laugardagur, nóvember 26, 2005

Daglegt líf: Jólahlaðborð

Við Vigdís fórum á sitt hvort jólahlaðborðið í gær - ég með vinnunni minni og hún með sínum vinnufélögum. Við ákváðum að hafa þennan háttinn á vegna þess að hlaðborðin voru haldin nánast samtímis í sama útjaðri borgarinnar (Árbær og Grafarholtið) svo við gátum auðveldlega verið samstíga stóran hluta kvöldsins, bæði á leiðinni upp eftir og heim. Ég vildi engan veginn sleppa mínu hlaðborði því það var rausnarlega í boði yfirboðara minna og Vigdís varð að kveðja vinnufélaga sína almennilega. Hún hættir að vinna í desember og kemur væntanlega ekki aftur fyrr en eftir næsta sumarfrí (til samanburðar tek ég mér hins vegar bara tvær vikur í janúar og tek út tvo og hálfan mánuð með haustinu 2006).

Á meðan Vigdís borðaði í heimahúsi indverska kryddmáltíð frá Austur-Indíafélaginu tókst ég á við hefðbundnari veisluhöld í risastórum sal sem kallast Gullhamrar. Þetta er glæsilegur salur og ósjálfrátt fór ég að sjá fyrir mér tónleikahald þarna inni. Ímyndið ykkur Hótel Ísland nema töluvert stærra og rúmbetra - hátt til lofts, notaleg aðstaða. Við sessunauta mína impraði ég á þeirri hugmynd að þarna skyldi halda næstu Nick Cave tónleika sem ég einmitt sniðgekk á sínum tíma vegna staðarvalsins (Hótel Ísland er ákaflega ónotalegur tónleikastaður í alla staði).

Maturinn bragðaðist prýðilega. Skipulagið kom mér hins vegar töluvert á óvart því forréttirnir voru bornir á borð sérstaklega áður en salnum var hleypt í sjálft hlaðborðið. Þetta var eflaust gert til hagræðingar þar sem salurinn var sneisafullur af hundruðum kennara frá ýmsum skólum Reykjavíkur. Það sem kom mér óþægilega í opna skjöldu var hins vegar að hlaðborðið samanstóð þar með einungis af heitu aðalréttunum, þungum kjötmáltíðum af ýmsum gerðum. Áætlun mín um að gæða mér á forréttum allt kvöldið - síld, laxi og öðru léttmeti - virtist ætla að fara út um þúfur. Ég staðnæmdist á leið minni að hlaðborðinu og hugsaði minn gang, hnippti loks í þjónustustúlku og útskýrði stöðu mína fyrir henni. Hún kom til móts við mig með því að færa mér annan umgang af forréttunum, sem voru í alla staði prýðileg máltíð og góð málamiðlun. Það var ekki laust við að ég væri litinn öfundaraugum af sessunautum mínum enda höfðu þeir allir sem einn það á orði að forréttirnir hefðu borið af öðrum kræsingum.

Engin ummæli: