miðvikudagur, júlí 02, 2008

Upplifun: Eftirminnileg helgi

Það er eins og við manninn mælt, um leið og Evrópukeppninni í fótbolta sleppir þá hverfur sumarið. Morguninn eftir glæsilegan sigur Spánverja var sólarglæta, en svo dró fyrir sólu. Við Vigdís nutum keppninnar að öllu leyti nema því að við þurftum alltaf að sinna svefnrútínu Hugrúnar og Signýjar um svipað leyti og seinni hálfleikurinn stóð yfir. Yfirleitt tók Vigdís það að sér að svæfa Signýju (sem sofnar enn á undan Hugrúnu) og ég reddaði Hugrúnu upp úr leikslokum, en nær undantekningarlaust sofnaði Vigdís og missti af leikslokunum (sem voru yfirleitt æsispennandi). Úrslitaleiknum ætluðum við svo sannarlega ekki að missa af og fengum pössun á meðan við fórum tvö út úr húsi og horfðum á leikinn í fjölmenni - á einu sportbarnum niðri í bæ. Það var gaman að fagna með fjöldanum og hnýta í aðdáendur þýska landsliðsins. Þegar Spánn stóð uppi sem sigurvegari sló mitt litla spænska hjarta ört. Margar minningar úr gömlum ferðalögum um Spán komu upp í hugann. Nú fengu þeir loksins uppreisn æru.

Helgin var annars viðburðarík. Við fengum líka pössun á laugardagskvöldið og skelltum okkur á Sigurrósartónleikana. Ég nefni ekki Björk vegna þess að við urðum frá að hverfa áður en hún steig á svið. Það fór að kólna óþægilega mikið við sólsetur, milli atriða, og við vorum í spreng á þeim tímapunkti. Salernisaðstaðan var víðs fjarri (fórum á farfuglaheimilið við tjaldstæðið) og eftir það langaði okkur ekki til baka, enda södd og sæl eftir fína tónleika Sigurrósar. Mér fannst stemningin góð og notaleg, hljómburður eitthvað lakari en á Miklatúni og minni dramatík yfir þessu, en samt huggulegt. Eitthvað fannst mér lítið fara fyrir boðskapnum samt. Björk og Sigurrós eru nú ekki miklir talsmenn, þau þau aðhyllist náttúruvernd. Vantað smá fútt í þann part. Tónleikarnir virkuðu á mig eins og eitt lítið andvarp, í byltingarsamhenginu stóra. Engin æsingur, bara huggulegheit.

Engin ummæli: