miðvikudagur, nóvember 23, 2005

Daglegt líf: Foreldrafræðslu lokið

Í gær lauk fimm kvölda foreldrafræðslunni sem við Vigdís skráðum okkur í. Mjög gagnlegt og uppbyggilegt námskeið. Í gær var hópnum skipt upp í tvo aðskilda hópa, í feður og mæður, og þannig ræddum við einslega um hlutverk okkar út frá nýjum sjónarhóli. Hlutverk kynjanna í sjálfri fæðingunni eru náttúrulega ákaflega ólík og þurfti því að skerpa á þeim í sitt hvoru lagi svona í blálokin. Um daginn kíktum við hins vegar upp á fæðingadeild. Það var líka eftirminnilegt. Ég man eftir því sérstaklega hvað ég var vel upplagður það kvöldið og reytti af mér fimmaurabrandara við hvert tækifæri. Salernisaðstaðan á deildinni er svo lítil, svo ég taki eitt dæmi, að maður kemst varla þangað inn í fósturstellingu. Aðrir brandarar voru líklega enn lakari en þetta, enn áttu ágætlega heima á stað og stund. Sjálf deildin bætti hins vegar um betur með óvæntu innleggi. Þegar ég kíkti á biðstofu tilvonandi feðra og sá þar blað útundan mér og átti von á að finna fræðilega umfjöllun um hlutverk foreldra eða bara eitthvert slúðurblað. Á ákaflega viðeigandi hátt tókst deildinni hins vegar að sameina þetta tvennt með blaðinu "Nýtt líf". Hvað annað?

Við erum sem sagt búin að kynnast ýmsum hliðum foreldrahlutverksins en sjálf djúpa laugin er hins vegar eftir. Enginn veit víst hvernig hann bregst við þegar á hólminn er komið. Það par í foreldrafræðsluhópnum sem fyrst tekst á við hlutverk sitt á að eiga eftir tvær vikur. Svo gengur það koll af kolli næstu vikurnar. Það er því farið að styttast áþreifanlega í takmarkið.

Engin ummæli: