sunnudagur, nóvember 26, 2006

Fréttnæmt: Sónarskoðun

Það sem gerðist markverðast í vikunni er vafalaust sónarskoðunin á mánudaginn var. Þá fengum við úr því skorið hvors kyns litla krílið er. Við ákváðum ekkert að bíða með þetta núna og nutum þess í stað að skoða myndirnar í bak og fyrir. Síðan hefur vikan verið hin notalegasta og við Vigdís og Signý tekið á móti gestum í létt kaffiboð. Allir fá það hlutverk um leið og þeir koma inn að skoða myndirnar, fyrstu myndirnar af litlu systur Signýjar.

þriðjudagur, nóvember 21, 2006

Netið: Myndauppfærlsa - Kárahnjúkar og brúðkaup

Undanfarið hefur uppfærsla á myndasíðunni þurft að víkja fyrir áhuga mínum á að uppfæra tónlistarsíðuna. Ég hef nú bætt úr því með því að setja inn helling af myndum. Í kláraði þar með myndasöguna af ferð okkar Jóns austur að Kárahnjúkum (frá í ágúst) og bætti einnig við nýlegri myndum frá í október og nóvember. Nýjustu myndirnar þrjár eru úr brúðkaupi Bjarts og Jóhönnu. Einnig bendi ég fólki á þann skemmtilega möguleika að fletta myndum upp eftir leitarorðum.

mánudagur, nóvember 20, 2006

Tónleikar: Sykurmolarnir og Sufjan Stevens

Mikil tónleikaveisla er að baki. Ég fór á Sykurmolatónleikana á föstudaginn og sá síðan Sufjan Stevens daginn eftir. Þetta var náttúrulega kærkomin útrás eftir að hafa verið innandyra dögum saman vegna veðurs (ekki treysti ég mér út í kuldann með Signýju).

Sykurmolarnir stóðust allar mínar væntingar. Ég held satt að segja að hrifning mín á þeim hafi aukist eftir þessa upplifun (það er eiginlega einn helst mælikvarði góðra tónleika að virðing manns eða skilningur á tónlistinni aukist). Molarnir voru í miklu stuði. EInstöku sinnum heyrði maður hnökra í spilamennskunni en það gerði ekkert til því það var ljóst allan tímann að Molarnir komu til að skemmta sér. Björk var hversdagslega klædd (ólíkt því sem hún hefur gert á sólóferlinum) og líktist aftur litlu smástelpunni í súrrealíska bandinu. Reyndar fékk ég gæsahúð um leið og hljómsveitin steig á svið því þá gerði ég mér skyndilega ljóst að þetta var alvöru viðburður. Á íslenskan mælikvarða þá voru Bítlarnir að koma saman aftur, hvorki meira né minna, og allir voru enn í fullu fjöri og endurnýjaðir, ef eitthvað er. Einar Örn fór á kostum alla tónleikana með súrrealísku bulli sem iðulega hitti í mark. Hann talaði töluvert við áhorfendur og dansaði mikið með sérkennilegri líkamstjáningu. Björk var greinilega mjög skemmt yfir frumkvæði hans. Þau tvö voru eins og uppvaxnir krakkar, nýbúnir að finna aftur gamla sandkassann sinn. Súrrealískur karakter allra laganna hjá molunum og líkamstjáningin gerði það að verkum að mér fannst ég sjálfur vera staddur í einhvers konar hliðarveruleika þar sem sviðið var risastór brúðubíll með hreyfisöngvum og öllu tilheyrandi. Þegar leið á tónleikana losnaði meiri kraftur úr læðingi. Delicious Demon, Hit, Fucking in Rhythm and Sorrow og loks Luftgítar enduðu tónleikana með látum. Maður gekk sjálfur í endurnýjun lífdaga.

Sufjan tónleikarnir voru nokkru síðri fyrir það að vera haldnir við vonlausar aðstæður í Fríkirkjunni (þar sem margir urðu að standa langtímum saman í þungu lofti) og einnig vegna þess að það skorti léttleikann og allan spuna. Tónlist Sufjan er þrælskipulögð og margslungin, við því var að búast, og hún er á margan hátt gríðarlega heillandi (sjá umsögn um síðustu plötu hans Illinois sem bestu plötu ársins 2005). Kveikt var á kertum í myrkrinu og allt gert til að skapa notalega umgjörð. Hersveit tónlistarmanna með flugdrekavængi á bakinu stilltu sér upp kringum þröngt sviðið kringum Sufjan sem sjálfur var með arnarvængi. Á sviðinu var einnig haugur af uppblásnum jólasveinum (sem fengu að dansa um salinn eins og blakboltar í einu laganna). Í þessu litla rými var ekki nægilega mikið pláss fyrir þá tónasúpu sem boðið var upp á - enda var meðal hljóðfæraleikara myndarleg blásturssveit með tilheyrandi þéttum hljómi. Ef maður lítur hins vegar fram hjá lýjandi aðstæðum þá stóðu allir sig frábærlega og stemningin var mjög góð. Sufjan er nærgætin og skemmtilegur á sviði, góður sögumaður, með mjóróma rödd sem nær samt að skila sér gegnum hljómsveitina. Í raun var dýrðin svo mikil að mér fannst synd að þetta skyldi ekki vera haldið á Miklatúni. Þar hefði ég legið og lygnt aftur augum. En þetta voru eftirminnilegir tónleikar þrátt fyrir það og ekki síst fyrir þá staðreynd að þetta voru síðustu tónleikar ferðalagsins hjá Sufjan og félögum og ekki laust við að maður skynjaði nostalgíuna hjá þeim á þessum kveðjutónleikum.

fimmtudagur, nóvember 16, 2006

Upplifun: Ekki hundi út sigandi

Þetta er nú meira andstyggilega veðrið. Ekki nóg með að það skelli á með djúpri lægð í tvígang í síðustu viku heldur tekur að kólna í skyggilega í þessari viku. Fimm til tíu stiga frost er svo sem engin nýmæli en að það skuli viðgangast á meðan það er bálhvasst úti á sama tíma gerir upplifunina mannfjandsamlega. Við Signý erum búin að halda okkur innandyra síðustu tvo daga og er farið að leiðast pínulítið. Það er nauðsynlegt að skjótast að heiman, í göngutúr eða bíltúr, svona til að brjóta upp daginn en eins og ég lýsti þá er það óskynsamlegt.

Við förum þó nauðsynlega rúnta, til að skutla Vigdísi í vinnuna og sækja hana. Það lýsir ástandinu hvað best að Signý er vön að leika sér með litla platflösku sem innihélt örlítlar leifar af gosvatni. Núna hringlar í flöskunni, jafnvel hálftíma eftir að lagt var af stað í hægt bílnum (sem hitnar allt of hægt).

þriðjudagur, nóvember 14, 2006

Fréttnæmt: Græjur uppfærðar

Á sunnudaginn var skruppum við Vigdis á tónleika í Hallgrímskirkju þar sem Dómkórinn söng verk eftir Bruckner, Palestrina, Mozart og stórvirki eftir Lizst "Messe Choralis" (frumflutningur). Við buðum Sirrý (tengdó) með. Við vorum misjafnlega hrifin af verkinu en af því verður þó ekki skafið að flutningurinn var tilkomumikill með fimm einsöngvurum og áttatíu manna kór, ásamt orgelundirleik.

Dagana fyrir tónleika tók ég mig til af metnaði og leitaði uppi verkið. Þetta er lítið flutt stykki en það fannst þó á vínylplötu í tónlistarbókasafninu í Hafnarfirði (sem er vandaðasta tónlistarsafn landsins fyrir almenning). Geisladiskur hefði nú verið hentugri en ég lét samt til leiðast enda vissi ég af traustum plötuspilara gröfnum einhvers staðar undir dóti í geymslunni. Þegar á reyndi var ég ekki svo ýkja hrifinn af verkinu (og hlustaði þó í tvígang) en sit samt sáttur við minn hlut vegna þess að nú er ég búinn að tengja plötuspilarann minn við græjurnar. Það finnst mér býsna merkur áfangi á tölvuöld. Honum er komið haganlega fyrir á bak við allt sjónvarps/græju/DVD-settið þar sem plássið er hvort sem er illa nýtt. Hann sést ekki einu sinni, fyrr en vel er að gáð. Hljómurinn villir hins vegar ekki á sér heimildir, skrefinu nær lifandi hljómburði. Að sjálfsögðu er ég búinn í kjölfarið á öllu þess að draga fram vænan bunka af tónlist sem ég hef ekki hlustað á lengi og hugsa mér gott til glóðarinnar.

föstudagur, nóvember 10, 2006

Matur: Sætur morgunmatur

Ég fékk mér frábæran morgunmat í dag sem eg hef haldið svolítið upp á undanfarið. Um er að ræða óvenjulega samsetningu af tiltölulega venjulegu hráefni. Fyrst fyllir maður skál af sætri ávaxtasúrmjólk (eða jógúrti) og setur út á hana þurrkaða ávexti. Þetta gerir sætleikann fjölbreyttari og áhugaverðari. Siðan er óbragðbættu en fingerðu morgunkorni (ekk músli) bætt út á svo að tannavinnan verði fjölbreyttari.

Mín útgáfa er nákvæmlega þessi:
Perusúrmjólk
Þurrkað ananas/papaya nasl
Óbragðbætt Cheerios (ekki hunangs eða neitt svoleiðis)

Útkoman er svo suðræn að ég fæ mér alltaf tvo diska.

mánudagur, nóvember 06, 2006

Netið: Sýndarplötusafnið stækkar

Nú er ég búinn að vera talsvert mikið heima síðustu tvær vikurnar. Við Signý skemmtum okkur vel saman en þess á milli vill hún dunda sér sjálf eða þarf að leggja sig. Þá finn ég mér eitthvað annað að gera. Það sem hefur hentað mér best við þessar aðstæður er að vinna við einfalda handavinnu af einhverju tagi. Þá kemur fyrirbæri eins og Rate Your Music mjög sterkt inn. Þetta er vefsamfélag þar sem mönnum gefst kostur á að setja inn í gagnagrunn upplýsingar um plötusafnið sitt ásamt einkunnum og umsögnum. Þetta minntist ég á fyrir um ári síðan þegar ég uppgötvaði síðuna en nú hef ég bætt verulega í safnið og get ófeiminn flíkað því út á við (er þó bara um þriðjungur safnsins kominn upp). Það sem heillar við þetta netsamfélag er sú innsýn sem maður fær inn í tónlistina frá venjulegum hlustendum auk tölfræðinnar sem birtist um manns eigið safn.

Rennið músinni niður síðuna til að skoða það og þá sjáið þið síðustu færslur í litlum glugga. Þar fyrir ofan eru nokkrir flipar (recent, ratings, collection, reveiws, wishlist og tags). Til dæmis ef þið smellið á "reviews" birtist plötulistinn ásamt umsögnum í stafrófsröð (því er hægt að breyta með því að smella á flipana þar fyrir ofan - til dæmis til að raða í einkunnaröð). Með því að smella á einkunnir, þ.e. "ratings" þá birtist súlurit yfir einkunnagjöf mína. Þar er hægt að smella á tiltekna gæðaflokka (til dæmis meistaraverkin sem fá fimm í einkunn eða plöturnar þar fyrir neðan "(fjórir komma fimm)" sem eru álíka góðar, með örlitlum vanköntum eða takmarkaðri á einhvern hátt. Ég útskýri þetta svo sem ágætlega á aðalsíðunni en í stuttu máli má segja að plötur sem ég gef þrjá eða meira í einkunn eru á einhvern hátt í uppáhaldi hjá mér. Skalinn frá 4-5 er einhvers konar snilld á meðan meðalmennskan er miðuð við einkunnina tvo (tónlist sem rennur hlutlaust í gegn). Amatöraháttur eða yfirgengileg tilgerð fær ekki meira en einn í einkunn. Þangað hefur R.E.M. til að mynda komist og Bowie hefur daðrað við lágkúruna líka. Annars má endalaust leika sér með þetta, og jafnvel deila.

Eitt af því sem er hvað skemmtilegat við þetta allt saman er flokkkunarkerfið, svokallað "tags". Þeir birtast hér og þar með umsögnunum og þá er alltaf hægt að smella á þann efnisflokk sem er álitlegastur. Sem dæmi um tvo myndarlega (en ekki of stóra) má nefna electronica (þar sem rafræn tilþrif eru áberandi, en tónlistin þó ekki endilega ósungin) og confessional (þar sem tónlistin er mjög persónuleg og allt að því nærgöngul). Þarna eru margir efnisflokkar og margt enn á vinnslustigi.

Þessir efnisflokkar voru ekki til staðar fyrir ári síðan enda eru gömlu umsagnirnar mínar efnisflokkalausar fyrir vikið (ég vinn í því með tímanum enda finnst mér þetta mjög spennandi). Sama má segja um "visualize" möguleikann þar sem hægt er að skoða á mjög sjónrænan og skemmtilegan hátt plötusafnið í heild sinni. Ég mæli með þessu.

sunnudagur, nóvember 05, 2006

Upplifun: Vandræðalegt þroskamat

Fyrir tveimur vikum lofaði ég því að minnast á skoðunina sem Signý undirgekkst þá. Tilvalið að minnast á það hér strax á eftir hinni skoðuninni (nú er vart þverfótað fyrir ferðum okkar upp á heilsugæslu). Sú skoðun var nokkuð eftirminnileg og fékk mig til að velta vöngum yfir ýmsu.

Þannig var að ég var nýbyrjaður í feðraorlofi og hafði nýlokið við að skutla Vigdísi í vinnuna, á morgunvakt, og var af ýmsum ástæðum mjög illa sofinn. Þegar inn var komið fann ég hvað það var óþægilegt að vera einn með Signýju í skoðun. Yfirleitt hefur Vigdís spjallað á meðan ég yfirvegaður klæði Signýju úr. Núna þurfti ég að halda uppi vitrænum samræðum, eins illa sofinn og ég var, og klæða Signýju úr á sama tíma. Við þetta bættist að hjúkrunarfræðingurinn var með nema með sér, aldrei þessu vant, sem fylgdist gaumgæfilega með. Allt í einu fannst mér mjög óþægilegt að standa í þessu, klæðandi Signýju úr undir eftirliti, svarandi einhverjum spurningum í leiðinni. Svolítið skrítin upplifun. En ég var hæfilega kærulaus því þetta gengur yfirleitt bara út á að mæla lengd bols, ummál höfuðs og vigta. Mjög einfalt. Einstöku sinnum bætist sprauta við. En eitthvað var ég óvenju klaufskur við þetta - orðinn hálf pirraður. Ég spurði um sprautuna, sem ég átti von á í þetta skiptið, þá sagði hjúkkan "Nei, nei. Núna er þroskamat! Við ætlum að skoða hvað hún kann, hvort hún getur vinkað, sýnt hvað hún er stór, klappað og svona!"

Mér var brugðið. Fyrsta próf Signýjar! Eða vorum það við Vigdís sem vorum í prófi?

Ég svaraði að bragði að við hefðum ekkert verið að leggja áherslu á þessi atriði. Hún kann samt ýmislegt annað. Ég hugsaði með mér í leiðinni: "Hvernig á hún að geta sýnt hvað hún er stór, ef maður hefur ekki kennt henni það? Maður hefði mátt vita af þessu fyrirfram". Við höfðum heldur ekki verið að vinka henni neitt. Við erum alltaf hjá henni, meira eða minna! "En hún klappar alveg", sagði ég vandræðalegur, "sérstaklega ef hún heyrir tónlist, þá fer hún strax að klappa". Þá byrjaði hjúkkan að brosa framan í hana og klappa svolítið og Signý brosti til baka og lagði saman lófana, hikandi, en klappaði ekki.

Þetta var eins og að sýna glæsibifreið sem fer síðan ekki í gang.

Ég hefði getað sungið "Allir krakkar" eða eitthvað og fengið hana til að klappa undireins. En ég var ekki í stuði til þess.

Eftir þetta var Signý mæld, eins og við var búist (hún er um það bil átta kíló) og þær stöllurnar, hjúkkan og neminn, yfirgáfu mig án frekari seremóníu. Læknir kom inn og skoðaði Signýju enn frekar, hlustaði hana, kíkti í eyrun og athugaði síðan hreyfifærnina. Ég leyfði henni að halda í puttana á mér og hún labbaði af ákefð eftir gólfinu. Lækninum leist vel á.

Eftir þessa heimsókn var ég mjög hugsi. Er svo mikilvægt að öll börn læri allt samtímis? Eru þessi fáu atriði mælikvarði á þroska barnsins, eða var svar mitt um að henni hafi ekki verið kennt það tekið gott og gilt? Það er nú ýmislegt sniðugt sem hún gerir, hún Signý, sem sýnir mikla samskiptahæfni, þannig að við getum alveg verið róleg yfir þessu. Við höfum nefnilega alltaf staðið í þeirri trú að það væri mikilvægast fyrir barn að búa við öryggi, tilfinningalegt jafnvægi á heimilinu og geta treyst foreldrum sínum. Hitt kemur að sjálfu sér. En fyrst það er búið að ýta við okkur með þessar fáeinu kúnstir þá ætti ætti Signýju nú ekki að muna mikið um að læra þær á næstu dögum.

Eftir það höfðum við Vigdís þetta á bak við eyrað: að kenna henni að vinka, sýna hvað hún er stór og allt þetta hefðbundna, án þess að þrýsta neitt á hana. Það kann hún núna og gerir mjög vel. Hún vinkar eins og drottning með fallegan úlnliðsvinkil. Þegar hún sýnir hvað hún er stór verður hún líka ósköp stolt. Það sem er best er náttúrulega það að hún hefur gaman af þessu enda verðum alltaf svo kát með henni.

Fréttnæmt: Bumbuskoðun

Aftur kominn sunnudagur. Það er farið að verða fyrirsjáanlegt að ég hafi ekki tíma fyrir bloggfærslur nema á sunnudögum. Ég er sjálfur farinn að reikna með því og lít á alla viðbót sem hreinan bónus.

Annars er það helst úr vikunni að frétta að við kíktum í skoðun, litla fjölskyldan. Signý sat á hnénu á mér á meðan ljósmóðirin skoðaði Vigdísi, þ.e.a.s. bumbuna og hjartsláttinn þar. Við feðginin fengum líka að heyra og ég er ekki frá því að Signý hafi kannast við hljóðið. Hún snarhætti að leika sér og var einhvern veginn hugsi yfir þessu. Eiginlega vissi hún ekki hvort henni ætti að þykja þetta sniðugt því hún brosti hálf vandræðalega og var næstum því alvarleg yfir þessu.

Það vill svo til að einmitt í þessari viku sem við fórum í skoðun erum við farin að sjá talsverðan mun á Vigdísi. Hún er farin að finna fyrir spörkum öðru hvoru síðustu daga og bumban hefur snarstækkað á nokkrum dögum. Nú er meðgangan komin á það stig að vera orðin "áþreifanleg" og sýnileg.