með ákveðinni vandmeðfarinni aðferð er smjörið ristað léttilega og það dregur fram ótrúlega skemmtilegan keim. Þetta var álegg út af fyrir sig. Svo var staðurinn sjálfur alveg einstakur. Þetta var mín allra fyrsta heimsókn á Einar Ben og ég kem klárlega aftur. Öll aðstaða var til fyrirmyndar, andrúmsloftið tímalaust og þjónustan afslöppuð og róleg. Það er einmitt það sem við Vigdís viljum þessa dagana.

laugardagur, mars 03, 2012

Upplifun: Jarðarför

Við fórum í jarðarför í vikunni. Eiginmaður móðursystur minnar, Jón Sigurðsson, lést nýverið af slysförum. Sú saga er raunar mjög átakanleg og ekki ástæða til að fara út í það hér. Hins vegar var furðumikill friður og jafnvægi í sjálfri jarðarförinni, þrátt fyrir að sorgin væri mikil. Jón var ákaflega afslappaður maður og þægilegur í umgengni. Ég hitti hann eiginlega eingöngu í jólaboðum og öðrum veislum - kannski tvisvar eða þrisvar á ári - en passaði alltaf sérstaklega upp á að tala við hann í hvert skipti því hann gaf frá sér svo góða og jákvæða orku. Hann hafði frá mörgu að segja enda hafði hann ásamt Ínu (móðursystur minni) ferðast vítt og breitt um heiminn. En fyrst og fremst var bara notalegt að eiga samskipti við hann. Hann var svo afslappaður í eigin skinni, ef svo má segja, að maður varð alltaf pollrólegur nálægt honum. Það þurfti aldei að kreista fram umræðuefni eða setja sig í stellingar. Þannig var hans líka minnst í minningarræðunni í kirkjunni, sem séra Sigurður Jónsson las af einstakri stimamýkt. Það var með sérstakri ánægju sem ég hlustaði á Sigurð því ég þekkti hann vel frá þeim tíma þegar ég bjó á Hellu. Þá var hann prestur að Odda á Rangárvöllum. Ég þekkti hann býsna vel því ég kenndi börnunum hans. Svo þekkjast auðvitað allir í litlu bæjarfélagi, beint eða óbeint. Svo þekkti ég kórinn líka. Þegar ég heyrði einstaklega vandaðan flutninginn fannst mér ég beinlínis eiga heima í tónlistinni og fór að kanna hvaða gæðakór þetta væri: Jú, kirkjukór Áskirkju, hvað annað! Ég hef einmitt haft þann kór sérstaklega í huga að undanförnu þegar ég hef leitt hugann að þeim möguleika að fara að syngja aftur. Sá kór er með þeim betri á höfuðborgarsvæðinu, án vafa, og ég þekki nokkra þar innanborðs. Það var því margt sem stuðlaði að notalegri stund á meðan maður hugsaði til þess hvað Jón var einstakur í sinni röð. Það var líka gott og gefandi að hitta ættingjana eftir á þrátt fyrir erfiða daga.