Ég hef trassað að tjá mig um heilsufar Signýjar og Hugrúnar að undanförnu. Á tímabili var ekki um annað skrifað og í raun ekki nema jákvætt að lítið sé af þeim vettvangi að frétta. Signý er að minsta kosti búin að vera stálslegin síðustu mánuði. Hugrún fékk hins vegar einhverja óværu fyrir um mánuði síðan. Þá fékk hún væga hitavellu (kringum 38) og varð lystarlítil í nokkra daga. Þegar hitinn náði loksins upp í 38.5 eftir um viku meðgöngu létum við lækni kíkja á hana. Þetta var farið að minna okkur ískyggilega á blöðrubólguna sem hún fékk rétt fyrir áramótin - einkennalaus slappleiki. Læknirinn staðfesti að það væri ekkert að hálsi, lungum eða eyrum og hvatti okkur til að senda inn þvagprufu. Hún leiddi í ljós sýkingu. Síðan þá hefur Hugrún verið á lyfjum - fyrst í stað fjórar töflur en núna tvær - og kemur til með að undirgangast frekari rannsóknir út af þessu öllu saman í haust. Þá stendur til að skoða hvort hún geti verið með nýrnabakflæði, en þá ferðast hluti af þvaginu við losun upp í nýrun. Þetta skilst okkur að sé ekki sérstakt áhyggjuefni en engu að síður full ástæða til að fylgja málinu fast eftir svo að ekki hljótist frekari óþægindi af síðar meir.
Af Hugrúnu og hennar líðan er það helst að frétta að hún er búin að vera sjálfri sér lík frá því hún fór að taka lyfin. Hún er búin að vera eðlilega frísk og hress undanfarnar tvær til þrjár vikur - samt örlítið matvandari en venjulega. Kannski er það bara eðlilegt þroskamerki og tilfallandi sem slíkt.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli