Ég er búinn að hlusta talsvert á Bowie síðustu daga. Þetta kemur í tímabilum. Hann hefur alltaf verið í uppáhaldi síðan .... (hugs, hugs, hugs) 1986 en ég hlusta mjög misjafnlega mikið á hann, enda bæði mikið að gera og margt annað áhugavert að hlusta á. En þegar ég dreg fram góða Bowie plötu þá líður mér eins og ég hafi boðið góðum vini í heimsókn, einhverjum sem ég þekki mjög vel, sem ég hef ferðast með gegnum tíðina, tenging við bæði sjálfan mig og fortíðina.
Rétt áður en afmælisgestirnir komu í heimsókn um daginn skellti ég Bowie á fóninn. Ég vildi gíra mig aðeins upp og stóð frammi fyrir smá uppvaski. Þá mundi ég eftir nýjustu tveim plötunum hans sem hann gaf út rétt eftir aldamótin, Heathen og Reality. Þær hafa vaxið talsvert í áliti eftir því sem frá líður. Þær eru persónulegri en allt sem hann hefur gefið út á ferlinum ef undan er skilið það sem hann samdi áður en hann sló í gegn sem Ziggy Stardust (við erum að tala um tónlist frá því fyrir 1972 - sem reyndar er fæðingarár mitt). Eftir að Bowie spratt fram í gervi Ziggys hefur hann verið stöðugt að endurmeta ímynd sína og verið gríðarlega skapandi og hrist fram úr erminni nýjar tónlistarstefnur með nokkurra ára millibili (þetta eru engar ýkjur - enda hefur hann oft verið efstur á blaði þegar teknir eru saman listar yfir áhrifamestu tónlistarmenn rokksins - ofar bæði Bítlunum og Miles Davis, og þá er mikið sagt). Síðan fór hann í gegnum öldudal á níunda áratugnum (hann gerðist vinsæll poppari með Let´s Dance og missti flugið og sjálfstraustið í leiðinni). En hann var á þeim tímapunkti fastur í þeirri áráttu að "endurskapa sig" og reyndi stöðugt að koma fram með nýja ímynd en tókst það mjög illa fram til 1995. Þá náði hann umtalsverðum listrænum hæðum á ný. Það má hins vegar telja hans akkilesarhæl að í tónlistarsköpun sinni - þrátt fyrir frumleika og djörfung - sé hann sem persóna yfirleitt frekar fjarlægur, eins og tónlist hans og framkoma sé bara eitt stórt leikrit. Hann getur virkað kaldur og jafnvel vélrænn á köflum, einkum í seinni tíð. En þegar nær dró aldamótum fór hann einhverra hluta vegna að hugsa öðruvísi og ákvað að koma bara fram eins og hann var klæddur sem "the bloke next door" (eins og mig minnir að hann hafi orðað það) og fór að semja persónulega tónlist um sjálfan sig og tilveruna eins og hún blasti við honum. Platan sem kom úr árið 1999 var reyndar ekkert sérstök (hún hét "...hours") og hún leið fyrir misheppnaða hljóðvinnslu og einhverja tilgerð (eins og hann væri ekki alveg nógu öruggur í eigin skinni enn þá). Það eiginlega fór honum ekkert sérstaklega vel að birtast á svona látlausan hátt. En svo gerðust undrin. Á næstu plötu (Heathen, 2002) fékk hann til liðs við sig útsetjara sem hafði unnið með honum á áttunda áratugnum (Tony Visconti) og það skipti sköpum. Maður gerir sér best grein fyrir því í dag hvað hann á mikið í gömlu plötunum hans Bowie því þessi blanda snarvirkaði. En það sem gerði plötuna alveg einstaka er hvað Bowie kafaði djúpt í þetta skiptið í eigin persónu, tilvistarkreppu og velti vöngum í leiðinni um heimspekilegar hugmyndir sem sækja á okkur eftir því sem við eldumst. Platan er ekki gallalaus en hún er í stórum dráttum alger gersemi. Hljómurinn er skuggalegur og dramatískur á köflum með hæfilegum léttleika á milli (og þá er Bowie að leika sér með tónlistina á mjög afslappaðan hátt án þess að reyna að landa nýrri stefnu eða breyta tónlistarsögunni). Árið eftir fylgdu þeir félagar plötunni eftir með Reality, sem var ekki eins djúp en var í staðinn heilsteyptari og öruggari. Bowie var sannarlega kominn á flug aftur og virtist hafa lítið fyrir þessu. Hann var að greinilega að ná áttum á ný og finna sig í tónlistinni á öðrum forsendum en áður. En þá gerðist hið óumflýjanlega: Hann missti heilsuna. Á tónleikum hneig hann niður og var í lífshættu um tíma vegna heilablóðfalls, minnir mig. Eftir það hefur ekkert heyrst í honum. Hann hefur ekki komið fram opinberlega síðan 2006, hvorki í viðtölum né öðrum vettvangi. Hann hefur ekki gefið frá sér eitt einasta lag. Ekkert er af honum að frétta. Þegar sögusagnir um hrakandi heilsu hans ná flugi á umræðuvefum tengdum honum og menn velta fyrir sér hvort hann eigi nokkuð afturkvæmt hefur hann ekki nýtt tækifærið til að kveða þær sögusagnir í kútinn. Enginn orðsending hefur borist frá honum. Maður ályktar ósjálfrátt að hann hafi í það minnsta skaddast eitthvað varanlega og hafi ekki getu eða sjálfstraust til að koma fram. Þeir bjartsýnustu leyfa sér hins vegar að vonast til að hann hafi bara ákveðið að setjast í helgan stein og njóta góðs af eigin ríkidæmi í faðmi fjölskyldunnar.
Ég velti þessu öllu fyrir mér eftir að ég tók Bowie plöturnar tvær fram. Þær voru nógu persónulegar og margslungnar til að standa sem afbragðs minnisvarði en í leiðinni ótrúlega viðeigandi sem lokakafli á ferli sem hófst með mjög persónulegum plötum (sem fáir þekkja). Maður setti þetta að sjálfsögðu í samhengi við eigin tímamót í leiðinni og hugsaði um það hvernig við erum öll á óumflýjanlegu ferðalagi í sömu átt, hægt og bítandi, jafnvel þeir sem skipta ört um ham og endurnýja sig í sífellu.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli