föstudagur, nóvember 11, 2005

Daglegt líf: Foreldrafræðsla

Þessa dagana sækjum við Vigdís svokallaða foreldrafræðslu. Þetta er fimm kvölda námskeið ætlað er verðandi foreldrum, haldið í Miðstöð Mæðraverndar. Tvö kvöld eru að baki nú þegar. Þetta er allt voða huggulegt. Nokkur pör á okkar aldri sitja í grjónasekkjum, hlið við hlið, og mynda hálfhring utan um ljósmóður sem miðlar af reynslu sinni af yfirvegun og innileika í senn. Þetta er því eiginlega eins og sambland af fyrirlestri og friðarstund. Ljósmóðirin er dugleg við að minna okkur á það hvað þetta ferli allt saman er stórkostlegt og það er ekki laust við að maður fái á tilfinninguna að hún hálfpartinn öfundi okkur. Allir á námskeiðinu eru á leiðinni með sitt fyrsta barn, sett á dagana milli 15. desember og 15. janúar. Við erum þarna einmitt í miðjunni enda fer vel um okkur í þessum hópi. Við erum dugleg að spyrja spurninga enda er þetta allt mjög áhugavert. Til dæmis í síðasta tíma, á miðvikudaginn var, þá var fjallað sérstaklega um fæðinguna sjálfa og við sáum tvö lifandi myndbrot af tveimur ólíkum fæðingum. Önnur þeirra var í vatni. Það var alveg ótrúlegt að sjá litla hausinn mjakast varlega inn í heiminn neðansjávar. Þetta var bara þægilegra af því að umhverfið líktist meira því sem barnið þekkir inni í leginu. Svo þarf það hvort eð er ekki að anda, til að byrja með. Súrefnið gegnum naflastrenginn nægir í blábyrjun. Þetta er alveg ótrúlegt þegar maður veltir því fyrir sér.

Stuttu eftir að við komum heim, endurnærð og afslöppuð eftir foreldrafræðsluna, biðu okkar skilaboð á gemsanum, alla leið frá Danmörku. Fyrr um daginn fæddist þeim Kristjáni og Stellu dökkhærð lítil stúlka. Við óskuðum þeim undireins til hamingju og bíðum spennt eftir að sjá myndir á síðunni þeirra þegar þar að kemur.

Engin ummæli: