Ég fór í sund í gær í frábæru veðri ásamt Vigdísi. Hugrún fékk að leika sér á meðan í barnapössuninni í World Class. Þar líður henni vel og virðist ekkert sakna okkar á meðan. Þangað förum við helst 3-4 sinnum í viku, ýmist Vigdís ein með Hugrúnu (á daginn) eða með okkur Signýju (um helgar). Núna í fríinu fer ég eflaust með henni annan hvern dag.
Mér finnst gott að hangsa aðeins í anddyrinu og lesa blöðin, á meðan Vigdís er að taka sig til eftir sundið og Hugrún er enn inni. Í bæði Mogganum og Fréttablaðinu fann ég greinar sem ég vil eindregið benda fólki á. Í Mogganum var þessi líka fína grein um fótboltann sem listgrein. Fjallað var um Evrópumótið sem "listahátíð" og bent á það frá mörgum hliðum hvað það er margt sem fótboltinn á sameiginlegt með ýmsum listgreinum. Þetta er einmitt það sem Þorsteinn J. Vilhjálmsson umsjónarmaður 4-4-2 er að hamra á og undirstrikar með því að bjóða fólki af mjög ólíku sauðahúsi til sín í spjall. Þetta er ekki bara íþróttahátíð heldur allsherjar menningarhátíð. Svo voru það bakþankarnir í Fréttablaðinu, sem skrifaðir voru af henni Þórhildi Elínu Elínardóttur (vonandi fer ég rétt með nafnið). Þar setti hún saman í eina umfjöllun fréttina af ísbirninum sem skotinn var fyrir norðan og ökuníðinginn sem heldur áfram hraðaakstri þrátt fyrir að hafa orðið mannsbani. Eins og sést á blogginu mínu fjallaði ég líka um þetta samhliða í einni færslunni. Í þessum bakþanki tengdi Þórhildur hins vegar fréttirnar tvær markvisst saman. Hún fjallaði um fyrst um ísbjörninn sem rammvilltan ferðamann sem villuráfandi var skotinn fyrir það eitt að snusa út í loftið og bar það saman við hættuna af síendurteknum hraðaakstri brjálæðings. Svigrúmið sem síbrotamenn hafa áður en þeir eru gómaðir er ólíkt meira en ísbjarnarins. Svo endar hún greinina á því að stinga upp á því að senda kauða upp á Tröllaskaga, sem villuráfandi túrista. Ég gat ekki annað en brosað lengi á eftir.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli