þriðjudagur, desember 30, 2008

Daglegt líf: Viðgerð að baki og sjónvarpsnautn framundan

Sú gjöf sem kom okkur hvað mest á óvart var dýrindis sjónvarpsflakkari með fullt af sjónvarpsefni, þökk sé rausanrlegri áfyllingarþjónustu Villa bróður. Flakkarinn hafði að geyma barnarefni af ýmsum toga, bíómyndir og alls kyns fræðsluefni - svo að ekki sé minnst á sjónvarpsseríur sem við eigum eftir að horfa á. Sá galli var þó á gjöf Njarðar að flakkarinn lét ekki að stjórn. Diskurinn í honum var greinilega fullur af efni (sem hægt var að skoða með hjálp tölvu) en flakkarinn náði ekki að miðla af því til sjónvarpsins. Ég fékk fullt af fólki til að kíkja á hann en allt kom fyrir ekki. Enginn kannaðist við gallann. Eftir að hafa beðið af okkur jólin í flakkaraleysi fórum við með hann á verkstæði Tölvulistans í gær. Í ljós kom eftir grandskoðun þeirra að flakkarinn væri bilaður. Þeir buðu mér nýjan af sömu gerð en niðurstaðan var sú sama (framleiðslugallinn virtist bundinn við sendinguna). Þá var tekin sú afgerandi ákvörðun á síðustu stundu, rétt fyrir lokun, að uppfæra og kaupa dýrari gerð af flakkara (og þeir niðurgreiddu mismuninn um þriðjung þannig að allir voru sáttir á endanum). Sá flakkari var ýmsum kostum umfram hinn búinn og hafði að geyma bæði betri upplausn, mun betri fjarstýringu, lítinn skjá á hýsingunni sjálfri og takka (sem gerir mann nánast óháðan fjarstýringunni). Það sem meira er, flakkarinn virkar eins og í sögu. Hann er gríðarleg búbót. Nú er bara um að gera að njóta þess á meðan restin af árinu rennur sitt örskamma skeið á enda.

Pæling: Pakkaflóð

Nú eru jólin að baki. Ólíkt jólunum í fyrra þá komumst við alveg klakklaust í gegnum þau. Lífið er búið að vera værðarlegt undanfarna daga og við öll sofið meira eða minna út. Þegar við höfum tekið okkur á þá náum við í besta falli að vakna og ræsa stelpurnar um níuleytið.

Jólen voru mikil gósentíð. Gjafirnar flæddu yfir og undir og allt um kring. Þegar heim var komið vorum við Vigdís svo gáttuð á pakkaflóðinu, sem var óvenju mikið (burtséð frá kreppunni), að við ákváðum að taka mynd af herlegheitunum. Við röðuðum pökkunum öllum í stofusófann, eða öllu heldur gerðum heiðarlega tilraun til þess, því sófinn það reyndist ekki rúma allt góssið. Eftir að hafa stillt upp minni stólum fyrir framan náðum við þó öllu á mynd. Eftir á að hyggja held ég að þetta sé ágætis hefð. Það er ekki nema einu sinni á ári sem allir fá gjafir í þessu magni samtímis og því tilvalið að taka púlsinn á stöðunni með einni ljósmynd. Hún verður merkilegur vitnisburður þegar fram líða stundir.

sunnudagur, desember 21, 2008

Þroskaferli: Leirmótun og piparkökur

Maður skyldi aldrei vanmeta það hvað ung börn skilja og geta. Í gær tók ég mig til og rúllaði út tilbúnu piparkökudeigi og fékk Signýju til að hjálpa mér. Hún hafði nú séð mig gera þetta einu sinni eða tvisvar áður, en var þá aðallega á hliðarlínunni. Núna var hún hins vegar ótrúlega örugg með öll handbrögð og mótaði fyrir fígúrum með skapalónunum án þess að fá neina sérstaka verklýsingu fyrir því. Síðan kom Hugrún (nývöknuð í hádeginu) og tók þátt. Þá var Signý ekki lengi að sýna henni hvernig best væri að bera sig að með kökukeflið og sagðist vera að "leira". Er þetta ekki það sama og þau gera þegar þau leira? Ekki höfum við keypt leir fyrir heimilið svo ég hef ekki spáð í það hingað til. Þarna kemur leikskólinn greinilega sterkur inn í mótunarferli Signýjar. En Hugrún var greinilega með á nótunum líka og emjaði eftir skapalónum með orðunum "ýta, ýta". Þetta orð hafði ég ekki heyrt koma frá henni áður og líklega orð sem tengist þessu tiltekna verklagi, að "ýta" skapalóninu í mjúkan leirinn eða deigið. Það er svo spennandi að fylgjast með þeim og finna hvað þær læra margt um lífið og tilveruna, líka þegar maður er víðs fjarri!

Upplifun: Síðasti vinnudagurinn fyrir jólafrí

Nú er ég kominn í jólafrí sem stendur yfir í rúmar tvær vikur. Fyrsti vinnudagur eftir áramót verður fyrsta mánudaginn - kennsla hefst þó ekki af kappi fyrr en daginn eftir. Svona starfsdagar, eins og mánudagurinn, eru nauðsynlegir stuðpúðar á milli hvíldardaga og sjálfrar hringiðunnar.

Síðasti starfsdagur fyrir jól var um margt eftirminnilegur. Við slúttum alltaf með helgileik á BUGL-inu. Þá koma krakkarnir saman og leika Jósep og Maríu á leið til Betlehem ásamt þrem hirðingjum og vitringum. Við höfum komið okkur upp ágætu safni leikmuna gegnum tíðina svo þetta lítur allt saman ágætlega út. Helgileikurinn er eftirsóknarverð afþreying á BUGL-inu og vekur alltaf lukku, enda nemendur misjafnlega vel með á nótunum - hver með sína sérstöðu.

Í þetta skiptið var helgileikurinn frábrugðinn því sem menn áttu að venjast því sjálfur kennarinn Þorsteinn fann sig knúinn til að taka þátt. Vegna forfalla vantaði í hlutverk engilsins. Það er lítið hlutverk sem felur í sér það eitt að vera uppáklæddur hvítum kufli, með baug á kollinum, og birtast hirðingjunum. Sögumaður fer með allan texta svo ég gat bara "svifið" mjúklega inn á sviðið, staðið teinréttur, hátt yfir litlu nemendum okkar, og opnað faðminn, á meðan sögumaður las:

"Verið óhræddir, því sjá, frelsari er fæddur....."

Þessu höfðu áhorfendur einkar gaman af. Einn þeirra vatt sér að mér og sagði: "Þetta er þinn fyrsti leiksigur". Tvær konur, önnur á mínum aldri og hin eldri, sögðust hafa "vöknað um augun og fengið fyrir hjartað". Auðvitað er þetta allt orðum aukið og sagt í gamni, en engu að síður átta ég mig á því eftir á hvað það er heppilegt að ég skyldi vera í þessu hlutverki. Annars vegar var ég snyrtilega alskeggjaður og virkaði því eins og helg vera í anda frelsarans sjálfs. Svo er ég mun hávaxnari en nemendurnir og virkaði því meiri um mig og áhrifameiri en "hinar dauðlegu verur" sem ég stóð yfir.

Eftir uppfærsluna var loksins haldið nett jólaball með jólasveini. Að auki fengum við kennarar að gjöf fallega ávaxtakörfu frá Brúarskóla í kveðjuskyni (við á Dalbrautinni tilheyrum Brúarskóla). Þar voru vínber, epli, mandarínur og kókoshneta! (sem mér tókst með herkjum - en lagni - að opna í gær eftir að hafa vandlega ráðfært mig við bókina hennar Nönnu Rögnvaldar). Að lokum fórum við kennarar saman á Sólon og borðuðum saman hádegismat og skiptumst á jólakveðjum.

fimmtudagur, desember 18, 2008

Þroskaferli: Tvenn lítil tímamót

Við Hugrún fórum í klippingu í dag á mjög nærtækum stað í jólaerlinum. "Hárskerinn" á Eiðistorgi vann verk sitt fumlaust og afbragðs vel á meðan lúðrasveit hélt jólatónleika á torginu fyrir neðan. Hugrún og Signý voru heillaðar af flutningnum og héldu sig mikið til utandyra á meðan ég var klipptur enda þar yfirsýn yfir áhorfendur og hljómsveit. Þegar kom að Hugrúnu stóð hún sig frábærlega. Hún sat stillt og prúð, vafin svörtum stakki þannig að höfuðið eitt stóð upp úr (eins og að sjá hana stingu höfðinu upp úr olíubaði). Ótrúlega sæt. Eftir dágóða stund af sviplausum dugnaði brast henni hins vegar kjarkur þegar hún sá skærin sveiflast fyrir framan sig og fjarlægja ennistoppinn. Þá grét hún þannig að augun tútnuðu út en sat þó sem fastast. Líklega var hún hrædd allan tímann, bara þorði ekki að hreyfa sig. Upplifunin var þó ekki skelfilegri en svo að hárskerinn fékk myndarlegan fingurkoss að eldrauninni lokinni.

Stuttu seinna röltum við inn á bókasafnið (frábært hvað allt er í þægilegum hnapp á Eiðistorginu, öll grunnþjónusta). Þá kom í ljós að Signý þurfti að pissa. Hún hefur verið bleyjulaus að mestu undanfarnar vikur og mánuði. Yfirleitt höfum við skellt á hana til öryggis við svona aðstæður en vildum láta á þetta reyna núna - enda hefur hún sýnt fram á að geta haldið í sér furðu lengi í einu þegar hún ætlar sér það. Við fórum því saman á snyrtinguna, bleyjulaus og kopplaus. Þar aðstoðaði ég hana við að tylla sér og hún skilaði sínu. Hún er yfirleitt mjög hræðslugjörn og hefur hingað til miklað fyrir sér klósettskálar en í þetta skiptið var þetta ekkert mál og það sem meira er, hún var bara stolt af sjálfri sér. Þetta þýðir það að núna treystir maður sér frekar til að taka af henni bleyjuna þegar maður fer út úr húsi með hana og í heimsóknir og svoleiðis. Það eru út af fyrir sig talsverð tímamót og stuðlar auðvitað að enn betri árangri.

Ég hef nú ekki skrifað neitt um árangur Signýjar á þessu sviði að undanförnu. Þessi tímamót eru í mínum huga viss vendipunktur í ferli sem hófst í sumar. Þá ætluðum við að koppavenja hana - en vorum ekki nógu einbeitt til þess og henni sjálfri virtist standa alveg á sama þó við létum hana bleyta buxurnar ítrekað. Með haustinu læddum við hins vegar inn umbunarkerfi, með límmiðum og límmiðabók, og um tíma leit þetta vel út. Þegar hún byrjaði í leikskólanum kom hins vegar bakslag og hún missti áhugann aftur. Þá hvíldum við okkur og tókum næstu rögg í októberbyrjun og breyttum umbunarkerfinu. Henni fannst meira spennandi að geta tekið límmiðana með sér og handleikið þá þar til þeir urðu útjaskaðir, frekar en að setja þá í bók. Þá fóru hlutirnir að ganga hratt á ný og hún sýndi mikinn metnað. Í nóvember fórum við að vinna þetta með leikskólanum, enda var hún orðin býsna örugg á þeim tíma. Hins vegar höfum við haldið að henni bleyjunni á nóttunni og á flakki utan heimilis og lengi velt því fyrir okkur hvenær við ættum að stíga næsta skref. Árangurinn í dag var því liður í að hrinda hindrunum úr vegi.

sunnudagur, desember 14, 2008

Upplifun: Afmælisveislan

Nú er Signý orðin þriggja ára, síðan í gær. Við héldum upp á afmælið með pompi og prakt og buðum ættingjum heim í kökuveislu. Vinum höfum við oft boðið í kjölfarið, á sunnudegi, en bíðum með það í ár fram yfir áramót vegna anna. Við Vigdís erum búin að standa í ströngu undanfarna daga og þurftum einfaldlega á drjúgum hvíldardegi að halda í dag til að hlaða batteríin. Nýta sunnudaginn sem hvíldardag, aldrei þessu vant. Aðdragandi afmælisins var nefnilega frekar lýjandi. Fyrst ber að nefna veikindin, sem héldu okkur frá bæði afmælis- og jólaundirbúningi (og raskaði vinnu lítillega). Signý og Hugrún náðu reyndar heilsu í vikunni og mættu vel í leikskólann en núna á fimmtudaginn var veiktist Hugrún á ný - eða í það minnsta kastaði upp, án frekari einkenna. Það gerðist aftur á föstudaginn. Við héldum henni því heima til vonar og vara daginn fyrir afmælið (föstudaginn). Einnig ber að nefna það að við Vigdís fórum bæði á jólahlaðborð með vinnunni okkar, í sitt hvoru lagi - Vigdís á fimmtudaginn og ég á föstudaginn. Þeir dagar voru því fullbókaðir í allt annað en undirbúning fyrir afmælið, í vinnu fyrripartinn og selskap um kvöldið (hitt okkar sem var heima var upptekið við að sinna Hugrúnu, sem var frekar óróleg).

Aðdragandi afmælisins var því ekki eins og best verður á kosið, en sem betur fer náðum við að nýta laugardaginn vel til undirbúnings (þá var vaknað snemma) og svo daginn í dag til að hvíla okkur. Við sváfum til skiptis fram til klukkan þrjú og þá fórum viö öll í góðan göngutúr og leyfðum Hugrúnu að renna með á snjósleða. Veðrið var hreint frábært og þær Signý og Hugrún komu rjóðar í kinnum heim, svona eins og klassísku börnin á jólakortunum. Síðan skutumst við í fiskisúpu til "Lóu frænku" og var það frábært til að ramma inn góðan dag. Núna finnst manni jólin komin - loksins. Nú vonar maður bara að þessi jólalegi snjór fljóti ekki út í hafsauga með næstu lægð.

Svo að ég minnist nú á veisluna líka sem slíka, þá heppnaðist hún furðu vel í gær, þrátt fyrir allt. Signý var kampakát og var með það alveg á hreinu hvað hún var gömul og lyfti yfirvegað upp þremur fingrum stolt í hvert skipti sem hún var spurð (fremur en að bera orðið "þriggja" fram - sem kannski vefst fyrir henni). Hugrún naut sína ágætlega þrátt fyrir slappleikann og fékk meira að segja að læða einu kerti með á súkkulaðikökuna, svona bara til að vera með. Stemningin var góð og afslöppuð, enda allir heimavanir hér. Húsið var fullt allan tímann og rúmlega það milli klukkan eitt og sex þrátt fyrir nokkur forföll. Í fyrra mættu ögn fleiri en núna og í staðinn held ég að þá hafi hver og einn hafi staldrað styttra við en í ár vegna plássleysis. Gestirnir voru því með makindalegra móti núna, svo ég felli einhvern dóm um hvernig til tókst. Þeir sem koma til okkar í seinni umganginum eftir áramót munu að sama skapi bara njóta góðs af, því þá gefst enn betri tími til að staldra við í staðinn, enda færri um hituna.

laugardagur, desember 06, 2008

Daglegt líf: Tómstundir og leikföng

Fyrst ég minntist á afmæli Signýjar, þá hefur svolítið verið spurt um það í heimsóknum að undanförnu, hvað þær tvær vilji fá í jóla- og afmælisgjöf. Reyndar er það bara önnur þeirra sem á tvöfalda pakkaveislu framundan, en þær njóta sömu hlutanna og dótsins svo þetta nýtist allt jafnt. Það er svo stutt á milli þeirra að öllu leyti.

Í stað þess að senda tölvupóst á alla sem innt hafa okkur eftir hugmyndum þá finnst mér heppilegra að setja þær fram hér á vefsíðunni og vísa bara á hana - enda getur þetta verið áhugaverð lesning í leiðinni fyrir hvern sem er.

Það sem okkur ber saman um að ekki vanti eru föt. Nema kannski helst sokka. Hins vegar er auðvelt að koma manni á óvart með fötum og ef fólk rekst á eitthvað sérlega skemmtilegt þá nýtast góð föt alltaf vel þó vöntunin sem slík sé ekki til staðar. Gott er að hafa í huga að allt sem er merkt með Dóru eða Mikka mús er líklegt til að slá í gegn (og það á auðvitað við um leikföng líka).

Leikföng mæli ég hins vegar með að séu keypt í Hugföngum á Eiðistorgi. Sú bókabúð hefur nefnilega að geyma mörg áhugaverð þroskaspil sem hæfa bæði Hugrúnu og Signýju, spil sem snúast um talningu og liti og annað í þeim dúr.

Bækur höfum við tekið reglulega í bókasafninu gegnum tíðina. Tilvalið að benda á þær sem við höfum verið hvað duglegust að taka (enda augljóslega heppilegt að eiga þær). Einar Áskell er alltaf vinsæll, sérstaklega fyrsta bókin (Góða nótt). Hinar eru allar skemmtilegar, bara misjafnlega þungar aflestrar fyrir ung börn. Bók sem heitir "Ég vil fisk" og er nýlega útkomin (eftir Áslaugu Jónsdóttur) hefur slegið í gegn hér heima að undanförnu. Nú er nýkomnar út tvær bækur um Snillingana (sem þær horfa svo oft á saman). Þetta eru flipabækur og myndu eflaust hitta báðar beint í hjartastað. Einnig líst mér vel á tvær bækur sem við höfum sjálf gefið börnum vina okkar nýlega: Elmar og illfyglið (bók sem fjallar um gildi þess að standa saman) og nýútkomin bók um barnasáttmála sameinuðu þjóðanna og heitir "Við erum fædd frjáls" (sérlega fallega myndskreytt bók).

Signý og Hugrún hafa unun af að horfa á góðar teiknimyndir. Þær eiga tvær góðar Disney-myndir á DVD (Lísu í Undralandi og Öskubusku 3) en þar má vel bæta við. "Bamba" höfum við oft tekið á bókasafninu (ótrúlega flott mynd) en aðrar myndir eiga eins við (fyrsta Öskubuskumyndin, Mjallhvít og fleiri í þeim dúr). Persónulega er ég hrifnari af gömlu Disney teiknimyndunum en þessum hasarteiknimyndum sem framleiddar eru í dag. Ég hef á tilfinningunni að athygli þeirra Signýjar og Hugrúnar sé eins og mín að þessu leyti. Þær klára frekar gömlu myndirnar, enda hægar og yfirvegaðri. Svo má ekki gleyma því að Mikki og Dóra eru alltaf geysivinsæl. Ég þori hins vegar varla að minnast á Latabæ hér, því mér leiðist sá varningur svolítið, en Hugrún og Signý eru samt líka mjög hrifnar af öllu sem Latabænum tengist. Ah! Ég var næstum búinn að gleyma Múmínálfunum og Skoppu og Skrítlu. Þær sita auðveldlega límdar fyrir framan þetta tvennt. Sjálfur er ég mjög hrifinn af Múmínálfunum, svo það komi hér fram og er eiginlega hissa á sjálfum mér að hafa ekki fyrir löngu verið búinn að kaupa diska með þeim. Svarið er náttúrulega bókasafnið, sem fyrr, en það er gott að eiga einn eða tvo heima þegar þær biðja sérstaklega um "Múmíndal" (eins og Hugrún kallar það núna).

Púsl eru mjög vinsæl samhlíða annarri afþreyingu. Það má segja að 30-50 bita púsl hæfi Signýju en Hugrún er einhvers staðar þar fyrir neðan (10-20). Annars er auðvelt að gleðja þær með nánast hverju sem er. Þær eru hrifnar af dýrum (Hugrún með sérstakt dálæti á mjúkum hundum og kisum en Signý með breiðari dýrasmekk og er komin meira út í dúkkur). Litlu máli skiptir hvort dýrin eða dúkkurnar eru mjúk eða hörð. Legó. Allt sem hægt er að stafla og raða upp eða í lárétta röð höfðar sérstaklega til Signýjar. Skemmtileg barnabingó eru vinsæl. Ekki má gleyma samstæðuspilum (okkur vantar einmitt svoleiðis). Þær eru báðar natnar við að skreyta sig (slaufur í hár eða eitthvað í þeim dúr). Það minnir mig á að stimplar gætu líka verið miklir gleðigjafar. Kannski eitthvað sem tengist myndsköpun. Þær eru báðar mjög natnar við að teikna.

Núna er ég tæmdur í bili. Takið þennan lista bara ekki of alvarlega. Hann er bara hugsaður sem uppspretta hugmynda og til að einfalda leitina fyrir jólin. Allt sem kemur á óvart er líka skemmtilegt út af fyrir sig.

Gleðilega aðventu!

föstudagur, desember 05, 2008

Daglegt líf: Veikindahrina

Nú er veikindahrina búin að halda mér frá blogginu dögum saman. Signý var með eitthvað í hálsinum, einhvern vírus sem dró úr matarlyst hjá henni og gerði hana smá slappa. Ekkert alvarlegt. Umgangstíminn var samkvæmt lækni um tíu dagar. Hún mætti flesta dagana í leikskólann á meðan, en fór einu sinni slöpp heim. Þegar þessu var að ljúka, á fimmtudaginn fyrir viku síðan, hófst orrahríðin hins vegar fyrir alvöru. Seint um kvöld, þegar ég var á leiðinni í sund að slappa af, heyrði ég veinað að innan. Þegar ég kom að Signýju og Vigdísi inni í herbergi, og þar umhorfs eins í dramatískri fréttaljósmynd. Signý sat þar hágrátandi með æluna yfir sig alla og rúmið í kring útatað. Hún var nýsofnuð blessunin og vaknaði með þessum ósköpum. Ég frestaði sem sagt sundferðinni og var til stuðnings heima við í staðinn.

Signý kastaði upp daginn eftir og átti erfitt með að nærast og drekka. Svo virtist hún vera að braggast. Á laugardagsmorguninn byrjaði þetta sama hins vegar hjá Hugrúnu. Hennar ælupest var skammvinn en krafmikil. Eitt eftirmiðdegi fór í þetta þar sem við tvö sátum með dallinn við hendina og horfðum á morgunsjónvarpið (Signý lá slöpp inni þann morguninn). Síðan virtist Hugrún ætla að braggast og hafði öllu meiri matarlyst en Signý þegar Signý fór að kasta upp aftur. Svona hefur þetta verið síðan. Þær frískast aðeins inn á milli en versna jafn harðan aftur. Matarlystin lítil í samræmi við það. Hugrún öllu betri í maganum hins vegar.

Á miðvikudaginn var Signý hins vegar orðin nokkuð góð og fór í leikskólann. Ég fór í jólaföndur í leikskólanum seinni partinn og tók þá Hugrúnu með. Hún var frekar lítil í sér og vildi kúra meira en venjulega í fanginu á manni, en var að öðru leyti í lagi. Daginn eftir fór Signý aftur í leikskólann en við héldum Hugrúnu heima fram undir hádegi og ákváðum þá að láta slag standa. Hún var orðin fín. Sá dagur var viss léttir og okkur fannst sem þessu væri loks lokið. Báðar sprækar. Þá gerðist það um kvöldið, í gærkvöldi, að Signý byrjaði að gubba aftur, af þó nokkrum krafti, og tæmdi magann í þremur gusum. Síðan þá hefur hún verið slöpp og kúrt heima á meðan Hugrún fór í leikskólann í dag.

Við Vigdís höfum blessunarlega sloppið að mestu. Álagið hefur reyndar verið mikið og við orðin dauðþreytt. Ég var til dæmis sérstaklega þreyttur eftir helgina. Þá var ég einn með þær tvær veikar á meðan Vigdís vann tvær helgarvaktir á spítalanum. Í kjölfarið sleppti hún einni vakt, og ég var að sama skapi hundslappur og ósofinn á mánudaginn og sleppti vinnudegi. Þegar líða tók á vikuna fékk ég hins vegar furðulegan vírus, að ég held, sem leitaði út gegnum tunguna. Þar hef ég verið alsettur bólum á tungubroddinum. Ferlega óþægilegt. Öll ánægja af því að tyggja mat hvarf um tíma en matarlystin sem slík var samt í lagi (sérstaklega naut ég þess að bræða rjómaís ofan á tungunni). Í gær lagaðist þetta að mestu en í staðinn varð ég veikur með hefðbundnum hætti (sem styður grun minn um að þarna hafi verið á ferðinni vírus sem fann aðra útgönguleið). Þetta voru bara nokkrar kommur, svimi og beinverkir. Ekkert sem góð hvíld gat ekki lagað, enda mætti ég í vinnuna í dag. Nú er hins vegar að sjá til hvenær þetta klárast. Við þurfum líklega að trappa Signýju enn varlegar upp, enda er maginn hennar orðinn viðkvæmur eftir allt álagið. Eins gott að það gangi vel því það er bara rétt rúm vika í þriggja ára afmælið!

þriðjudagur, nóvember 18, 2008

Upplifun: Skírn í Bessastaðakirkju

Núna um helgina gerðist það markverðast að við Vigdís fórum í skírn til Bjarts og Jóhönnu. Litla systir Friðriks Vals var þá skírð um eftirmiðdaginn í Bessastaðakirkju (því miður gleymdum við myndavél í flýtinum en vísum þess í stað á nýlega myndskreytta færslu hér fyrir neðan).

Við vorum búin að velta því fyrir okkur, eins og gengur, hvaða nafn hún skyldi hljóta. Við gerðum okkur smá leik úr því, skrifuðum nokkur nöfn á blað og settum í umslag til þess að kíkja á þegar við kæmum heim. Þetta gerðum við kvöldið fyrir. Um morguninn vaknaði Vigdís hins vegar með nafnið Dagmar í kollinum og fór að bera það saman við föðurnafnið: "Dagmar Bjartsdóttir". Ég var þá kominn á fætur og frétti ekki af þessu fyrr en eftir á. Í kirkjunni sjálfri fékk ég hins vegar sambærilegt hugboð, eða "moment of clarity" eins og það var kallað eftirminnilega í Pulp Fiction. Sem sagt, einni mínútu áður en nafnið var opinberað gerði ég mér skyndilega grein fyrir því að sú litla hlyti að heita Helga, enda heitir móðir Bjarts því virðulega og kristilega nafni. Ég hallaði mér strax að Vigdísi og hvíslaði að henni: "Það er Helga".

Dagmar Helga heitir hún. Það er mikið spunnið í þetta nafn og það rennur líka ljómandi vel saman. Það sem er hins vegar undarlegt er að þegar ég bar nafnið saman við ljósmynd af Dagmar Helgu þá horfði myndin til baka eins og hún hafi alltaf heitið það.

Athöfnin var virðuleg, markviss og þægileg í afar fallegri kirkju (það eru ekki margir sem geta sameinað á einum stað vinnu sína og persónulegustu stundir með þessum hætti). Okkur var sv boðið til veislu í foreldrahúsum Jóhönnu, í Grafarvoginum. Þar vorum við svolítið á jaðrinum, eins og gefur að skilja, en þekktum samt nógu marga til að geta látið fara mjög vel um okkur. Ekki skemmdi fyrir að Signý og Hugrún voru í pössun hjá mömmu og pabba þannig að við tvö vorum afslöppuð eftir því og gátum gætt okkur á fjölbreyttum veitingum. Sumt af því sem þar var í boði hefur nú þegar ratað í uppskriftabókina mína og verður vonandi á boðstólum á næstunni (ekki langt í næsta afmæli, en Signý verður þriggja ára í desember). Við kunnum hins vegar gestgjöfum okkar bestu þakkir fyrir ánægjulegan tíma í Grafarvoginum og notalega skírn í þessari einstöku kirkju.

mánudagur, nóvember 17, 2008

Upplifun: Hvar er Árni?

Signý var kostuleg á laugardaginn var. Hún horfði á Spaugstofuna með okkur (sem hún er farin að þekkja ágætlega - og kallar bara "fréttir"). Þegar atriðið "Hvar er Árni?"um Árna Mathiesen var sýnt (þar sem líkt var eftir teiknimyndabókunum "Hvar er Valli") var mín alveg í leiðslu. Hún tók ekki eftir neinu í kringum sig, var með galopinn munninn og annar vísifingurinn hékk á neðri vörinni. Röddin hans Pálma Gests og allir barnafrasarnir náðu henni gjörsamlega. Þegar atriðinu loks sleppti var eins og leiðslan rofnaði og hún leit brosandi í kringum sig.

Í morgun rifjaðist þetta upp því einhverra hluta vegna sagði Signý upp úr þurru, þegar ég var nýbúinn að klæða hana: "Hvar er Árni?". Hún var ekki spyrjandi á svipinn heldur glettin. Það sem mér finnst merkilegt er að hún virtist gera sér grein fyrir "gríninu" en ekki er síður athyglisvert að hún skuli yfrilett muna eftir þessu enn þá.

Annars muna börn ótrúlegustu hluti. Alls kyns smáatriði sem þau taka eftir, eins og þegar eitthvað vantar. Um daginn horfði hún á Walt Disney teiknimynd með Gúffa, og tjáði sig um það að hann væri í nýjum fötum - nokkuð sem hvarflaði ekki að mér fyrr en hún benti mér á það (liturinn var annar á peysunni en venjulega). Eins muna börn ótrúlega kringumstæður á stöðum sem vekja lukku hjá þeim, jafnvel þó þau hafi bara verið þar einu sinni, og rata nákvæmlega um ef eitthvað minnisstætt átti sér stað þar áður. Eins taka þau eftir því þegar maður keyrir óvenjulega leið á milli staða.

Líklega eru þau vökulli en við sem eldri erum, svona eftir á að hyggja.

sunnudagur, nóvember 16, 2008

Þroskaferli: Fleiri orð og frasar

Ég var að klæða Hugrúnu eftir baðið rétt áðan þegar hún fór að endurtaka undarlegt orð: "dley!". Hún sagði þetta með vissum ákafa. Hún fór að sýna mikla óþreyju þegar ég rétti henni hitt og þetta og hélt áfram að biðja um "dley". Sjálfur var ég orðinn þreyttur eftir langan dag og meðtók ekki hvað hún nákvæmlega sagði. Þá stoppaði ég mig af og ákvað að hlusta markvisst: D-L-E-Y. Síðan fletti ég í Hugrúnarorðabókinni í huganum og mundi eftir orðinu sem nýtilkomnu og mundi sérstaklega að það var óvenjulega samsett miðað við merkingu þess: KREM. Þegar ég loksins bar það undir hana hvort hún vildi fá krem fann ég að henni létti mikið og hún sönglaði orðið gleðilega fyrir sér á meðan ég bar kremið á hana í bak og fyrir.

Það eru alltaf að bætast við ný og ný orð. Sum eru bara á tilraunakenndu stigi, tilfallandi, jafnvel bara eins og bergmál af því sem hún heyrir í kringum sig. Eins og til dæmis á föstudaginn var, þegar við kvöddum starfsfólkið, þá sagði ég "bless-bless" og Hugrún tók eftir þessari tvítekningu undireins og bergmálaði það sem ég sagði: "beþþ-eþþ". Hún hlustar greinilega gaumgæfilega á það sem sagt er og er dugleg að endurtaka.

Um kvöldið kom hún okkur hins vegar verulega á óvart. Ekki með nýju orði, heldur með eins konar setningu. Ég hélt á henni og var að fara með hana inn í svefnherbergi, en stóð um stund fyrir framan Vigdísi. Þá horfði hún hróðug á mig og sagði: "pabbi MINN"! Ég spurði Vigdísi í forundran hvort hún hefði tekið eftir þessu, en hún var ekki viss (sagðist hætt að kippa sér upp við það sem hún segir). Í þeirri andrá bætti Hugrún um betur og sagði: "Mamma MÍN"! Þá urðum við bæði jafn undrandi.

Maður hefur heyrt hana segja ýmislegt öðru hvoru sem líkist setningum, eins og "búin pela" eða "búin núna". Þetta var hins vegar fyrsti óyggjandi vísirinn að markvissri setningarnotkun.

mánudagur, nóvember 10, 2008

Draumar: Árbæjaróbyggðir og Malvíkingar

Mig dreymdi tvo furðulega drauma í nótt. Annar þeirra var frekar skuggalegur en hinn var bara fyndinn.

Sá fyrri átti sér stað í þeim afskekkta hluta Árbæjarins þar sem Árbæjarsafnið er til húsa, sunnan við Ártúnsbrekku/Vesturlandsveg (heitir það ekki Ártúnsholt?). Þar dreymdi mig að væru óbyggðir (eins og Geldingarnes) nema mikið víðáttumeiri og skógi vaxnar. Holtið gnæfir þar svæðinu í kring, bæði hátt og ógreiðfært, og bæjarbúar sneiða hjá því með því að keyra fram og aftur Höfðabakkann. Einn stígur liggur þó inn á svæðið gegnum skóginn og upp hæðina þar sem hann endar á berangri uppi á toppi. Þar er eins konar sambland af sumarhúsi og eyðibýli, hús sem fáir vita af. Þar fannst mér ég vera staddur ásamt gömlum æskuvini mínum (sem ég hef í raun ekki séð í yfir áratug) og hann var þar með kærustu sinni (sem í raun er bara einhver kollegi minn af BUGL-inu). Við sitjum þarna á verönd seint um kvöld, ég og æskuvinurinn, og erum eitthvað að skoða myrkrið þegar kærastan hans kemur dæsandi til okkar úr rjóðrinu, hálf grátandi, og tjáir sig um það við okkur að hún hafi verið að villast tímunum saman og haldið að hún myndi ekki finna húsið aftur. Ég styð hana varlega og segi henni að ég skilji vel hvernig henni líði vegna þess að ég hef lent í þessu sjálfur. Hún er í miklu uppnámi.

Þá vaknaði ég um miðja nótt, með ónotalega kennd og átti erfitt með að festa svefn strax aftur. Ég náði samt að sofna og náði greinilega að bægja þessu frá mér því um morguninn vaknaði ég með allt annars konar hugsanir:

Ég var á næturvakt á sambýli sem ég vann á fyrir rúmum tíu árum. Næturvaktir nýtast vel til þess að velta vöngum. Mér varð allt í einu hugsað til Malaví, þar sem Stefán Jón Hafstein hefur verið starfandi um nokkurt skeið og fatta í leiðinni að íbúar Malaví hljóti að kallast Malvíkingar, af því að Malaví er alveg eins og Reykjaví (ekkert K). Ég var svo uppnuminn yfir þessari uppgötvun að það hvarflaði að mér að hafa samband við Stefán Jón sjálfan og segja honum frá því hvernig hann getur loksins ávarpað fólkið kringum sig. Þá finnst mér eins og hann hafi svarað mér (því allt rennur saman í draumum) með því að þakka mér góðfúslega fyrir uppástunguna en að hugmyndin gangi einfaldlega ekki upp: Malaví er landlukt og því engin leið að ímynda sér að víkingar hafi gengið þar á land.

sunnudagur, nóvember 09, 2008

Þroskaferli: 18 mánaða orðaforði

Það er svolítið undarlegt að Hugrún skyldi hafa veikst í vikunni, í fyrsta skipti í marga mánuði, því hún fór í 18 mánaða skoðun á mánudaginn var. Þá gátum við lýst því yfir að hún hafi verið stálhraust lengi. Strax um kvöldið fékk hún hita. Reyndar fékk hún sprautu, en það var líklega ekki það sem olli hitanum því hún átti ekki að hafa þannig áhrif fyrr en 5-10 dögum seinna (sem er þá á næsta leyti núna). Maður er alltaf uggandi yfir blöðrubólgueinkennum, sem eru lágur einkennalaus malllandi hiti í lengri tíma í senn. Miðað við hvað þetta hjaðnaði fljótt (á tveimur dögum) bendir allt til að hér hafi verið á ferðinni eitthvað léttvægt úr leikskólanum.

Í skoðuninni kom Hugrún sérlega vel út. Hún var vigtuð og mæld í bak og fyrir (man ekki tölurnar núna) en mér er minnisstætt að hún var ekki lögð á bekkinn til mælingar, eins og maður er vanur, heldur stóð hún eins og fullorðin manneskja upp við vegg og var hæðarmæld þannig. Við vorum spurð út úr ýmsum þroskaþáttum, eins og hvort hún setji saman kubba, hvort hún liti og veiti hlutum í kringum sig eftirtekt annað slíkt. Að sjálfsögðu. Svo spurði hún okkur um það hvað hún noti mörg orð að jafnaði. Þá var ég brattur á því og sagði að það væri líklega yfir hundrað orð! Mér sýndist það fá pínulítið á hjúkrunarkonuna og hún svaraði því að þá hlyti hún að vera býsna bráðþroska. Henni sýndist það reyndar, og gerði á engan hátt lítið úr staðhæfingunni, en ég fékk smá bakþanka eftir á. Það hefur lengi staðið til að telja orðin en ekki orðið af því til þessa. Af því tilefni ætla ég mér að tileinka þessa færslu orðaforða Hugrúnar.

Fyrir nokkrum mánuðum tók ég eitthvað saman (sjá hér). Í þetta skiptið er orðaforðinn nokkuð lengri og því prýðilegt ástæða til að flokka orðin eftir skyldleika þeirra. Ég set framburðinn hennar Hugrúnar inn í sviga ef hann víkur frá hefðbundnum framburði. Hins vegar set ég spurningamerki innan sviga við orð sem ég man ekki framburðinn á eða mig minnir að séu komin (en hef ekki heyrt lengi).

Persónur: Pabbi, Mamma, Signý/Systir (Diddí/Diþdí), Ásdís (?), Sæunn (?)

Ýmis samskiptaorð og upphrópanir: Takk (datþ), vei, vá, ái, frá! (bá), frá! (ba-bú), bless (beþþ), bæ, hæ, halló (alló)

Ábendingarorð: Svona (þvona), Þetta (dedda), búið, já, nei

Líkamshlutar: Nef (neþ), auga, munnur (?), eyra (eyja), hárið (?), nafli (blabli), magi (bubba), tá/tásur (dá/dáþu)

Hlutir (innandyra): Ljósið (lóþþi), stóll (dól), bað (baþ), gluggi (dlutli)

Leikföng og smáhlutir: snuð (dudda), tannbursti (da-dudda), leikföng (dóti), bolti (botti), púslið (dlútli)

Föt/klæði: Skór (dló), buxur (buþuna), húfa (úva), bleia (beyja), úlpa (blúbla)

Umhverfið (utandyra): Snjór (þjónni), Pollur (?), laufblað (blaubla), blómið (blommi),

Dýr: Kisa (miþþa), hundur (voffi), api (abi), ugla (glugla/ú-hú), skjaldbaka (dadada), fugl (bíbí), fiðrildi (dillidí), kind (meme)

Farartæki: Bíllinn (bídlin), Hús/húsið (úþi), lest (tútú).

Athafnir: Pissa (biþþa), kúka, drekka (dlettla), ganga (labbilabb), sitja (didda), standa (dadda), sofa (lúlla), detta/datt, lita (laþa)

Matur/matarílát: Mjólk (?), peli (bela), glas (glaþ), brauð (blauþ), matur (namminamm), vatn (?), melóna (?), banani (manana), epli (blebli), ís (íþ), ber (beþ), allt morgunkorn = cheerios (dejóþ)

Sjónvarpsfígúrur: Dóra (dóla), Bubbi byggir (bubbi biþþi), Mikki mús (miþþa múþ), múmínalfarnir (múmín), barbapabbi (babba-ba), bambi (bambaló), Latibær (ba-ba-bæ)

Í sjónvarpinu: Fréttir (détti), Lottó

Ýmsu er sleppt í þessum lista, sérstaklega hljóðeftirhermun og tilfallandi eftiröpun sem ekki er í virkum orðaforða og svo öllu því sem ég hef gleymt (svona listi tínist bara hægt og bítandi saman).

laugardagur, nóvember 08, 2008

Upplifun: Ungbarnafriður

Bjartur og Jóhanna voru að eignast dóttur fyrir stuttu. Sú óskírða kom í heiminn nokkrum dögum áður en Vigdís fór út til Köben. Á meðan stalst ég í heimsókn (enda í svo góðu fríi þá) og tók þessa mynd. Það er alltaf svo mikill friður yfir nýfæddum börnum og greinilegt að henni leið mjög vel. Þau Bjartur og Jóhanna eiga einn son fyrir (Friðrik Val) sem er fjórum mánuðum eldri en Signý. Mér skilst að hann sé mjög stoltur af litlu systur. Það verður mjög gaman að sjá hvernig samskipti þeirra eiga eftir að þróast.



Óskírð Bjartsdóttir
Originally uploaded by Steiniberg.



Nokkrum dögum eftir að Vigdís kom heim frá Danmörku fórum við saman í "formlega" heimsókn, með gjöf og öllu því sem tilheyrir. Þar sátum við í notalegu yfirlæti við dekkað hádegishlaðborð og nutum veitinga og gjóuðum til þeirrar nýfæddu á meðan nafnatillögur sveimuðu yfir borðinu. Ungbarnafriðurinn sem nærði stofuandann var í hróplegri andstöðu við togstreituna í samfélaginu úti fyrir. Minnir mann á hin raunverulegu gæði þegar "sýndarverðmæti springa eins og loftbólur" allt í kringum mann.

föstudagur, nóvember 07, 2008

Daglegt líf: Signý og Hugrún í leikskólanum

Núna í vikulokin er minnisstæðast að veikindi fóru að banka á dyrnar hjá okkur á ný eftir margra mánaða hlé. Hugrún veiktist lítillega á þriðjudag og var frá leikskóla í tvo daga. Það reyndist vera minniháttar og hún var fersk í gær og í dag. Signý var hins vegar slöpp í dag. Var með eitthvað í hálsinum í gær (með viskírödd) en brött þrátt fyrir það. Í morgun var hún hins vegar ekki sjálfri sér lík í leikskólanum, lífslgöð eins og hún er, og kúrði bara í stað þess að leika sér. Ég sótti hana um tíuleytið. Samkvæmt mælingum heima reyndist hún hins vegar ekki með hita. Vonandi er þetta hvort tveggja að baki.

Við þetta sköpuðust hins vegar þær sérstöku aðstæður að ég fór heim með Signýju án þess að ná í Hugrúnu líka. Signý er mjög meðvituð um litlu systur sína á yngstu deildinni og spurði mig um hana um leið og ég hélt á henni út um dyrnar. Ég tók stóran sveig fram hjá glugganum hennar Hugrúnar (til að koma henni ekki úr jafnvægi) en benti Signýju hins vegar á að þarna sæti litla systir, fyrir innan gluggann í fjarska. Þegar hún skildi að ég myndi skilja Hugrúnu eftir fór hún að gráta, með sinni veiku röddu, og fannst greinilega óþægilegt að skilja systur sína eftir. Skyldi hún hafa svona mikla verndarþörf? Fannst henni Hugrún vera óörugg svona ein í leikskólanum? Að minnsta kosti grét hún ámátlega á leiðinni heim. Þá skildi ég við hana með Vigdísi (sem er enn í fríi, sem betur fer) og fór sjálfur í vinnuna á ný.

Þegar ég sótti Hugrúnu um fjögurleytið fagnaði sú litla mér ákaft en um leið og við komum í fatahengið spurði hún um systur sína. "Diþdi" (systir) sagði hún undrandi, aftur og aftur, og fannst greinilega vanta systur sína.

Signý og Hugrún eru bundnar mjög sterkum tilfinningalegum böndum. Starfsfólkið hefur tjáð sig um það við mig að það sé mjög sætt að sjá þær hittast á leikskólalóðinni. Þá hlaupa þær í fangið á hvorri annarri. Síðan fylgir Signý Hugrúnu eftir og hjálpar henni í leiktækjunum. Ég gæfi mikið fyrir að fá að fylgjast með því.

sunnudagur, nóvember 02, 2008

Fréttnæmt: Feðraorlofi lýkur

Nú á ég ekki nema einn dag eftir af feðraorlofinu mínu. Ég byrja að vinna aftur á þriðjudag. Ég hálfpartinn öfunda Vigdísi af því að vera áfram í fríi. Þetta fór vel í mig. Yfir daginn er maður alveg einn, fyrst Hugrún er komin í leikskóla. Þannig var það undir það síðasta. Vonandi upplifi ég þetta aftur í næsta fríi. Væntanlega þegar kennarar fara í jólafrí og svo í páskafríinu. Sem betur fer (fyrir mig) eiga grunnskólakennarar fleiri frídaga yfir hátíðirnar en leikskólakennarar.

Daglegt líf: Heimkoma

Vigdís kom á tilsettum tíma heim, á fimmtudaginn var. Daginn eftir átti Hugrún eins og hálfs árs afmæli. Hvort tveggja leið hjá á tiltölulega látlausan hátt. Signý og Hugrún tóku móti Vigdísi allt að því hversdagslega. Það var góðs viti að vissu leyti, sem vitnisburður um það að þær hafi ekki skort neitt í þessa fjóra daga. Ég passaði upp á að hafa alltaf nóg að gera með þeim meðan Vigdís var í burtu. Við fórum í margar heimsóknir þannig að þær upplifðu ekki neina fábreytni þó Vigdís væri fjarri Svo eru þær vanar því að fara að sofa öðru hvoru án móður sinnar vegna þess að hún vinnur stundum kvöldvaktir. Þetta gekk því átakalaust fyrir sig og Vigdís var satt að segja nokkuð hvumsa yfir því. Þetta var í rauninni bara eins og löng helgarvaktatörn. Hvað Hugrúnu varðar (og hennar tímamót) gerðum við ekkert til að halda upp á það annað en að minnast á það hér og þar við þá sem á vegi okkar urðu. Ég ætlaði mér að vera með myndarlegan pistil um þroskastöðu hennar á þessum tímamótum, en það verður víst að bíða ögn lengur. Maður er alltaf að glíma við þennan blessaða tímaskort.

þriðjudagur, október 28, 2008

Upplifun: Einn heima

Nú eru tveir dagar síðan Vigdís fór út. Hún kemur aftur eftir aðra tvo (á fimmtudaginn kemur). Á sama tíma er Hugrún nýbyrjuð í í leikskólanum (aðlögunin gengur vel) og er í dag til klukkan hálf fjögur. Sjálfur á ég nokkra daga eftir af feðraorlofinu mínu. Þetta fellur allt saman með þeim hætti að ég hef loksins tíma út af fyrir mig og get athafnað mig nánast algjörlega á eigin forsendum tímunum saman. Það er undarleg tilfinning. Hvað gerir maður við svona stundir? Á maður að læðast upp í rúm fyrst það er svona mikill friður í húsinu, eða á maður heldur að nýta tækifærið og spila tónlist sem bara ég hef gaman af? Kannski ætti ég að reyna að gleyma mér í miðbænum, röltandi í tímaleysi milli verslana og kaffihúsa, eða skreppa í heimsóknir? Á ég að sinna áhugamálum mínum og verkefnum, taka fram pappíra og bækur og dreifa úr þeim um öll borð? Núna er enginn til að amast út í ruslið eða róta í dótinu.

Það fylgja því ýmsir kostir að vera einn. Eflaust á ég eftir að verða þreyttur á því undir það síðasta því það tekur á að finnast maður stöðugt þurfa að nýta tímann vel og þurfa jafnframt að passa að vanrækja ekki heimilið. Vigdís hefur yfirleitt séð um að setja í töskur fyrir Hugrúnu og Signýju og passað upp á að þær vanti ekkert á meðan ég sé um að skutla þeim. Hún er svona í því eftirlitshlutverki dags daglega að tryggja að ekkert klikki á meðan ég er sá sem geri flest viðvik. Hún passar sem sagt upp á að ekkert "klikki" og ég passa upp á að hlutirnir "gangi". Sú verkaskipting hefur gengið ágætlega til þessa. Nú hef ég hins vegar alla yfirumsjón og þarf að gæta þess að vera ekki vera annars hugar. Verst að maður tímir ekki að hvíla sig á meðan allir eru í burtu.

Þetta er undarlegt ástand en hollt því ég nýt mín í þögninni. Þegar maður er með tvö leikskólabörn á heimilinu er þögnin sérstaklega dýrmæt. Núna fann ég til dæmis mikla þörf fyrir að skrifa í dagbókina mína aftur, þessa gömlu, prívat, inni í svefnherbergi, og er farinn að taka upp gamlar og góðar bækur til að lesa á ný. Það er gott að nýta tímann til að enduruppgötva það sem maður hefur gleymt upp á síðkastið í erlinum dags daglega og reyna að draga það fram á ný.

fimmtudagur, október 23, 2008

Fréttnæmt: Leikskólaaðlögun

Aðlögun Hugrúnar gengur samkvæmt vonum. Hún tekur þessari nýbreytni allri með stóískri ró. Hún arkar bara beint af augum og skoðar það sem fyrir augu ber. Það er svo margt skemmtileg að gera í leikskólanum. Það eru ekki endilega hin hefðbundnu leikföng sem heilla. Skemmtilegast er að þramma fram og til baka á mjúkri dýnu, skoða sjálfa sig í risastórum spegli eða rúlla á undan sér bolta á stærð við hana sjálfa. Á morgun hvílist hún eftir hádegi í fyrsta skipti á deildinni, en hingað til hefur hún bara verið fram að hádegi, og aukið við sig í smá skömmtum. Á mánudag verður hún svo fram að kaffi (og ég sit með henni í kaffitímanum) en daginn eftir er hún sjálf fram yfir kaffi, og ég sæki snemma. Á miðvikudag verður hún loks fullnuma í leikskólafræðunum.

Fullt af orðum streyma frá Hugrúnu þessa dagana. Eitt það nýjasta kom í gær er hún virti fyrir sér nýfallna fönnina allt í kring. Hún benti á þetta fyrirbæri og sagði: "Sjónni" (með blæstu Þ-hljóði í stað S-ins). Í matnum á leikskólanum sagði hún "glas" í fyrsta skipti í mín eyru og fínpússaði framburðinn jafnt og þétt frá "gaþ" og yfir í að nota fallegt "L". Núna talar Hugrún mikið um "mús" og "missa"(kisa) (með sama S-framburði og áður). Þegar hún minnist á Mikka mús, hins vegar, slær þessu tvennu saman í "missa mús".

Þegar Hugrún verður eins og hálfs (eftir rúma viku) stefni ég að því að taka saman yfirlit yfir orðaforðann sem safnast hefur saman undanfarið. Vonandi næ ég hins vegar fyrst að renna yfir sérstæðan framburð Signýjar, áður en hann heyrir fortíðinni til, ásamt uppáhalds frösum hennar.

mánudagur, október 20, 2008

Upplifun: Sinfóníur Síbelíusar

Ég geri það ekki endasleppt í menningarlífinu þessa dagana. Á meðan Galapagosfyrirlesturinn frá því í fyrri viku var enn í fersku minni skelti ég mér á tvenna sinfóníutónleika. Sinfóníuhljómsveitin var nefnilega með Síbelíusarmaraþon (svo maður orði það á íþróttamáli). Síbelíus samdi sjö sinfóníur og einn fiðlukonsert á langri starfsævi (ásamt ýmsu öðru). Þetta var allt flutt svo að segja í einum rykk á þrennum tónleikum, frá fimmtudegi til laugardags. Þar sem ég er mikill aðdáandi Síbelíusar (og hef verið frá því ég uppgötvaði sinóníurnar hans fyrir tæpum tuttugu árum) gat ég ekki látið þetta fram hjá mér fara. Fékk Villa bróður til að fara með mér á fyrstu tónleikana (fyrsta og þriðja sinfónían plús konstertinn) og fór einsamall á aðra tónleikana (önnur og fjórða sinfónían). Þriðju tónleikunum sleppti ég hins vegar vegna anna, en var svo sem búinn að fá vænan skammt og þurfti ekki meira í bili.

Tónleikarnir voru báðir á köflum magnaðir en misjafnir. Konsertinn fannst mér til dæmis ekki vel heppnaður. Fannst vanta bæði meiri ruddaskap og nákvæmni í flutninginn. Sinfóníurnar voru hins vegar að mestu leyti glæsilega fluttar. Einn og einn kafli virkaði eitthvað þreyttur (mikið álag á hljómsveitinni að æfa þetta allt upp) og kom út sem skortur á fínu blæbrigðunum. Inn á milli voru hins vegar svo glæsilegir kaflar að ég man ekki eftir að hafa heyrt þá flottari. Sérstaklega átti það við um lokakafla annarrar sinfóníunnar (seinna tónleikakvöldið). Sú sínfónía er eitt vinsælasata verk Síbelíusar og er einn af hápunktum rómantíska tímans í klassíkinni. Lokakaflinn er einstaklega lagrænn og ástríðufullur og sínfóníuhljómsveitin gerði honum svo góð skil að ég var hreinlega vankaður eftir tónleikana. Ég hreinlega vafraði um í myrkrinu þegar ég gekk út. Þvílík tónlist, þvílík hafbylgja af hamingju! Verkið var samið á Ítalíu, en þar dvaldi Síbelíus fyrir rétt rúmlega hundrað árum til að rífa sig upp úr þunglyndi. Við njótum afrakstursins enn þann dag í dag, sem er ekkert nema forréttindi og munaður á svona dimmum tímum.

þriðjudagur, október 14, 2008

Fréttnæmt: Foreldrafundur og Hugrúnarupphitun

Í dag var foreldrafundur í Vesturborg þar sem leikskólakennararnir á deildinni hennar Signýjar (Miðbæ) kynntu starfsemina fyrir foreldrum. Við Vigdís fórum bæði, með Hugrúnu. Nú vill svo til að það er ekki nema um vika þangað til Hugrún byrjar aðlögun sína á yngstu deildinni (Norðurbæ). Miðað við líðan hennar í morgun (og hennar atgervi yfir höfuð) þá er það fyrirsjáanlegt að hún kemur til með að renna inn mjög mjúklega. Hún naut sín til hins ítrasta innan um allt dótið og arkaði eins og herforingi á milli sala. Ég hlakka bara til að byrja á mánudaginn kemur :-)

Daglegt líf: Í skugga kreppunnar, seinni hluti

Á fimmtudaginn var náði samfélagið botninum með lögsókn Breska ríkisins yfir höfði sér. Vorum við að missa allt frá okkur? Var raunveruleg hætta á því að við misstum sjálfstæði okkar? Við Jón Már ákváðum að bregða okkur út úr þessari þrúgandi umræðu og kíktum á fyrirlestur ásamt heimildarkvikmyndarsýningu um Ekvador og Galapagoseyjar (sem tilheyra Ekvador). Þetta er liður í hátíðahöldum í Kópavogsbæ þar sem veglega er hampað einni þjóð á hverju ári í formi listviðburða af ýmsu tagi. Ekvador var þemað í ár.

Reyndar var um nokkra fyrirlestra að ræða og voru þeir allir áhugaverðir, hver á sinn hátt. Ari Trausti er með afbrigðum frambærilegur og öruggur fyrirlesari, enda einn okkar færustu fræðurum um náttúru og ferðalög. Hann sagði frá landinu - bæði eyjunum og meginlandinu, og þar kom fram ansi athyglisverð staðhæfing um að Ekvador sé það land í heimi sem búi yfir mestri fjölbreytni lífríkis á jörðinni (og þá var ekki tekið tillit til stærðar). Landið slær meira að segja Brasilíu léttilega út - án þess að taka Galapagos með í reikninginn. Ástæðan er sú að landið nær ekki aðeins yfir regnskógasvæði heldur líka fjölbreytt hálendi (tvo fjallgarða og hásléttu þar á milli) og Kyrrahafsströndina að auki (sem býr yfir allt öðruvísi lífríki). Í þessum samanburði við önnur lönd var Indónesíueyjaklasinn hugsanlega undanskilinn, en það gerir staðhæfinguna ekki síður merkilega þar sem landið er mjög lítið (aðeins þrisvar sinnum stærra en Ísland).

Hinir fyrirlestrarnir voru líka fínir. Innblásinn fyrirlesari frá Ekvador, fræðimaður á sviði sjálfbærrar ferðamennsku, sagði frá landi sínu frá ýmsum hliðum. Svo var ágætur fyrirlestur um lífríki Galapagos sem íslenskur líffræðingur tók saman eftir dvöl þar. Mér fannst hvað merkilegast hvað lífverur eyjanna eru spakar, samkvæmt lýsingunni. Ekki gerist það hér á Íslandi að fálki sest á grein tvo metra í burtu frá manni og virðir mann varla viðlits?

Að lokum var sýnd mynd um Ekvador og Galapagos. Hún var reyndar ekki eins vönduð og ég hafði gert mér vonir um. Hún reyndist vera aðeins um tuttugu mínútur að lengd og var eins konar samanklippt túristamyndband, með þeim takmörkuðu gæðum sem tilheyra. Hins vegar var myndin markviss og skilaði sínu prýðilega þegar upp var staðið og mörg skotanna voru mjög flott. Eiginlega var þetta eins og að horfa á Dogma mynd, með kostum þess og göllum. Manni fannst maður vera einn af hópnum sem þarna var staddur úti og sá landið út um rútuglugga eða af bátsþilfari. Lífríkið virkar þess vegna raunverulegra og nærtækara. Náttúruleg hljóð fengu sem betur fer að njóta sín þegar kvöldkyrrðin í Amazon var kvikmynduð af verönd kofans sem hópurinn gisti í. Mikið held ég að það sé magnað að vera staddur þar.

Hvíldin í Salnum var nauðsynleg og drjúg, enda gættu fyrirlesarar þess að minnast ekki á ástandið í samfélaginu eða peninga yfir höfuð. Eftir sýninguna fórum við hins vegar aftur út í spennuþrungið loftið utan Salarins. Þá var stutt í kvöldfréttirnar.

Daglegt líf: Í skugga kreppunnar, fyrri hluti

Manni finnst hálf ómerkilegt að rekja atburði sem áttu sér stað samtímis og samfélagið riðaði til falls. Fyrir vikið verð ég að kalla þennan póst "í skugga kreppunnar". Auðvitað aðhefst maður alltaf eitthvað þó að skugga sé varpað yfir allt. Við fórum til að mynda öll í eins árs afmæli Melkorku, þeirra Jóns Más og Margrétar. Þar voru saman komnir gestir úr ýmsum áttum og voru greinilega mjög uggandi. Þá voru þegar talsverðar blikur á lofti og þó enn stæðu tveir bankar uppi af þrem. Nokkrum dögum síðar hafði ástandið versnað til muna. Ég man eftir mér í stofunni heima horfandi á enn einn krýsufundinn í sjónvarpinu. Vigdís var á kvöldvakt svo ég ákvað bara að slökkva á öllu saman. Strangt til tekið þurfti ég ekki að fylgjast með þar sem við Vigdís erum eins trygg og hugsast getur með okkar takmörkuðu fjárhagslegu skuldbindingar. Við það fann ég annan kraft leysast úr læðingi, undan fargi umræðunnar. Staður og stund. Ég setti klassíska tónlist á og hlustaði með Hugrúnu og Signýju. Þær þekkja nú ótal tónverk (þökk sé Snillingunum) og það kom mér á óvart hvað þær voru þolinmóðar og hlustuðu af athygli á meira en bara þekktustu stefin. Heilu kaflarnir runnu í gegn og á endanum vorum við farin að dansa vals fram og aftur. Signý var sigri hrósandi og hrópaði: "Áfram Rauðka!" (=sögupersóna úr þáttunum). Ég tók undir með henni að sjálfsögðu, "áfram Rauðka", en þá bætti hún um betur og sagði: "Þú getur þetta alveg!". Mér fannst þetta aðallega fyndið þá en svona eftir á að hyggja finnst mér þau orð eiga svo sannarlega við á þessum síðustu og verstu tímum :-)

sunnudagur, október 12, 2008

Pæling: Kreppan

Jæja. Ég verð að brjóta ísinn. Í þessu fárviðri sem búið er að geisa í samfélaginu er maður nánast ófær um að setjast niður og taka hugsanir sínar saman. Það sem stendur upp úr er hversu þægilegt það er að vera eignalaus maður á þessum tíma. Hefðum við Vigdís skellt okkur á íbúð á síðasta ári hefði það þurft að standa tæpt í upphafi (við erum ekki það vel stæð) og á endanum kafsiglt okkur. Ég tala nú ekki um ef lánið hefði verið tekið í erlendri mynt. Sem betur fer eigum við enn innistæðuna okkar óskerta í bankanum. Til greina kom á sínum tíma að skipta yfir í sjóð níu en þá hefði maður tapað umtalsverðum upphæðum. Á gamla innlánsreikningnum okkar eru innistæðurnar hins vegar víst tryggðar. Eins gott. Vonandi nær það yfir lífeyrissjóði líka, svo maður hugsi til sinna allra nánustu. Mér skilst það reyndar.

Á stundu sem þessari verður manni helst hugsað til alls þess sem hægt er að njóta í lífinu án þess að það kosti krónu. Þeir sem vanir eru því að bruna um á neyslupeningum koma til með að eiga erfitt með að hægja á sér. Það er ekki allra að standa í þögn og njóta þess að hugsa. Það geta ekki allir gengið um í náttúrunni og látið tímann líða, eða standa í stað. Kannski fær maður svigrúm til að lesa bækurnar sínar loksins. Verst að Vigdís er búin að panta sér ferð til Danmerkur gegnum vinnuna sína. Þangað fer nokkur hópur saman að skoða ýmsar stofnanir og slappa af í fjóra daga í lok október. Greitt hefur verið fyrir ferð og gistingu nú þegar (sem betur fer) en neyslupeningarnir eiga eftir að vera blóðugir. Við skoðuðum matseðla á netinu af nokkrum valinkunnum stöðum í Köben og sáum í hendi okkar hvað hlutirnir muni kosta. Kaffibollinn hefur rokið upp úr ca. 350 krónum í 700. Máltíð kostar ekki lengur 1750 krónur heldur 3500. Þannig er það fram eftir götunum. Við höfum því ákveðið að ég verði þarna með henni í anda í Köben, á kaffihúsunum og veitingahúsunum, því hún borgar fyrir tvo :-)

mánudagur, september 29, 2008

Fréttnæmt: Viðburðaríkar tvær vikur

Nú eru liðnar rúmlega tvær vikur frá síðasta pósti. Ekki get ég kennt eintómu framtaksleysi um því þessi tími er búinn að vera annasamur í meira lagi. Fjórir atburðir marka þennan tíma öðru fremur:

1) Ég bakkaði á bíl daginn eftir síðustu færslu. Það gerðist á stæðinu heima. Hinum bílnum var lagt þannig að hann teygði skottið inn fyrir innkeyrsluna þannig að ég hefði þurft að taka varlega beygju fram hjá honum. Þar sem hann var lágur í þokkabót, hvarf bak við vegg að mestu leyti og aftursýnin úr mínum bíl var byrgð af barnabílstól og afturdekki átti ég varla möguleika á að forðast ákeyrslu. Sem betur fer fór ég sérlega hægt út í þetta skiptið (var eitthvað að spjalla við Signýju) og í þann mund er ég lít til hægri og vinstri heyri ég skruðning. Þetta var varla nema nokkrar rispur (rétt niður fyrir lakkið) en bíllinn var nýr og dýr. Kostnaður fer líklega vel yfir 100 þúsund. Ábyrgðin er náttúrulega mín þar sem ég bakkaði á kyrrstæðan bíl (sem ekki var ólöglega lagt). Hins vegar var staðan svolítið sérkennileg fyrir þær sakir að þetta var bíll Ásdísar (sem var í heimsókn) og Togga. Þau voru með hann á rekstrarleigu hjá Honda og voru í þann mund að fara að skila honum inn og skipta út fyrir annan. Þar sem umboðið selur bílinn á endanum var fyrirsjáanlegt að þeir myndu ekki líta fram hjá rispunni. Tjónaskýrslan í kjölfarið var að auki ögn vandasamari en gengur með svona ákeyrslur vegna þess að pabbi á bílinn sem ég var á og þurfti að kvitta fyrir skýrsluna. Það tók sinn tíma, í hjáverkum, að hitta á hann en hann sýndi þessu öllu fullan skilning þegar á reyndi. Nú fyrir helgi skiluðu þau Ásdís og Toggi bílnum og málið úr sögunni. Mér skilst að tryggingarfélagið taki á sig tjónið að sjálfsábyrgð undanskilinni (rúmlega 23 þúsund krónur).

2) Ég tók upp á því stuttu eftir ákeyrsluna að renna við í Góða hirðinum. Þar var óvenjuleg mubla til sölu sem ég fann að hentaði okkur vel heima. Þetta er horneining úr Billy-hillusamstæðu, eins og fæst í IKEA - ekki hvít heldur dökkbrún (í stíl við skrifborðið). Í raun er hillan ekki upphaflega seld sér en hefur fengist sem slík í Hirðinum að undanförnu, í ýmsum litum, og virðist gagnslítil þannig. Hins vegar sá ég heilmikil not fyrir hana heima þar sem hún smellpassar í hornið þar sem skrifborðið hefur verið hingað til. Erfitt er að lýsa notagildinu öðruvísi en þannig að inn í hana kemst allt sem tengist tölvunni (skjár, prentari, aukahlutir og tölva) í aflokuðu rými, hvert á sinni hillu, þannig að lítið ber á. Efst geymi ég svo þráðlausa lyklaborðið og músina og vinn við tölvuna af nærliggjandi borði. Ef ég vinn lengi í einu er lítið mál að lyfta skjánum niður sömuleiðis. Vandinn við þessa breytingu var hins vegar sá að ég ráðfærði mig ekki við Vigdísi. Ég átti ekki gott með að útskýra hugmyndina og ákvað því að kaupa hana á spottprís (1500 kall plús rúmlega 3000 í flutning). Þetta gerði ég eftir að ég hafði skultað Vigdísi á kvöldvakt. Hálfgert leynimakk, kannski, en ég vildi heldur sýna henni hugmyndina og hætta eftir það við ef út í það færi (ekki svo dýr tilraun). Vigdísi rak auðvitað í rogastans þegar hún sá breytinguna. Hún var fyrst í stað frekar ósátt - bæði við að hafa ekki verið með í ráðum og svo fannst henni hillan full dökk og há miðað við þann stíl sem fyrir var. Hún gaf þessu hins vegar séns og verið opin fyrir þessari breytingu síðan. Flestir gestir verða líka hálf hvumsa - ýmist stórhrifnir eða bara hissa. Uppsetningin er það nýstárleg. Tölvan tekur lágmarkspláss en nýtist einstaklega vel. Svo er ótrúlega gaman að vinna þráðlaust núna.

3) Í síðustu viku dró til tíðinda í löngu og erfiðu máli sem sligað hefur marga í fjölskyldunni. Begga systir hefur undanfarin tvö ár þurft að standa í forræðisdeilu við sinn fyrrverandi. Ég var henni mikið til stuðnings bæði við skýrslugerðir auk þess sem ég bauðst til að koma fram sem vitni ef ekki fengist sátt í málið. Ekki fer ég að rekja málavexti hér en málið hefur hins vegar kallað á mikla vinnu, marga fundi auk nákvæmra greiningarviðtala sem tekin voru við nánustu aðstandendur (beggja vegna). Núna á fimmtudaginn var þetta mál hins vegar klárað endanlega fyrir héraðsdómi. Það fór á besta hugsanlega vel með eins konar sátt sem kemur börnunum afar vel. Það sem stendur hins vegar upp úr öllu þessu er að staða systur minnar sem forsjárforeldris styrktist gríðarlega eftir því sem fleiri málsmetandi aðilar gáfu sitt álit. Upp á hana var einfaldlega ekkert að klaga - og þá meina ég það í merkingunni "ekkert!". Við vonum bara að þetta slítandi ferli, sem reynt hefur á svo marga í allan þennan tíma, reynist uppbyggilegt þegar fram í sækir. Nú er gott að horfa fram á við.

4) Að endingu ber að nefna það að ég er kominn í nokkurra vikna feðraorlof á ný. Ég átti meira inni en ég hélt og tek því fegins hendi áður en rétturinn fyrnist við átján mánaða aldur Hugrúnar (þarnæstu mánaðarmót). Það var satt að segja fremur knappur tími sem ég hafði til að ganga frá stofunni og hagræða fyrir staðgengil minn á meðan. En það tókst ágætlega og ég ætla mér að nýta tímann vel. Þeir sem eru lausir á daginn mega gjarnan sjá sér leik á borð!

laugardagur, september 13, 2008

Upplifun: Tindersticks-tónleikarnir

Tónleikarnir á fimmtudaginn var voru að vonum frábærir. Gaman að sjá Stuart Staple með berum augum. Hann hefur breyst eitthvað frá því maður las viðtölin við sveitina fyrir 10-15 árum. En hann var afar kátur á sviðinu, ekki neinn drungi yfir honum. Hann brosti mikið og var greinilega glaður yfir því að vera kominn á stjá á ný. Hljómsveitin var 6-7 manns, sem er í meira lagi miðað við hvað gengur og gerist í bransanum en í allra minnsta lagi fyrir tónlist Tindersticks. Sum laganna komu afbragðsvel út - og þá var ég sérstaklega hrifinn af innkomu málmblástursins (var það trompet?) sem tætti lögin í sig í tví- eða þrígang. Sellóið var líka sniðug lausn ef menn vilja ekki ferðast með strengjasveit. Það er myndarlegur hljómur í einu sellói og gat því oftar en ekki komið í stað strengjanna. Samt vantaði aðeins upp á. Ég er nefnilega sérlega hrifinn af því hvernig strengjahljómur Tindersticks (á fyrstu tveimur plötunum sérstaklega) nær að lyfta tónlistinni upp í hæstu hæðir. Hljómsveitin var greinilega meðvituð um sín takmörk uppi á sviðinu og spilaði fyrst og fremst af nýjustu plötunni sinni og tók síðan kannski 2-3 lög að meðaltali af hinum plötunum. Ég saknaði þess óneitanlega að heyra meira af allra fyrstu plötunum og átti fastlega von á þriðja uppklappi - sem ekki varð af.

Engu að síður voru frábærir tónleikar staðreynd. Það munaði mikið um það að vera vel staðsettur. Við Vigdís komum mjög snemma og fengum sæti við "svalirnar" á besta stað. Mér fannst notalegt að geta setið rólegur án þess að hafa hugann við óþægindi í baki og með strengi í fótum. Ég finn yfirleitt til líkamlegra óþæginda á standandi tónleikum - sem draga þá verulega úr ánægjunni - en þarna sat maður eins og heima í stofu og lyngdi aftur augum. Ekki skemmdi heldur fyrir að salurinn - þverskurðurinn af áhorfendum, það er að segja - var mér sérstaklega að skapi. Ég hitti eða sá ótrúlega marga gamla kunningja - fólk sem ég umgekkst meira á þeim árum sem ég var í háskólanum, fyrir svona 10-15 árum. Það rímar ágætlega við þann tíma þegar ég var á bólakafi í að hlusta á Tindersticks. Svo kom mér skemmtilega á óvart (og þó ekki) að hitta Konna, sem ég minntist á í síðasta pósti. Ég sá hann við barinn og gaf mig að honum - rétt eins og hann væri löngu týndur Livingstone. Við urðum snarlega spjallreifir yfir því að hittast á þessum stað og þessari stund. Við rifjuðum ýmislegt upp frá útvarpsárunum og skiptumst á gamalkunnugum skoðunum. Hvorugur okkar hafði séð Tindersticks áður. En í miðjum klíðum var spjallið rofið af barþjónninn sem hallaði sér að okkur: "Áhorfendur eru að kvarta undan hávaða". Úps! Allt í einu er maður orðinn einn af þessum óþolandi tónleikagestum. Við slitum samtalinu þar með og héldum í sitt hvora áttina til að njóta tónleikanna.

þriðjudagur, september 09, 2008

Upprifjun: Þegar Tindersticks birtist

Nú eru aðeins tveir dagar í Tindersticks-tónleikana. Ég hef fylgst með þeim síðan þeir komu fram í fyrsta skipti árið 1993 og er sannfærður um að þeir hafi hljómað í fyrsta skipti í íslensku útvarpi í þættinum sem ég var með þann veturinn (ásamt Hákoni vini mínum úr F.B.). Þátturinn hét "Straumar" og var á X-inu, þegar sú útvarpsstöð var nýstofnuð. Við lögðum okkur fram um að fjalla um tónlist samtímans á faglegan hátt og reyndum í leiðinni að mynda tengingar við eitt og annað í fortíðinni. Við vorum meira að segja með klassískt tónlistarhorn, í svona kortér, þar sem við tengdum einhverja lagasmíð gömlu meistaranna við umfjöllunarefni þáttarins hverju sinni. Einn þátturinn fjallaði til dæmis um dauðann og þá voru allar lagasmíðar þáttarins á einhverju hringsóli um þetta þema, líka klassíska hornið (við gripum inn í sönglagaflokkinn "Songs and Dances of Death" eftir Mussorgsky). Annar þáttur fjallaði um "syngjandi gítarspil" þar sem gítarinn er notaður sem staðgengill mannsraddarinnar til að flytja söngvænar melódíur. Shadows voru þekktir fyrir þetta, Dire Straits og aðrir mjúkir rokkarar, en ekki síður nýbylgjusveitir eins og Television og Pixies. Í klassíska horninu var til samanburðar gripið niður í einverja sinfóníu Schuberts (Þá ókláruðu, að mig minnir) sem ber einmitt sama yfirbragð. Fiðlurnar eru þá fengnar til að "syngja" laglínuna mjög blátt áfram án flókins hljómagangs eða óvæntra taktskiptinga. Svona gekk þetta þátt fyrir þátt - taktföst tónlist í einum þætti, rómantísk tónlist í næsta, hávaði (eða bara "feedback") í þeim þriðja. Umfjöllunarefnin voru ótalmörg og hjálpuðu okkur við að fókusera í hverjum þætti og gerðu þá í leiðinni fjölbreyttari. Þetta vakti svolitla athygli, innahúss að minnsta kosti, enda vorum við í góðlátlegu gríni kallaðir "spekingarnir" á stöðinni af gaurunum sem þarna störfuðu. Þetta voru skemmtilegir tímar.

Svo kom að áramótaþættinum sem fékk það sjálfgefna viðfangsefni að gera áramótauppgjörum tónlistarblaðanna skil. Við vorum búnir að fylgjast vel með tónlistinni gegnum vikublöðin Melody Maker og NME og keyptum tónlist grimmt á þessum árum. Áður en maður opnaði þessi blöð renndi maður alltaf í gegnum huga sér þeim plötum sem manni fannst sjálfum standa upp úr á árinu. Nokkrar komu strax upp í hugann að þessu sinni: Björk gaf út sína fyrstu plötu, the Boo Radleys gáfu út frábæra og nútímalega plötu undir áhrifum frá hvíta albúmi Bítlanna og the Afghan Whigs og Smashing Pumpkins gáfu út frábærar rokkskífur undir áhrifum Grunge rokksins. PJ Harvey kom öflug á sjónarsviðið með tvær plötur, Nirvana og Pearl Jam létu sitt ekki eftir liggja auk þess sem Britpoppið var rétt að læðast inn (fyrsta plata Suede, snilldarplata Auteurs og endurkomuplata Blur eftir smá hlé). Þegar maður opnaði áramótablað Melody Maker 1993 var maður hins vegar gáttaður: Plata ársins var með algjörlega óþekktri hljómsveit sem hét Tindersticks. Hún var ekki einu sinni á topp 50 hjá hinum blöðunum. Strax í næsta útvarpsþætti var Konni búinn að næla í plötuna og við renndum henni í gegn - ekki allri, en ansi mörg lög fengu að fljóta. Hróðugir vissum við að svo gott sem enginn þeirra hlustenda sem rýndu út í næturmyrkrið þennan janúarmánuð 1994 hefði heyrt þessa tónlist áður. Svei mér ef þetta var ekki síðasti þátturinn minn í útvarpi líka. Að minnsta kosta lognaðist þátturinn út af stuttu seinna vegna óanægju okkar með stjórnun stöðvarinnar.

Núna, síðla árs 2008, næstum fimmtán árum seinna, er sveitin á leiðinni til landsins. Að þessu sinni eiga þeir langan feril að baki. Þeir gáfu út aðra stórkostlega plötu tveimur árum eftir frumburðinn og nokkrar góðar í kjölfarið. Ég hef alltaf haldið mikið upp á tvær fyrstu plöturnar en einhverra hluta vegna hætti ég að fylgjast með sveitinni eftir það. Svo hættu þeir í nokkur ár en eru nú komnir til baka með vægast sagt frábæra plötu. Hún er betri en allt það sem kom út á síðari hluta ferilsins og er til vitnis um mjög magnaða endurkomu. Það vill svo undarlega til að fyrir örfáum vikum síðan tók ég að mér það verkefni að skrifa stuttan pistil um hljómsveitina, án þess að hafa hugmynd um að sveitin væri á lífi - og einmitt þá kom nýja platan út. Pistillinn sem ég skrifaði var á vefsetrinu "rateyourmusic.com" (sem ég hef skrifað um áður). Þar er félagsskapur sem hefur einsett sér að búa til handhægt yfirlit yfir tónlistarsöguna (Rough Guide to Everything). Þar er hugmyndin að maður geti slegið upp nafni hvaða hljómsveitar sem er og fengið lista yfir þau lög og plötur sem óhætt er að mæla með að maður kynni sér fyrst í stað- ásamt umsögnum. Þetta kemur mjög skemmtilega út í flestum tilvikum og óhætt að fullyrða að margir þátttakendur í þessu verkefni nálgast það af fullum metnaði. Mitt framlag til Tindersticks innslagsins er notað sem megintextinn um sveitina (smellið á linkinn hér fyrir ofan og veljið svo síðu 37). Þar segi ég um það bil allt sem ég hef um hljómsveitina að segja. Þeir sem fara á tónleikana mega gjarnan lesa sér til upphitunar. Hinir hafa enn tækifæri til að kaupa sér miða. Þetta verður mergjað.

miðvikudagur, september 03, 2008

Pæling: Sumarglæta að hausti

Nú er sólin búin að skína skært í þrjá daga og útlit fyrir framhald á því fram að helgi, eða lengur. Þetta er að mínu mati besta sólin. Betra en hásumarshitabylgja. Ég nýt mín alveg sérstaklega þegar sólin skín svona á haustin vegna þess að:

1) Loftið er svalara og ferskara (án þess að vera orðið kalt) og í því engin hætta á leiðindamollu. Manni er hlýtt í léttum bol eða skyrtu en finnur samt fyrir þægilegri kælingu í andliti öðru hvoru.
2) Ofnæmisvaldar í loftinu eru á undanhaldi. Ég get andað djúpt að mér án þess að taka út refsingu með hnerrakasti stuttu seinna. Þar af leiðandi get ég spókað mig utandyra að vild í blíðviðrinu.
3) Það myndast ekki sama örvænting og á sumrin þegar sólin gægist fram núna. Á sumrin eru flestir í frí og þjóðin lætur þá eins og örvæntingarfullur fíkill og hleypur upp til handa og fóta. Núna er fólk bundið heimahögum, vinnu eða námi og fær ekki sama samviskubit yfir því að lifa eðlilegu lífi á meðan. Það nýtur sólarinnar á einfaldari og eðlilegri hátt á heimaslóðum.
4) Á þessum tíma árs er maður farinn að búast við kulda, myrkri og rigningu. Maður kann því betur að meta sólina og er einfaldlega þakklátari fyrir hana en um hásumarið.

þriðjudagur, september 02, 2008

Upplifun: Fjaran í fyrsta skipti

Hvað er betra en að leika sér í sandkassanum þegar maður er rúmlega eins árs? Svar: Að leika sér í fjöruborðinu! Finna alls kyns smáhluti og kasta litlum steinum í flæðarmálinu. En ef maður er tæplega þriggja ára? Þá er fjaran alveg jafn spennandi enda ekkert skemmtilegra en að leita að kröbbum (eða því sem er eftir af þeim) og handfjatla blöðruþang. Svo má alltaf kasta steinvölum í sjóinn eins og litla systir og passa að blotna ekki í fæturna. Ég minnist á þetta núna vegna þess að í dag fór Hugrún í fyrsta skipti í fjöruna. Hún hafði áður átt leið um en aldrei dvalið eins lengi í dag og notið sín eins vel. Það var frábært að sjá hana ganga örugglega yfir ójafnan sandinn. Maður þurfti náttúrulega að grípa inn í á vissum stöðum og passa sérstaklega upp á að hún færi ekki beina leið í sjóinn (Hugrún fagnaði öldunum og hrópaði "Bað! Bað!"). Eftir notalega og drjúga stund í fjörunni skokkuðum við heim í frábæru veðri.

mánudagur, september 01, 2008

Daglegt líf: Bókabíllinn

Signý fór í bókabílinn í fyrsta skipti í dag. Honum er lagt við KR-völlinn um fjögurleytið á mánudögum og eiginlega rakið að stunda hann héðan í frá þegar ég sæki Signýju. Furðulegt að maður skuli ekki hafa fattað þetta fyrr. Þetta er eiginlega sniðugra en bókasöfn vegna þess að það er ekki hægt að valsa um og hverfa úr augsýn. Þarna sitjum við bara tvö í ró og næði og getum átt einfalda og notalega stund. Signýju fannst að minnsta kosti mikið til bílsins koma og fékk að taka með sér tvær nettar bækur - sem Vigdís las fyrir svefninn rétt áðan.

föstudagur, ágúst 29, 2008

Þroskaferli: Já eða nei

Um daginn tók ég orðaforða Hugrúnar fyrir en lét hjá líða að greina sérstaklega frá því í hvaða röð orðin komu. Sagan á bak við "já og nei" er nefnilega frekar undarleg. Hugrún lærði fljótt að segja "búið" (eins og ég greindi frá á sínum tíma) og mánuðum saman sagði hún þetta af myndarskap og hristi höfuðið í ofanálag þegar hún vildi ekki borða meira. Þetta virkaði auðvitað vel og fyrir vikið tók ég eiginlega ekki eftir því að hún sagði aldrei "nei". Ekki fyrr en snemma í sumar. Hún var orðin rúmlega ársgömul þegar maður heyrði þetta lykilorð í fyrsta skipti. Þá fattaði ég fyrst að þetta orð var nýtt fyrir henni. Í sumar var "nei" hins vegar notað vítt og breitt sem svar við ýmsu, bæði neikvæðu og jákvæðu (ásamt gamla góða "búið"-orðinu). Okkur fannst sérstaklega sætt að sjá hana svara spurningum okkar (t.d. viltu banana?) með afar einlægu og sérstöku "nei", sem var svo jákvætt að okkur fannst það vera já. Tónfallið var upp á við, en ekki neikvætt og ákveðið. Það var ekki fyrr en í byrjun ágúst sem "já" kom frá henni og nánast samtímis lærði hún að kinka kollinum (að jánka) og gerði það með galopið biðjandi augnaráð sem gjörsamlega bræddi okkur.

Ferlið var því svona:
1) Hristir hausinn
2) "Búið"
3) "Nei"
4) Jákvætt nei
5) "Já"
6) Kinkar kolli

Um líkt leyti fór Signý í leikskólann eftir sumarfrí. Það er gaman að bæta því við í þessu samhengi að eftir fyrstu vikuna breyttust já-in og nei-in hennar í "jabbs" og "neibbs". Líklega hefur einhver í leikskólanum hefur verið með þennan "kæk" á tímabili því þetta varaði ekki nema eina til tvær vikur hjá henni. Kannski fannst henni bara svona gaman að byrja í leikskólanum aftur. Þetta er svolítið glaðlegra en venjulegt "nei" og "já", ekki satt?

fimmtudagur, ágúst 28, 2008

Upplifun: Við uppi á Arnarhóli

Nýi tvöfaldi hjólavagninn kom aldeilis að góðum notum í gær. Þrátt fyrir að Vigdís væri á kvöldvakt gat ég skotist niður í bæ með bæði Hugrúnu og Signýju. Tíminn var knappur og rétt dugði fyrir snöggsoðinn kvöldmat en vegna þess hve þægilegt er að skokka með vagninn fór ég samt létt með að ná athöfninni tímanlega. Við mættum á svæðið þegar handboltaliðið var komið upp á Skólavörðuholt og höfðum því gott ráðrúm til að planta okkur á afviknum en góðum stað uppi á Arnarhól. Staðurinn var heppilegur því við fundum einhvers konar lægð (hálfgerða laut) í hólnum þaðan sem erfitt var að sjá á sviðið. "Heppilegt" segi ég vegna þess að þegar liðið var runnið í hlað, og allur skarinn kominn upp á hól, vildi enginn vera akkúrat á þessum blett. Það var ekkert þrengt að okkur, nánast eins og áhorfendur hefðu slegið skjaldborg umhverfis okkur Hugrúnu og Signýju. Við höfðum gott pláss til að hreyfa okkur í takt við tónlistin, enda full þörf á því: Páll Óskar er í miklu uppáhaldi hjá þeim systrum. Signý sveiflaði höndum og klappaði saman höndum ákaft upp á háhesti á meðan Hugrún stóð vandlega í fæturnar fyrir neðan okkur. Hún dansaði með því að beygja sig mjúklega upp og niður í hnjánum. Fjölmargir áhorfendur gjóuðu augunum til Hugrúnar og Signýjar og kímdu við. Þær voru alveg í essinu. Þegar að því kom reyndist líka býsna erfitt að koma þeim í vagninn aftur, enda ekki á hverjum degi sem þær upplifa svona mannfagnað.

þriðjudagur, ágúst 26, 2008

Þroskaferli: Orðaforði Hugrúnar

Rétt áður en Ólympíuleikarnir stálu senunni (og tímanum) var ég byrjaður að skrá sérstaklega að skrá hjá mér orðaforða Hugrúnar. Ég áttaði mig á því að ég þyrfti að flýta mér, því orðin voru farin að koma á færibandi. Hún var þá nýorðin 15 mánaða (en verður 16 mánaða nú um mánaðamótin). Síðan hef ég ekki mátt vera að því að færa þetta inn (vegna Ólympískra anna, meðal annars). En hér er hann hins vegar kominn listinn sem ég setti á blað. Orðin eru ekki endilega í tímaröð, en ég set samt sum af fyrirsjáanlegustu grunnorðunum fyrst. Þegar ástæða þykir til set ég hins vegar hljóðlíkingu eða útskýringu með innan sviga.

Mamma/Pabbi (skýr munur á P og b)
Já/Nei
Hæ/halló ("la-hó")
Bæ/bless (furðu skýrt "ess")
Datt
Bað (stundum borið fram sem tvö atkvæði "Ba-að" þar sem seinna atkvæðið fellur um heilar tvær áttundir. Þá er hún full tilhlökkunar)
Signý ("diddí")
labbílabb
vá! (ef hún sér eitthvað spennandi eða nýtt)
Sitja ("didda")
Ljós (mjög skýrt, bæði "j" og "s" heyrist)
Kúka (sjáldan notað, en samt markvisst)
Lúlla (mikið notað)
Ba-bú (ef einhver er fyrir)
Frá ("bá" - þetta er önnur útgáfa af "ba-bú")
Dudda (stundum notað út í loftið í geðshræringu - eins og ég skrifaði um á sínum tíma)
Búið (líklega mest notaða orðið)
Banani ("nanana" - stundum segir hún "na-nana-nananana" með mjög líflegu tónfalli, og þá er hún að biðja um eitthvað sem hún nær ekki í sjálf)
Brauð (bau)
Mjá (kisuhljóð - mjög angurvært)
úhú (ugluhljóð - bjart og með skýrum áherslum)
Tá/tær ("dá/dæ")
Eyra ("ija")
Auga ("ua")
Nef ("nebb")
Bleia (bija)

Síðan ég skráði þetta hjá mér hef ég tekið eftir fullt af nýjum orðum læðast fram. Dóra er eitt af þeim, en hún er teiknimyndapersóna sem bæði Signý og Hugrún hafa gaman af. Einnig ber hún Bubbi byggir ótrúlega skýrt fram. Svo er farið að örla á setningaskipan sbr. "Dudda datt". Hugrún er náttúrulega mjög athugul og er farin að taka undir með okkur þegar við syngjum fyrir hana, hvort sem það er í Bíum-Bíum-Bambaló (sérstaklega "dilli-dilli-dó" kaflinn) eða Meistari Jakob (Hún grípur "Jakob" mjög vel). Hún gleypir líka við öllu því sem hún sér á skjánum, eins og vera ber, og veit til dæmis alveg hvað lottó er. Hún tekur hraustlega undir með því. Og svei mér ef ég heyrði hana ekki fylgja mér eftir á stangli þegar ég taldi með Signýju í dag fyrir framan hana (hún sagði ábyggilega "tveir", "fjórir" og "Sex" á hárréttum stöðum).

sunnudagur, ágúst 24, 2008

Þroskaferli: Ólympíueftirherman Signý

Nú þegar Ólympíuleikarnir eru nýafstaðnir er mér ferskast í minni hvað Signý var athugul allan tímann. Maður tók svosem ekkert sérstaklega eftir henni fylgjast með en hún fór að leika ýmislegt eftir hetjunum á skjánum. Í gær sá ég hana renna sér niður í spíkat, hálfa leið að vísu, en svo tæknilega akkúrat að það mætti halda að hún hefði fengið leiðsögn. Stuttu síðar sýndi hún mér takta sem Vigdís hafði tekið eftir hjá henni áður (og benti mér á að fylgjast vel með): Hún stóð fremur gleitt og sneri sér í mjöðmunum hálfhring til vinstri og hægri, fram og til baka, og svo allt í einu "stökk"!.... og lenti með líkamsstöðuna í öfuga átt. Ég veit ekki hvaðan þetta kemur. Kannski kringlukastið?

Pæling: Að Ólympíuleikum loknum

Þannig fór um sjóferð þá. Frakkarnir mættu ótrúlega einbeittir og náðu að draga klærnar úr okkar mönnum snemma í leiknum og náðu frumkvæðinu. Þeir náðu sínum allra allra besta leik. Við áttum ekki séns. Ekki minnsta möguleika. Hvernig stóð á því? Ég las í Fréttablaðinu í morgun að liðið okkar hafi verið meira eða minna andvaka eftir síðasta leik í einni stórri geðshræringu yfir því að vera búnir að tryggja sér medalíu. Þetta er stóra spennufallið sem ekki mátti koma. Þeir voru innst inni orðnir saddir. Þeir voru búnir að ná upprunalega takmarki sínu og eftir það var erfitt að ná brjálæðinu upp á ný. Maður er hálf lamaður eftir þetta. Nú er það bara lokahátíðin og hugsa til þess hvað þetta var nú glæsileg frammistaða strákanna, þegar á heildina er litið. Núna á sér stað lokahátíðin með allri sinni litadýrð. Hvernig ætli þeir hugsi á meðan þeir horfa á glæasilega sýninguna og virði fyrir sér medalíuna sína? Tveir möguleikar: "Ég hefði geta verið með gull" eða "Ég er hér, með medalíu um hálsinn". Ég vona bara að þeir taki seinni afstöðuna því þeir eiga svo sannarlega skilið að njóta augnabliksins.

laugardagur, ágúst 23, 2008

Pæling: Hugarfarið fyrir leik

Ég er bara búinn að vera utan við mig í allan dag eftir sigurinn á Spánverjum í gær. Ég er með enga athygli á hversdagslegum hlutum. Venjuleg búðarferð er nánast vandræðaleg. Ég er með hugann við verkefni stákanna úti og get ekki slitið mig frá því. Þvílíkur heiður fyrir okkur öll að fá að vera með.

Þegar ég var kominn heim rann það upp fyrir mér að landsliðið getur ekki tapað á morgun. Ég var bara að vaska upp og þessar hugsanir læddust að mér . Ég upplifði sjálfan mig sem hluta af þessum hópi, fannst ég beinlínis vera á gólfinu með þeim, í liðinu, og "fann" hvernig mér hlyti að líða. Það er úrslitaleikur á morgun, stærsta stund íslenskrar íþróttasögu. Þetta er draumi líkast og einfaldlega ekki pláss fyrir óttaslegnar hugsanir eða vangaveltur um það hvort Frakkarnir séu betri eða yfir höfuð góðir. Það er þakklætistilfinning sem fylgir hópnum inn á gólfið. Þeir taka í hönd Frakkanna, horfa í augun á þeim, og varðveita þessa stund. Þakklætið beinist ekki síst að Frökkunum sjálfum, þó þeir eigi engan hlut í okkar árangri, því þeir taka þátt í veislu okkar og gera hana að möguleika. Áður en flautað er til leiks eru Frakkarnir eins nálægt því að verða Ólympíumeistarar og þeir nokkurn tímann verða í þessari keppni, - eftir það skilur á milli. Eftir það er "kamikaze".

Ég verð hissa ef Frakkarnir vinna okkur, því þeir eru ekki tilbúnir að fórna sér með sama hætti.

miðvikudagur, ágúst 20, 2008

Þroskaferli: Leikskólaframvinda

Í leikskólanum hennar Signýjar eru þrjár aldurskiptar deildir: Norðurbær, Miðbær og Suðurbær. Signý byrjaði í Norðurbæ (yngstu deildinni) fyrir ári síðan en í þessari viku fór hún fór smám saman yfir í Miðbæ. Í dag sótt ég hana þangað í fyrsta skipti og á morgun skila ég henni af mér þangað í fyrsta skipti. Þetta minnir mann á það hvað hún er að þroskast hratt. Brátt fara börn að innskrifast á Norðurbæinn á aldur við Hugrúnu. Hún fékk einmitt staðfestingu um daginn á leikskólavist, en dagsetningin er enn óljós.

Upplifun: KR-markaðurinn og kvefpest

Um helgina var haldinn skemmtilegur markaður í KR-húsinu. Öllum Vesturbænum (og líklega fleiri hverfum) hafði verið boðið að mæta með dót úr geymslunni eða afurðir úr garðinum. Ekkert vesen, engin básaleiga, bara mæta tímanlega og koma sér fyrir. Þetta var á laugardaginn var. Signý og Hugrún voru eitthvað slappar, með kvef, og voru því heima. Ég leyfði Vigdísi að njóta sín á markaðnum á meðan ég horfði á handboltaleikinn við Dani. Hún var afar kát með afraksturinn þegar hún kom til baka. Keypti meðal annars skemmtilegan sólstól í barnastærð. Þegar Vigdís kom heim skaust ég í hálftíma (þetta er bara of nálægt til að sleppa alveg) og gekk í gegnum fjölskrúðugt mannlífið og nett kaotíska stemmningu. Ég kom hins vegar drulluslappur til baka og lagðist fyrir með hrikalegt kvef og hnerraköst (var slappur fram á mánudag). Þetta kvef sótti að okkur öllum eitt af öðru af krafti en staldraði stutt við í öllum tilvikum. Ég var síðastur til að leggjast, en er nú orðinn hress.

þriðjudagur, ágúst 19, 2008

Þroskaferli: Kemur færandi hendi

Hugrún er svo sannarlega farin að ganga. Þegar við vorum í bústaðnum rétt fyrir Verslunarmannahelgi tók Hugrún sín fyrstu samfelldu tíu skref, eða svo. Síðan gerðist lítið fyrr en viku seinna og þá var ekki aftur snúið. Hún er nú farin að hafa gaman af því að ganga og er farin að notast við það til jafns á við skriðið til að koma sér á milli staða. Hún er mjög snögg að ná tökum á þessu, enda búin að fínpússa tæknina mánuðum saman (með því að standa upp úr setstöðu, ganga með, sleppa sér, beygja sig eftir hlutum og, síðast en ekki síst, með því að klifra upp á alla stóla sem hún finnur). Það er óskaplega gaman að fylgjast með henni á þessu stigi.

Í kvöld átti sér stað einstaklega skemmtilegt atvik þar sem Signý sat inni í stofu á koppinum. Hugrún var um tveimur metrum frá henni að tína hafrakodda upp í sig, sitjandi á bossanum. Allt í einu stóð hún reisulega á fætur, eins og öldungur, og staulaðist í áttina til Signýjar. Ég lét frá mér bókina sem ég var að lesa og ætlaði að stöðva framgang hennar. Ég vildi ekki að hún truflaði Signýju á koppinum. Áður en ég náði að grípa inni í teygði Hugrún aðra höndina fram, bogin í baki og virðuleg, og hélt á einum hafrakodda. "e de naminam" (þetta er namminamm) sagði hún og gaf Signýju að smakka. Svo staulaðist hún eitthvað lengra á meðan Signý maulaði með sjálfri sér.

laugardagur, ágúst 16, 2008

Upplifun: Fyrstu Ólympíuleikarnir

Ólympíuleikarnir fara náttúrulega ekki fram hjá neinum. Við Íslendingar fylgjumst fyrst og fremst með handboltanum á meðan allt hitt fer meira eða minna fyrir ofan garð og neðan. Leikarnir í heild sinni eru hins vegar mjög spennandi í augum þeirra sem upplifa leikana í fyrsta skipti. Hér er ég sérstaklega með Signýju í huga. Hún fylgist með af áhuga í hvert skipti sem sundíþróttir birtast á skjánum og endurtekur "sund" fyrir munni sér í sífellu. Það minnir mann óþyrmilega á hvað það hvað hún fer sjaldan í sund. Hugrún má það ekki næstu mánuðina og ósjálfrátt fer maður sjáldnar fyrir vikið, fyrst við förum ekki öll saman. Maður þyrfti að fylgja áhuga Signýjar betur eftir. Á meðan við förum ekki í laugarnar með hana reynum við að fylgja áhuganum eftir fyrir framan skjáinn og tengjum svolítið við dýraríkið (það þekkir hún betur). Sundfólkið er nefnilega alveg eins og mörgæsir. Fljótlega fór Signý að skoða Ólympíuleikana í þessu ljósi. Á tvíslá sá hún hvernig fimleikagarparnir sveifluðust upp og niður milli slánna. Þá sagði hún: "Hann er alveg eins og api". Ég hló með sjálfum mér og horfði á kappann hanga í slánni og sveifla sér fimlega hring eftir hring, þá bætti hún við: "Hann er að róla, og róla og róla", og var mjög undrandi á atganginum. Hún hefur aldrei áður séð nokkurn "róla" heilan hring. Svo horfðum við á keppnisfólkið stökkva sín heljarstökk af litlu trampólíni og yfir hest. Hún hélt áfram að tengja við hluti sem hún þekkti betur og spurði mig hvers vegna maðurinn stökk upp á "borðið"?

sunnudagur, ágúst 10, 2008

Fréttnæmt: Viðburðir í sumarlokin

Ýmislegt drífur á daga okkar nú síðsumars. Við fórum í eftirminnilegt brúðkaup á föstudaginn var. Vinnufélagi minn af sambýlinu og kórfélagi, Árni Björnsson, og kærasta hans til margra ára, Ásthildur, létu splæsa sig saman. Brúðkaupið var haldið heima hjá foreldrum hans (óvenjulegt). Þetta gerði samkomuna mjög huggulega. Þau voru búin að koma upp samkvæmistjaldi í garðinum þar sem setið var að veitingum við langborð, þar sem menn sungu, skröfuðu og neyttu veitinga af ýmsu tagi. Mjög skemmtilegt kvöld í fallegu veðri.

Annað gerðum við frásagnarvert, nú upp úr verslunarmannahelgi. Við keyptum tvöfaldan hjólavagn á útsölunni í Erninum. Hann er alveg eins og sá sem við áttum fyrir, nema ögn breiðari. Við höfum prufukeyrt hann, bæði á hjólinu og gangandi. Þær Signý og Hugrún kunna vel við sig saman þar inni. Ég átti allt eins von á stríðni eða einhvers konar stympingum þeirra á milli, en það er nú öðru nær: Þær eiga það frekar til að söngla saman einhver orð, frasa eða tóna. Hljómurinn er ákaflega huggulegur, enda eru þær mjög nánar systurnar. Nú getum við farið öll saman í hjólatúr eftir Ægissíðunni. Það gerðum við nú í dag, enda fínt veður. Við keyptum okkur lautarnesti í næsta bakaríi og komum okkur notalega fyrir á fótboltavellinum við Skerjafjörðinn.

Nú eru ekki nema fjórir dagar þar til ég byrja að vinna aftur (á fimmtudaginn). Við Vigdís erum með hugann við að nýta dagana framundan sem best. Signý er byrjuð aftur í leikskólanum (á mánudaginn var) og við ættum að hafa nokkuð gott svigrúm til að hnýta saman lausa enda -og ef til vill njóta sumarsins örlítið lengur.

föstudagur, ágúst 08, 2008

Pæling: Bókasafnsmyndaleiga

Ég mæli með því að menn taki myndir á bókasöfnum frekar en venjulegum vídeóleigum. Sérstaklega fyrir svona fríhelgar eins og verslunarmannahelgina (eða páskana, jólin og svoleiðis) því þá er ekki hægt að skila myndinni dögum saman (án þess að leiguverðið hækki). Á tímum samdráttar í samfélaginu er rétt að benda á að verðsamanburðurinn er söfnunum mjög í hag. Í stað þess að borga 500 kall fyrir leigu á mynd í einn sólarhring (leigurinar eru nánast alltaf opnar þannig að það bætist sjaldan dagur við) þá kosta myndir á bókasöfnum 200-400 krónur og leigjast að lágmarki í tvo daga í senn. Undantekningarlítið er lokað á sunnudögum og á sumrin er einnig lokað á laugardögum víðast hvar (a.m.k. á Seltjarnarnesinu). Þegar við bætist frídagur á mánudegi eins og núna þá erum við að tala um fimm daga leigu (mynd tekin á fimmtudegi þarf ekki að skila fyrr en á laugardegi, sem framlengist yfir á mánudag). Þetta er hörkudíll. Sérstaklega ef maður vill taka því rólega og horfa á myndina í áföngum. Það á sérstaklega við um fræðsluefni eða myndir með haug af aukaefni.

Myndirnar sem ég tók, og komst ekki yfir að sjá, voru annars fínar myndir. Aðra hafði ég séð áður (Munich) og hina náði ég að sjá til hálfs á meðan Vigdís náði að klára hana (Other People´s Lives). Þetta er merkileg mynd. Hún fjallar um Stasi lögregluna og alla þá tortryggni sem var allsráðandi í Austur-Þýskalandi fyrir fall Berlínarmúrsins. Sem heimild er myndin merkileg, en söguþráðurinn er líka athyglisverður og óvenjulegur því einn njósnaranna fer að heillast af lífi þeirra sem eru undir smásjánni og finnur sig knúinn til þess að hafa afskipti af þeim. Þetta er lymskuleg mynd um bældar kenndir í allt öðru samfélagi, um spillingu og gildi þess að búa við frelsi. Ég kláraði ekki myndina og get því ekki greint frá því hvernig þetta allt saman endaði en Vigdís virtist sátt við myndina.

Upplifun: Ferðahelgarvikan

Nú er nokkuð um liðið frá síðasta bloggi. Ýmislegt hefur á daga okkar drifið. Við nutum okkar vel í aðdraganda verslunarmannahelgarinnar og skelltum okkur aftur í bústað. Við vorum sem sagt í Grímsnesinu í hitabylgjunni sem reið yfir. Signý og Hugrún glöddust yfir endurkomunni í "Melkorkuhús", horfðu á gamlar vídeóspólur (gamli góði Mikki) og nutu góðs af því að geta baðað sig utandyra í glimrandi veðri. Við vorum reyndar bara tvær nætur svo það gerðist ekki ýkja margt frásagnarvert annað en það að Jón Már kom í heimsókn og við skröbbluðum fram eftir. Dvölin var öll hin besta og í þetta skiptið vorum við akkúrat rétt undirbúin. Jón er búin að vera duglegur að hvetja okkur til að nýta bústaðinn enn frekar og við erum þakklát fyrir það, enda staðurinn frábær, bæði umhverfið og bústaðurinn sjálfur.

Eftir bústaðadvölin kom að sjálfri ferðahelginni, en þá vorum við heima. Ekki vorum við þó með hendur í skauti. Héldum óundirbúna garðveislu, með frisbí og boltaleikjum, þar sem Signý og Hugrún nutu sín með vinum og vandamönnum. Einnig fórum við í tvö matarboð þannig að það var nóg að gera. Reyndar tókum við tvær bíómyndir á leigu yfir verslunarmannahelgina (gegnum bókasafnið) og það segir sína sögu að við komumst ekki yfir þær. Myndir frá þessari viðburðaríku viku eru að sjálfsögðu komnar á myndasíðuna ásamt nokkrum myndum frá fyrri bústaðaferðinni (það er ekki svo langt síðan).

laugardagur, júlí 26, 2008

Upplifun: Nei! Ég á hann!

Signý talaði upp úr svefni í kvöld - í fyrsta skipti að mér vitandi. Hún talaði hátt og skýrt, eins og hún væri að reyna að ná til okkar gegnum tvö herbergi. Við héldum að hún væri að kalla á okkur en þegar við komum inn var ljóst að hún var að tala við einhvern þriðja aðila, í draumi: "Nei! Ég á hann! Nei! Ég á hann!". Við kinkuðum kolli til hvors annars og bökkuðum varlega til að trufla ekki samskiptin frekar.

föstudagur, júlí 25, 2008

Tónleikar: Damien Rice á Nasa

Við Vigdís fórum á frábæra tónleika í gærkvöldi, með Íslandsvininum Damien Rice. Hugtakið Íslandsvinur er yfirleitt notað um alla þá sem sækja landið heim en ætti heldur að notast um þá sem koma aftur, og aftur, eins og Damien Rice. Þetta eru þriðju eða fjórðu tónleikar hans á landinu á fimm árum - og í öll skiptin hefur selst upp á skömmum tíma. Hann á mjög tryggan aðdáendahóp hér á landi.

Damien Rice er einstaklega lifandi í allri framkomu, einlægur í tjáningu á milli laga, mikill húmoristi (og mjög djúpt þenkjandi í leiðinni) auk þess sem hann er fær um að spanna gríðarlega mikinn skala í dýnamískum flutningi, frá því að það megi heyra saumnál detta (salurinn agndofa) yfir í gríðarmikinn kraft sem líkja mætti við foss, sem varla er stætt undir. Hann er ótrúlegur og hreinlega í sérklassa sem sviðslistamaður. Maður sá allt í kringum sig fólk hreinlega brotna saman tilfinningalega strax við fyrsa lag, svo berskjaldaður verður maður undir þessum flutningi. Og þvílík innlifun! Aldrei hef ég orðið vitni að því að tónlistamaður fari hreinlega í gervi sögupersónunnar sem hann syngur um eins og Damien gerði í lokalaginu. Það fjallaði um kunningja hans sem lenti í sérkennilegri ástarsorg á bar (sagan var magnaðri en svo að ég geti endurtekið hana hér), nema hvað, Damien ákveður í þessu síðasta lagi að fá kassa af bjór upp á svið. Síðan býður hann 20 manns úr salnum upp á svið til að drekka með sér (sem fjöldi manns samþykkti að sjálfsögðu) á meðan hann sagði söguna. Hann fékk sér sjálfur fékk hann sér vín að drekka (hafði mjög fagmannlega drukkið vatn allt kvöldið, nota bene) og varð talsvert drukkin á skammri stundu áður en hann hóf flutninginn . Með vissu millibili fékk hann svo liðið uppi á sviði til að skála við hvert annað, þannig að gegnum lagið heyrðist þessi flöskuglamurstaktur. Ótrúlega flottur sviðseffekt. Á meðan fékk hann sér alltaf sopa (og hinir með). Þetta var eins og að horfa á sögupersónuna sem hann söng um birtast á sviðinu. Á vissum tímapunkti í textanum var minnst á sígarettu og með leikrænum tilþrifum, eins og í örvæntingu, vafði hann sér eina og kveikti í (nokkuð sem kom verulega á óvart í ljósi reykingabannsins, en rann fullkomlega saman við söguna sem þarna var flutt). Svo lauk þessu með hálfgerðri trúnaðarsamkomu uppi á sviði þar sem aðdáendur föðmuðu kappann, sem hafði gefið óskaplega mikið af sér allt kvöldið. Aðrir fóru gáttaðir út í næturmyrkrið.

laugardagur, júlí 19, 2008

Upplifun: Ánægjuleg bústaðardvöl

Nú vorum við að koma úr nokkurra daga daga sumarbústaðardvöl í Grímsnesinu. Við erum svo heppin að eiga aðgang að bústað þar gegnum Jón Má og fjölskyldu hans. Hingað til höfum við heimsótt þau Jón og Margréti en í þetta skiptið vorum við ein í bústaðnum, við Vigdís og litlu telpurnar okkar, það er að segja. Þetta er reyndar í fyrsta skipti sem við förum í bústað með þær tvær saman. Einhverju sinni fór Signý með okkur, og Hugrún var þá í pössun, og einu sinni var þessu öfugt farið. Svo buðum við einu sinni mömmu Vigdísar með, og höfðum þá bæði Signýju og Hugrúnu. Það munaði heilmikið um þá aðstoð. Í þetta skiptið vorum það hins vegar við fjögur í fyrsta skipti.

Það verður að segja eins og er að mestur hluti tímans fór í að sinna stelpunum. Oftast sofnuðum við Vigdís með þeim dauðþreytt. Aðeins eitt eftirmiðdegi nýttist sem sannkölluð slökun, en þá hafði ég baðað þær tvær og stuðlað þannig að samhliða hádegislúr þeirra, sem við Vigdís nýttum í sólbað eða lestur góðra bóka. Þessi rútína var að festast í sessi þegar við fórum heim. Við gátum af ýmsum sökum ekki verið lengur en sáum fram á hvernig heimilisbragurinn uppi í sveit var allur að smyrjast. Það tekur sinn tíma að laga sig að nýjum aðstæðum með þær tvær. En það var hins vegar sérlega ánægjulegt hvað það fór vel um Hugrúnu og Signýju. Þær léku sér mikið í kojunum (þar sem efra rúmið fer þvert yfir til fóta og myndar þannig "hús" þeim megin). Signý endurnýjaði kynni sín af gömlum vídeóspólum. Við höfum ekki geta spilað þær mánuðum saman og nýttum tækifærið fyrst tækið var í bústaðnum. Við fórum auðvitað í sund líka í brakandi blíðviðri.

Það er kannski mest lýsandi fyrir dvölina að Signý vildi helst ekki fara heim. Þegar við renndum í hlað í Granaskjólinu sagði hún fyrst "ekki heim!". Stuttu síðar ítrekaði hún óskina, alvarleg á svipin: "heima hjá Mekoggu". Þar átti hún við Melkorku, dóttur þeirra Jóns og Margrétar. Áður en við lögðum af stað í bústaðinn hafði ég nefnilega sýnt henni myndir af þeim þremur í bústaðnum frá því við heimsóttum þau fyrr í sumar. Það gerði ég til að hún áttaði sig fyrirfram á því hvert við værum að fara. Ég man ekki eftir að hafa minnst á Melkorku á meðan við vorum í bústaðnum, þannig að hún hefur tekið ansi vel á móti upplýsingunum.

þriðjudagur, júlí 15, 2008

Fréttnæmt: Skortur á veikindasögu

Ég hef trassað að tjá mig um heilsufar Signýjar og Hugrúnar að undanförnu. Á tímabili var ekki um annað skrifað og í raun ekki nema jákvætt að lítið sé af þeim vettvangi að frétta. Signý er að minsta kosti búin að vera stálslegin síðustu mánuði. Hugrún fékk hins vegar einhverja óværu fyrir um mánuði síðan. Þá fékk hún væga hitavellu (kringum 38) og varð lystarlítil í nokkra daga. Þegar hitinn náði loksins upp í 38.5 eftir um viku meðgöngu létum við lækni kíkja á hana. Þetta var farið að minna okkur ískyggilega á blöðrubólguna sem hún fékk rétt fyrir áramótin - einkennalaus slappleiki. Læknirinn staðfesti að það væri ekkert að hálsi, lungum eða eyrum og hvatti okkur til að senda inn þvagprufu. Hún leiddi í ljós sýkingu. Síðan þá hefur Hugrún verið á lyfjum - fyrst í stað fjórar töflur en núna tvær - og kemur til með að undirgangast frekari rannsóknir út af þessu öllu saman í haust. Þá stendur til að skoða hvort hún geti verið með nýrnabakflæði, en þá ferðast hluti af þvaginu við losun upp í nýrun. Þetta skilst okkur að sé ekki sérstakt áhyggjuefni en engu að síður full ástæða til að fylgja málinu fast eftir svo að ekki hljótist frekari óþægindi af síðar meir.

Af Hugrúnu og hennar líðan er það helst að frétta að hún er búin að vera sjálfri sér lík frá því hún fór að taka lyfin. Hún er búin að vera eðlilega frísk og hress undanfarnar tvær til þrjár vikur - samt örlítið matvandari en venjulega. Kannski er það bara eðlilegt þroskamerki og tilfallandi sem slíkt.

Fréttnæmt: Sumartilhögun

Enn ein bloggpásan að baki. Ég er farin að kalla það pásu þegar ég skrifa ekki í heila viku, enda er yfirskriftin "vikuþankar". Það er helst af okkur að frétta að ég er búinn að vera í fríi undanfarnar vikur, ekki bara frá vinnu (síðan í byrjun júní) og heldur líka frá fótbolta (það tók nú drjúgan tíma í júní). Nú er Signý búin að vera í fríi frá leikskólanum í heila viku og verður það áfram næstu þrjár. Ég hef verið að læðast með hana á leikvöllinn í grenndinni, þar sem við njótum góðs af gæslu fyrir og eftir hádegi. Yfirleitt dveljum við þar aðeins í tvo tíma eða svo, og ég get leyft mér að bregða mér frá um stund, út í búð eða heim kannski. Ég tjáði mig einmitt um þetta í fyrra þegar gæslan kom sem kærkomin búbót eftir erfitt veikindasumar og mikla inniveru af þeim sökum (sjá hér). Í kvöld er Vigdís að vinna sína síðustu kvöldvakt fyrir sumarfrí. Eflaust gerum við eitthvað skemmtilegt saman á næstu dögum. Hvort við bregðum okkur út á land skal hér ósagt látið.

miðvikudagur, júlí 02, 2008

Upplifun: Eftirminnileg helgi

Það er eins og við manninn mælt, um leið og Evrópukeppninni í fótbolta sleppir þá hverfur sumarið. Morguninn eftir glæsilegan sigur Spánverja var sólarglæta, en svo dró fyrir sólu. Við Vigdís nutum keppninnar að öllu leyti nema því að við þurftum alltaf að sinna svefnrútínu Hugrúnar og Signýjar um svipað leyti og seinni hálfleikurinn stóð yfir. Yfirleitt tók Vigdís það að sér að svæfa Signýju (sem sofnar enn á undan Hugrúnu) og ég reddaði Hugrúnu upp úr leikslokum, en nær undantekningarlaust sofnaði Vigdís og missti af leikslokunum (sem voru yfirleitt æsispennandi). Úrslitaleiknum ætluðum við svo sannarlega ekki að missa af og fengum pössun á meðan við fórum tvö út úr húsi og horfðum á leikinn í fjölmenni - á einu sportbarnum niðri í bæ. Það var gaman að fagna með fjöldanum og hnýta í aðdáendur þýska landsliðsins. Þegar Spánn stóð uppi sem sigurvegari sló mitt litla spænska hjarta ört. Margar minningar úr gömlum ferðalögum um Spán komu upp í hugann. Nú fengu þeir loksins uppreisn æru.

Helgin var annars viðburðarík. Við fengum líka pössun á laugardagskvöldið og skelltum okkur á Sigurrósartónleikana. Ég nefni ekki Björk vegna þess að við urðum frá að hverfa áður en hún steig á svið. Það fór að kólna óþægilega mikið við sólsetur, milli atriða, og við vorum í spreng á þeim tímapunkti. Salernisaðstaðan var víðs fjarri (fórum á farfuglaheimilið við tjaldstæðið) og eftir það langaði okkur ekki til baka, enda södd og sæl eftir fína tónleika Sigurrósar. Mér fannst stemningin góð og notaleg, hljómburður eitthvað lakari en á Miklatúni og minni dramatík yfir þessu, en samt huggulegt. Eitthvað fannst mér lítið fara fyrir boðskapnum samt. Björk og Sigurrós eru nú ekki miklir talsmenn, þau þau aðhyllist náttúruvernd. Vantað smá fútt í þann part. Tónleikarnir virkuðu á mig eins og eitt lítið andvarp, í byltingarsamhenginu stóra. Engin æsingur, bara huggulegheit.

þriðjudagur, júní 24, 2008

Fréttnæmt: Breytingar innanhúss

Sumarið hefur farið illa með áætlanir okkar um að taka heimilið í gegn. Sólin réttlætir letilegt líf utandyra og Evrópukeppnin hliðrar til húsverkum þá sjaldan sem maður hangir inni. Núna hefur hins vegar verið gert tveggja daga hlé á keppninni auk þess sem við erum orðin býsna sólarvön eftir dekrið undanfarnar vikur. Heimilið hefur líka á þessum tveimur dögum tekið snöggum stakkaskiptum.

Núna í dag gerði ég sérstakan skurk. Ég byrjaði daginn á að renna við í Apple-búðina þar sem ég keypti frábært þráðlaust lyklaborð ásamt mús. Kom svo heim og henti út gamla tölvuborðinu (fer á Sorpu á morgun). Þetta var svo sem ágætt borð svo langt sem það nær en renniborðið (fyrir lyklaborðið) var hins vegar alltaf til vansa. Þær Hugrún og Signý eru stöðugt að fikta í því og jafnvel meiða sig á því þegar þær reka sig upp undir (sleðinn stendur svo lágt). Í staðinn setti ég í hornið stærra borð og öflugra (sem ég keypti fyrir nokkrum vikum í Góða hirðinum). Nú ná þær systur ekki upp á borðið. Það hefur augljóslega í för með sér að þær ná ekki að fikta í lyklaborðinu og músinni og ná þar af leiðandi ekki að ræsa tölvuna stöðugt með því að ýta á takka (ferlega gaman fyrir þær, en leiðigjarnt fyrir mig). Svo skemmir ekki fyrir að geta tekið lyklaborðið og músina og stungið þeim ofan í skúffu og hreinsað borðið að kvöldi dags. Sem sagt, margar flugur slegnar í einu höggi.

Síðan tók ég inn hilluna sem mér áskotnaðist svo óvænt um daginn (búinn að geyma hana utandyra í blíðviðrinu) og jók hilluplássið innanhúss til muna. Til þess þurfti ég að færa hinar hillurnar til (þær eru allar mun lægri) og rýma sérstaklega til með því að taka eina þeirra inn í stofu. Bækur sem voru komnar á víð og dreif öðluðust skyndilega samastað. Þær flykkjast jafnvel inn í íbúð úr geymslunum, sem í staðinn nýtast frekar undir annað dót sem er orðið fyrir manni. Þetta eru svona "dómínó-áhrif" þar sem ein lausn leiðir aðra í för með sér. Litla hillan sem fór inn í stofu, af því henni var ofaukið inni í herbergi, reyndist ákaflega vel í stofunni undir dótið þeirra Signýjar og Hugrúnar. Það myndaðist óvænt barnahorn í miðri stofunni og við Vigdís uppgötvuðum í leiðinni hvað það er þægilegt að hafa þær dundandi sér fyrir framan okkur en ekki á bak við vegg (þar sem þær eru líklegri til að meiða sig eða róta dóti ómarkvisst til og frá). Óskaplega fannst þeim gaman að garfa í bókahillunni og hlamma sér í stofusófann. Signý ætlaði ekki að tíma að fara að sofa.

Sem sagt góðar breytingar að baki og vonandi fleiri í vændum.

Upplifun: Garðvinna, hillur og rabarbari

Svakalega er veðrið búið að vera gott! Um helgina tók ég því fegins hendi að þurfa að vinna í garðinum. Leigusalinn var með boð uppi á efri hæðinni og fékk mig til að kíkja á garðinn með sér. Ég var búinn að sinna honum svo sem ágætlega, vökva og snyrta lauslega, en núna voru beðin tekin í gegn. Signý var dugleg að hjálpa mér og ég handlangaði til hennar rótum og arfa sem hún mátti setja í balann sem ég var með. Allt fór þetta svo í lífræna hauginn. Signy naut sín til fulls að skoða allt beðið í návígi, bæði dýr og plöntur og brá auðvitað á leik þess á milli.

Þegar ég var í miðjum klíðum heyrði ég nágrannan dröslast með dót úr á bílastæði. "Er verið að smíða?" spurði ég, enda sá ég hluta af húsgögnum hér og þar. Hún var víst á leiðinni út í Sorpu með húsgögn og spurði mig hvort okkur vantaði nokkuð rúm. Ég var ekki ýkja spenntur fyrir því að fá notað rúm inn til mín en spurði þess í stað hvort hún ætti ekki góða hillu handa mér, og viti menn, hún átti akkúrat hilluna sem var ekki til á lager hjá IKEA síðast þegar ég var þar! Þessa þurfti ég ekki að setja saman, ná í eða borga fyrir. Frábært, hugsaði ég með mér, og smeygði henni undir handlegginn (eða því sem næst). Ég vippaði henni yfir á lóðina mína og lappaði upp á hilluna, negldi inn bakið og svoleiðis.

Nokkru síðar reif leigusalinn upp rabarbara sem slútti yfir gagnstéttina, bara til að rýma til fyrir gestum. Ég leit á þetta sem tækifæri til að búa til eitthvað úr þessu magnaða hráefni. Það hefur einhvern veginn fyrirfarist undanfarin ár að gera rabarbaranum almennileg skil (bjuggum eitt sinn til sultu, en ekkert meira en það). Nú kom alfræðibók Nönnu að góðum notum enda lumaði hún á einfaldri aðferð við grautagerð. Það var einfaldara en mig grunaði og hljómaði nokkurn veginn svona:

Skerið rabarbarann og snyrtið, setjið í pott. Látið vatn rétt fljóta yfir. Fyrir hvert kíló af rabarbara, bætið við 100-200 gr. af sykri. Hitið að suðu og sjóðið í um fimm mínútur. Takið af hellunni. Bætið nú kartöflumjöli við (sem leyst hefur verið upp í köldu vatni - 2-3 msk), svona rétt til að þykkja.

Þetta skal ég sko gera oft á sumrin héðan í frá, því grauturinn er ótrúlega ferskur og góður. Svo ekki sé minnst á hvað þetta er einfalt! Fyrir utan skurð og snyrtingu á rabarbaranum er þetta einfaldara og fljótlegra en að sjóða kartöflur.