Eins og svo oft áður hef ég ekki haft tíma til að blogga dögum saman. Það er svo sem allt í lagi. Ég hefði hins vegar gjarnan viljað gera athugasemd við sumt af því sem er í fréttum þessa dagana. Eins og gaurinn sem varð mannsbani með aksturslagi sínu fyrir einu og hálfu ári og heldur samt áfram að stunda hraðaakstur (hefur verið tekinn níu sinnum síðan þá). Slysið ætti að endurskilgreina sem morð að yfirlögðu ráði. Ég veit að það virkar ekki þannig, því miður, en það er algjört lágmark að skilgreina hegðun hans sem tilræði við almenning og dæma sem morðtilraun í það minnsta. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem lögreglan yppir öxlun frammi fyrir augljósum afbrotum og klórar sér síðan í hausnum. Það sem okkur vantar er alvöru fangelsi sem virkar sem "time-out" eins og það er kallað. Fangelsi sem eru sæmiega óþægileg, ekki af hreinum kvikyndisskap heldur af því þau eru eiga ekki að þurfa að kosta okkur hin neitt. Strípaðir klefar með lágmarks þægindi, einangrun. "Time-out" fyrir gaura sem skrifa sig út úr samfélaginu.
Svo er það þetta með ísbjarnadrápið. Ég hef áður skrifað um glórulausa skotgleði veiðimanna hér. Í vikunni hefur mikið verið ritað um þetta mál og ég hef átt í áhugaverðum samræðum við bróður minn, Villa, sem er eldheitur nátturusinni eins og ég. Ég ætla að leyfa mér að vísa í hans orð beint, enda er ég sammála því sem hann segir (púslað saman með hans leyfi úr nokkrum tölvupóstum):
"Einhverjir sögðu að engin deyfilyf væru til í landinu þótt vitað væri af slíkum lyfjum á Egilsstöðum (stutt að sækja það). Einnig var talað um að þótt dýrið væri rólegt var það farið að snusa út í loftið þannig að það var fellt. Ætli veiðimennirnir hafi ekki bara verið komnir vindmegin við dýrið? Slík breyting í hegðun dýrsins er bara eðlileg. Reyndar var skrítið að strax voru komnir nokkrir veiðimenn en enginn virtist hugsa um að bjarga dýrinu - dýralæknirinn með lyfin kom aðeins of seint.
Líffræðingurinn á staðnum vissi ekki einu sinni að lyf væru innan seilingar svo fjarri henni virtist verndarhugsunin.
Strax voru komnar sex SKYTTUR á staðinn ásamt einum dýrafræðingi (sem virtist aðallega vera að hugsa um sýnatöku og slíkt sem aðeins er hægt að gera eftir að nýbúið er að fella dýrið). Það virtist ekki fara mikið fyrir björgunarhugmyndum skv. þessu. Ef dýrið var hungrað ætti að vera auðvelt að ginna það í gildru með mat sem innihéldi svæfingarlyf. Ef dýrið er ekki svangt og finnst því ekki ógnað ætti engin hætta að stafa af því. Lögreglan hefði átt að sjá um þann þátt."
Talað var um að almenningi stafaði hætta af dýrinu. Ég get ekki ímyndað mér að hættan hafi verið til staðar gagnvart öðrum en þeim sem voru að sniglast um í brekkunum. Hafa menn séð myndirnar af þessu? Almenningur var uppi um allar brekkur og ljósmyndari í kannski tíu metra fjarlægð. Svo snusaði dýrið. Þetta er eins og að lóga hundi fyrir að bíta barn sem stekkur inn í garðinn þar sem hann er bundinn.
Ég hélt alltaf að það væri einn hópur manna sem réði öllu í landinu en núna sé ég að þeir eru tveir. Þeir sem virðast alltaf ná sínu fram hér á landi eru svokallaðir peningamenn (eins og verktakar) og veiðimenn. Það er ekki hlustað á sjónarmið annarra. Ef þú getur sýnt fram á gróða eða getur dregið björg í bú með áþreifanlegum hætti, þá er tekið mark á þér. Allir aðrir eru meðhöndlaðir sem draumóramenn, bæði listamenn, ferðafólk og náttúruvísindamenn. Þetta er íslenski sveitungahátturinn í hnotskurn. Við erum ekki enn vaxin upp úr því að bjarga okkur fyrir horn gegnum örskamma sumarvertíð, áður en vetur skellur á. Hugsunin er ekki farin að teygja sig hærra en að redda sér fyrir horn. Framsýni hefur aldrei verið hluti af íslenskri þjóðarsál. Mér finnst þetta kristallast í atburðarásinni með ísbjarnardrápinu. Eflaust var þetta eina leiðin. Það sem er sorglegt er hversu snöggt veiðimenn voru mættir, hversu fljótt björninn var skotinn og hversu aðgangsharður almenningur var við að fylgjast með. Áhorfendurnir þrengdu öll þau tímamörk sem menn höfðu til ákvarðana, því það var fyrst og fremst návist áhorfenda sem skapaði hið raunverulega hættuástand. Af hverju þurftu menn að tilkynna um ísbjörninn fyrst til fjölmiðla? Af hverju var það kjaftasöguglyðra sem þurfti að rekast á björninn? Af hverju hlakkaði svona óskaplega í hetjunum með byssurnar? Kjaftakerlingar og hetjur með byssur. Á endanum var ekki hægt að taka neina aðra ákvörðun, geri ég ráð fyrir. Ég sé hins vegar fyrir mér að með því að skerma ákveðið svæði af og færa dýrinu kjöt eins og Villi bendir á þá hefði mátt fylgjast mun lengur með dýrinu - mögulega til að bjarga því. Ég vitna aftur í sömu tölvupóstasamskipti:
"... ef ráðamenn hefðu litið hlutina öðrum augum hefðu þeir fattað að með því að bjarga birninum aftur heim til sín hefðu þeir fengið nokkuð mörg prik hjá samtökum eins og WWF. Við töpum reyndar mörgum nú þegar með hvalveiðum."
Við erum nefnilega komin á svartan lista umhverfissamtaka og þarna gafst okkur færi á að rétta úr kútnum. Framsýni er því miður ekki talin dyggð á Íslandi. Við reddum okkur fyrir horn með álverum. Það segir meira en flest annað. Það er sorgleg þjóð sem skrimtir á þessu skeri.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Já ég er mikið sammála þessu ...fáranleg rök fyrir drápinu.....
Svo fannst mér ótrúlega smekklaust að láta taka mynd af sér eftir að dýrið var fellt eins og stórsigur hafi verið unninn en ekki nauðsynlegt eins og heldið er fram...
Veiði/villi -mennskan skein hallærislega í gegn...
kv. Begga
Skrifa ummæli