sunnudagur, desember 30, 2007

Daglegt líf: Óvenjuleg jól

Þá eru jólin að baki. Venjulega förum við í mat til mömmu á aðfangadag, förum svo í jólaboð til systur Vigdísar og daginn eftir til pabba hennar. Þrjú boð í röð. Ágæt hefð. Í ár urðum við hins vegar að brjóta þetta upp vegna veikinda. Signý fékk blómstrandi hlaupabólu um það bil þegar Hugrún var að ná sér af sinni. Við fórum í fyrsta jóaboðið saman en eftir það tók ég það að mér að passa stelpurnar heima (á öðrum í jólum var Signý komin með 40 stiga hita og öll útsprungin). Vigdís mætti hins vegar fyrir okkar hönd. Ég var samt ekkert illa settur með mitt hlutskipti. Það var bara jólalegt á sinn hátt að vera heima í ró og næði og leika sér við dætur sínar. Snjóþunginn úti við gerði þetta bara enn huggulegra og einangrunina áþreifanlegri. Maður á líklega eftir að muna eftir þessum jólum með einhverjum fortíðarglampa í augum, svona eins og þegar maður rifjar upp rafmagnsleysi, sjónvarpslausa fimmtudaga og aflýsta skóladaga vegna óveðurs. Þetta var svolítið sérstakt.

mánudagur, desember 24, 2007

Fréttnæmt: Veikindi og jólakveðja

Ég vaknaði við dúnmjúkan nýfallinn snjó í morgun og naut þess að sópa af bílnum. Þetta var heldur óvænt eftir dumbungshaust og -vetur. Tímasetningin gæti ekki verið jólalegri. Jólastemningin heima hjá okkur er hins vegar undarleg. Signý og Hugrún eru stöðugt að glíma við kveisur. Ástandið fyrir um mánuði síðan (þegar ég talaði um "pensillínfjölskylduna") er bara djók miðað við það sem hefur komið í kjölfarið. Ég greini betur frá því síðar en í stuttu máli þá fórum við snemma á fætur í morgun til að skjótast á læknavaktina. Hugrún er komin með hlaupabóluna (b´lurnar skipta tugum) og er þar að auki með eyrnabólgu öðru megin og streptokokka sýkingu í hálsi (sem er verra en nokkur hálsbólga, skilst mér). Signý er á góðu róli en hefur undanfarið verið með lungnabólgu og eyrnabólgu sem lyfjagjöf hefur bjargað fyrir horn. Þetta kíkjum við hins vegar á betur seinna.

Jólaundirbúingur hefur allur rakast vegna stöðugra veikiinda. Tvísýnt er með jólakort (sem mörg hver verða áramótakort) og við þurftum að skera niður fjölda jólagjafa og þann tíma sem gátum leyft okkur í búðaráp verulega. En þetta reddast. Við förum í mat uppi í Dalseli og reynum að hafa það náðugt. Það verður góð tilbreyting að láta dekra aðeins við sig eina kvöldstund.

VIð óskum ykkur öllum gleðilegra jóla og vonum að allir hafi það afar huggulegt.

þriðjudagur, desember 11, 2007

Fréttnæmt: Sagan endalausa

Loksins fæ ég mig til að skrifa. Það sem hefur haldið mér frá tölvunni er sambland af önnum og veikindum. Signý þurfti að fara á annan pensillín-kúr og á meðan var Hugrún með undarlegar hægðir í heila viku. Í kjölfarið fékk hún hita sem fór hækkandi. Við kíktum til læknis í tvígang, í seinna skiptið mættum við með þvagsýni. Í ljós kom að hún var með blöðrubólgu. Hún fór því á lyfjakúr líka. Sýnið fór hins vegar í rannsókn og í ljós kom að þar voru einar þrjá bakteríur að berjast um yfirrráðin. Það þarf að rannsaka þetta betur og Hugrún fer í ómun á næstu dögum til að ganga úr skugga um hvort þetta sé tilfallandi eða krónískt.

Þegar við höfðum hvað mestar áhyggjur af þessu veiktist ég. Ég hélt það hlyti bara að vera einhver aumingjaveiki vegna álagsins að undanförnu, en það var öðru nær. Ég er kominn með hlaupabólu, á gamals aldri. Ég fékk hana aldrei sem barn og það er skelfilegt að fá hana svona gamall. Hún leggst miklu þyngra á mann fyrir vikið. Ég var með 38 stiga hita fyrstu tvo dagana, síðan 39 og núna í dag var ég með 39,7. Svo á þetta að batna smám saman en svo lengi sem gamlar bólur eru enn þá að þorna og falla af mér er ég bráðsmitandi. Ég er í sóttkví og meldaði mig frá vinnu út vikuna (það verður líklega framhald á því).

Afmæli Signýjar er augljóslega í uppnámi. Það verður ekkert haldið hér innandyra. Kannski bökum við litla köku og færum henni eitthvað, en höfum þess í stað ákveðið að færa afmælisdaginn fram yfir áramót. Í stað þess að halda hann þrettánda des. höldum við hann á þrettándanum (6. jan). Okkur finnst það skemmtileg lausn, og þá er fólk afslappaðra en í aðdraganda jóla (og meiri líkur á að við verðum heil heilsu).