þriðjudagur, júní 24, 2008

Fréttnæmt: Breytingar innanhúss

Sumarið hefur farið illa með áætlanir okkar um að taka heimilið í gegn. Sólin réttlætir letilegt líf utandyra og Evrópukeppnin hliðrar til húsverkum þá sjaldan sem maður hangir inni. Núna hefur hins vegar verið gert tveggja daga hlé á keppninni auk þess sem við erum orðin býsna sólarvön eftir dekrið undanfarnar vikur. Heimilið hefur líka á þessum tveimur dögum tekið snöggum stakkaskiptum.

Núna í dag gerði ég sérstakan skurk. Ég byrjaði daginn á að renna við í Apple-búðina þar sem ég keypti frábært þráðlaust lyklaborð ásamt mús. Kom svo heim og henti út gamla tölvuborðinu (fer á Sorpu á morgun). Þetta var svo sem ágætt borð svo langt sem það nær en renniborðið (fyrir lyklaborðið) var hins vegar alltaf til vansa. Þær Hugrún og Signý eru stöðugt að fikta í því og jafnvel meiða sig á því þegar þær reka sig upp undir (sleðinn stendur svo lágt). Í staðinn setti ég í hornið stærra borð og öflugra (sem ég keypti fyrir nokkrum vikum í Góða hirðinum). Nú ná þær systur ekki upp á borðið. Það hefur augljóslega í för með sér að þær ná ekki að fikta í lyklaborðinu og músinni og ná þar af leiðandi ekki að ræsa tölvuna stöðugt með því að ýta á takka (ferlega gaman fyrir þær, en leiðigjarnt fyrir mig). Svo skemmir ekki fyrir að geta tekið lyklaborðið og músina og stungið þeim ofan í skúffu og hreinsað borðið að kvöldi dags. Sem sagt, margar flugur slegnar í einu höggi.

Síðan tók ég inn hilluna sem mér áskotnaðist svo óvænt um daginn (búinn að geyma hana utandyra í blíðviðrinu) og jók hilluplássið innanhúss til muna. Til þess þurfti ég að færa hinar hillurnar til (þær eru allar mun lægri) og rýma sérstaklega til með því að taka eina þeirra inn í stofu. Bækur sem voru komnar á víð og dreif öðluðust skyndilega samastað. Þær flykkjast jafnvel inn í íbúð úr geymslunum, sem í staðinn nýtast frekar undir annað dót sem er orðið fyrir manni. Þetta eru svona "dómínó-áhrif" þar sem ein lausn leiðir aðra í för með sér. Litla hillan sem fór inn í stofu, af því henni var ofaukið inni í herbergi, reyndist ákaflega vel í stofunni undir dótið þeirra Signýjar og Hugrúnar. Það myndaðist óvænt barnahorn í miðri stofunni og við Vigdís uppgötvuðum í leiðinni hvað það er þægilegt að hafa þær dundandi sér fyrir framan okkur en ekki á bak við vegg (þar sem þær eru líklegri til að meiða sig eða róta dóti ómarkvisst til og frá). Óskaplega fannst þeim gaman að garfa í bókahillunni og hlamma sér í stofusófann. Signý ætlaði ekki að tíma að fara að sofa.

Sem sagt góðar breytingar að baki og vonandi fleiri í vændum.

Engin ummæli: