Í síðustu færslu var ég eitthvað að lofa pælingar upp í ermina á mér. Í nokkra daga hef ég þurft að sitja á mér. Hér með eru þær hins vegar hristar í allmiklum smáatriðum fram úr henni (erminni, það er að segja).
Ég lá sem sagt um daginn og var að velta fyrir mér orsakasamhenginu sem leiðir til vímuefnaneyslu ungs fólks. Oft er talað um að hún stafi af einhverju einu. Slík hugsun sé augljóslega röng en hún loðir þetta samt sem áður við þetta almenna umtal sem maður er alltaf að heyra útundan sér. Slæmum fjölskylduaðstæðum er oftar en ekki kennt um. Í sömu andrá er gjarnan bent á það að ekki síður megi rekja ólán neytenda til slæms félagsskapar. Svo eru sumir víst meiri "fíklar" en aðrir frá náttúrunnar hendi, hvort sem það eigi sér erfðafræðilega stoð eða ekki. Þröskuldur sá sem sumir einstaklingar þurfa að klífa til að ánetjast virðist einfaldlega vera hærri hjá sumum en öðrum. Það geta ekki allir "prófað" og hætt eins og þá lystir, hvort sem það er áfengi, reykingar, kóladrykkir, súkkulaði eða sterkir vímugjafar.
Þar sem ég lá í makindum um daginn (sjá síðustu færslu) sá ég í hendi mér einfalt módel sem kann að skýra út hvernig helstu áhrifaþættir vímuefnaneyslu vinna saman. Orsakasamhengið birtist allt í einu í ögn margbrotnara samhengi (en samt sem áður mjög skýru samhengi), sem þrír megin áhrifaþættir: Fjölskylduaðstæður, vinahópurinn og erfðafræðilegur veikleiki. Þetta þrennt vinnur alltaf saman með þeim hætti að ekkert eitt þeirra gefur nægjanlega skýringu á neyslumynstri fólks. Að sama skapi geta tveir af þessum þremur þáttum verkað sem nokkuð fullnægjandi skýring á neyslumynstri fólks og þannig í raun eytt út þeim þriðja og gert hann ómerkan.
Tökum dæmi: Ef vinahópurinn er spillandi og hvetur til neyslu og einstaklingurinn er jafnframt líkamlega breyskur þá skipta fjölskylduaðstæður nánast engu máli. Þetta hafa fjölmarkar sterkar fjölskyldur rekið sig á. Þær horfa gjörsamlega ráðþrota á fjölskyldumeðlim hverfa í hyldýpi neyslu án þess að hafa neina skýringu á því hvað gerðist. Með sama hætti ættu sundruð fjölskylda, ofbeldi, neysla eða aðrir erfiðleikar heima við að geta hvatt til neyslu, beint eða óbeint. Til að hlutirnir fari raunverulega úr böndunum þyrfti hins vegar annað hvort líkamlegur veikleiki eða slæmur félagsskapur að fara saman við þetta niðurbrot heima við. Þá fyrst er fjandinn laus, eins og sagt er.
Orsakasamhengið er því eins konar þríhyrningur þar sem tveir þættir af þremur þurfa alltaf að haldast í hendur. Ef slæmar aðstæður heima við og slæmur félagsskapur utan heimilis haldast í hendur er lítið sem kemur í veg fyrir vítahring vímuefnaneyslu, hvort sem viðkomandi er líkamlega veikgeðja eða ekki. Sé hann líkamlega móttækilegur hins vegar þarf ekki nema annað hvort slæmar aðstæður heima eða spillandi félagsskapur utan heimilis til að allt fari í vaskinn. Með sama hætti ættu tveir styrkjandi þættir að geta yfirunnið einn veikan. Slæmar fjölskylduaðstæður ættu ekki einar og sér að leiða fólk út í óhóflega neyslu ef maður er svo heppinn að búa að uppbyggilegum félagsskap utan heimilis og vera jafnframt ekki sérlega móttækilegur líkamlega fyrir vímuástandi.
Þetta módel fannst mér mjög skýrt og einfalt. Það nær að útskýra samhengi hlutanna betur en einfalt orsakasamhengi. Því má hins vegar ekki gleyma að raunveruleikinn er hins vegar miklu flóknari en þetta. Enginn þáttanna þriggja er svo einfaldur að hægt sé að kalla hann annað hvort uppbyggilegan eða spillandi, þó svo maður eigi til að hugsa í þá veruna. Einnig skarast þessir þættir verulega. Mörkin milli félagskapar utan og innan heimilis eru oft óljós. Einnig er andlegur og líkamlegur móttækileiki tvær hliðar á sama peningnum.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli