miðvikudagur, nóvember 09, 2005

Upplifun: Kristínarfundir

Í vikunni varð ég fyrir þeirri upplifun að hitta þrívegis einhvern á förnum vegi sem ég þekki vel en hafði ekki séð árum saman. Það sem er hins vegar harla merkilegt við þetta er það að þessar þrjár manneskjur heita allar sama nafni, - Kristín.

Þá fyrstu hitti ég á röltinu í IKEA á laugardaginn var. Hún var (og er) mjög náin vinkona einnar af bekkjarsystrum mínum úr mannfræðináminu og var mjög oft innanbúðar þegar við mannfræðingarnir gerðum okkur glaðan dag. Það var fyrir heilum átta árum síðan. Vegna margra sameiginlegra vina og minninga áttum við því mjög drjúgt og ánægjulegt upprifjunarspjall mitt í ösinni í IKEA.

Tveimur dögum síðar, á mánudaginn var, fór ég í sakleysi mínu í matarhléinu mínu á "Maður lifandi" að fá mér vel kryddaða og bragðmikla súpu. Það geri ég stundum til að fríska mig við eftir erfiðan kennsludag (eftir hádegið erum við aðallega í skýrslugerð). Tveimur borðum frá mér sá ég þá hvar sat Kristín nokkur sem stýrði svokölluðum Nordklúbbi hér um árið. Í þeim félagsskap var ég virkur einn vetur, rétt áður en ég fór út til Belfast vorið 1997. Ég var hins vegar ekki í stuði í þetta skiptið og hún var eitthvað að spjalla við vinkonu sína svo ég lét mér nægja að kinka kolli. Það tók mig hins vegar drjúga stund að rifja upp hvað hún hét því ég hafði ekki séð hana síðan einhvern tímann fyrir aldamótin.

Daginn eftir fór ég að lokum á fund í skólanum. Það eru oft haldnir fundir út af nemendum okkar enda koma þeir upprunalega úr öðrum skólum og fara aftur til baka eftir nokkurra vikna dvöl hjá okkur. Við spjöllum við umsjónarkennarann á þessum fundum ásamt öðrum fagaðilum um málefni, námsstöðu og líðan nemandans. Ég var búinn að sitja nokkra stund og gefa mína "skýrslu" munnlega þegar ég leit upp og sá andlit sem minnti mig skuggalega mikið á gamla umsjónarkennarann minn úr Seljaskóla, frá þeim tíma þegar ég var í barnaskóla. Kristín Axelsdóttir kenndi mínum bekk í fimm ár samfleytt frá því ég var í 2. bekk og þar til ég sagði skilið við barnaskólann (og færðist yfir í unglingadeild). Það var nánast eins og að labba inn í gamlan filmubút að spjalla við hana, svo lítið hafði hún breyst. Ég gerði mér hins vegar grein fyrir því að ég var nánast óþekkjanlegur í samanburði. Þegar ég vakti athygli hennar á því hver ég væri fórum við strax að rifja upp eldgömul minningarbrot frá í "árdaga", eins og hún orðaði það. Óneitanlega súrrealískt að ræða við gamla grunnskólakennarann til margra ára sem fagaðili og, óhjákvæmilega, sem nemandi í senn.

Ég var hálf ringlaður eftir þennan síðasta "fund" og fattaði ekki fyrr en daginn eftir, í gærkvöldi, að mér hefði tekist hið ótrúlega að hitta þrjár nöfnur sem allar tengdust mér á einhvern hátt en höfðu ekkert komið við sögu í lífi mínu síðustu árin. Ætli ég megi eiga von á einni slíkri í viðbót áður en vikan er úti? Ég þekki kannski eina eða tvær í viðbót, einhvers staðar úr grárri forneskju.

Engin ummæli: