föstudagur, desember 30, 2005

Pæling: Tímasetning fæðingarinnar

Nú fer að líða að áramótum. Í leiðinni rennur upp dagurinn sem upprunalega var áætlaður fyrir fæðinguna. Við erum enn á mínus-tíma, svo að segja. Þó það skipti engu máli eftir um það bil ár hefur það eitthvað að segja þegar maður metur hreyfi- og skynþroska fyrstu vikurnar.

Við erum ákaflega sátt við tímasetninguna hjá þeirri litlu. Eftir á að hyggja bankaði hún upp á á besta hugsanlega tíma. Núna þegar áramótin eru að renna í gegn finnst mér tímabært að skoða fæðinguna aðeins í þessu samhengi.

1) Hún fæddist á Lúsíumessu, 13. desember. Sá dagur á sér skemmtilega sögu. Við Vigdís sjáum í hendi okkar hvernig aðventan kemur til með að markast af kertaljósum þann daginn ásamt piparkökum.

2) Tímasetningin 7.46 var hreint afbragð. Það væri gaman að geta vakið þá litlu á afmælisdaginn sinn akkúrat á fæðingarstundinni, um kortér í átta.

3) Hún fæddist nógu snemma í desember til að geta braggast fyrir jól og farið með okkur í boðin milli jóla og nýárs og haldið með okkur sín fyrstu jól (þó hún hafi sofið þau mestmegnis af sér).

4) Hún fæddist líka nógu seint til að við gætum undirbúið fæðinguna. Við vorum rétt nýbúin að kaupa allan þann búnað sem til þurfti, eins og skiptiborð og annað slíkt, þegar hún lét vita af sér.

5) Vegna aðstæðna í samfélaginu rétt eftir fæðingu (jólaerill) hentaði tímasetningin okkur sem fjölskyldu mjög vel. Tiltölulega fáir sáu sér þess kost að heimsækja okkur fyrr en eftir jól og við nutum fyrir vikið mjög friðsælla stunda saman þrjú fram að jólum. Það má segja að sú litla hafi þjófstartað jólunum okkar með tilheyrandi friði og ró.

6) Að lokum: Ef maður hugsar fram á við þá er það að halda afmæli ellefu daga fyrir jól bara nokkuð passlegt; þ.e.a.s. það rennur ekki saman við sjálf jólin. Hún gæti jafnvel náð í skottið á bekkjarfélögunum áður en skóla er slitið og náð að halda afmælisveislur eins og aðrir krakkar. Það hefði ekki getað gerst milli jóla og nýárs.

þriðjudagur, desember 27, 2005

Fréttnæmt: Vigtunarsaga

Ljósan kom í heimsókn til okkar í dag og staðfesti að sú litla væri mikið að þyngjast. Þetta eru afar ánægjuleg tíðindi fyrir okkur Vigdísi því það má segja að mest öll okkar athygli og umstang undanfarnar tvær vikur hafi farið í að tryggja það að dóttir okkar nærist vel þannig að öll líkamsstarfssemin fari almennilega af stað, svo að segja. Eins og þeir vita sem lesið hafa bloggið að undanförnu þá fæddist dóttir okkar nokkuð fyrir tímann og hafði undirgengist meðgöngueitrun (sem þýðir að hún þurfti að þola skert næringarflæði undir það síðasta). Hún var því bæði frekar lítil og skorti þennan veglega fituforða sem flest börn fæðast með. Rúmlega ellefu merkur.

2870 gr.

Síðan byrjaði hún á því að léttast, eins og börn gera fyrst í stað. Þau fæðast víst öll með litla sem enga matarlyst og nærast fyrst og fremst á eigin forða í nokkra daga og léttast því óhjákvæmilega. Það er ekki fyrr en á tíunda degi sem reikna megi með því að börn nái fæðingarþyngd sinni aftur (og stækki hratt í kjölfarið). Þegar við útskrifuðumst (á fjórða degi) var hún vigtuð öðru sinni.

2655 gr.

Þetta leit ekkert illa út svo sem en okkur fannst hún hins vegar óþægilega lystarlítil dagana eftir heimkomu. Fyrsta sólarhringinn drakk hún nánast ekkert og við gerðum okkar ítrasta til að smygla nokkrum dropum af tilbúinni mjólk úr apótekinu með hjálp plastskeiðar, bara til að hún fengi einhverja næringu. Það sem vakti meiri áhyggjur var það að hún skilaði nánast engu þvagi í bleiurnar sínar, hvað þá kúk. Það var merki um að hún væri einfaldlega ekki að fá það sem hún þurfti. En þetta skánaði sem betur fer örlítið á öðrum og þriðja degi. Hún fór þá að líta við móðurmjólkinni, en stopult. Þegar ljósan kom í sína fyrstu heimsókn til okkar, viku eftir fæðingu (20. des.) var hún vigtuð aftur.

2750 gr.

Hún var semsagt að þyngjast þrátt fyrir allt. Okkur létti talsvert við þetta. Síðan hefur leiðin verið upp á við. Sú litla virðist um þetta leyti hafa komist yfir byrjunarörðugleikana og náð að átta sig á hvernig hún þarf sjálf að bera sig eftir björginni. Hún sótti dag frá degi af sífellt meiri krafti í mjólkina góðu. Hugsanlega fór jólamaturin svona vel í hana, maður veit það svo sem ekki, en hún var farin að þamba daginn út og inn, á milli þess sem hún svaf vært. Síðan á aðfangadag hefur meira að segja borið á lítilli krúttlegri undirhöku þar sem áður var magur hálsinn. Núna vorum við Vigdís orðin spennt fyrir fá úr því skorið hvort hún væri loksins komin yfir fæðingarþyngdina því í dag kom ljósan öðru sinni í heimsókn. Hún skilaði nýrri og skýrri niðurstöðu.

3000 gr.

Þar með er dóttir okkar formlega komin á næsta stig vaxtaskeiðsins. Hún þarf ekki lengur að vera í sömu "gjörgæslu" og hingað til, ef svo má að orði komast. Við þurfum ekki að vekja hana lengur sérstaklega og samviskusamlega á 2-3ja tíma fresti allan sólarhringinn til að fylgjast með þvaglosun og gefa henni að drekka. Hún má fara að kalla á eftir mjólkinni sjálf og drekka nokkurn veginn eins og henni lystir í hvert skipti. Það eru mikil þægindi í því. Nú má búast við að hún fari að stækka markvisst og hratt enda eru allra minnstu fötin eru þegar orðin of lítil.

Fréttnæmt: Stafræn myndavél

Öll tókum við upp pakka um jólin. Við Vigdís tókum upp fleiri pakka fyrir hönd dóttur okkar en til okkar sjálfra, sem við var að búast, enda snúast jólagjafirnar að mestu um þau yngstu. Það varðar hins vegar þessi bloggskrif mín að mér áskotnaðist svakalega fín stafræn myndavél (Sony DSC-T5). Réttlætingin fyrir þeirri gjöf var aðallega sú að ég gæti hér með tekið reglulega myndir af dóttur minni - frá upphafi. Sú tilhugsun var ákaflega mikið í anda jólanna og veitti ég rausnarlegri gjöf viðtöku í þeim anda (annars hefði mér reynst erfitt að þiggja svo stóra og dýra gjöf). Við eigum sannarlega eftir að mynda hana í bak og fyrir. Reyndar vorum við byrjuð á því. Ég mætti semsagt með gamaldags filmuvél upp á fæðingardeild og það gekk mjög vel. Ég hætti eflaust ekki í þeim bransa en þar sem filmuframköllun er rándýr (tvær filmur = 4000 kall) ákvað ég að notast við stafræna vél í bland. Skólinn lánaði mér eina slíka í fríinu (þau fá þá að fylgjast með í leiðinni). Það vill svo skemmtilega til að vél skólans er í sömu framleiðslulínu og sú sem ég fékk, bara eldri útgáfa. Ég get því brattur byrjað að taka myndir á þess nýju. Í leiðinni hlakka ég óneitanlega til að skreyta bloggið og heimasíður mínar með ljósmyndum á næstu misserum.

mánudagur, desember 26, 2005

Daglegt líf: Jólaboð með litlu jóladísinni

Vonandi eru lesendur bloggsins búnir að hafa það náðugt um jólin enda nóg fyrir þeim haft. Við Vigdís upplifðum sannarlega óvenjuleg jól enda var athygli allra á litlu stúlkunni okkar. Bæði hún og Vigdís höfðu ekki farið út úr húsi síðan við komum heim þann sextánda og þangað til við höfðum okkur upp í Breiðholt á aðfangadag. Þar tókum við upp pakka og borðuðum jólamat ásamt foreldrum mínum og tveimur systkinum (og börnum). Í gær og í dag fórum við í tvö önnur jólaboð. Á jóladag var það til mömmu Vigdísar og systkina en í dag til pabba hennar og fjölskyldu. Þetta var því mikil maraþontörn sem við fórum í gegnum á þessum þremur dögum. Það var náttúrulega talsverð fyrirhöfn að undirbúa dóttur okkar í hvert skipti en það var vel þess virði því hún var öllum mikill gleðigjafi. Mest allan tímann svaf hún vært eða teygði úr sér og opnaði á meðan annað augað stöku sinnum. Brosti svo inn á við í einskærri vellíðan. Menn höfðu það stöðugt á orði að hún ætti eftir að vera rólyndisstúlka. Við vonum svo sannarlega að það gangi eftir enda ekkert nema friður og ró í kringum hana enn sem komið er.

fimmtudagur, desember 22, 2005

Pæling: Fyrsta raunverulega "eignin"

Vigdís var upptekin við að gefa dóttur okkar að drekka. Ég sat álengdar og forvitnaðist: "Tekur hún eitthvað?" Hún er nefnilega tiltölulega nýfarin að gera móðurmjólkinni góð skil og fyrstu dagana höfðum við svolitlar áhyggjur af því hvað hún drakk lítið. Vigdís svaraði spurningu minni á nokkuð tyrfinn hátt: "Hún tekur það sem hún á". Ég veit raunar ekki almennilega hvað hún meinti með þessu svari en eftir nokkra umhugsun áttaði ég mig á því að hún hefði ekki getað svarað þessu betur. Móðurmjólkin er í rauninni það eina í þessum heimi sem tilheyrir barninu og engum öðrum. Hún er til staðar einungis til að svala þorsta barnsins og er því fyrsta raunverulega "eign" barnsins. Í ljósi þess er svolítið skrýtið að tala um að móðirin sé stöðugt að "gefa og gefa" á brjósti. Hvernig getur móðirin gefið það sem þiggjandinn þegar á? Eflaust finnst okkur að mjólkin tilheyri móðurinni af því hún er staðsett inni í henni. Ég er hins vegar á því að það gefi athöfninni öllu dýpri merkingu ef tungutakið tekur mið af tilgangi mjólkurinnar frekar en staðsetningu.

Ef maður heldur áfram á þessari braut mætti reyndar allt eins halda því fram að móðirin, eins og hún leggur sig, og reyndar foreldrarnir báðir, séu fyrst og fremst til staðar fyrir barnið. Tilgangur foreldranna var að geta þetta barn. Við tilheyrum því afkomendum okkar, en ekki öfugt. Í því felst kannski meginmunurinn á ábyrgð og eign.

mánudagur, desember 19, 2005

Sjónvarpið: Flóðafólkið

Ég sat í kvöld með litlu dóttur okkar Vigdísar í fanginu og horfði á áhrifamikla heimildamynd um eftirlifendur hamfaranna í Acheh-héraði í Indónesíu. Lítið var staldrað við sjálfan hamfaradaginn en í staðinn var eftirleikurinn skoðaður þeim mun betur. Athyglisvert var að fylgjast með fólki reyna eftir fremsta megni að þrauka andlega, reyna að byggja upp nýtt líf á rústunum (einn bjó í hálfu húsi á meðan annar sat uppi með skipsflak í þakinu). Í þættinum var einnig var gaumgæfilega farið í saumana á friðarferli stríðandi aðila í fjallahéruðunum (sem í þrjá áratugi hafa barist fyrir sjálfstæði Acheh frá yfirvöldum í Djakarta). Einn hermaðurinn var sérstaklega í brennidepli þar hann hafði verið við víglínuna frá upphafi stríðsins, síðan hann var þrettán ára. Hann fylgdist gaumgæfilega með friðarferlinu gegnum konu sína sem vann á akri í frjósömum dalnum. Þau notuðu til samskiptanna nákvæmlega eins GSM-síma og við Vigdís eigum (þetta er lítill Nokia-heimur). Samningaviðræður eru sem sagt að nást í gegn, einhvers staðar í Finnlandi, á meðan okkar maður berst enn fyrir málstaðnum í fjallahéruðunum, en vonast ásamt konu sinni eftir friði. Nokkrum dögum fyrir undirskriftina verður hann svo fyrir banvænni byssukúlu. Þessar hörmungar horfði ég á gaumgæfilega og dóttur mína til skiptis og fannst mjög átakanlegt að upplifa hvað það getur verið stutt öfganna á milli.

laugardagur, desember 17, 2005

Fréttnæmt: Heimkoman

Nú er litla fjölskyldan loksins komin heim í fyrsta skipti eftir rúmlega þriggja sólarhringa dvöl á spítalanum. Ég var náttúrulega sjálfur heima allar nætur og vann þar að auki í skólanum fram yfir hádegi (tek ekki frí fyrr en eftir áramót enda stutt í jólafrí hvort eð er). Ég eyddi því kvöldunum eins og þau lögðu sig með Vigdísi og litlu dömunni (sem er svo óskaplega pen og kurteis og lítil). Þetta er auðvitað búið að vera mjög lýjandi tími. Ég er reyndar svo heppinn að hafa getað sofið vel á nóttunni en hins vegar hef ég ekkert hvílst á daginn og er líkamlega mjög lúinn eftir langar stöður (var um tíma með ferlega strengi upp eftir fótleggjunum aftanverðum). Ég get þó varla ímyndað mér hversu þreytt Vigdís hlýtur að vera eftir þessa þrekraun sem fæðingin er, þennan blóðmissi sem fylgir henni, háan blóðþrýsting, stöðugar undirliggjandi áhyggjur og allt of grunnan og óreglulegan svefn (meðal annars vegna umgangs). Það fór reyndar að öðru leyti vel um Vigdísi og litlu dömuna okkar enda starfsfólk deildarinnar ákaflega alúðlegt og hjálplegt. Hún upplifði sig í mjög traustum og öruggum höndum. Engu að síður hafði Vigdís sofið frekar illa og var heimkoman því nokkuð langþráð.

Einmitt núna finnst mér því tímabært að þakka öllum fyrir hvatningarorðin og góðu hugsanirnar sem okkur hafa borist, bæði hér á síðunni og annars staðar. Við erum fyrst núna, um það bil sólarhring eftir heimkomu, að ná áttum. Það er svo ótrúlega auðvelt að gleyma að borða og hvílast þegar lífið umturnast á skammri stundu. Við höfum nú hvílst mjög vel heima, þrátt fyrir að hafa þurft að vaka hálfa fyrstu nóttina, enda ákváðum við strax við heimkomu að fresta öllum gestakomum um sinn og sinna okkur sjálfum eins vel og við gátum. Á morgun, sunnudag, megum við líklega eiga von á allra nánustu aðstandendum í stutt innlit. Fljótlega eftir helgi getum við síðan farið að taka markvisst á móti öðrum vinum og vandamönnum, ef allt gengur áfram að óskum.

þriðjudagur, desember 13, 2005

Fréttnæmt: Fæðing

Eftir langa og erfiða nótt (þann þrettánda desember) fæddist dóttir okkar klukkan fjórtán mínútur í átta. Fæðingin gekk hægt fyrir sig lengst af, með tilheyrandi verkjum, en eftir skilvirka mænurótardeyfingu um sexleytið fóru hlutirnir að gerast hraðar. Sjálf fæðingin gekk hratt fyrir sig undir það síðasta. Litla krílið vældi ámátlega en blíðlega, gjóaði augunum í kringum sig og virtist síðan líða bara vel. Hún kom vel út úr helstu prófunum hjá fæðingarlækni og virðist vera heilbrigð. Að sögn Vigdísar er hún talsvert líkari mér og það er ekki laust við að ég kannist við ættarsvipinn hjá litlu dömunni. Vigdísi tókst að setja hana fljótlega á brjóst og virtist sú litla kunna ágætlega til verka eftir svolitlar þreifingar. Ég tók mig hins vegar til og klæddi hana í föt og tókst það ágætlega.

Þyngd: 2870 g.
Hæð: 47,5 sm.
(ca. 11 til 12 merkur)

Ég fór heim í dag rétt fyrir hádegi og sofnaði værum blundi (og leyfði mér að taka alla síma úr sambandi). Rumskaði ekki fyrr en um sexleytið og það kom mér talsvert á óvart hvað ég hafði sofið. Þá var búinn að vera þó nokkur gestagangur hjá Vigdísi og fólk farið að undrast um mig. Ég var því með seinni skipunum þegar ég kom aftur upp á deild en var í staðinn með mæðgunum fram eftir kvöldi. Það virðist fara vel um þær báðar þegar ég yfirgaf þær með semingi rétt fyrir ellefu.

mánudagur, desember 12, 2005

Fréttnæmt: Fæðing er farin af stað

Við Vigdís kíktum til ljósmóðurinnar upp úr hádegi í dag. Vigdísi hafði liðið mjög vel frá því við kíktum til hennar síðast. Núna kom ljósan hins vegar einbeitt til baka með þvagsýnið hennar því þar hafði greinst mikil eggjahvíta, sem er einn af mögulegum undanförum fæðingar. Við rétt höfðum ráðrúm til að skjótast heim en snöruðumst þaðan beint á meðgöngudeild. Eftir nánari skoðun og alls kyns sýni, og frekar stutta legu, er orðið nokkuð ljóst að héðan munum við ekki fara tvö ein.

laugardagur, desember 10, 2005

Matur: Jólahlaðborð hins lifandi manns

Í dag snæddum við Vigdís ásamt tengdó af jólahlaðborði Lifandi manns, eða "Maður lifandi" eins og staðurinn heitir. Það kom mér á óvart að þau skyldu bjóða upp á fisk og kjöt, en það var hvort tveggja lífrænt ræktað og svolítið öðruvísi (grafið lamb, marineraður fiskur og svoleiðis). Megnið af krásunum var hins vegar grænmeti. Ekki bara baunir. Fyrir tæpar 3000 kr. get ég ekki annað en mælt með þessu (sérstaklega á laugardagseftirmiðdegi þannig að maður getur borðað fyrir daginn). Ég spái því hér sé á ferðinni hefð í uppsiglingu.

miðvikudagur, desember 07, 2005

Matur: Bökunarhagræðing

Eftir baksturinn um síðustu helgi hefur litla eldhúsið okkar verið undirlagt alls kyns hráefni til baksturs á borð við hveiti, sykur, kakó, kókosmjöl, ýmsa dropa, hnetupoka og fjölda kryddegunda. Ástæðan er sú að ég ætlaði mér alltaf að bæta tveimur áhugaverðum tegundum við sarpinn og vissi að ef ég myndi ganga frá öllu þessu dóti áður en að því kæmi væru ansi góðar líkur á að ég myndi aldrei láta slag standa. Ég ímyndaði mér að eitthvert kvöldið í vikunni gæti nýst vel til að hrista þetta fram úr erminni. Þegar á reyndi nennti ég hins vegar engan veginn að sinna þessu á kvöldin eftir vinnu og hafði hreinlega ekki "lyst" á því, hálf syfjaður og saddur, að hafa bökunarlykt í íbúðinni rétt fyrir svefninn. Ég var orðinn þreyttur á að horfa upp á þetta "ókláraða verkefni" mæna á mig í hvert skipti sem ég gekk fram hjá eldhúsinu þannig að setti ég mér afarkosti. Annað hvort myndi ég baka þessar tvær sortir í kvöld (og ganga frá í kjölfarið) eða ég myndi einfaldlega ganga frá öllu óbökuðu og sjá svo til seinna með framhaldið. Lendingin var hins vegar einhvers konar málamiðlun milli þessara möguleika sem á óvæntan hátt opnaði mér nýja sýn. Hvers vegna ekki að ganga frá því sem ég ætla ekki að nota og skilja hitt eftir? Eða, ef maður gengur örlítið lengra, hvers vegna ekki að skoða uppskriftirnar núna og sjá hvort ég gæti ekki hent öllum þurrefnunum í sitt hvort lokaða ílátið og þannig gengið frá öllu? Þessi lending þótti mér algjört afbragð. Hveitinu, sykrinum, kakóinu, kryddtegundunum og öllu því sem ekki hét mjólk, egg, vanilludropar eða smjör setti ég í ísbox, lokaði og geymdi áfram eins og hvert annað þurrefni. Ég sá í hendi mér hversu auðvelt það yrði seinna meir, með þessari aðferð, að "henda í" nokkrar hrærur um leið og maður sér uppskriftina og geyma jafnvel dögum saman (rétt eins og hvert annað þurrefni) og taka ekki fram fyrr en á hentugum bökunardegi. Þessi hagræðing fannst mér á lúmskan hátt mjög hvetjandi.

Pæling: Líkamsklukka tamin

Enn er allt tíðindalaust af Vestur(-bæjar)vígstöðvunum. Ég kom dasaður heim úr vinnu í ljúft atlætið heima við, borðaði eitthvað létt og steinsofnaði svo tiltölulega fljótt yfir sjónvarpinu. Mér skilst að ég hafi meira að segja hrotið um stund. Þetta er þá þriðji dagurinn í röð sem ég sofna svona vært um miðjan daginn og vakna endurnærður tuttugu mínútum seinna eins og ekkert hafi í skorist. Það er ólíkt mér. Yfirleitt er ég ómögulegur eftir svona kríu og berst því við syfjuna með einhverjum hætti, jafnvel þó ég þurfi að hrista hana af mér skokkandi um nágrennið. Mér finnst ég ekkert vera neitt óvenju þreyttur þannig að þessi nýja svefnrútína kemur svolítið flatt upp á mig. Mér dettur eiginlega helst í hug að einhvers staðar undir niðri sé ég farinn að búa mig undir nýja svefnrútinu, að geta sofnað auðveldlega hvenær sem tækifæri gefst. Nýbakaðir foreldrar eru víst oftar en ekki ósofnir langtímum saman. Vigdís er vön vaktavinnu og því að næla sér í kríu hvenær sem er. Viðbrigðin fyrir mig við að vaka heilu og hálfu næturnar og þurfa svo að sofa á daginn yrði líklega meiri fyrir mig. Nema undirmeðvitundin nái að stilla og temja líkamsklukkuna með góðum fyrirvara, eins og mig grunar að sé að gerast.

mánudagur, desember 05, 2005

Sjónvarpið: Plitvice-þjóðgarðurinn

Í kvöld var sýndur í Ríkissjónvarpinu fræðsluþáttur um Plitvice-þjóðgarðinn sem staðsettur er einhvers staðar í norðurhluta fyrrum Júgóslavíu. Þetta var mjög flottur þáttur um ótrúlega heillandi landssvæði á jaðri álfunnar okkar. Þar finnst óvenju fjölbreytt dýralíf (skógarbirnir, gaupur, gráúlfar, villisvín og fiskotrar svo maður nefni helstu spendýr). Jarðfræðin er hins vegar algerlega einstök með skógi vöxnu stallalandslagi þar sem kalkvötn fossa hvert ofan í annað. Þátturinn var mér talsverð opinberun því þetta svæði hafði ég aldrei heyrt nefnt á nafn. Ég held að Plitvice sé frekar lítt þekkt svæði utan Balkanskaga enda reyndust heimildir um hann vera af afskaplega skornum skammti. Ég fann þó fyrir rest eina vandaða heimasíðu.

Daglegt líf: Litlu jólin 2005

Við héldum uppteknum hætti í gær og færðum heimili okkar í enn frekari jólabúning. Í þetta skiptið snerist umstangið um jólalykt og nett matarboð. Vigdís óttaðist nefnilega að fá ekki tækifæri til að borða hangikjöt þessi jólin (sem er víst lítið sniðugt á meðan brjóstagjöf stendur yfir) svo hún hristi fram úr erminni eitt lítið og nett jólaboð. Hangikjöt var soðið dágóða stund á meðan ég keypti, sauð og skrældi kartöflur. Sirrý tengdó bjó til hvítan jafning. Við þrjú hjálpuðumst að en fleiri kíktu í heimsókn og ýmist önduðu að sér jólunum eða tóku til matar síns. Minnti mann á litlu jólin, eins og þau eru haldin í skólum landsins. Ég sting upp á þessu sem hefð fyrir komandi fjölskylduár. Um að gera að teygja aðventuna svolítið.

Í dag kíktum við Vigdís til ljósunnar og allt virðist vera með felldu. Stúlkan er eitthvað að reyna að skorða sig en nær því líklega frekar illa þar sem hún flýtur í svo myndarlegri "sundlaug", eins og þær kölluðu það. Hún vonaðist til þess að fæðing gengi í garð fyrir jól en benti okkur þó á að taka því rólega fram að næstu helgi. Fram að þeim tíma myndi dóttir okkar vera meðhöndluð með aukinni varfærni, þó svo að allt líti mjög vel út. Sjáum hvað setur. Kannski eigum við drjúga viku eftir. Að minnsta kosti virðist Vigdísi líða mjög vel þessa stundina.

Við fórum eftir þessa heimsókn niður í bæ og keyptum okkur mat á "Næstu grösum", svona til að vega upp á móti saltinu í gær. Vigdís er sérlega viðkvæm þessa dagana og taldi sig sjá skýran mun á bjúgmyndun eftir matarboðið. Ég er að sama skapi lítið hrifinn af kjöti (enda lét ég aðeins upp í mig þunna flís á móti meðlætinu) og hafði því líka geysilega gott af heilsufæðinu. Eftir gómsæta magafylli færðist yfir okkur þessi líka mikla værð og um miðjan dag sofnuðum við mjúklega út frá þægilegri hugleiðslutónlist. Þar með hafði læknisráðinu um hvíld verið framfylgt mjög samviskusamlega.

laugardagur, desember 03, 2005

Matur: Maraþon smákökubakstur

Í dag eyddum við Vigdís kvöldinu heima hjá okkur í félagsskap Bjarts og Jóhönnu (ásamt Friðriki litla). Hugmyndin var að hafa það huggulegt saman og baka smákökur, sem tókst með ágætum. Okkur tókst, með öðrum orðum, að baka fjórar sortir en gátum samt gefið okkur tíma til að panta pítsur og horfa á fréttir saman á milli sorta. Þar sem fjórar sortir eru frekar mikið nú til dags finn ég mig knúinn til að greina frá því hvað það var sem gerði gæfumuninn í þrönga eldhúsinu okkar í Granaskjólinu. Í fyrsta lagi ákváðum við að hafa vaktaskipti þannig að tveir til þrír slökuðu á í stofunni á meðan restin af mannskapnum renndi í nýja skúffu. Oftast þurfti ekki nema einn í einu til að sinna úttektunum, eins og við kölluðum ofnskammtana. Þær Vigdís og Jóhanna höfðu um margt að ræða enda barneignir allsráðandi á báðum bæjum þessi misserin. Við Bjartur tókum því að okkur eldhússtörfin og hituðum kjallaraíbúðina með ofninum þar sem hann var opnaður í sífellu. Hitt atriðið sem ég vil gjarnan greina frá sem úrslitahagræðingu í þessum vel heppnaða jólabakstri er að gestir okkar mættu nefnilega með heimatilbúið deig fyrir tvær sortir. Þær runnu því löðurmannlega gegnum ofnskúffuna á meðan fyrirhafnarlítið var hrært í hinar. Hagræðingin mæltist ákaflega vel fyrir og var stefnt á að hafa sama háttinn á að ári ef sams konar bakstur ber að höndum, jafnvel hafa allt deig tilbúið fyrirfram og hafa það svo náðugt í jólalyktinni.

Nú bjóðum við sem sagt upp á jólasmákökur og með'ðí á aðventunni, - fyrir þá sem eiga leið hjá: piparkökur, spesíur, hnetusúkkulaðismákökur (Gestgj. 11/2004) og döðludrauma (Mbl-matarsérrit 5/2005). Þær tvær síðastnefndu eru óhefðbundari en spesíurnar og piparkökurnar, en einnig í hollari kantinum, enda báðar úr haframjölsdeildinni. Önnur er bragðbætt með sykri, döðlum og kókosmjöli en hin með dökku súkkulaði, grófu hnetusmjöri og þykku sýrópi. Eftir þessu hnossgæti er þess virði að falast. Sá sem á heima í útjaðri Reykvískrar byggðar og á af þeim sökum nokkuð erfitt með að keyra vestur fyrir KR-völl þarf hins vegar ekki að örvænta. Í Hafnarfirðinum má finna nákvæmlega eins kökur :-P (sleikjútumkall). Gleðilega aðventu.

fimmtudagur, desember 01, 2005

Fréttnæmt: Meðgöngukvillar magnast upp

Ég rumskaði af ákaflega værum svefni um tvöleytið í nótt og fann að Vigdís var eitthvað að brölta. Hún bar sig aumlega og kvartaði undan sárum verki. Legið var óvenju hart og barnið hreyfði sig alls ekki neitt. Í svefnrofunum fór ég að kynna mér lýsingar á þessum kvillum á netinu. Við höfðum af þessu talsverðar áhyggjur og til greina kom að hringja strax upp á spítala og bera stöðuna undir sérfræðinga. Hins vegar sjatnaði sársaukinn örlítið með tímanum og Vigdísi fannst hún verða vör við lítilsháttar hreyfingar, sem var sannarlega huggandi tilhugsun, svo við ákváðum að hvíla okkur aftur eftir um tveggja tíma andvöku. Um tveimur tímum síðar finn ég hins vegar að hún er aftur vöknuð og er sárþjáð. Klukkan var rúmlega sex og þetta virtist ekkert vera að batna svo við brunuðum beint upp eftir í læknisskoðun. Þar undirgekkst Vigdís ýmsar prófanir, blóðprufu, sírita og ómskoðun. Ekkert grunsamlegt kom í ljós. Allt benti til þess að ýmsir fylgikvillar meðgöngunnar hafi þarna lagst á eitt með sársaukafullum afleiðingum en án þess að gera neinn skaða. Eftir þriggja tíma dvöl á litlu hljóðlátu herbergi og samskipti við tvo lækna ásamt jafnmörgum ljósmæðrum (við komum einmitt rétt fyrir vaktaskipti að morgni) fórum við heim og sváfum úr okkur áhyggjufulla nóttina. Ég mætti sem sagt ekkert til vinnu þann daginn. Seinna um daginn þurftum við svo að koma aftur í tékk til að tryggja að allt líti áfram eðlilega út. Það má því segja að dagurinn hafi byrjað snemma í nótt og hafi allt að kvöldmat verið undirlagður umstangi, áhyggjum, svefnleysi og að því er virðist verulegum sársauka í tengslum við meðgönguna. Þetta er væntanlega forsmekkurinn að því sem við komum til með að upplifa eftir um það bil mánuð. Það jákvæða við þetta allt saman er að við fengum að sjá litlu stúlkuna okkar í óskýru gömlu sónartæki, kynntumst deildinni svolítið og áttum afar jákvæð og traust samskipti við fjöldann allan af fólki á fæðingardeildinni. Við erum meira að segja byrjuð að leggja nöfnin á minnið.

Athugasemd: Skilnaðarþátturinn "Nei"

Í Fréttablaðinu í dag birtist óborganleg grein Þórarins Þórarinssonar þar sem hann tjáir sig á sérstaklega lipran og beinskeyttan hátt um viðhorf sitt til raunveruleikaþátta undir yfirskriftinni "Við tækið: Skilnaðarþátturinn Nei" (bls. 56). Hann nær utan um innihald þessa sjónvarpsefnis með hugtakinu "tilfinningaklám" og byrjar umfjöllinina á Piparsveininum (Bachelor-num). Þar gera blessaðir þátttakendurnir gera sig "skælbrosandi að hórkörlum og -kerlingum í hverri viku". Síðan vindur hann sér í sama hug að Brúðkaupsþættinum "Já" þar sem hundruðum þúsunda er sólundað í "leiksýningu sem verður merkingarlaus innan nokkurra mánaða eða ára þegar grámyglulegur hversdagsleikinn hefur skolað burt undirstöðum ástarinnar og hjónabandsins". Að lokum stingur hann upp á bitastæðara efni: Skilnaðarþættinum "Nei" sem hann gefur í skyn að gæti orðið almennilegt drama í ótal mörgum þáttum þar sem deilurnar og átökin ná sífellt nýjum hæðum. Manni bregður svolítið við að lesa þennan kalda pistil en hann er snilldarlega skrifaður og því miður óneitanlega raunsær.

miðvikudagur, nóvember 30, 2005

Matur: Hollenskt góðgæti

Í Brúarskóla gætir óvenju mikilla hollenskra áhrifa. Ég á sjálfur rætur að rekja til Hollands, að fjórðum hluta í föðurætt, og með mér starfar hollensk kona, Lillianne að nafni. Hún skrapp til Hollands í persónulegum erindagjörðum yfir helgina og kom til baka með veitingar sem áttu aldeilis upp á pallborðið hjá okkur hinum. Hún kom með þennan dýrindis Gauda ost sem ég kjamsaði á af mikilli nautn í kaffitímanum með einföldu hrökkbrauði (til að osturinn nyti sín sem allra best). Í samanburði er samnefndur ostur sem er framleiddur hér á Íslandi algerlega bragðlaus. Það er eiginlega ótrúlegt að þeir skuli leyfa sér að nota nafnið. En ég fékk sjálfur litla tækifærisgjöf sem var ansi skemmtileg. Þar sem ég get rakið ættir mínar til Hollands, og á von á barni á næstunni, þá færði hún mér lítinn pakka með hvít- og bleikhúðuðum anísflögum. Það er smá saga á bak við það. Þetta er svona álegg sem sáldrað er yfir brauð og kex. Hollendingar nota það óspart í staðinn fyrir venjulegt smurálegg. Það festist í sjálfu smjörinu og liggur þar þangað til það fær að braka undir tönn. Í gamla daga komst ég í svona álegg hjá ömmu minni. Hún keypti alltaf súkkulaðiálegg í svona flöguformi. Við kölluðum það "músaskít" okkar á milli og hann var mjög vinsæll í fjölskyldunni. Það sem hún Lillianne færði mér hafði ég hins vegar aldrei áður séð þó það væri frá sama framleiðanda. Mér skildist á henni að það sé hefð fyrir því í Hollandi að nýbakaðir foreldrar bjóði vinum og vandamönnum upp á myndarlegt þykkt kex með anísflögum. Þær eru bleikar og hvítar í þessu tilviki en einnig er hægt að kaupa bláa og hvíta útgáfu. Smellið endilega á Hollandbymail síðuna og veljið "De Ruijter muisjes - pink and white" ef þið viljið fá forsmekkinn af því sem boðið verður upp á í Granaskjóli í byrjun janúar.

Pæling: Vímuefnaneysla ungmenna

Í síðustu færslu var ég eitthvað að lofa pælingar upp í ermina á mér. Í nokkra daga hef ég þurft að sitja á mér. Hér með eru þær hins vegar hristar í allmiklum smáatriðum fram úr henni (erminni, það er að segja).

Ég lá sem sagt um daginn og var að velta fyrir mér orsakasamhenginu sem leiðir til vímuefnaneyslu ungs fólks. Oft er talað um að hún stafi af einhverju einu. Slík hugsun sé augljóslega röng en hún loðir þetta samt sem áður við þetta almenna umtal sem maður er alltaf að heyra útundan sér. Slæmum fjölskylduaðstæðum er oftar en ekki kennt um. Í sömu andrá er gjarnan bent á það að ekki síður megi rekja ólán neytenda til slæms félagsskapar. Svo eru sumir víst meiri "fíklar" en aðrir frá náttúrunnar hendi, hvort sem það eigi sér erfðafræðilega stoð eða ekki. Þröskuldur sá sem sumir einstaklingar þurfa að klífa til að ánetjast virðist einfaldlega vera hærri hjá sumum en öðrum. Það geta ekki allir "prófað" og hætt eins og þá lystir, hvort sem það er áfengi, reykingar, kóladrykkir, súkkulaði eða sterkir vímugjafar.

Þar sem ég lá í makindum um daginn (sjá síðustu færslu) sá ég í hendi mér einfalt módel sem kann að skýra út hvernig helstu áhrifaþættir vímuefnaneyslu vinna saman. Orsakasamhengið birtist allt í einu í ögn margbrotnara samhengi (en samt sem áður mjög skýru samhengi), sem þrír megin áhrifaþættir: Fjölskylduaðstæður, vinahópurinn og erfðafræðilegur veikleiki. Þetta þrennt vinnur alltaf saman með þeim hætti að ekkert eitt þeirra gefur nægjanlega skýringu á neyslumynstri fólks. Að sama skapi geta tveir af þessum þremur þáttum verkað sem nokkuð fullnægjandi skýring á neyslumynstri fólks og þannig í raun eytt út þeim þriðja og gert hann ómerkan.

Tökum dæmi: Ef vinahópurinn er spillandi og hvetur til neyslu og einstaklingurinn er jafnframt líkamlega breyskur þá skipta fjölskylduaðstæður nánast engu máli. Þetta hafa fjölmarkar sterkar fjölskyldur rekið sig á. Þær horfa gjörsamlega ráðþrota á fjölskyldumeðlim hverfa í hyldýpi neyslu án þess að hafa neina skýringu á því hvað gerðist. Með sama hætti ættu sundruð fjölskylda, ofbeldi, neysla eða aðrir erfiðleikar heima við að geta hvatt til neyslu, beint eða óbeint. Til að hlutirnir fari raunverulega úr böndunum þyrfti hins vegar annað hvort líkamlegur veikleiki eða slæmur félagsskapur að fara saman við þetta niðurbrot heima við. Þá fyrst er fjandinn laus, eins og sagt er.

Orsakasamhengið er því eins konar þríhyrningur þar sem tveir þættir af þremur þurfa alltaf að haldast í hendur. Ef slæmar aðstæður heima við og slæmur félagsskapur utan heimilis haldast í hendur er lítið sem kemur í veg fyrir vítahring vímuefnaneyslu, hvort sem viðkomandi er líkamlega veikgeðja eða ekki. Sé hann líkamlega móttækilegur hins vegar þarf ekki nema annað hvort slæmar aðstæður heima eða spillandi félagsskapur utan heimilis til að allt fari í vaskinn. Með sama hætti ættu tveir styrkjandi þættir að geta yfirunnið einn veikan. Slæmar fjölskylduaðstæður ættu ekki einar og sér að leiða fólk út í óhóflega neyslu ef maður er svo heppinn að búa að uppbyggilegum félagsskap utan heimilis og vera jafnframt ekki sérlega móttækilegur líkamlega fyrir vímuástandi.

Þetta módel fannst mér mjög skýrt og einfalt. Það nær að útskýra samhengi hlutanna betur en einfalt orsakasamhengi. Því má hins vegar ekki gleyma að raunveruleikinn er hins vegar miklu flóknari en þetta. Enginn þáttanna þriggja er svo einfaldur að hægt sé að kalla hann annað hvort uppbyggilegan eða spillandi, þó svo maður eigi til að hugsa í þá veruna. Einnig skarast þessir þættir verulega. Mörkin milli félagskapar utan og innan heimilis eru oft óljós. Einnig er andlegur og líkamlegur móttækileiki tvær hliðar á sama peningnum.

sunnudagur, nóvember 27, 2005

Upplifun: Hugarflæði í jólakyrrð

Við Vigdís tókum okkur til í dag og settum upp jóladót ásamt því að þrífa lítillega hér og þar. Í bjarmanum af jólaljósunum lögðum við okkur að þessu loknu í sitt hvoru stofuhorninu í um hálftíma. Þar sem ég lá í kyrrðinni fann ég hvernig slökunin hleypti af stað sjálfvirku hugarflæði. Það hófst með fjörfiski í öðrum upphandleggnum. Frá honum leiddi ég hugann að því hvað það er nú óþægilegt þegar hjartað tekur aukaslag, sem er ekki svo ólíkt fjörfiski. Ef maður fengi það reglulega má vera að maður yrði svolítið smeykur. Þeir sem fá hjartaslag (eða verða fyrir öðrum sambærilegum áföllum) fá víst allt aðra sýn á lífið eftir á. Þar með var ég farinn að hugsa um Rúnar Júlíusson sem hefur gert svolítið út á upplifun sína um árið þegar hann fékk hjartaáfall. Hann hefur meira að segja gefið út plötu undir heitinu "Með stuð í hjarta". Skyldi hann passa upp á heilsu sína í dag? Vafalaust hafa hann og félagar hans í bransanum reynt ýmislegt. Með þá hugsun leiddi ég hugann að Gunnari Þórðarsyni og hversu gamall hann virkar á mann. En hann hefur nú alltaf verið svona. Ég man þegar hann birtist á plötuumslögum fyrir 25 árum síðan. Jafnvel þá virkaði hann alltaf með eldri mönnum á bak við skeggið sitt, enda alltaf "komponistinn" í hópnum. Þar með var ég farinn að hugsa um hann sem lagasmið. Hann á að baki óhemju fjölda af lagasmíðum sem áhugavert væri að taka saman skilmerkilega á einum stað. Hann er búinn að koma nánast alls staðar við sögu í íslenskri dægurlagasögu. Hann er nú eiginlega sér á báti hvað þetta varðar, eða hvað? Hversu víða hefur til dæmis Magnús Eiríksson komið við eiginlega? Væri nóg að taka saman lista yfir Mannakornsplöturnar eða er fingraför hans að finna mun víðar en það? Hann hefur til að mynda unnið mikið með K.K. og samið með honum ýmis lög. Mér varð hugsað til þar með að þrátt fyrir það að ég kunni að mestu leyti vel að meta þá tvo sem tónlistarmenn hef ég engan veginn verið sáttur við lög eins og "Óbyggðirnar kalla" og "Vegbúann". Að mínu mati ýta þau undir ákveðna ræfladýrkun. Ég hef séð fólk sameinast ógæfumönnum í anda á tónleikum þar sem það heldur á bjórglasi sínu, kyrjandi þessa texta ámátlega. Það fer óneitanlega fyrir brjóstið á mér. Ég sá í hendi mér samtímis hvernig hugtakið "ræfladýrkun" gæti stuðað fólk. Skyndilega finnst mér ég standa á snakki við K.K. og útskýri afstöðu mína og hann svarar mér í hálfgerðum skammartón. Þá átta ég mig á því að þessi tilhugsun endurspeglar sams konar kringumstæður sem ég raunverulega lenti eitt sinn í gagnvart vinnufélaga mínum í Vættaborgum. Þar mátaði ég við mig þá kaldlyndu skoðun að vímuefnaneysla unglinga ætti í langflestum tilvikum rætur að rekja til fjölskylduaðstæðna. Hugmyndina orðaði ég á einhvern hátt of afgerandi og fékk fyrir það hastarlegar ákúrur frá vinnufélaga mínum. Þau viðbrögð áttu rætur að rekja til þess að viðkomandi átti son sem var í talsverðum fíkniefnavanda sem virtist, að eigin mati, stafa af öðru en vanrækslu fjölskyldunnar. Ég þurfti að éta orðin ofan í mig. En núna þar sem ég velti þessu fyrir mér í jólabjarmanum fór ég að skoða þessa hugsun á nýjan leik og skoða markvisst þá þætti sem verka saman og hafa áhrif á líferni ungs fólks. Eftir talsverðar vangaveltur (sem ég ætla að birta í næstu færslu) rankaði Vigdís við sér úr slökunarástandi sínu og við reistum okkur við á nýjan leik, endurnýjuð í hálfrökkrinu. Ég var hins vegar fyrst um sinn mjög meðvitaður um þetta sjálfráða hugarflæði sem átti að baki. Ég stóð á fætur með skipulagða pælingu um vímuefnavanda ungs fólks sem einhvern veginn þróaðist út frá fjörfiski í upphandleggnum.

laugardagur, nóvember 26, 2005

Athugasemd: Nýsköpun 2005

Ég var að fá í hendur vefsíðu sem tíundar niðurstöður í samkeppni um gerð viðskiptaáætlana sem haldin var nýlega í borginni. Samkeppnin á, samkvæmt eigin skilgreiningu, að stuðla að aukinni nýsköpun og frumkvæði í íslensku samfélagi. Ekki er skortur á góðum hugmyndum sem margar hverjar eru mjög flottar og metnaðarfullar og stuðla sannarlega að velfarnaði og uppbyggingu í mannlegu samfélagi. Sá sem mætir til leiks með hugmynd um að þróa og markaðssetja tískufatnað fyrir hunda fær hins vegar fyrstu verðlaun! Það sem einnig kemur fram á þessari samantekt er að dómnefndin hafi verið einróma í vali sínu! Ég held að málsmetandi menn hafi sjaldan runnið eins rækilega á rassinn með gildismati sínu. Manni fallast hendur þegar maður sér svona lagað.

Daglegt líf: Jólahlaðborð

Við Vigdís fórum á sitt hvort jólahlaðborðið í gær - ég með vinnunni minni og hún með sínum vinnufélögum. Við ákváðum að hafa þennan háttinn á vegna þess að hlaðborðin voru haldin nánast samtímis í sama útjaðri borgarinnar (Árbær og Grafarholtið) svo við gátum auðveldlega verið samstíga stóran hluta kvöldsins, bæði á leiðinni upp eftir og heim. Ég vildi engan veginn sleppa mínu hlaðborði því það var rausnarlega í boði yfirboðara minna og Vigdís varð að kveðja vinnufélaga sína almennilega. Hún hættir að vinna í desember og kemur væntanlega ekki aftur fyrr en eftir næsta sumarfrí (til samanburðar tek ég mér hins vegar bara tvær vikur í janúar og tek út tvo og hálfan mánuð með haustinu 2006).

Á meðan Vigdís borðaði í heimahúsi indverska kryddmáltíð frá Austur-Indíafélaginu tókst ég á við hefðbundnari veisluhöld í risastórum sal sem kallast Gullhamrar. Þetta er glæsilegur salur og ósjálfrátt fór ég að sjá fyrir mér tónleikahald þarna inni. Ímyndið ykkur Hótel Ísland nema töluvert stærra og rúmbetra - hátt til lofts, notaleg aðstaða. Við sessunauta mína impraði ég á þeirri hugmynd að þarna skyldi halda næstu Nick Cave tónleika sem ég einmitt sniðgekk á sínum tíma vegna staðarvalsins (Hótel Ísland er ákaflega ónotalegur tónleikastaður í alla staði).

Maturinn bragðaðist prýðilega. Skipulagið kom mér hins vegar töluvert á óvart því forréttirnir voru bornir á borð sérstaklega áður en salnum var hleypt í sjálft hlaðborðið. Þetta var eflaust gert til hagræðingar þar sem salurinn var sneisafullur af hundruðum kennara frá ýmsum skólum Reykjavíkur. Það sem kom mér óþægilega í opna skjöldu var hins vegar að hlaðborðið samanstóð þar með einungis af heitu aðalréttunum, þungum kjötmáltíðum af ýmsum gerðum. Áætlun mín um að gæða mér á forréttum allt kvöldið - síld, laxi og öðru léttmeti - virtist ætla að fara út um þúfur. Ég staðnæmdist á leið minni að hlaðborðinu og hugsaði minn gang, hnippti loks í þjónustustúlku og útskýrði stöðu mína fyrir henni. Hún kom til móts við mig með því að færa mér annan umgang af forréttunum, sem voru í alla staði prýðileg máltíð og góð málamiðlun. Það var ekki laust við að ég væri litinn öfundaraugum af sessunautum mínum enda höfðu þeir allir sem einn það á orði að forréttirnir hefðu borið af öðrum kræsingum.

Athugasemd: Söngbók Gunnars Þórðarsonar

Í dag læddist inn til okkar auglýsingabæklingur undir nafninu Skrudda. Þar eru kynntar nokkrar vel valdar jólabækur frá útgáfufyrirtæki sem ber þetta sama nafn. Það koma nokkrar bækur út frá þeim um jólin, þar á meðal lagasafn Gunnars Þórðarsonar. Á meðal 40 laga í bókinni hans voru í bæklingnum talin upp mörg af hans vinsælustu lögum: Bláu augun þín, Fyrsti kossinn, Gaggó vest og hin ógleymanlega harðsoðna Hanna! Ætli hún hafi verið sköllótt eftir allt saman?

miðvikudagur, nóvember 23, 2005

Daglegt líf: Foreldrafræðslu lokið

Í gær lauk fimm kvölda foreldrafræðslunni sem við Vigdís skráðum okkur í. Mjög gagnlegt og uppbyggilegt námskeið. Í gær var hópnum skipt upp í tvo aðskilda hópa, í feður og mæður, og þannig ræddum við einslega um hlutverk okkar út frá nýjum sjónarhóli. Hlutverk kynjanna í sjálfri fæðingunni eru náttúrulega ákaflega ólík og þurfti því að skerpa á þeim í sitt hvoru lagi svona í blálokin. Um daginn kíktum við hins vegar upp á fæðingadeild. Það var líka eftirminnilegt. Ég man eftir því sérstaklega hvað ég var vel upplagður það kvöldið og reytti af mér fimmaurabrandara við hvert tækifæri. Salernisaðstaðan á deildinni er svo lítil, svo ég taki eitt dæmi, að maður kemst varla þangað inn í fósturstellingu. Aðrir brandarar voru líklega enn lakari en þetta, enn áttu ágætlega heima á stað og stund. Sjálf deildin bætti hins vegar um betur með óvæntu innleggi. Þegar ég kíkti á biðstofu tilvonandi feðra og sá þar blað útundan mér og átti von á að finna fræðilega umfjöllun um hlutverk foreldra eða bara eitthvert slúðurblað. Á ákaflega viðeigandi hátt tókst deildinni hins vegar að sameina þetta tvennt með blaðinu "Nýtt líf". Hvað annað?

Við erum sem sagt búin að kynnast ýmsum hliðum foreldrahlutverksins en sjálf djúpa laugin er hins vegar eftir. Enginn veit víst hvernig hann bregst við þegar á hólminn er komið. Það par í foreldrafræðsluhópnum sem fyrst tekst á við hlutverk sitt á að eiga eftir tvær vikur. Svo gengur það koll af kolli næstu vikurnar. Það er því farið að styttast áþreifanlega í takmarkið.

mánudagur, nóvember 21, 2005

Upplifun: Tvívegis agndofa

Helgin gekk tiltölulega tíðindalaust fyrir sig að öðru leyti en því að ég varð tvívegis agndofa. Í fyrra skiptið skaust ég á Rauða ljónið til að sjá leik Real Madrid og Barcelóna. Þessi lið eru bæði hlaðin snillingum og það var því sérlega átakanlegt að sjá hversu grátt Barcelónaliðið lék áhugalitla Madridinga. Ronaldinho kom þar út sem algjör yfirburðamaður. Ekki nóg með að hann skoraði tvö mörk í þrjú núll sigri heldur gerði hann það með slíkum bravúr að mann setti gjörsamlega hljóðan. Í bæði skiptin komst hann "á ferðina" og geystist svo hratt fram hjá varnarmönnum Madrid að þeir virkuðu álíka hreyfanlegir og flaggstangir í skíðabrekku. Þar fyrir utan "klobbaði" hann heimsfræga leikmenn hvað eftir annað og sýndi ótrúlega dirfsku og hugmyndaauðgi, með sitt þekkta bros á vör. Miðað við þessa frammistöðu virðist Ronaldinho vera langbesti leikmaður í heimi í dag og það þarf að líkindum að leita aftur til Maradona til að fá einhverja hliðstæðu í sögu knattspyrnunnar. Þegar ég koma heim var ég óðamála af innblæstri og tíundaði afrek kappans gagnvart Vigdísi. Hún hlustaði af þolinmæði þó svo hún láti fótbolta sig yfirleitt engu varða.

Daginn eftir, á sunnudagskvöldið, fór ég síðan á tónleika með hljómsveitinni the White Stripes. Ég hef haft mikið dálæti á tónlist þeirra og á tvo nýjustu diskana með þeim. Þeir eru báðir hráir, ferskir og merkilega fjölbreyttir. Það hvarflaði ekki að mér annað en að þau White "hjónakornin" myndu njóta góðs af öflugum stuðningi uppi á sviði, svo kraftmikil og öflug er tónlistin. Þau stóðu hins vegar ein og óstudd uppi á sviði og létu bara vaða. Jack spilaði á ýmis hljóðfæri, rafgítar, kasagítar, mandólín og píanó - að jafnaði bara eitt í hverju lagi - á meðan Meg barði trommur af frumstæðum krafti, eins og simpansi. Maður trúði því varla að í lögunum skyldi vera spilað á einungist tvö hljóðfæri, í mismunandi samsetningu, því þau eru svo kröftug, margslungin og hljómmikil. En þetta gerðu þau eins og ekkert væri og svissuðu á milli stíla tiltölulega hratt og örugglega og sköpuðu þannig nauðsynlega fjölbreytni. Kraftinn fengu þau hins vegar með því að láta vaða og leyfa surgi og hávaða seytla með ógnvekjandi spilamennsku (Jack líktist ýmist Jimmy Page og Hendrix í bland við ekta gamaldags hispurslausan blús). Meg barði allann tímann sem mest hún mátti (maður dáðist af styrknum og úthaldinu) og það var ljóst að hennar hlutverk var fyrst og fremst að leggja kraftmikla áherslu á galdrana sem streymdu frá Jack, hvort sem hann tætti sundur gítarstrengi eða hvæsti eins og eyðimerkursnákur. Ég vissi hreinlega ekki hvaðan á mig stóð veðrið. Maður var hálf uppgefinn eftir þessa upplifun, enda aðstæður til tónleikahalds í Höllinni afar slæmar. Það breytti því hins vegar ekki að mér fannst verulega upplífgandi að sjá bandið meðhöndla sjálfan eldinn eftir að hafa séð allt of margar hljómsveitir í gegnum tíðina baða sig í bjarma annarra.

föstudagur, nóvember 11, 2005

Daglegt líf: Foreldrafræðsla

Þessa dagana sækjum við Vigdís svokallaða foreldrafræðslu. Þetta er fimm kvölda námskeið ætlað er verðandi foreldrum, haldið í Miðstöð Mæðraverndar. Tvö kvöld eru að baki nú þegar. Þetta er allt voða huggulegt. Nokkur pör á okkar aldri sitja í grjónasekkjum, hlið við hlið, og mynda hálfhring utan um ljósmóður sem miðlar af reynslu sinni af yfirvegun og innileika í senn. Þetta er því eiginlega eins og sambland af fyrirlestri og friðarstund. Ljósmóðirin er dugleg við að minna okkur á það hvað þetta ferli allt saman er stórkostlegt og það er ekki laust við að maður fái á tilfinninguna að hún hálfpartinn öfundi okkur. Allir á námskeiðinu eru á leiðinni með sitt fyrsta barn, sett á dagana milli 15. desember og 15. janúar. Við erum þarna einmitt í miðjunni enda fer vel um okkur í þessum hópi. Við erum dugleg að spyrja spurninga enda er þetta allt mjög áhugavert. Til dæmis í síðasta tíma, á miðvikudaginn var, þá var fjallað sérstaklega um fæðinguna sjálfa og við sáum tvö lifandi myndbrot af tveimur ólíkum fæðingum. Önnur þeirra var í vatni. Það var alveg ótrúlegt að sjá litla hausinn mjakast varlega inn í heiminn neðansjávar. Þetta var bara þægilegra af því að umhverfið líktist meira því sem barnið þekkir inni í leginu. Svo þarf það hvort eð er ekki að anda, til að byrja með. Súrefnið gegnum naflastrenginn nægir í blábyrjun. Þetta er alveg ótrúlegt þegar maður veltir því fyrir sér.

Stuttu eftir að við komum heim, endurnærð og afslöppuð eftir foreldrafræðsluna, biðu okkar skilaboð á gemsanum, alla leið frá Danmörku. Fyrr um daginn fæddist þeim Kristjáni og Stellu dökkhærð lítil stúlka. Við óskuðum þeim undireins til hamingju og bíðum spennt eftir að sjá myndir á síðunni þeirra þegar þar að kemur.

miðvikudagur, nóvember 09, 2005

Upplifun: Kristínarfundir

Í vikunni varð ég fyrir þeirri upplifun að hitta þrívegis einhvern á förnum vegi sem ég þekki vel en hafði ekki séð árum saman. Það sem er hins vegar harla merkilegt við þetta er það að þessar þrjár manneskjur heita allar sama nafni, - Kristín.

Þá fyrstu hitti ég á röltinu í IKEA á laugardaginn var. Hún var (og er) mjög náin vinkona einnar af bekkjarsystrum mínum úr mannfræðináminu og var mjög oft innanbúðar þegar við mannfræðingarnir gerðum okkur glaðan dag. Það var fyrir heilum átta árum síðan. Vegna margra sameiginlegra vina og minninga áttum við því mjög drjúgt og ánægjulegt upprifjunarspjall mitt í ösinni í IKEA.

Tveimur dögum síðar, á mánudaginn var, fór ég í sakleysi mínu í matarhléinu mínu á "Maður lifandi" að fá mér vel kryddaða og bragðmikla súpu. Það geri ég stundum til að fríska mig við eftir erfiðan kennsludag (eftir hádegið erum við aðallega í skýrslugerð). Tveimur borðum frá mér sá ég þá hvar sat Kristín nokkur sem stýrði svokölluðum Nordklúbbi hér um árið. Í þeim félagsskap var ég virkur einn vetur, rétt áður en ég fór út til Belfast vorið 1997. Ég var hins vegar ekki í stuði í þetta skiptið og hún var eitthvað að spjalla við vinkonu sína svo ég lét mér nægja að kinka kolli. Það tók mig hins vegar drjúga stund að rifja upp hvað hún hét því ég hafði ekki séð hana síðan einhvern tímann fyrir aldamótin.

Daginn eftir fór ég að lokum á fund í skólanum. Það eru oft haldnir fundir út af nemendum okkar enda koma þeir upprunalega úr öðrum skólum og fara aftur til baka eftir nokkurra vikna dvöl hjá okkur. Við spjöllum við umsjónarkennarann á þessum fundum ásamt öðrum fagaðilum um málefni, námsstöðu og líðan nemandans. Ég var búinn að sitja nokkra stund og gefa mína "skýrslu" munnlega þegar ég leit upp og sá andlit sem minnti mig skuggalega mikið á gamla umsjónarkennarann minn úr Seljaskóla, frá þeim tíma þegar ég var í barnaskóla. Kristín Axelsdóttir kenndi mínum bekk í fimm ár samfleytt frá því ég var í 2. bekk og þar til ég sagði skilið við barnaskólann (og færðist yfir í unglingadeild). Það var nánast eins og að labba inn í gamlan filmubút að spjalla við hana, svo lítið hafði hún breyst. Ég gerði mér hins vegar grein fyrir því að ég var nánast óþekkjanlegur í samanburði. Þegar ég vakti athygli hennar á því hver ég væri fórum við strax að rifja upp eldgömul minningarbrot frá í "árdaga", eins og hún orðaði það. Óneitanlega súrrealískt að ræða við gamla grunnskólakennarann til margra ára sem fagaðili og, óhjákvæmilega, sem nemandi í senn.

Ég var hálf ringlaður eftir þennan síðasta "fund" og fattaði ekki fyrr en daginn eftir, í gærkvöldi, að mér hefði tekist hið ótrúlega að hitta þrjár nöfnur sem allar tengdust mér á einhvern hátt en höfðu ekkert komið við sögu í lífi mínu síðustu árin. Ætli ég megi eiga von á einni slíkri í viðbót áður en vikan er úti? Ég þekki kannski eina eða tvær í viðbót, einhvers staðar úr grárri forneskju.

sunnudagur, nóvember 06, 2005

Upplifun: Rífandi stemning í snjónum

Um helgina náði ég í buxur úr viðgerð. Dökkgrænar flauelsbuxur. Einmitt þessar sem ég keypti um daginn. Það fór nefnilega frekar illa fyrir þeim. Í síðustu viku kom þessi fína snjókoma svo ég hentist út með nemendum mínum og fór í snjókast. Er ég beygði mig niður í snarhasti til að skófla saman einum boltanum í viðbót fann ég hvernig eitthvað rifnaði, og það allrækilega. Saumurinn sem heldur buxnahelmingunum saman spratt upp í einu lagi frá buxnaklauf og að buxnastreng að aftanverðu. Ég var náttúrulega ekki í dökkgrænum nærbuxum í stíl svo þetta hefði getað orðið mjög neyðarlegt. Ég bjargaðist hins vegar á því að ég var einn í liði, á móti nemendum, og enginn fyrir aftan mig, og svo stóð ég við hliðina á útidyrahurðinni. Ég hélt því nemendum í hæfilegri fjarlægð með lokaskothríð og vatt mér síðan inn mjög lipurlega. Eftir stutta viðdvöl afsíðis kom ég út aftur. Það var kalt úti og krökkunum fannst hálf undarlegt að sjá mig koma út á nærbolnum, með peysuna bundna um mittið. Þeir fáu sem vissu hið sanna brostu að þessu litla leyndarmáli með mér. Svo leið dagurinn, fremur tíðindalaus að öðru leyti.

Ég fór fljótlega með buxurnar í viðgerð og afgreiðsludömurnar hristu hausinn. Þær höfðu aldrei séð neitt þessu líkt áður. Þeim til hróss verð ég hins vegar að segja að þær báru sig einkar fagmannlega. Þær fóru ekki fram á að ég sýndi kvittun eða neitt slíkt. Buxnagallinn var augljós og ég fékk nýjar buxur í hendur umsvifalaust. Reyndar voru þær ekki til lengur í mínu númeri, heldur örlítið síðari, en þær tóku það að sér að stytta þær á mig. Ég hafði allt eins átt von á því að þurfa að kvarta og suða en var bara tekið eins og eðalkúnna. Ég er því enn jafn sáttur við verslunina og áður þrátt fyrir ófarirnar. Buxurnar sem brugðust mér svo illilega eiga hins vegar skilið spark í afturendann. Þær voru sendar aftur til föðurhúsanna, til framleiðendanna hjá Bison, í Danmörku, til frekari rannsóknar.

fimmtudagur, nóvember 03, 2005

Fréttnæmt: Hreiðurgerð

Vaggan er komin í hús og því er ekki að neita að okkur Vigdísi finnist það vera mikil viðbrigði. Hún blasir við þessa stundina rétt fyrir utan svefnherbergið, og bíður. Alveg eins og jólatré sem bíður eftir jólunum þá bíður vaggan hljóðlaust eftir áramótum, skreytt snotrum sængurfötum.

Við hrifumst af þessari vöggu strax og við sáum hana fyrst fyrir nokkrum dögum síðan. Þá vorum við búin að rölta um Baby Sam nokkra stund. Mér fannst einhvern veginn allt líta eins út og fannst hálf óþægilegt hvað ég var skoðunarlaus um allt sem ég sá, þar til þessi vagga blasti við. Hún er mjög klassísk í útliti og ótrúlega vel hönnuð. Hún vaggar á sveif sem liggur mjög ofarlega (og því auðvelt að vagga henni úr rúmhæð). Hún kostaði fjórtán þúsund kall en þar sem vagga er ekki notuð nema í þrjá til fjóra mánuði fannst okkur ekki réttlætanlegt að skella okkur á hana. Vorum að spá í að kaupa jafnvel bara rúm í staðinn, strax frá upphafi, enda er það varanlegri eign. Það fór því þannig, til að byrja með, að við létum þessa vöggu eiga sig. Við komumst í kjölfarið á snoðir um vöggur til leigu hjá sömu verslun (allt nema sjálf rúmfötin og dýnan) á aðeins fjögur þúsund kall. Þetta eru ágætar vöggur, mjög litlar og snotrar en tiltölulega látlausar. Þetta fannst okkur mjög sniðug lausn, svona til að fleyta okkur yfir fyrsta hjallann og pöntuðum því slíka vöggu til leigu, frá 15. desember (án skuldbindingar, enda er eftirspurnin mikil). Við höfðum ekki meiri áhyggjur af því þann daginn.

Í dag vildi hins vegar til að við áttum leið inn í verslunina á ný, aðeins nokkrum dögum seinna. Þá blasti gamla góða vaggan aftur við okkur, en í þetta skiptið á hálfvirði (vegna lítilsháttar útlitsgalla). Það var eins og hún bara biði þolinmóð eftir okkur. Enginn í búðinni nema við. Við sáum náttúrulega strax í hendi okkar að fyrst að vaggan kostaði ekki nema þrjú þúsund krónum meira en leigan sem við vorum búin að tryggja okkur þá væri í versta falli hægt að selja hana mjög auðveldlega á því verði og koma út á sléttu. Hins vegar væri mjög skemmtilegt að geta nýtt hana áfram. Frábær eign fyrir litla stúlku, löngu eftir að hún er hætt að sofa í henni sjálf.

þriðjudagur, nóvember 01, 2005

Daglegt líf: Frídagar framundan

Nú fer í hönd, frá og með deginum í dag, vetrarfrí í fimm daga. Það byrjar formlega á morgun, miðvikudag. Þvílík himnasending. Við vorum, einhverra hluta vegna, orðin mjög þreytt í vinnunni og þurftum virkilega á smá hléi að halda, meðal annars til að hafa tíma til að skrifa skýrslur um nemendur og annað í þeim dúr. Það má segja að frí eins og þetta, þó það sé ekki nema örfáir dagar, nýtist til að vinda ofan af þeim verkefnum sem hafa hrúgast upp. Ég fer að minnsta kosti einu sinni fyrir helgi í vinnuna, þrátt fyrir fríið, til að vinna í ró og spekt í stofunni minni. Það greiðir fyrir framhaldinu. Við Vigdís ætlum að nýta þessa frídaga vel saman. Hún náði að hagræða hjá sér í vinnunni þannig að hún er í fríi líka. Ætli við höldum ekki bara "litlu jólin" (maður veit aldrei hvernig það verður í desember), tökum svolítið til, stundum "hreiðurgerð" og tökum vídeó í kjölfarið, með tilheyrandi kræsingum.

laugardagur, október 29, 2005

Netið: Neanderdalsmaðurinn

Vísindavefurinn hefur nú birt svar mitt við spurningunni "Gátu Neanderdalsmenn talað?" í mannfræðiflokknum. Það vill svo til að textinn sem var birtur í Fréttablaðinu á dögunum, um uppruna fingurtáknsins "svívirðilega", er einmitt næsta svar í sama flokki.

mánudagur, október 24, 2005

Pæling: Framfarir í samfélaginu

Í vinnunni vorum við eitthvað að rifja upp hvernig samfélagið var fyrir um tuttugu árum. Bjórbannið var náttúrulega eftirminnilegt (fyrir þá sem höfðu aldur til að svekkja sig á því á sínum tíma) og allt laumuspilið í kringum áfengiskaup. Sá var talinn sérvitur sem eyddi tækifærinu í að kaupa sér rauðvín eða hvítvín. Þetta var í rauninni bara hrátt ribbaldasamfélag þar sem allir tróðu sér áfram, bókstaflega. Ég man það sjálfur hvernig það var að fara í bíó. Þá ruddist fólk í gegnum þvögu til að komast sem fyrst inn í kvikmyndasal. Ég hló þegar það rifjaðist upp með mér að maður ruddist meira að segja inn í strætó! Þetta sést hins vegar ekki lengur. Þeir sem höfðu dvalið um stund í Englandi gerðu athugasemd við það að hér væri engin biðraðamenning. Ég man eftir þessum pælingum (þetta höfðu margir á orði) og ég man eftir af hafa tekið undir það á sínum tíma. En horfum í kringum okkur í dag. Þetta atferli er órafjarri hugsun manns, eins og það hefði aldrei tíðkast. Það er reyndar enn í lagi að troðast ef maður er staddur fremstur manna uppi við tónleikasvið. Við stillum okkur hins vegar þolinmóð upp fyrir framan strætóskýlið, eins og við höfum aldrei kunnað neitt annað, og förum kurteislega í röð við allar miðasölur - kunnum meira að segja að drekka léttvín með matnum. Ég held að þetta hafi bara komið á síðustu 10-15 árum og minnir mann, á þessum frídegi kvenna, að síðasta kynslóð hefur náð býsna langt á mörgum sviðum. Við erum reyndar enn þá sömu sveitadurgarnir og áður þegar kemur að þeirri frjálslegu flóru búkhljóða sem við gefum frá okkur. Það þykir enn eðlilegt að ropa, prumpa, sjúga upp í nefið og ræskja upp úr sér innyflunum á almannafæri. Það þekkist ekki meðal siðaðra þjóða. Það er því spennandi að sjá hvort þessir ósiðir verði litnir hornauga af næstu kynslóð.

föstudagur, október 21, 2005

Tónlist: Snilldar spilagleði

Við Vigdís gerðum okkur dagamun og skelltum okkur í gærkvöldi á tónleika á Rússnesku hátíðinni í Kópavogi. Terem-kvartettinn umtalaði spilaði í Salnum og bauð upp á alls kyns tónlistarkokteila af þjóðlegum og klassískum uppruna, í bland við leiftrandi húmor. Ég hafði heyrt talað um þá árum saman en spunagleðin, hugmyndaflugið og útgeislunin var mun meiri en ég þorði að vona. Þetta er sko sönn tónlist, spiluð af lífi og sál. Þeir eru tilfinningalega mjög djarfir, þora að leika sér með tónlistina og teygja hana á alla kanta - jafnvel taka ráðsett tónverk (eins og frægu fúguna hans Bach) og setja í tuttugu mínútna þjóðlagaútgáfu sem gefur upprunalegu útgáfunni ekkert eftir. Stórkostlegt. Ég set þessa sveit hiklaust á sama stall og Kronos-kvartettinn og the Kings Singers eftir þessa upplifun. Ég klappaði svo duglega að tónleikum loknum að lófarnir þrútnuðu.

fimmtudagur, október 20, 2005

Pæling: Fimm bakhliðar

Krisján tók sig til og "klukkaði mig" um daginn. Þetta er víst eins konar netleikur í keðjubréfaformi þar sem bloggarar skora á nokkra aðila í vinahópnum til að afhjúpa fimm leyndarmál um sjálfa sig. Leyndarmálin þurfa í sjálfu sér ekki að vera feimnismál, bara eitthvað forvitnilegt sem tiltölulega fáir vita. Og nú er komið að mér. Látum okkur sjá:

1. Menn þekkja líklega flestir föðurnafn mitt, sem er afar sjaldgæft (Berghreinsson) en færri vita að ég ber millinafn. Guðni.
2. Mér tókst einu sinni að sigra í skemmtiskokki á Reykjavíkurmaraþoninu. Þetta var bara sjö kílómetra skokk og náungarnir tveir sem voru á undan mér hlupu vitlausa leið. Ég var hálf svekktur yfir því að fá engin verðlaun.
3. Ég er mjög eldhræddur. Kveiki helst ekki á kerti nema ég geti fylgst með því gaumgæfilega. Á sama frumstæða hátt er ég haldinn sprengjufælni. Ég hrekk mjög auðveldlega við hvelli, jafnvel flass úr myndavél, og þoli alls ekki flugelda. Fer helst ekki út úr húsi á gamlárskvöld því mér finnst allar raketturnar stefna beint á mig.
4. Innhverf íhugun veitir mér dýpstsu hvíld sem ég þekki. Hana lærði ég fyrir tæpum fimmtán árum. Hún er stunduð tvisvar á dag, tuttugu mínútur í senn. Ég á það til hins vegar til að gleyma henni vikum, jafnvel mánuðum, saman.
5. Mér finnst best að nota sundgleraugu við að skera lauk.

Ég klukka hér með Bjart Loga og Jóhönnu Ósk. Klukk!

laugardagur, október 15, 2005

Fréttnæmt: Umslagið var opnað í dag

Undanfarnar vikur höfum við haldið aðstandendum okkar í eins konar andlegri gíslingu. Þau hafa iðað í skinninu eftir að fá að vita hvors kyns barnið okkar er. Við ákváðum á sínum tíma að svarið skyldi sett í umslag. Umslagið er nú búið að liggja í skúffu rúma tvo mánuði. Í dag rann hins vegar stóri dagurinn upp.

Við buðum foreldrum mínum og mömmu Vigdísar í heimsókn. Það vildi svo til að þau höfðu aldrei hist. Það hefur auðvitað lengi staðið til að breyta því en röð tilviljana hefur haft sínu fram. Þar með sáum við Vigdís í hendi okkar að þetta einstaka tilefni, opnun umslagsins, væri kannski tilvalið fyrir þau til að hittast í fyrsta skipti. Þau komu því öll mjög spennt, þáðu veitingar og skiptust á sögum og ljósmyndum.

Eftir dágóða dvöl í góðu yfirlæti kom að því að við gátum ekki beðið lengur. Lágvær stemningstónlist í bakgrunni var skrúfuð niður. Við Vigdís settumst hlið við hlið og gægðumst varlega ofan í umslagið og þar stóð: Með kveðju, stúlka (og svo kom svona fallegt stúlkutákn með hring og krossi). Við litum hálf feimnislega á hvort annað og réttum svo umslagið hringinn. Þau reyndu að ráða fram úr svipnum, kímin og spennt, en kíktu að lokum ofan í sjálf.

Með þessu hefst lokaspretturinn hjá okkur Vigdísi. Framhaldið er orðið áþreifanlegra og, umfram allt, persónulegra. Við hlökkum til að taka á móti litlu dóttur okkar eftir tæpa þrjá mánuði.

Vídeó: Hotel Rwanda

Við létum fara vel um okkur heima í gærkvöldi með vídeóspólu og eitthvað til að narta í. Ég fékk að velja spóluna og í ljósi þess að ég er nýbúinn að kynna mér afrísk þjóðarmorð ákvað ég að taka Hotel Rwanda. Sagan minnir óneitanlega á sögu Schindlers í seinni heimsstyrjöldinni, svona í grunninn. Aðalsöguhetjan er með tengsl við ýmsa háttsetta menn beggja megin víglínunnar, telst formlega til þeirra sem að þjóðarmorðinu standa en er hliðhollur fórnarlömbunum og reynir að koma þeim undan. Myndin er góð en er þó langt því frá að vera hnökralaust meistaraverk. Handritið, ýmsar samræður, persónusköpun og tilfinningaleg viðbrögð fólks við hryllingnum í kring virka stundum svolítið ósannfærandi. Myndin er samt geysilega áhrifamikil og segir frá atburðum sem enginn ætti að leiða hjá sér. Ég er ekki frá því að það mætti gera hana að skylduáhorfi í framhaldsskólum landsins. Það er pæling út af fyrir sig: Hvaða myndir kvikmyndasögunnar eru best til þess fallnar að vekja fólk til vitundar um eðli átaka, kúgunar og misréttis í gegnum tíðina? Ég man í fljótu bragði eftir Mississippi Burning þar sem hliðstæð kúgun átti sér stað í suðurríkjum Bandaríkjanna. Ég man hvað ég varð reiður fyrir hönd svartra þegar ég sá hana fyrst.

mánudagur, október 10, 2005

Pæling: Afrísk þjóðarmorð

Í tilefni af óhuggulegri heimildarmynd í sjónvarpinu í kvöld um þjóðarmorðið í Darfur héraði í Súdan tók ég mig til og kynnti mér sögu annars þjóðarmorðs sem átti sér stað nokkrum árum fyrr: slátrunina í Rwanda. Ég fann nokkuð ítarlega grein um sögu Rwanda á hinum frábæra Wikipedia-alfræðibanka. Þar kom fram tölfræðileg staðreynd sem ein og sér náði að stugga verulega við mér. Hún er sú að á þremur mánuðum náðu Hutu-menn að slátra rúmlega níu hundruð þúsund manns (aðallega Tutsi-mönnum en einnig frjálslyndum Hutu-mönnum). Til að skilja þetta almennilega þarf maður að einfalda tölurnar og gera þær áþreifanlegri.

Ef þeir myrtu um það bil 300.000 manns á mánuði þá gerir það tíu þúsund manns á dag! Þetta er eitt skilvirkasta þjóðarmorð sem alþjóðasamfélagið þekkir. Hvað eru margar sekúndur í sólahringnum eiginlega? 3600 sekúndur á klukkutíma sinnum 24 tímar gerir 86.400 sekúndur í sólarhringnum. Morð á átta sekúndna fresti, miðað við að haldið sé áfram sleitulaust dag og nótt. Taki menn sér tíu mínútna hlé jafngildir það "uppsöfnuðum morðkvóta" upp á 75 manns. Tölfræðin segir síðan aðeins hluta sögunnar. Hún lýsir náttúrulega ekki hryllingnum sjálfum og hversu fjölbreytilega fólki hlaut af hafa verið slátrað af mönnum sem voru orðnir tilfinningalega dauðir og þurftu að gera sér eitthvað til skemmtunar inn á milli.

Tónlist: Stafrænn iPod og gamaldags Doors

Undanfarna mánuði hef ég komist upp á lagið með að hlusta á stafræna tónlist í bílnum með hjálp iPodsins sem við Vigdís keyptum á Kanarí í mars. Ég á svona "snúruspólu" sem tengir stafrænar græjur (hvort sem það er geislaspilari eða nútíma iPod), við kassettutækið í bílnum. Vigdís situr venjulega með litlu græjuna í lófanum og stýrir tónlistinni á meðan ég passa mig á umferðinni. Frábær græja. Hljómsveitin Air hefur verið í miklu uppáhaldi hjá okkur enda lifandi og geysilega skapandi stemningstónlist þar á ferð. Allt safnið passar í lófann og meira til. Nýlega hefur þó dregið til tíðinda. Ég skellti venjulegri spólu í tækið með gamalli vínylupptöku tveggja Doors platna (Waiting for the Sun og Morrison Hotel). Eins og iPodinn er nú fínn þá á stafrænn hljómurinn ekki roð í snarkandi, mjúkan hljóminn af vínylnum. Ég á reyndar Doors á geisladiski, allt safnið, en hef aldrei haft gaman af að hlusta á það. Nú veit ég af hverju. Hljómurinn er eitthvað svo hrikalega "dauður" á geisladiskinum. Hljómsveitin samdi vissulega frábær lög en það er ekki síður geggjað að heyra öll blæbrigðin í flutningnum, surgið í röddinni þegar Morrison hvæsir, blautan hljóminn þegar hann slakar á og ólgandi spennuna á milli hljóðfæra. Þetta heyrist ekki á geisladiski. Ég tékkaði sérstaklega á þessu eftir að hafa vart haldið vatni yfir "blautum" hljómnum í bílnum. Steindautt. Lög eins og "The Unknown Soldier", "Spanish Caravan", "Waiting for the Sun" og "Queen of the Highway" hljóma hins vegar eins og magnaður galdraseiður í "analog" (hliðrænum) hljómburði. Munurinn er lygilegur. Ég er að minnsta kosti forfallinn Doors-unnandi þessa dagana, - svona á meðan ég skýst á milli húsa.

fimmtudagur, október 06, 2005

Pæling: Púkadagur framundan

Vigdís er talnaglögg og skoðar gjarnan áhugaverð mynstur í talnaröðum, eins og dagsetningum og símanúmerum. Um daginn vakti hún athygli mína á því að á miðju næsta ári kemur upp dagsetningin 06.06.06. Þrísexan hefur oft verið notuð sem tákn djöfulsins, eins og kunnugt er, svo maður veltir því fyrir sér hvort einhverjir djöfladýrkendur úti í heimi kunni að stefna að fæðingu á þessum ískyggilega degi. Þeir ættu að vera býsna iðnir við kolann þessa dagana því nú eru nákvæmlega níu mánuðir til stefnu. Það fer hver að verða síðastur að leggja inn fyrir einum litlum púka.

laugardagur, október 01, 2005

Lestur: Líffræði. The Evolution of Fatherhood

Eins og lesa má í síðustu færslu er maður búinn að klæða sig upp fyrir næstu mánuði. Þegar barnið stekkur inn í heiminn verður pabbinn mættur í flauelsbuxum til að taka á móti. Eða þannig. En ég keypti líka þennan sama dag litla bók helgaða sama tilgangi. Hún heitir "The Evolution of Fatherhood" og fjallar um það hvernig hinar og þessar dýrategundir sinna feðrahlutverki sínu. Sumar dýrategundir eru svokallaðir "fjarverandi feður" en aðrir sinna afkvæmum sínum stöðugt út alla ævina. Þetta hefur líka breyst svolítið í mannlegu samfélagi gegnum tíðina. Ég vænti þess að "þróunarsaga föðuhlutverksins" komi til með að varpa áhugaverðu ljósi á þetta allt saman. Hún hefur að minnsta kosti fengið frábæra dóma og umsagnir, meðal annars frá Jane Goodall og Elizabeth Marshall Thomas (sem skrifaði eina af mínum uppáhaldsbókum "The Tribe of Tiger"). Spennandi lesning og vonandi uppbyggileg.

föstudagur, september 30, 2005

Daglegt líf: Innkaupaferð í Kringlunni

Einstöku sinnum gerum við Vigdís okkur markvissa innkaupaferð, eins og í gær þegar við skelltum okkur í Kringluna á löngum fimmtudegi. Við grömsuðum eitthvað í H&M og keyptum helling af fötum á áfar góðu verði. Jack & Jones hefur hins vegar löngum verið uppáhaldsbúðin mín enda hefur þeim í gegum tíðina tekist að koma mér skemmtilega á óvart. Það hélt ég þangað til í gær. Ég var sem sé búinn að kaupa helstu nauðsynjar á sjálfan min hjá J&J þegar ég álpaðist inn í Bison með Vigdísi. Það var eins og fötin þar hafi beinlínis verið að bíða eftir manni. Ég var líka minnugur þess að síðast þegar ég gekk þarna inn keypti ég mjög góð föt. Jafnvel nærbolina sem ég keypti þar hef ég notað meira en aðra. Ég lét því slag standa og neyddist eiginlega til að læðast út í Íslandsbanka til að kanna innistæðuna á debetkortinu mínu. Mér var eiginlega hætt að lítast á blikuna en hugsaði til þess í leiðinni að líklega þarf ég ekki að kaupa mikið af fötum næstu mánuðina.

sunnudagur, september 25, 2005

Pæling: Pictionary tungumál

Við Vigdís skelltum okkur í sumarbústað um helgina og eyddum tímanum með vinum og vandamönnum í gönguferðum og spilamennsku, eins og gerist og gengur í svona sveitadvöl. Pictionary vakti sérstaka lukku og þróaðist hjá okkur smám saman tungumál sem helgað var þessari spilamennsku. Spilið gengur sem sé út á að tveir meðspilarar skiptast á að teikna mynd af einhverju fyrirbæri, hlut eða hugmynd, á meðan hinn giskar á hvað það er sem verið er að draga fram. Þar sem teiknarinn má ekki gefa neina vísbendingu öðruvísi en með teikningu, hvorki með tölum né bókstöfum, og tíminn afar takmarkaður býður leikurinn upp á mikið óðagot og læti. Hér eru markviss vinnubrögð lykillinn að árangri. Við leyfðum sem sé ákveðin grunnsamskipti.

Við ákváðum að leyfa leiðandi spurningar þannig að hægt er að spyrja strax í upphafi hvort um lýsingarorð eða nafnorð er að ræða og svo framvegis. Teiknarinn má sem sagt gefa já og nei til kynna þannig að spyrjandinn gæti þess vegna verið í spurningaleiknum "hvert er fyrirbærið" nema hvað, hann fær til baka teiknaðar vísbendingar. Þegar viðkomandi er að komast á sporið má teiknarinn jafnframt gefa bendinguna "komdu" og á sama hátt bendingu um "stopp" þegar farið er í vitlausa átt. Svo komumst við að því að þegar rétta "merkingin" er komin en svarið reynist samt sem áður annað orð, kannski langsótt samheiti, er nauðsynlegt að geta gefið það til kynna með einhverjum hætti. Í þeirri stöðu gáfum við merkið "samasem" með vísifingri og löngutöng (líkist vaffi). Þá er áherslan lögð á að finna rétt "orð" eða frasa fremur en merkingu. Til að gera spilið enn markvissara leyfðum við kassatáknkerfi þar sem einn kassi táknar svar sem felur í sér eitt orð, tveir kassar tákna tveggja orða svar og svo framvegis. Tveir samliggjandi kassar merkja samsett orð. Sem sagt, með þessu táknkerfi er hægt að spila spilið mjög markvisst og elta uppi nánast ómöguleg orð. Það getur verið ótrúlega skemmtilegt.

föstudagur, september 23, 2005

Fréttnæmt: Steini segir “fokk jú” í Fréttablaðinu

Ég mæli með því að Fréttablaðið verði lesið gaumgæfilega núna um helgina. Mér skilst nefnilega á Vísindavefnum að þar muni birtast lítil mannfræðigrein sem ég skrifaði nýlega um “puttann” svokallaða (sem menn nota í ögrunarskyni um allar jarðir). Uppruni hans og tengsl við önnur sambærilega tákn er rakinn í greininni.

Góða helgi :-)

mánudagur, september 19, 2005

Daglegt líf: Tvö kornabörn

Við Vigdís höfum ekki afrekað mikið síðustu daga annað en það að sinna heimilinu og heilsa upp á vini og vandamenn. Upp úr standa þó tvær heimsóknir þar sem kornabörn léku aðalhlutverkin. Hjá Bjarti og Jóhönnu dormaði veraldarvanur drengur (að því er virtist) sem gjóaði til okkar öðru auganu. Vigdís fékk að halda honum um stund og við það brast hann í myndarlegan hlátur, öllum til undrunar. Þetta á víst ekki að vera hægt á þessum aldri. Nokkrum dögum síðar (reyndar bara í gær) fórum við til Sigga bróður og þurftum þar að tipla á tánum vegna þess að drengurinn á þeim bæ var nýlega sofnaður. Hann er fyrirburi og á enn nokkuð í land með að braggast almennilega en virðist þó vera að ná sér eftir erfiða törn undanfarna daga. Ónæmiskerfið er sérlega viðkvæmt hjá fyrirburum en það styrkist jafnt og þétt eftir því sem á líður. Vonandi var heimsókn okkar bara liður í því þroskaferli.

laugardagur, september 10, 2005

Tónlist: The Pixies í sveitabúningi.

Ég varð fyrir undarlegri tónlistarupplifun í gær. Fór á Kaffi Hljómalind, eitthvað að grúska, og heyrði að þeir voru að spila Pixies, Surfer Rosa, eina af mínum uppáhalds plötum. Ég er vanur að hlusta á þetta á tyllidögum, hækka vel í og fara í einhvers konar ham sem ég kann ekki að lýsa hér. Tónlistin er kraftmikil og ögrandi. Það hvarflaði að mér rétt sem snöggvast að fara á annað kaffihús því ég kunni ekki alveg við þetta í "Easy Listening" gírnum. En ég sat áfram og fann smáma saman að þetta var nú bara notalegt. Maður þekkir tónlistina það vel að hún einfaldlega virkar, svona eða hinsegin. Kannski er þetta eins og með Bítlana, hugsaði ég með mér, sem eitt sinn voru ögrandi og djarfir en eru í dag notaðir á látlausan hátt sem veggfóður. Pixies eru komnir á þann sama stall. Sameiningartákn ákveðins hóps sem man eftir "byltingunni". Ég velti þessu eitthvað fyrir mér áfram en hélt svo áfram að lesa og naut þess bara að vera hluti af þessu samfélagi, með Pixies seytlandi í bakgrunni, fyrst Surfer Rosa og svo fyrsta platan, Come on Pilgrim. Þá fór ég að heyra tónlistina á annan hátt en ég var vanur. Þeir minntu mig allt í einu á ameríska þjóðlagadiskinn sem ég tók að láni um daginn (sjá síðustu færslu). Bjagaður og ákaflega frumstæður gítarleikur minnti mig á afdala banjóleikara sem syngur meira af mætti en getu og notar til þess alla sálina. Ég heyrði einfaldlega í fyrsta skipti hvernig tónlist Pixies skírskotar til amerískrar þjóðlagahefðar eins og hún leggur sig, sprettur upp úr jörðinni, svo að segja. Ég hef alltaf séð þetta fyrir mér sem eins konar hart rokkað flamengópönk en það hafði eiginlega farið fram hjá mér hvað tónlistin er náttúruleg, afslöppuð, eðlileg og laus við öll höft. Kiddi kanína, sem eitt sinn rak plötubúð á þessum sama stað, orðaði þetta alltaf mjög hnyttið þegar hann kallaði Pixies og aðrar sambærilegar sveitir indjánarokk. Nákvæmlega það.

"Cariboooou........."

fimmtudagur, september 08, 2005

Pæling: Tónlistararfur neðansjávar

Ég kom í dag við á Borgarbókasafninu í Tryggvagötu á leiðinni heim úr vinnu. Á safninu er mjög myndarlegt safn af þjóðlaga- og heimstónlist til útláns (popp- og rokkgeirinn er ekki eins sómasamlegur). Ég tók mér eitthvað bitastætt, meðal annars disk sem heitir "The Mississippi - River of Song" með undirtitilinn "A Musical Journey Down the Mississippi). Diskurinn, sem er tvöfaldur, er gefinn út af Smithsonian Folkways. Þetta er óhemju veglegur diskur og flottur en þegar ég fór að gaumgæfa hann nánar áttaði ég mig á því að hann spannar að mestu tónlist frá því svæði sem akkúrat núna er á kafi í baneitruðu flóðvatni. Ég velti því óhjákvæmilega fyrir mér í framhjáhlaupi hversu margir tónlistarmannanna sem syngja og spila á diskinum hafi farist eða misst allt sitt í flóðinu. Sumir segja að þarna hafi horfið í heilu lagi vagga djassins, þess eina tónlistararfs sem kalla mætti séramerískan, burt séð frá öllum öðrum mannlegum harmleik.

mánudagur, september 05, 2005

Fréttnæmt: Fæðingar víða og nærri

Ekki veit ég hvað ég hef haft fyrir stafni undanfarna daga annað en það að venja mig við að vakna á morgnana og fara gegnum hefðbundinn vinnudag. Það hefur gengið nokkuð vel, satt að segja, en hugurinn hefur hins vegar verið við tvær fæðingar að undanförnu. Fyrst eignaðist Siggi bróðir sinn fyrsta son rétt fyrir mánaðarmótin (hann á nokkrar dætur fyrir) og hann var að vonum alsæll með árangurinn. Bjartur Logi og Jóhanna eignuðust líka stálpaðan dreng (eins og sjá má á heimasíðu þeirra). Það er allt að gerast. Við Vigdís áttum að vonum mjög auðvelt með að lifa okkur inn í atburðarásina undanfarna daga en lúrum þó enn á okkar. Tíminn verður víst nógu fljótur að líða.

sunnudagur, ágúst 28, 2005

Matur: Dýrðarinnar samloka

Við Vigdís fórum í gær í berjamó (við erum búin að vera nokkuð dugleg við það að undanförnu). Fórum Nesjavallaleiðina í átt að Þingvöllum og svo heim. Þá leið hafði ég aldrei farið áður og fannst mikið til þess koma. Veðrið var alveg svakalega fallegt og skemmtilegt að sjá fólk í hverri einustu hlíð að bograst þetta með fötur og skálar. Á Þingvöllum stoppuðum við hins vegar til að borða og þá tók ég upp samloku sem nánast stal senunni. Þetta var mjög svo óhefðbundin túnfiskssamloka þar sem túnfiskurinn hafði ekki verið kurlaður eða blandaður við sósusull heldur naut hann sín í áþreifanlegum flykkjum innan um léttsúra ætiþistla og rauðlauk. Brauðið var smurt með sætu sinnepi, lagt með íssalati. Ekki spillti heiðríkan á Þingvöllum fyrir.

laugardagur, ágúst 27, 2005

Pæling: Baunir og hnetur

Á kaffistofunni í skólanum áttu sér stað undarlegar samræður sem snerust um hnetur. Einn kennarinn kom með þá staðhæfingu að svokallaðar "salthnetur" (sem í raun eru bara saltaðar "jarðhnetur") væru ekki hnetur heldur baunir og væru því grænmeti (legumes). Því til stuðnings benti hún á að í enskumælandi heimi væru þessar hnetur ekki kallaðar jarðhnetur heldur baunahnetur (peanuts). Þá fór maður að velta fyrir sér orðaflórunni og hvernig hún myndi umbreytast öll ef maður kallaði allt sínu rétta nafni. Ef jarðhnetur ættu að heita baunahnetur þá yrði hnetusmjör kallað baunahnetusmjör. Þar sem hnetusmjör er ekki bara notað á brauð mætti allt eins kalla það baunahnetumauk. Þær afurðir sem samanstanda fyrst og fremst af þessu mauki, eins og Satay-sósan (sem notuð er mikið í Indónesíska rétti og er afar vinsæl í Hollandi) héti því baunahnetumaukssósa. Hollenskur samkennari minn brosti mikið að þessu enda væri hugtakið ólíkt stirðara í daglegu tali en Satay-sósa - og kannski ekki eins girnilegt.

mánudagur, ágúst 22, 2005

Fréttnæmt: Seinni hluti - uppákomur alls staðar

Undanfarna daga hefur verið ærið mikill erill. Hann hefur reyndar verið af ánægjulegra taginu í formi tónleikahalds, hátíðahalda og heimboða. Byrjum á miðvikudeginum. Þá héldu Sonic Youth, hin geysimagnaða hávaðabeislandi rokksveit frá New York, tónleika á NASA. Það var upplifun út af fyrir sig að sjá þá því ég hef haldið upp á þá síðan ég var á unglingsaldri. Ég hitti nokkra vini mína eftir tónleikana og við urðum að skella okkur á Kaffibrennsluna til að gera tónleikana upp. Ég kom því seint heim það kvöldið. Daginn eftir þraukaði ég syfjaður undirbúningsvinnudag í skólanum (nú er það allt að fara af stað) og uppgötvaði á síðum Fréttablaðsins að einvalalið íslenskrar tónlistarflóru ætlaði sér þá um kvöldið að troða upp á Grandrokk með svokölluðum Bowie-tribute tónleikum. Þetta voru þeir Guðmundur Pé. á Gítar, Birgir Baldurs á trommu og fleiri. Ég hringdi í flesta Bowieunnandi vini mína og boðaði þessa stórveislu af mikili skyldurækni og brennandi áhuga. Tveir þeirra mættu á staðinn (Jón Már - ásamt bróður sínum reyndar - og Halldór, sem hefur unnið með mér árum saman á sambýlinu í Grafarvogi). Við skemmtum okkur einstaklega vel enda var mikil partýstemning þarna inni, eins og vera ber. Tónlistin er náttúrulega frábær og henni var gerð mjög músíkölsk og kraftimikil skil. Aftur skilaði ég mér seint heim. Næsti vinnudagur var enn erfiðari og höfðu menn það á orði að ég væri ekki enn búinn að skila mér niður á jörðina. Þannig var það langt fram eftir degi þangað til þreytan fór að segja verulega til sín seinni partinn. Það var í raun óheppilegt því einmitt þá hófst ég handa við að klæða mig í mitt fínasta skart því Kristján var að halda útskriftarveislu sem doktor í eðlisfræði ásamt Stellu sem nýlega kláraði B.A. í bókmenntafræði (og þau á leiðinni út til Danmerkur í næstu viku). Upp á þetta var haldið með pompi og pragt. Mig grunar hins vegar að ég hafi sveimað um eins og hálfgerður draugur því ég var á fullu að skrapa orku upp úr varatankinum. Ég naut þess engu að síður að spjalla við gesti, einkum foreldra þeirra Kristjáns og Stellu og virti fyrir mér húsakynnin sem voru glæsileg. Veitingarnar voru einnig hreinasta afbragð. Ég fór hins vegar sæmilega snemma að sofa í þetta skiptið. Gat reyndar ekki sofið út því ég ákvað að skutla Vigdísi á morgunvakt og fór svo í bæinn á svokallaða Menningarnótt þá um morguninn. Það var eiginlega bara lýjandi. Keypti mér þó slatta af geisladiskum í 12 tónum (allt á hálfvirði). Fór heim í millitíðinni, sótti svo Vigdísi og fór í bæinn aftur. Labbaði að lokum heim með Vigdísi í eftirminnilegu skyndiúrhelli að flugeldum loknum. Það var því ekki fyrr en á sunnudag að ég gat fyrst farið að slaka á. Fór upp úr hádegi í afslappaða og þægilega kaffiheimsókn til Einars og Sólveigar í Kópavoginum þar sem ég hitti Kristján og Stellu einnig. Við spjölluðum um útskriftir, ferðalög og barneignir (kannski mest um barneignir). Gott að slaka aðeins á efti þetta allt saman áður en vinnuvikan hefst á ný fyrir alvöru.

Fréttnæmt: Fyrri hluti - Geitungaskúrinn

Yfirleitt þegar illa gengur að skrifa þá stafar það af því að of mikið hefur gengið á og lítill tími verið til aflögu. Ég hef ekki skrifað núna í um tíu daga. Það byrjaði með geitungatörn á miðvikudaginn fyrir rúmri viku síðan. Geitungabú uppgötvaðist innan á klæðningunni á bílskúrnum okkar, nágrannamegin. Þaðan barst okkur kvörtun og ég leitaði strax til Jóns Más, sem hefur svo heppilega farið á námskeið í útrýmingu meindýra. Hann þurfti í stuttu máli að heimsækja okkur nokkrum sinnum því staðsetningin á búinu gerði honum illkleift að ráða niðurlögum búsins. Með eitri tókst ekki að metta loftið kringum búið því loftgöt voru nánast á allri húshliðinni. Flugurnar fundu alltaf nýja leið út úr klæðningunni og inn aftur - þar til við tókum á honum stóra okkar og fylltum inn í öll nærliggjandi göt. Síðan hefur ekki borið mikið á flug(u)umferð í grennd við skúrinn. Mér verður samt stundum hugsað til þeirra þar sem þær kunna að vera að svelta innanklæðningar á bílskúrnum. Hálf óskemmtileg mynd sem hugurinn bregður upp af þeim viðburði. En það er bara ég. Sem verðlaun fyrir rösklega framgöngu bauð ég Jóni inn, ásamt Margréti sem var með honum í úrslitaskiptið, og bauð þeim upp á allsherjar svarta veislu. Hún samanstóð af hálf ógeðslegum Batman-frostpinna (sem við Vigdís keyptum nýverið á tilboði) og krækiber (með rjóma og vænum slurki af hindberjaís). Þau gerðu veitingunum að sjálfsögðu góð skil.

miðvikudagur, ágúst 10, 2005

Daglegt líf: Meðgöngusamvera

Í gær fórum við Vigdís í heimsókn til Bjarts og Jóhönnu í þeim tilgangi að bera saman bumbur, eins og okkur fannst við komast svo hnyttilega að orði, ásamt því að skiptast á meðgöngusögum. Eins og lesa má út úr þessum orðum er Jóhanna ólétt, rétt eins og Vigdís. Hún er því sem næst fjórum mánuðum á undan okkur. Við Vigdís nutum því ekki aðeins kaffiveitinga í góðu tómi heldur fengum við líka mikilvæga innsýn í þann kafla meðgöngunnar sem framundan er. Þau Jóhanna og Bjartur eru nefnilega búin að undirbúa sig mjög vel enda hafa þeim borist föt úr öllum áttum sem geymd eru í þartilgerðri kommóðu, allt sorterað í stærðarröð. Við sáum okkur strax í anda fara að undirbúa lokakafla vegferðarinnar.

þriðjudagur, ágúst 09, 2005

Sjónvarpið: Veraldarrökkvun

Í sjónvarpinu í gærkvöldi var magnaður fræðsluþáttur um "global dimming" eða svokallaða veraldarrökkvun sem virðist vega upp á móti gróðurhúsaáhrifunum. Jón Már kíkti í heimsókn til okkar Vigdísar og sá þáttinn með okkur. Dómsdagsspáin ýtti við okkur öllum. Maður man nú eftir þættinum hér um árið um flóðbylgjuna frá Kanaríeyjum sem átti að geta valdið stórtjóni á Atlantshafi en varð síðan skyndilega að raunveruleika annars staðar á hnettinum fyrir tæpu ári síðan. Global dimming útskýrir vel hvers vegna gróðurhúsaáhrifin skelfilegu séu ekki lengra á veg komin í samanburði við gamlar dómsdagsspár. Nú virðist þetta allt vera að koma heim og saman.

mánudagur, ágúst 08, 2005

Fréttnæmt: Meðgangan. Sónarmyndir.

Í dag fórum við í reglubundna skoðun hjá ljósmóður, og enn virðist allt vera með felldu. Eftir það kíktum við upp á fósturgreiningardeild Landspítalans og sáum barnið í fyrsta skipti með eigin augum þar sem það bylti sér í leginu. Magnað að sjá þetta svona. Við fengum svo að fara heim með fjórar myndir til að sýna vinum og ættingjum. Í dag hefur því verið töluverður gestagangur og notaleg stemning. Við höfum verið spurð töluvert um kynið en enn sem komið er vitum það ekki. Þær upplýsingar geymum við í lokuðu umslagi þar til okkur finnst tímabært að vita það. Hins vegar er fæðingardagsetningin komin á hreint, hún er sett á 31. desember, en það er enn einhverjum breytingum háð. Þegar á hólminn er komið vonumst við til að dagurinn verði hinum megin við áramótin. Kannski þrettándinn...

Vídeo: Mannránsmyndir

Ekki er meiningin að tíunda gæði allra þeirra mynda sem við Vigdís sjáum. Það yrði með tímanum hvimleitt og tilgangslaust. Ég stenst hins vegar ekki mátið í þetta skiptið vegna þess að í vikunni sáum við tvær myndir sem tengjast innbyrðis. Þær eru báðar rómaðar mannránsmyndir. Fyrst sáum við myndina Breakdown sem tekin var upp fyrir okkur úr sjónvarpinu. Ágætis afþreying. Svolítið öfgakennd og ótrúverðug en engu að síður heldur hún manni vel við efnið. Þessi mynd varð hins vegar til þess að við tókum aðra sem líklega telst vera rómaðasta mannránsmynd allra tíma, the Vanishing. Ég sá hana fyrst fyrir nokkrum árum og gat ekki á mér setið að sjá hana aftur. Ólíkt Breakdown gengur þessi mynd hundrað prósent upp og gerir beinlínis út á þá að maður setji sig í spor og huga kaldlynda mannræningjans. Maður stendur sjálfan sig að því að eiga tiltölulega auðvelt með það. Algjör sálfræðihrollur. Ég verð hins vegar að benda fólki á að sjá hollensku frumgerðina (Spoorlos) frekar en þá amerísku. Á þeim er veigamikill munur.

Veikindi: Góðkynja stöðusvimi

Ég er búinn að vera hálf skrýtinn undanfarna þrjá daga. Það byrjaði seinni part garðdagsins svokallaða, þá kom ég dasaður heim úr sundferð. Ég fór að vera eitthvað þreyttur í hausnum og fékk undarlegan svima. Auðvitað hélt ég að þetta væri undanfari hefðbundinnar flensu og hafði hægt um mig það sem eftir var dagsins. Daginn eftir var ég einkennalaus og mjög ferskur, fór í bæinn og horfði á Gay Pride gönguna ásamt Vigdísi. Aftur gerðist það hins vegar við heimkomu, seinni partinn, að ég fór að finna fyrir þessum svima ásamt þreytu í hausnum. Sviminn var ólíkur venjulegum svima sem fylgir lágum blóðþrýstingi. Ég þekki þann svima vel. Hann hefur fylgt mér í gegnum tíðina. Mér hefur nokkrum sinnum sortnað fyrir augum við það eitt að standa skyndilega á fætur. Þessi svimi virtist hins vegar vera öðruvísi og brestur á við einfaldan höfuðsnúning. Til dæmis hallaði ég mér aftur þegar ég var að gæða mér á ís í brauðformi (formið byrjaði að leka og ég þurfti þá að sjúga ísinn úr forminu). Við þetta fékk ég öflugan svima. Mig svimaði jafnvel við það að bylta mé uppi í rúmi. Okkur fór þá að gruna sterklega að þetta hlyti að vera eitthvað inni í innra eyranu, frekar en blóðþrýsingurinn, ef til vill sýking af völdum ofnæmisins. Það stóð heima. Stutt læknisskoðun á sunnudagsmorgni leiddi í ljós að þetta var góðkynja stöðusvimi sem á útlenskunni útleggst sem "benign paroxysmal positional vertigo". Þar hafiði það. Þetta á víst að ganga yfir á innan við viku. Ég fann fyrir engum svima í gær þannig að það getur verið að þetta sé nú þegar yfirstaðið.

laugardagur, ágúst 06, 2005

Upplifun: Garðdagurinn mikli

Við Vigdís erum svo heppin að hafa aðgang að fallegum og myndarlegum garði með tilheyrandi grasflöt, beðum og trjágróðri. Því fylgir náttúrulega heilmikil vinna en sem betur fer er henni ekki allri velt yfir á okkur. Ég sé um að slá blettinn á um það bil tveggja vikna fresti en bæjarvinnan er hins vegar fengin til að hirða beðin tvisvar á sumri. Þetta skilst mér að sé þjónusta bæjarins við "gamla fólkið", en eigandi lóðarinnar er einmitt eldri kona sem, þrátt fyrir fjarveru sína vegna veikinda, er annt um garðinn sinn.

Svo stendur maður sjálfur, fullfrískur og horfir á mannskapinn úti í garði (ýmist sofandi eða í vatnsslag) og finnst í rauninni vera meira ónæði af þessu brölti en þjónusta. Í fyrra skiptið var það að minnsta kosti með þeim hætti. Þau unnu sína vinnu með hangandi hendi og skildu eftir stór svæði í órækt. Þegar þau voru farin sá ég fram á að þurfa að taka til í beðunum sjálfur, sem óx mér nokkuð í augum. Í gær komu þau hins vegar í seinna skiptið. Það var víst annar hópur sem mér skildist að væri töluvert duglegri. Ég leit á hópinn sem velkomna aðstoð við mig enda hefði ég sjálfur átt að sinna garðinum betur í sumar. Til að gera sem mest úr þessari "aðstoð" byrjaði ég daginn á því að skella margrómuðu bananabrauði í ofninn og bauð þeim það í kaffihléinu ásamt osti, sódavatni og pepsí. Þetta sló í gegn og létu þau sérlega vel að brauðinu. Veðrið var líka frábært og afköstin voru eftir því mjög fín. Þau töluðu um það á meðan þau mauluðu brauðið hvað þetta var búið að vera erfitt sumar enda stöðug vætutíð vikum saman. Þar sem þetta var síðasti dagurinn hjá þeim flestum, sól í heiði og fint veður, sögðu þau það mikils virði að lenda á svona góðum "garði" svona í lokin.

Satt að segja var ég búinn að vera með nokkuð samviskubit yfir því í alllangan tíma að geta ekki sinnt garðinum almennilega. Vegna vaxandi áhuga á garðyrkju gat ég ekki á mér setið og tók þátt í því með hersveitinni að snyrta garðinn. Miklu skemmtilegra að gera það í kröftugum hópi heldur en eftir á. Ég gerði svona það smámunalegasta eins og að kantskera og annaði í þeim dúr, allt það sem mér fannst leiðinlegast að biðja aðra um. Í leiðinni var ég bæði sýnilegur og að einhverju leyti til leiðbeiningar um frágang. Þetta var feykilega gaman og ég græddi ábyggilega sjálfur lang mest á þessu enda kynntist ég garðinum algerlega upp á nýtt með þessu brölti mínu. Ég vissi nefnilega ekki ég fyrr en ég tók á garðinum hversu miklar dásemdir hann hefur að geyma. Rabarbarinn og ribsberin fara reyndar ekki fram hjá neinum en inn á milli má hins vegar finna gnægð af graslauk, einhvers konar lakkrísrunna og duglega sprettu af myntu á leyndum stað, svo að ekki sé minnst á allar matjurtirnar sem ég hef sett niður í matjurtargarðinum (sem núna hýsir rósmarín, basilikum, villiblóðberg og jarðarberjarunna). Það er því alveg ljóst að það sem eftir lifir sumars á öll matseld á eftir að taka mið af matarkistunni bakatil.

miðvikudagur, ágúst 03, 2005

Matur: Uppskrift að sumarsúpu

Vegna fjölda áskorana hef ég ákveðið að birta uppskriftina að uppáhalds sumarsúpunni okkar Vigdísar. Við elduðum hana í tvígang í síðustu viku fyrir vini og vandamenn.

Tómatsúpa með ferskjum og rækjum

1 laukur og 1-3 hvítlauksrif eru léttsteikt í olíu ásamt 1-2 tsk. af karrí.

1 dós af niðursoðnum tómötum bætt út í ásamt 4 dl. af fisksoði (vatn + teningar). Látið krauma í 5-10 mín.

Bætið einni dós af niðursoðnum ferskjum (skerið þær í passlega stóra bita) og setjið út í ásamt einum pela af rjóma. Bragðbætið með örlitlum ferskjusafa úr dósinni (drekkið bara restina). Hleypið upp að suðu.

Takið pottinn af hellunni og setjið 200g af rækjum út í (látið ekki sjóða)

Skerið kínakál í mjóa strimla, setjið í skálar og hellið súpunni í.

Mælt er eindregið með góðu brauði sem meðlæti og einhverjum bragðmildum drykk að smekk hvers og eins.

þriðjudagur, ágúst 02, 2005

Fréttnæmt: Stofan verður huggulegri

Það var einstaklega þægilegt að hreiðra um sig í stofunni heima á meðan meirihluti landsmanna kúldraðist í suddanum utandyra um síðustu helgi. Ekki það að maður hugsaði mikið um hlutskipti annarra heldur fór bara sérstaklega vel um okkur í nýjum hægindastól. Við fengum hann í IKEA í síðustu viku og erum hæstánægð með hann. Hann býður nefnilega upp á öll þægindi Lay-z-boy stólanna en er mikið nettari og passar betur inn í hjá okkur. Það er í rauninni fyrst núna sem sjónvarpsstundirnar eru orðnar makindalegar því antíksófinn var aldrei gerður fyrir annað en teboð á sínum tíma.

mánudagur, ágúst 01, 2005

Vídeó: Fjögurra mynda "Innipúkahátið".

Verslunarmannahelgin var innipúkahelgi hjá okkur í Granaskjólinu. Við fórum reyndar ekki á neina svokallaða Innipúkatónleika heldur tókum við skurk í vídeóglápi og af metnaði leituðum við fanga hjá Aðalvídeóleigunni. Við horfðum á tvær myndir á dag í tvo daga. Afraksturinn var þessi:

Tesis. Spænskur taugatryllir af bestu gerð. Minnti mig örlítið á Nattevagten hvað varðar frumlega nálgun og efnistök. Hún fjallar um kvikmyndafræðinema sem ákveður að skrifa um ofbeldi í kvikmyndum, fer á stúfana í hirslum skólans og kemst óvart yfir myndband með raunverulegum misþyrmingum og morði. Þá tekur verkefnavinnan náttúrulega allt aðra stefnu. Mjög flott handrit.

L´ennui. Frönsk kvikmynd um þráhyggjukennt, furðulegt og eiginlega óskiljanlegt ástarsamband. Við náðum engum tengslum við myndina. Okkur fannst hún langdregin og leiðinleg. Það hefur reyndar eitthvað með það að gera að okkur þótti erfitt að hafa frönskuna í eyrunum.

Angel Heart. Snilldarverk Alan Parker. Mjög myrk mynd í anda "Seven" (er reyndar um 10 árum eldri en hún). Handritið kemur verulega aftan að manni (löngu áður en það komst í tísku) og heldur manni fram að því í heljargreipum allan tímann. Reyndar er myndin mjög sérkennilegt sambland af hryllingsmynd og sakamálamynd. Leikurinn í hæsta gæðaflokki (Mickey Rourke kemur verulega á óvart og Robert De Niro er sérlega eftirminnilegur). Það sem fangaði mig hins vegar mest af öllu var handbragð leikstjórans, Alan Parker, enda er myndin mikið augnayndi. Hann hefur ótal oft sýnt hversu fagmannlega hann vinnur með öll sjónarhorn, klippingar og setur fram heillandi sjónarspil ljóss og skugga. Mynd til að eiga og skoða vel, ramma fyrir ramma.

Bad Guy. Kóreysk mynd um dapurleg örlög ungrar stúlku sem hneppt er í þrældóm vændis. Stuggar við manni með svipuðum hætti og Lilya-4-ever. Hún er reyndar ekki eins óþyrmileg því stílbragð leikstjórans er allan tímann mjög fágað og listrænt. Fegurðin nær einhverra hluta vegna að ráða ríkjum allan tímann, jafnvel á hrottalegustu augnablikum. Samband stúlkunnar við mangara sinn er stundum baðað dularfullum rómantískum ljóma, gegnum ríkjandi tómleika. Mjög sérkennileg mynd. Handbragðið minnir svolítið á Requiem for a Dream, sem sýnd verður í sjónvarpinu um næstu helgi.

Jæja, núna ætlum við að horfa svolítið á Himalaya-seríu Michal Palins, sem sýnd var í sjónvarpinu nýlega. Ég fann hana á bókasafninu í Hafnarfirði og get notið þess að fara mjög vandlega gegnum ferðalag hans um "þak heimsins".

föstudagur, júlí 29, 2005

Daglegt líf: Sumarglufa

Eftir vætutíð er ekki laust við að við Vigdís nytum okkar vel í sólríku vikunni sem er að baki. Við fórum nánast daglega í sund og notuðum garðinn okkar til hins ítrasta (borðuðum meðal annars kvöldmatinn okkar utandyra í almestu heiðríkjunni). Ég hjólaði um hverfið í þægilegum gír eða skokkaði. Við hittum ekki marga þessa daga en mæltum okkur þó mót við Kristján og Stellu. Við höfum ekki hitt þau mánuðum saman enda hafa þau verið búsett erlendis allan síðasta vetur og verða hér á landi aðeins í nokkrar vikur í viðbót áður en þau fara út aftur. Það vill svo skemmtilega til að þau eru nánast samstíga okkur Vigdísi í meðgöngu og tilvonandi barneignum í vetur og höfðum við því margt að ræða og margar bækur saman að bera. Talandi um bækur, Stella er líka nýútskrifuð sem bókmenntafræðingur og fannst mér tilvalið að færa henni skemmtilega bók að gjöf, sem hún virtist hæstánægð með (sjá hér). Þetta var annars makindalegt stund þar sem við flatmöguðum og "flatbökuðum" til skiptis í aflíðandi Bakarabrekkunni rétt fyrir neðan Humarhúsið á meðan afslappaður fjöldinn flaut fram hjá. Vikan er búin að vera dýrðleg og vonandi eigum við fleiri inni áður en sumarið skellur í lás með skammdegi.

laugardagur, júlí 23, 2005

Upplifun: Rannsóknarleiðangur um bakland Bifrastar

Á meðan bíllinn var í viðgerð (sjá síðustu færslu) nýttum við Vigdís tækifærið og skutumst upp í Munaðarnes í sumarbústað sem systir hennar var með á leigu. Við fengum náttúrulega far þangað með öðrum fjölskyldumeðlimum. Veðrið lék við okkur mest allan tímann og við spiluðum krokket liðlangan daginn og skemmtum okkur vel. Eftirminnilegust fannst mér þó að skoðunarferð sem ég fór með Sverri bróður Vigdísar. Við kíktum á foss í grennd Bifrastar sem heitir Glanni, mjög flottur, breiður í anda Gullfoss með myndarlegan laxastiga. Allt var krökkt af laxi sem sýndi snilldartilþrif við að hoppa upp flúðirnar. Skyldu þeir aldrei rotast í barningnum? Eftir fossviðdvölina héldum við för okkar áfram og kíktum loksins á Hreðarvatn. Ég segi "loksins" vegna þess að þetta er einn af þessum stöðum sem maður hefur keyrt hundrað sinnum fram hjá á spani án þess að gefa neinn gaum. Við vorum báðir gáttaðir á fegurð Hreðarvatns og Jafnaskarðsskógs í kring (sjá kort).

Þegar við höfðum dvalist uppi á hæð alllanga stund og drukkið inn áhrifin af skógivaxinni paradísinni og spegilsléttu vatninu (það gáraðist bara þegar fiskurinn tók sér flugu af yfirborðinu og myndaði fallegar hringgárur hér og þar) héldum við enn lengra og kíktum á Selvatn handan við hæðina. Þvílíkt land! Þar tók við önnur álíka fegurð, enn afskekktari. Vatnið myndaði glæsilega umgjörð um stakt par af fugli sem mér sýndist í hálfrökkrinu vera lómur (eða hugsanlega himbrimi). Yfir honum sveimaði taugatrekktur smáfugl og virtist ögra honum lítillega áður en hann tók sig til og gól eins og úlfur í ríki sínu. Þetta fannst mér toppurinn. "Lómurinn" virtist eiga vatnið og undirstrikaði það með því að skera á kyrrðina með góli sínu.

Daglegt líf: Vatnskassavandi

Ég er búinn að eiga í stökustu vandræðum með bílinn eftir að Gljúfrasteins- og Þingvallaferðinni lauk. Hann kom á blístrinu heim, eins og teketill, og sauð upp úr á bílastæðinu. Það kom alveg aftan að mér enda hafði ég ekki lagt mig fram um að fylgjast með hitamælinu á vélinni. Eina sem ég gat gert, úr því sem komið var, var að leyfa honum að kólna, fylla vatnskassann á ný með vatni (til bráðabirgða - frostlögurinn var ekki við hendina) og prófa að keyra hann á ný, stuttar vegalengdir, og sjá hvernig honum vegnaði. Í stuttu máli komst hann með herkjum 5-10 km. vegalengdir áður en hitinn rauk upp aftur (og þá var það spurning um að finna fyrsta útskot í akstursleiðinni til að stoppa í skyndingu). Hann fór því í meðferð hjá fagaðila og í ljós kom að vatnskassinn var þrælstíflaður. Hann hitnaði bara tæplega hálfur og annaði því ekki álaginu við venjulegan akstur. Vatnskassaviðgerðir (þ.e. -skipti) kosta um það bil 30 þúsund krónur en ég taldi mig vel sloppinn því svokölluð "head"-pakkning (sem ég kann ekki almennilega skil á) hefði hæglega getað skemmst í hita leiksins :-) og það hefði verið heilmikil viðgerð, upp á 10-20 klst. vinnu og hundrað þúsund kall. Ég pungaði því fegins hendi út þrjátíu þúsundunum og vona bara að bíllinn taki ekki frekari hitasótt í bráð.

miðvikudagur, júlí 20, 2005

Upplifun: Dvöl á Gljúfrasteini

Ég fór síðasta sunnudag í léttan bíltúr með yngri frændsystkinum mínum (Birki og Theodóru) gegnum Mosfellsdal á Þingvöll og þaðan heim. Við stoppuðum á Gljúfrasteini nokkra stund enda er Þröstur (pabbi þeirra og fyrrv. mágur minn) að vinna þar svo ég gat labbað inn á neins tilkostnaðar. Ég varð fyrir talsverðum hughrifum þarna inni. Mæli eindregið með því að fólk komi við og upplifi andrúmsloftið á heimili nóbelskáldsins. Burt séð frá virðingu minni fyrir Halldóri og arfleifð hans þá fyllti staðurinn mig lotningu strax við innkomuna. Heimilið er svo gegnsýrt af virðingu fyrir listum. Á veggjum hanga myndir Kjarvals og Svavars Guðnasonar og flygill prýðir stofuhornið. Sjálf stofan er klædd viðarþiljum til að mýkja hljómburðinn, enda fékk Halldór helstu tónlistarmenn landsins á sínum tíma til að halda tónleika í stofunni honum og öðrum listamönnum til ánægju. Vínylspilarinn minnti mann á gamla og kyrrlátari tíð sem er óðum að hverfa.

fimmtudagur, júlí 14, 2005

Netið: Danskur matur

Um nokkurt skeið hef ég fyrir hönd Vísindavefsins verið að dunda mér við að stúdera danskar matarhefðir. Með þessu réðist ég á mjög yfirgripsmikið efni sem krafðist mikillar heimildavinnu. Ég nýtti mér líka óspart fjölmarga vini og félaga sem búið hafa í Danmörku og bar málamyndasvar undir þann breiða hóp og fékk að lokum til baka alls kyns uppbyggilegar athugasemdir. Fyrir þá sem kannast við að hafa verið mér innan handar á þeim tíma (því nú er liðið um hálft ár síðan) þó óx vinnan mér nokkuð í augum á þeim tímapunkti. Ég saltaði textann um sinn ákvað að leyfa efninu að gerjast í undirmeðvitundinni. Núna í sumarbyrjun tók ég þráðinn upp að nýju og hef fengið niðurstöður birtar á Vísindavefnum undir mannfræðiflokknum. Ég þakka þeim sem aðstoðuðu mig á sínum tíma og vona að þetta sé, þegar upp er staðið, fróðleg og skemmtileg lesning.

þriðjudagur, júlí 12, 2005

Tónlist: Tónleikar - Antony and the Johnsons

Ég fór í gær á töfrandi tónleika með listamanni sem er þessi misserin að láta verulega að sér kveða (sjá dæmi um það hér). Hann heitir Antony og kallar sveitina sína the Johnsons. Hljómsvetin samanstendur af bassaleikara, klassískum gítarleikara, harmónikkuleikara, fiðluleikara og sellói. Sjálfur spilar hann á píanó og syngur með mjög óvenjulegri klassískri sópransöngrödd sem víbrar af mikilli innlifun svo að það jaðrar við að hann bresti í grát í hverju lagi. Tónlistin er eiginlega engu lík. Og þó. Góðkunningi minn Hjörvar (úr Voxinu hér um árið) var þarna líka og tók svo hnyttilega til orða að þetta líktist helst Lou Reed, bara áttund ofar, eða Tori Amos - ef hún væri karlmaður. Tónlistin er óræð og flýtur losaralega um án þess að hengja sig of í taktinn. Það kom skýrast í ljós í uppklappslaginu sem var eftir engan annan en Lou Reed (Candy Says). Lagið sveif um eins og sjálfstæð vera innan um upprunalegan takt og tóna. Antony gæðir tónlistina svo miklu lífi að það er eins og tónlistin öðlist eigið líf og umbreytir í leiðinni líðan manns gjörsamlega án þess að maður geti við það ráðið. Salurinn var heillaður.