föstudagur, mars 23, 2012

Pæling: Afmælisupplifun

Nú eru liðnir nokkrir dagar frá því ég átti afmæli. Ég var með opið hús og hafði þetta eins einfalt og hugsast gat; bauð upp á kaffi og pönnukökur fyrir þá sem melduðu sig í heimsókn og leyfði gestum að bæta við veitingum. Mamma kom með kökur og ástarpunga. Sirry (tengdó) mætti með brauðmeti með afbragðs fyllingu (sem ég hef nú þegar skrifað vandlega hjá mér svo ég geti endurtekið leikinn sjálfur). Gjafirnar hittu allar í mark, bæði föt og afþreying. Ég eignaðist meira að segja ísvél sem á eftir að koma að góðum notum. Ég ætla mér að bjóða upp á ísveislur á næstunni.

Dagurinn endaði á því að ég kíkti í tölvupóstinn og þar var vart þverfótað fyrir Facebook tilkynningum. Ég kíki almennt aldrei á Facebook nema einhver beini sjónum mínum að því sérstaklega, eins og núna. Mér fannst það bara gaman að ljúka deginum á þessum nótum og renna gegnum kveðjur. Takk fyrir það. Ég svaraði því reyndar þar og útskýrði að þessi aldur hefði ekki stigið mér til höfuðs á neinn óþægilegan hátt. Ég var nefnilega svo útsjónarsamur að lafa frameftir kvöldið fyrir afmælið við lestur góðrar bókar og upplifði mjög áþreifanlega að nákvæmlega ekkert "gerðist" á miðnætti. Það er þægilegri upplifun en að vakna að morgni og finnast maður allt í einu vera orðinn hundgamall. Ég aftengdi "sjokkið".

Engin ummæli: