þriðjudagur, mars 27, 2012

Upplifun: Vorkoma að innan

Um síðustu helgi ætluðum við Vigdís að skella okkur austur fyrir fjall að borða. Við áttum enn inni máltíð á Rauða húsinu í tilefni af afmæli mínu. Það fór hins vegar á annan veg en við ætluðum. Það var ekkert spennandi veður - rok og skýjað. Svo var ég eiginlega of slappur og áhugalítill einhvern veginn. Ég skildi eiginlega ekki hvernig á því stóð - ég fann bara enga "löngun". Við vorum búin að redda pössun og allt! Ég fann að ég var ekki að verða veikur en var samt svo orkulaus. Ég nennti ekki einu sinni að lesa bók um kvöldið eða horfa á sjónvarpið. Fór feginn að sofa um kvöldið.

Það hvarfla að manni alls konar hugsanir þegar heilsunni hrakar á dularfullan hátt og maður verður "slappur" en ég ákvað að velta mér ekkert upp úr því. Daginn eftir vaknaði ég hins vegar nokkuð sprækur eins og ekkert hefði í skorist - langt frá því að vera lasinn. Þá fattaði ég hvað hafði amað að mér því þessari sveiflur voru eitthvað kunnuglegar: Þetta var líklega fyrstu ofnæmisviðbrögð vorsins. Það gerist einmitt þegar náttúran sprettur fram með fyrstu hlýju dögunum og áhrifin magnast upp í roki. Þegar ég bar slappleikann undir aðra sem eiga við frjókornaofnæmi að stríða bar sögum okkar saman. Það voru fleiri slappir en ég. Vorið er sem sagt komið!

Engin ummæli: