fimmtudagur, nóvember 03, 2005

Fréttnæmt: Hreiðurgerð

Vaggan er komin í hús og því er ekki að neita að okkur Vigdísi finnist það vera mikil viðbrigði. Hún blasir við þessa stundina rétt fyrir utan svefnherbergið, og bíður. Alveg eins og jólatré sem bíður eftir jólunum þá bíður vaggan hljóðlaust eftir áramótum, skreytt snotrum sængurfötum.

Við hrifumst af þessari vöggu strax og við sáum hana fyrst fyrir nokkrum dögum síðan. Þá vorum við búin að rölta um Baby Sam nokkra stund. Mér fannst einhvern veginn allt líta eins út og fannst hálf óþægilegt hvað ég var skoðunarlaus um allt sem ég sá, þar til þessi vagga blasti við. Hún er mjög klassísk í útliti og ótrúlega vel hönnuð. Hún vaggar á sveif sem liggur mjög ofarlega (og því auðvelt að vagga henni úr rúmhæð). Hún kostaði fjórtán þúsund kall en þar sem vagga er ekki notuð nema í þrjá til fjóra mánuði fannst okkur ekki réttlætanlegt að skella okkur á hana. Vorum að spá í að kaupa jafnvel bara rúm í staðinn, strax frá upphafi, enda er það varanlegri eign. Það fór því þannig, til að byrja með, að við létum þessa vöggu eiga sig. Við komumst í kjölfarið á snoðir um vöggur til leigu hjá sömu verslun (allt nema sjálf rúmfötin og dýnan) á aðeins fjögur þúsund kall. Þetta eru ágætar vöggur, mjög litlar og snotrar en tiltölulega látlausar. Þetta fannst okkur mjög sniðug lausn, svona til að fleyta okkur yfir fyrsta hjallann og pöntuðum því slíka vöggu til leigu, frá 15. desember (án skuldbindingar, enda er eftirspurnin mikil). Við höfðum ekki meiri áhyggjur af því þann daginn.

Í dag vildi hins vegar til að við áttum leið inn í verslunina á ný, aðeins nokkrum dögum seinna. Þá blasti gamla góða vaggan aftur við okkur, en í þetta skiptið á hálfvirði (vegna lítilsháttar útlitsgalla). Það var eins og hún bara biði þolinmóð eftir okkur. Enginn í búðinni nema við. Við sáum náttúrulega strax í hendi okkar að fyrst að vaggan kostaði ekki nema þrjú þúsund krónum meira en leigan sem við vorum búin að tryggja okkur þá væri í versta falli hægt að selja hana mjög auðveldlega á því verði og koma út á sléttu. Hins vegar væri mjög skemmtilegt að geta nýtt hana áfram. Frábær eign fyrir litla stúlku, löngu eftir að hún er hætt að sofa í henni sjálf.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Friðrik Valur er einmitt núna sofandi í vöggunni sem pabbi og mamma keyptu þegar ég fæddist. Aldrei að vita nema að þið hafið verið að fjárfesta í vöggu sem barnabörnin ykkar eiga eftir að sofa í!